Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Þjónusta

Átröskunarteymið sinnir greiningu og meðferð við alvarlegum átröskunarvanda

Teymið býður upp á þrjár tegundir meðferðar: göngu-, dagdeildar- og innlagnarmeðferð.

Göngudeildarmeðferð: Sjúklingar mæta í viðtöl einu sinni til tvisvar í viku.

Dagdeildarmeðferð: Fer fram frá 9 til 15:30 alla virka daga. Sjúklingar fá stuðning við máltíðir, sækja meðferðarviðtöl og taka þátt í virkniæfingum.

Innlagnarmeðferð: Veitir sólarhringsþjónustu þar sem sjúklingar fá stuðning við allar máltíðir, taka þátt í meðferðarviðtölum og auka virkni í daglegu lífi.

Lengd meðferðar hjá átröskunarteyminu er einstaklingsbundin en tekur að jafnaði 4-12 mánuði.

Meðferð í átröskunarteymi

Allir sem hefja meðferð í átröskunarteymi fara í ítarlegt greiningarviðtal. Á grundvelli þess er meðferðarleið ákveðin miðað við einstaklingsbundnar þarfir. Hverjum sjúklingi er úthlutað meðferðaraðila til reglulegra viðtala, en hann getur einnig hitt aðra fagaðila eftir þörfum.

Markmið meðferðar:

  • Bæta næringarástand og koma á reglubundnu mataræði.

  • Takast á við tilfinningavanda, hugsanaskekkjur og óhjálpleg viðhorf varðandi mataræði og líkamsímynd.

  • Auka innsæi og vilja til bata og heilbrigðari lífs- og fæðuvenja.

  • Meðhöndla líkamlega og sálræna fylgikvilla.

  • Efla sjálfstraust og bæta samskiptamynstur.

Sálfræðimeðferð: Byggir á hugrænni atferlismeðferð (HAM) með áherslu á að breyta hegðun, hugsun og viðhorfum sem viðhalda átröskunarvanda.

Læknis- og hjúkrunarmeðferð: Sjúklingar fá reglulega læknisskoðun þar sem tekin eru blóðprufur, hjartalínurit og beinþéttnimælingar ef við á. Lyfjameðferð er veitt eftir þörfum.

Næringarmeðferð: Næringarfræðingar aðstoða sjúklinga við að þróa heilbrigðar fæðuvenjur, bæta næringarástand og stuðla að fjölbreyttu fæðuvali.

Fjölskyldumeðferð: Sjúklingar og aðstandendur geta fengið fjölskylduviðtöl þar sem veitt er fræðsla, ráðgjöf og stuðningur. Áhersla er lögð á betri samskipti og árangursríkar lausnir til að styðja við bataferlið.

Tilvísanir

Tekið er við tilvísunum frá fagfólki innan og utan spítalans. Við hvetjum þá sem óska eftir ráðgjöf eða vantar að láta meta vanda sinn til að leita til síns heimilislæknis sem metur málið og sendir tilvísun í átröskunarteymi Landspítala ef þörf þykir.