Framkvæmdaskýrsla rannsóknarinnar Heilsa og líðan á Íslandi 2022
6. maí 2024
Skýrsla um framkvæmd rannsóknarinnar Heilsa og líðan á Íslandi 2022 er nú aðgengileg á vefsíðu rannsóknarinnar hjá embætti landslæknis.
Heilsa og líðan er rannsókn á heilsu, líðan, velferð og lifnaðarháttum fullorðinna á Íslandi. Rannsóknin hefur verið gerð með reglulegu millibili frá árinu 2007 og var lögð fyrir stórt úrtak íslenskra og erlendra ríkisborgara, búsetta á Íslandi, í fimmta sinn haustið 2022. Auk þess var hún lögð fyrir hóp fólks sem hefur tekið þátt í rannsókninni í fyrri umferðum hennar.
Rannsóknin veitir stjórnvöldum, rannsakendum og öðrum hagaðilum mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun heilsu og lifnaðarhátta fullorðins fólks á Íslandi og skapar þannig góðan grunn fyrir frekari þekkingarsköpun og stefnumótun í málaflokkum tengdum lýðheilsu á Íslandi.
Í framkvæmdaskýrslu er framkvæmd rannsóknarinnar lýst með ítarlegum hætti; fyrirlögn, heimtum, inntaki spurningalistans, úrvinnslu og meðhöndlun gagna. Skýrslan er mikilvæg heimild um eðli og inntak rannsóknarinnar sem nýtist ekki hvað síst rannsakendum sem vinna með gögn rannsóknarinnar til frekari greininga og þekkingarsköpunar.
Rannsakendur geta sótt um aðgang að gögnum rannsóknarinnar Heilsa og líðan 2007-2022 á vef embættis landlæknis. Embættið hvetur til þess að rannsóknin og þær upplýsingar sem hún veitir sé nýtt af vísindafólki til frekari þekkingarsköpunar.
Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is