Fara beint í efnið

Evrópudagur vitundarvakningar um sýklalyf 18. nóvember

18. nóvember 2022

Dagurinn 18. nóvember er sérstaklega helgaður vitundarvakningu um sýklalyf hjá Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC). Sama dag hefst vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Vitundarvakning um sýklalyf - logo

Dagurinn 18. nóvember er sérstaklega helgaður vitundarvakningu um sýklalyf hjá Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC). Sama dag hefst vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að minna almenning, stjórnvöld, heilbrigðisstarfsmenn og aðra aðila á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería í heiminum.

Orsakir sýklalyfjaónæmis eru margvíslegar en óvarleg notkun sýklalyfja hjá bæði mönnum og dýrum er ein sú mikilvægasta. Uppgötvun sýklalyfja er ein merkilegasta uppgötvun læknisfræðinnar og hafa þau komið í veg fyrir milljónir fylgikvilla og dauðsfalla vegna smitsjúkdóma og sýkinga. Því er mikilvægt að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og vernda virkni sýklalyfja.

Árleg skýrsla sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi fyrir árið 2021 var unnin í samvinnu við Matvælastofnun (MAST) ásamt Landspítala og Lyfjastofnun. Þar kemur fram að sýklalyfjanotkun hjá mönnum er enn meiri á Íslandi en öðrum Norðurlöndum en um miðbik miðað við Evrópu. Hins vegar er notkun breiðvirkra sýklalyfja almennt minni hérlendis en í mörgum Evrópulöndum og meira er notað af þröngvirkum lyfjum. Þetta er jákvæð niðurstaða, því þröngvirk sýklalyf hafa áhrif á fáa og afmarkaða hópa baktería og hafa því minni áhrif á bakteríuflóru mannslíkamans. Þau eru einnig ólíklegri til að stuðla að myndun og útbreiðslu ónæmis hjá bakteríum.

Sýklalyfjaónæmir sýklar hafa enn ekki náð sömu útbreiðslu á Íslandi og í flestum öðrum Evrópulöndum. Til að halda þeirri stöðu er nauðsynlegt að stuðla áfram að markvissri sýklalyfjanotkun. Einnig er mikilvægt að efla sýkingavarnir og sýklalyfjagæslu. Sýkingavarnir eru almennt mikilvægar til að draga úr tíðni sýkinga og þar með sýklalyfjanotkun. Sýklalyfjagæsla stuðlar hins vegar að markvissu vali og skynsamlegri notkun sýklalyfja á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum. Einnig er nauðsynlegt að koma í veg fyrir skort á algengum sýklalyfjum á markaði en lyfjaskortur hefur verið vandamál í Evrópu og veldur aukinni notkun á breiðvirkari og oft dýrari sýklalyfjum.

Að lokum er mikilvægt að hafa í huga hugtakið Eina Heilsu (One Health) í þessu samhengi en þar er átt við að samhæfa þurfi aðgerðir fyrir menn, dýr og umhverfi til þess að ná tökum á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Markmiðið næst einungis með þverfaglegu samstarfi ólíkra aðila og stofnana á þessum sviðum. Alþjóðlegt samstarf er einnig nauðsynlegt því ekkert land er eyland þegar kemur að útbreiðslu ónæmra sýkla.

Sóttvarnalæknir mun standa fyrir málþingi 18. nóvember í tilefni af sýklalyfjadeginum en upptaka verður gerð aðgengileg eftir þingið. Auk þess er ýmislegt efni að finna á vef embættis landlæknis og samfélagsmiðlum embættisins (Facebook, Instagram). Við hvetjum alla til þess að dreifa þessum mikilvæga boðskap sem víðast.


Sjá einnig tengla á nokkrar evrópskar vefsíður:

Anna Margrét Halldórsdóttir

Yfirlæknir á sóttvarnasviði