Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vika 47 árið 2025

27. nóvember 2025

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum fyrir viku 47 árið 2025 (17. −23. nóvember 2025).

Staðan á Íslandi

Greiningum á inflúensu hefur fjölgað hratt undanfarið og mörg tilfelli greinast um þessar mundir. Inflúensan er 2−4 vikum fyrr á ferðinni en undanfarna vetur. Ekki er of seint að fara í bólusetningu fyrir einstaklinga í áhættuhópum. Lítið greinist af COVID-19 og RSV faraldur er ekki hafinn.

Mynd. Fjöldi greininga inflúensu síðustu vikur. Vika 47

Mynd: Fjöldi greininga inflúensu síðustu vikur (rauða lína) samanborið við undanfarna vetur (sjá mælaborð sóttvarnalæknis)

Fjöldi greininga byggir á rannsóknarniðurstöðum en flest sýni koma frá spítölum en færri frá heilsugæslunni.

Inflúensa

Í viku 47 greindust 86 tilfelli inflúensu, allt inflúensutegund A, þar af 70 með tegund A(H3) og 16 með tegund A(pdm09). Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum: 34 einstaklingar 65 ára og eldri, 26 voru 15−64 ára, 10 voru 5−14 ára, sjö 1−4 ára og níu undir eins árs.

Inflúensa er öndunarfærasjúkdómur af völdum inflúensuveiru. Á hverjum vetri gengur inflúensufaraldur á tímabilinu október til mars. Inflúensan veldur mismiklum veikindum hjá einstaklingum en veikindin eru oft mun meiri og lengri en vegna flestra algengari öndunarfærasýkinga, ef frá er talið RS veirusýking sem líka veldur oft miklum veikindum hjá þeim yngstu og elstu. Þegar smit eru útbreidd í inflúensufaröldrum eykst álag á heilbrigðiskerfið og í samfélaginu verður aukning á fjarvistum frá vinnu og skóla.

Tveir meginstofnar inflúensu eru A og B. Inflúensuveiran breytir sér alltaf eitthvað frá ári til árs og þess vegna þarf fólk að fá bólusetningu árlega ef það vill koma í veg fyrir smit og veikindi. Árleg inflúensubólusetning gefur um 60−90% vörn gegn sýkingu en bólusetning minnkar einnig oftast veikindin ef fólk smitast. Sérstaklega ver bólusetning gegn alvarlegum veikindum og því er mikilvægt að einstaklingar í áhættuhópum þiggi bólusetningu ef það á við. Of snemmt er að segja til um hversu vel bóluefnið í ár virkar en það er alltaf betra að þiggja bólusetningu heldur en ekki.

Til er veirulyf gegn inflúensu (Tamiflu) sem nota má fyrir einstaklinga í áhættuhópum en þeir eru í meiri hættu á alvarlegum veikindum en aðrir. Lyfinu er ávísað af lækni og þarf að gefa snemma í veikindum og jafnvel áður en rannsóknarniðurstaða fæst.

Nánari upplýsingar um inflúensu má finna á vef embættis landlæknis.

Bólusetningar

Ekki er of seint að þiggja árvissa bólusetningu og hvetur sóttvarnalæknir sérstaklega eftirtalda hópa til að þiggja bólusetningu sem fyrst:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.

  • Börn undir 5 ára aldri sem náð hafa 6 mánaða aldri við bólusetningu.

  • Öll börn og fullorðnir með langvinna hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdóma, sykursýki, offitu, illkynja sjúkdóma og aðra ónæmisbælandi sjúkdóma.

  • Barnshafandi.

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

  • Fólk í starfstengdri áhættu vegna hugsanlegs samsmits árlegrar inflúensu og fuglainflúensu.

Hægt er að bóka tíma í bólusetningu á mínum síðum á heilsuveru eða með því að hafa samband við sína heilsugæslustöð.

Heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili

Einnig hvetur sóttvarnalæknir heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili til að gera eigin ráðstafanir varðandi almennar sóttvarnir á flensutímanum til að minnka smitdreifingu innan stofnunar svo sem varðandi heimsóknir, notkun andlitsgríma og handhreinsun.

Innlagnir á Landspítala

Í viku 47 lá 21 einstaklingur á Landspítala með inflúensu: 15 voru 65 ára og eldri, tveir 15-64 ára, einn 5-14 ára, einn 3-4 ára, einn 1-2 ára og eitt barn undir eins árs. Sjá mynd. Innlagnir á barnadeild hafa verið um 10 síðustu tvær vikurnar og í einu tilviki innlögn á gjörgæsludeild.

Mynd. Fjöldi og aldur einstaklinga með inflúensu á LSH í viku 47

Mynd: Fjöldi og aldur einstaklinga með inflúensu í innlögn á Landsspítala í viku 47

Aðrar öndunarfærasýkingar

RS-veirusýkingar

RS-veiru (RSV) faraldur er ekki farinn af stað hérlendis og greindist ekkert tilfelli RSV í viku 47.

Nú í vetur býðst börnum sem eru fædd 1. maí 2025 eða síðar mótefni gegn RSV (nirsevimab)auk barna 6−23 mánaða sem Barnaspítali Hringsins hefði að öðrum kosti boðið palivizumab yfir RSV tímabilið. Börn sem fæðast í vetur, um það bil fram til 31. mars 2026 munu geta fengið mótefni gegn RSV fljótlega eftir fæðingu. Nánari upplýsingar um RS-veirusýkingar og bólusetningar gegn RSV má finna á vef embættis landlæknis.

Nánari upplýsingar um RS-veirusýkingar og bólusetningar gegn RSV má finna á vef embættis landlæknis.

COVID-19

Fjöldi tilfella COVID-19 hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu vikur. Í viku 47 greindust tíu einstaklingar, sex í aldursflokknum 65 ára og eldri, þrír 15−64 ára og einn undir 5 ára. Tveir einstaklingar lágu inni með COVID-19, einn 65 ára og eldri og einn 15-64 ára.

Aðrar veirur

Af öðrum öndunarfæraveirum er að ofan greinist mest af rhinoveiru (kvefi) á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Undanfarinn mánuð hefur vikulegur fjöldi rhinoveirugreininga verið á bilinu 20–40 en í viku 47 greindust 20 með rhinoveiru.

Staðan í Evrópu

  • Í ríkjum ESB/EES er fjöldi sjúklinga sem leitar til heilsugæslu með einkenni öndunarfærasjúkdóma enn lítill, en tilfellum inflúensu fer ört vaxandi sem er óvenju snemma í samanburði við síðustu ár. COVID-19 er stöðugt eða á niðurleið í öllum aldurshópum. Útbreiðsla RSV er enn lítil en fer hægt vaxandi. Áhrifin á sjúkrahúsainnlagnir eru enn lítil.

  • Inflúensutímabilið í ár hófst þremur til fjórum vikum fyrr en á síðustu tveimur árum. Faraldsfræði inflúensunnar er breytileg milli landa en í öllum löndum er langmest um inflúensu A þar sem undirtegundin A(H3N2) er meginvaldur aukningarinnar undanfarnar vikur. Útbreiðsla er mest meðal barna 5-14 ára. Í sumum löndum er farið að sjá auknar sjúkrahúsainnlagnir í öllum aldurshópum en aðallega 65 ára og eldri.

  • Lítils háttar aukning í útbreiðslu RSV er nú um viku fyrr en í fyrra. Aukning sést bæði í gögnum frá heilsugæslu og sjúkrahúsum í nokkrum löndum, aðallega hjá börnum yngri en fimm ára.

Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu.

Sóttvarnalæknir minnir fólk á að:

  • Þiggja inflúensubólusetningu ef í forgangs- eða áhættuhópi.

  • Þiggja RSV mótefni fyrir þau ungbörn sem það á við.

  • Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.

  • Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.

  • Lágmarka umgengni við aðra sem eru með einkenni sýkingar.

  • Hylja munn og nef við hósta og hnerra.

  • Þvo hendur oft og vel.

  • Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.

  • Íhuga notkun andlitsgrímu eftir aðstæðum.

Sóttvarnalæknir