Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Málþing um sýklalyfjaónæmi - áhersla á hjúkrunarheimili

24. nóvember 2025

Þriðjudaginn 18. nóvember var haldið málþing á vegum sóttvarnalæknis í samstarfi við hjúkrunarheimilið Hrafnistu í tilefni árlegrar vitundarvakningar um sýklalyfjaónæmi.

Málþingið var tekið upp til að gera sem flestum kleift að horfa og hlusta á erindin, sjá tengil á upptöku.

Sýklalyfjaónæmi

Uppgötvun sýklalyfja markaði byltingu í læknisfræði en með aukinni og stundum rangri notkun þeirra þróuðu bakteríur með tímanum ónæmi. Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál í heiminum sem getur leitt til alvarlegra veikinda og dauða, sérstaklega hjá eldra fólki.

Tíðni algengustu gerða tilkynningarskyldra ónæmra sýkla, ESBL og MÓSA, er enn lág á Íslandi í samanburði við mörg Evrópuríki, þó fjöldi tilfella hérlendis sé hærri en á hinum Norðurlöndunum. ESBL-myndandi sýklar tengjast oft þvagfærasýkingum, ekki síst hjá eldra fólki.

Karbapenemasa-myndandi sýklar, sem eru ónæmir fyrir flestum algengum sýklalyfjum, eru alvarlegt og vaxandi vandamál í mörgum ESB/EES-ríkjum og sjást nú oftar en áður hérlendis en metfjöldi greindist árið 2024.

Fjórða algengisrannsóknin á sýkingum sem tengjast heilbrigðisþjónustu og sýklalyfjanotkun á hjúkrunarheimilum í Evrópu (HALT-4)

Könnunin safnaði gögnum yfir rúmlega 66.000 íbúa og 1097 hjúkrunarheimili í 18 ESB/EES-ríkjum árin 2023 og 2024. Á Íslandi fór rannsóknin fram á þremur hjúkrunarheimilum sem hafa samtals 1438 hjúkrunarrými, en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í verkefninu.

Hlutfall íbúa á hjúkrunarheimilum á Íslandi sem höfðu að minnsta kosti eina sýkingu sem tengist heilbrigðisþjónustu var 3,5% en um 7% íbúanna tóku eitt eða fleiri sýklalyf þegar rannsóknin fór fram. Yfir helmingur af öllum sýklalyfjum var gefinn í fyrirbyggjandi tilgangi, sem er hátt í samanburði við önnur ESB/EES-ríki. Þvagfærasýkingar voru algengustu sýkingarnar.

Sýklalyfjanotkun og meðhöndlun þvagfærasýkinga hjá eldra fólki utan sjúkrahúsa

Íslendingar nota meira af sýklalyfjum en aðrar Norðurlandaþjóðir en standa í meðallagi miðað við ESB/EES-ríki. Notkun sýklalyfja er hlutfallslega mest hjá elsta aldurshópnum, ekki síst sýklalyf sem oft eru notuð við þvagfærasýkingum.

Vegna þessa voru gefnar út leiðbeiningar um meðferð þvagfærasýkinga hjá eldra fólki utan sjúkrahúsa árið 2023. Leiðbeiningarnar ræða meðal annars einkennalausa sýklamigu hjá eldra fólki, notkun þvagrannsókna til greiningar, endurteknar þvagfærasýkingar og aðrar áskoranir.

Sýkingavarnir og ónæmar bakteríur á hjúkrunarheimilum

Ýmsar áskoranir mæta hjúkrunarheimilum þegar kemur að því að takmarka útbreiðslu ónæmra baktería, þar með talin skortur á einbýlum, sameiginleg salerni og upplýsingamiðlun. Oft er þrýstingur á að taka inn íbúa sem bera ónæmar bakteríur þrátt fyrir skort á einbýlum. Skýrar leiðbeiningar um sýkingavarnir eru lykilatriði til að tryggja öryggi íbúa og draga úr smiti.

Sýklalyfjagæsla á hjúkrunarheimilum

Sýklalyfjagæsla (antibiotic stewardship) á hjúkrunarheimilum er mikilvæg til þess að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja sem getur minnkað sýklalyfjanotkun um án aukningar á fylgikvillum fyrir íbúa. Markmiðið er að draga úr óþarfa ávísunum sýklalyfja með fræðslu, leiðbeiningum og eftirfylgni. Sóttvarnalæknir hefur gefið út veggspjöld og verkferla til þess að auðvelda starfsfólki að greina þvagfærasýkingar og bregðast rétt við, en efnið hefur verið þýtt á ensku, pólsku og filippseysku.

Aðgerðir

Mikilvægt er að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir eins og sýkingavarnir og bólusetningar ásamt því að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja. Í ágúst 2024 var Einnar heilsu aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi staðfest af ríkisstjórn. Aðgerðir sem snerta hjúkrunarheimili eru veigamikill hluti af áætluninni, svo sem vöktun á sýklalyfjanotkun með miðlægum gagnagrunni og mælaborði ásamt sýklalyfjagæslu. Sett hefur verið fram áætlun um innleiðingu aðgerðaráætlunarinnar og eftirfylgni.

Sóttvarnalæknir

Mynd. Vitundarvakning gegn sýklalyfjanotkun. Tákn sem sameinar okkur.

Sjá nánar: