Öndunarfærasýkingar – Vika 42 árið 2025
23. október 2025
Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum fyrir viku 42 árið 2025 (13.−19. október 2025).
Eins og áður koma langflest sýni til rannsóknar frá spítölum en færri frá heilsugæslunni.
Inflúensa
Í viku 42 greindust 22 með inflúensu og eru það aðeins fleiri en greindust síðustu tvær vikur þar á undan. Flestir sem greindust í viku 42 eru 15 ára og eldri og flestir með inflúensutegund A(H3).
Nánari upplýsingar um inflúensu má finna á vef embættis landlæknis.
Árviss bólusetning gegn inflúensu er hafin á heilsugæslustöðvum. Hægt er að bóka tíma á mínum síðum á heilsuveru eða með því að hringja í sína heilsugæslustöð.
Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar og eru þeir hópar sérstaklega hvattir til að þiggja bólusetningu:
Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
Börn undir 5 ára aldri sem náð hafa 6 mánaða aldri við bólusetningu.
Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, offitu, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
Barnshafandi.
Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
Fólk í starfstengdri áhættu vegna hugsanlegs samsmits árlegrar inflúensu og fuglainflúensu. sbr. frétt í okt. 2023
RS-veirusýkingar
Eitt tilfelli RS-veiru (RSV) greindist í viku 42, barn í aldurshópnum 1–2 ára.
Einstofna mótefni gegn RSV (nirsevimab) fyrir yngstu börnin er komið í dreifingu til heilbrigðisstofnana. Nú í vetur býðst mótefnið börnum sem eru fædd 1. maí 2025 eða síðar auk barna 6–23 mánaða sem Barnaspítali Hringsins hefði að öðrum kosti boðað í mánaðarlegar lyfjagjafir með palivizumab yfir RSV tímabilið. Börn sem fæðast í vetur, um það bil fram til 31. mars 2026 munu geta fengið mótefni gegn RSV fljótlega eftir fæðingu.
Nánari upplýsingar um RSV veirusýkingar og bólusetningar gegn RSV má finna á vef embættis landlæknis.
COVID-19
Tilfellum COVID-19 hefur fækkað eftir sumarið og fjöldi haldist nokkuð stöðugur í haust. Í viku 42 greindust sjö einstaklingar, flestir í aldursflokknum 65 ára og eldri.
Aðrar öndunarfæraveirur
Áfram greinist mest af rhinoveiru (kvefi) af öndunarfæraveirum á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Undanfarinn mánuð hefur vikulegur fjöldi rhinoveirugreininga verið á bilinu 30–40 og greindust 25 með rhinoveiru í viku 42.
Innlagnir á Landspítala
Í viku 42 lá einn einstaklingur á Landspítala með COVID-19, á aldrinum 15–64 ára. Fimm einstaklingar lágu inni með inflúensu, þar af fjórir 65 ára og eldri og einn 15–64 ára. Einn lá inni með RSV, á aldrinum 1–2 ára.
Staðan í Evrópu
Í ríkjum ESB/EES fer tíðni COVID-19 (SARS-CoV-2) minnkandi eins og er og sjúkrahúsinnlagnir eru fáar.
Greiningar RS-veirusýkinga og inflúensu eru í lágmarki.
Fjöldi einstaklinga sem leita til heilsugæslu með öndunarfæraeinkenni er enn lár, en fjölgar nú í flestum löndum eins og búast má við á þessum árstíma. Mesta aukning er meðal barna undir 15 ára aldri.
Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu.
Sóttvarnalæknir minnir fólk á að:
Þiggja inflúensubólusetningu ef í forgangs- eða áhættuhópi.
Þiggja RSV mótefni fyrir þau ungbörn sem það á við.
Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.
Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.
Lágmarka umgengni við aðra sem eru með einkenni sýkingar.
Hylja munn og nef við hósta og hnerra.
Þvo hendur oft og vel.
Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.
Íhuga notkun andlitsgrímu eftir aðstæðum.
Sóttvarnalæknir