Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vika 43 árið 2025

30. október 2025

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum fyrir viku 43 árið 2025 (20.−26. október 2025).

Eins og áður koma langflest sýni til rannsóknar frá spítölum en færri frá heilsugæslunni.

Inflúensa

Í viku 43 greindust 14 með inflúensu. Fimm af þeim voru 65 ára og eldri og fjögur börn 4 ára og yngri. Flestir greindust með inflúensutegund A(H3).

Nánari upplýsingar um inflúensu má finna á vef embættis landlæknis.

Árviss bólusetning gegn inflúensu er hafin á heilsugæslustöðvum. Hægt er að bóka tíma á mínum síðum á heilsuveru eða með því að hringja í sína heilsugæslustöð.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar og eru þeir hópar sérstaklega hvattir til að þiggja bólusetningu:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.

  • Börn undir 5 ára aldri sem náð hafa 6 mánaða aldri við bólusetningu.

  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, offitu, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.

  • Barnshafandi.

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

  • Fólk í starfstengdri áhættu vegna hugsanlegs samsmits árlegrar inflúensu og fuglainflúensu.

RS-veirusýkingar

Ekkert tilfelli RS-veiru (RSV) greindist í viku 43.

Einstofna mótefni gegn RSV (nirsevimab) fyrir yngstu börnin er komið í dreifingu til heilbrigðisstofnana. Nú í vetur býðst mótefnið börnum sem eru fædd 1. maí 2025 eða síðar auk barna 6−23 mánaða sem Barnaspítali Hringsins hefði að öðrum kosti boðað í mánaðarlegar lyfjagjafir með palivizumab yfir RSV tímabilið. Börn sem fæðast í vetur, um það bil fram til 31. mars 2026 munu geta fengið mótefni gegn RSV fljótlega eftir fæðingu.

Nánari upplýsingar um RSV veirusýkingar og bólusetningar gegn RSV má finna á vef embættis landlæknis.

COVID-19

Fjöldi tilfella COVID-19 hafa haldist nokkuð stöðug í haust. Í viku 43 greindust tíu einstaklingar, flestir í aldursflokknum 65 ára og eldri.

Aðrar öndunarfæraveirur

Áfram greinist mest af rhinoveiru (kvefi) af öndunarfæraveirum á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Undanfarinn mánuð hefur vikulegur fjöldi rhinoveirugreininga verið á bilinu 25–40 og greindust 23 með rhinoveiru í viku 43.

Innlagnir á Landspítala

Í viku 43 lágu þrír einstaklingar á Landspítala með COVID-19, á aldrinum 65 ára og eldri. Fimm einstaklingar lágu inni með inflúensu, allir 65 ára og eldri.

Staðan í Evrópu

  • Í ríkjum ESB/EES er COVID-19 (SARS-CoV-2) útbreitt en tíðni fer minnkandi eins og er og sjúkrahúsinnlagnir eru fáar.

  • Greiningar RS-veirusýkinga og inflúensu eru í lágmarki.

  • Fjöldi einstaklinga sem leita til heilsugæslu með öndunarfæraeinkenni er enn lágur en fjölgar nú í flestum löndum eins og búast má við á þessum árstíma. Mesta aukning er meðal barna undir 15 ára aldri.

Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu.

Sóttvarnalæknir minnir fólk á að:

  • Þiggja inflúensubólusetningu ef í forgangs- eða áhættuhópi.

  • Þiggja RSV mótefni fyrir þau ungbörn sem það á við.

  • Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.

  • Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.

  • Lágmarka umgengni við aðra sem eru með einkenni sýkingar.

  • Hylja munn og nef við hósta og hnerra.

  • Þvo hendur oft og vel.

  • Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.

  • Íhuga notkun andlitsgrímu eftir aðstæðum.

Sóttvarnalæknir