Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Lífsnauðsynleg blóðgjöf fyrir hjartveik börn

11. febrúar 2025

Á Íslandi fæðast að meðaltali 70 börn með hjartagalla á hverju ári. Mörg þeirra þurfa að gangast undir hjartaaðgerðir strax á fyrstu æviárunum og treysta á blóðgjafir til að komast í gegnum þær. Stöðugt framboð af blóði er því nauðsynlegt.

Til að vekja athygli á þessu standa Neistinn og Blóðbankinn fyrir Blóðgjafadegi fimmtudaginn 13. febrúar frá kl. 10:00 til 19:00 í Blóðbankanum við Snorrabraut 60. Þar verður almenningi boðið að kynna sér blóðgjöf og skrá sig sem blóðgjafa. Boðið verður upp á kaffi og kökur fyrir gesti.

„Blóðgjöf skiptir sköpum fyrir börn með hjartagalla,“ segir Óskar Ericsson, framkvæmdarstjóri Neistans. „Án reglulegra blóðgjafa gætu aðgerðir tafist eða jafnvel fallið niður. Með því að gefa blóð getur hver einstaklingur haft bein áhrif á líf annarra.“

Blóðgjafadagurinn er opinn öllum sem vilja kynna sér ferlið og gerast blóðgjafar. Blóðbankinn mun taka á móti gestum og skrá nýja blóðgjafa á staðnum. Fulltrúar Neistans verða einnig til staðar til að fræða um áhrif blóðgjafa á börn með hjartagalla.

Til að gefa blóð þarf viðkomandi að vera við góða heilsu og uppfylla ákveðin skilyrði. Nánari upplýsingar er að finna á vef Blóðbankans eða á staðnum á viðburðinum.

Blóðgjafadagurinn fer fram fimmtudaginn 13. febrúar frá kl. 10:00 til 19:00 í Blóðbankanum við Snorrabraut 60.