Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Bið eftir völdum skurðaðgerðum – uppfært mælaborð í nóvember 2023

30. nóvember 2023

Gagnvirkt mælaborð sem sýnir bið eftir völdum skurðaðgerðum hefur nú verið uppfært.

Bið eftir skurðaðgerðum mælaborð

Mælaborðið byggir á:

  • Innsendum gögnum frá sjúkrastofnunum um fjölda sem bíður eftir völdum skurðaðgerðum, fjölda lokinna aðgerða og biðtíma eftir aðgerð. Með biðtíma er átt við þann tíma sem líður frá því að einstaklingur er metinn í þörf fyrir tiltekna skurðaðgerð þar til aðgerðin hefur verið framkvæmd.

  • Miðlægum gagnagrunni biðlistaupplýsinga um liðskipti á hné og mjöðm.

Síðasta gagnainnköllun var í september 2023 og sýna því nýjustu gildin í mælaborðinu fjölda sem beið eftir skurðaðgerð í september 2023 sem og fjölda sem lauk aðgerð á tímabilinu frá 1. september 2022 til 31. ágúst 2023. Undantekning frá þessu eru gögn um fjölda sem bíður eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm og hné en þau miða við október 2023. Er það vegna þess að beðið var eftir forritun á útreiknuðum biðtíma í miðlægu biðlistakerfi en þeirri vinnu lauk í október. Fjöldi lokinna liðskiptaaðgerða á þó við sama tímabil, 1. september 2022 til 31. ágúst 2023. Gögn frá Handlæknastöðinni voru uppfærð 15. nóvember vegna villu í skráningu.

Eins og fram kemur í texta hér að neðan vantar töluvert upp á gagnaskil frá aðgerðastöðum. Mælaborðið verður uppfært þegar gögn hafa borist.

Skurðaðgerð á augasteini

Fjöldi sem bíður eftir skurðaðgerð á augasteini á Landspítala hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum en aðgerðum hefur á sama tíma fækkað. Aðspurðir, segja stjórnendur á Landspítala að staðið hafi til að gera fleiri aðgerðir en mönnun, bilun í tækjum og umfang bráðaþjónustu skýri hvers vegna það hafi ekki náðst. Ekki hafa borist gögn frá Lentis um fjölda sem bíður. Beiðni embættisins um gagnaskil hefur verið ítrekuð. Þá hefur fyrirspurn verið send á Sjúkrahúsið á Akureyri varðandi bið eftir aðgerð á augasteini. Ekki er ljóst hvort og þá hve margir eru skráðir á biðlista eftir skurðaðgerð á augasteini á fleiri en einum aðgerðarstað.

Aðgerð til brjóstaminnkunar

Fjöldi sem bíður eftir aðgerðum til brjóstaminnkunar á Landspítala hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum og aðgerðum fækkað. Í svari við fyrirspurn til Landspítala kom fram að það skýrist af skorti á skurðstofurými en verið sé að leita leiða til að fjölga þessum aðgerðum, bæði utan sjúkrahússins og innan. Ekki hafa borist gögn frá Klíníkinni fyrir þessar aðgerðir í síðustu innköllunum. Beiðni embættisins um gagnaskil hefur verið ítrekuð.

Brennsluaðgerð á hjarta

Fjöldi sem bíður eftir brennsluaðgerð á hjarta hefur aukist jafnt og þétt síðan í janúar 2021 og höfðu um 40% af þeim sem biðu eftir slíkri aðgerð í september sl. beðið lengur en 12 mánuði. Aðspurðir, segja stjórnendur hjartaþjónustu á Landspítala að skortur á fjármagni og aðstöðu valdi því að ekki hafi verið gerðar eins margar brennsluaðgerðir og ákjósanlegt væri. Þrátt fyrir að ráðist hafi verið í átak á spítalanum, þar sem áhersla var lögð á bætt flæði sjúklinga og fjölgun aðgerða, hefur biðlisti ekki styst. Þörf fyrir brennsluaðgerð hefur aukist, góður árangur af slíkri aðgerð leiðir af sér fleiri beiðnir og svo getur þurft að gera enduraðgerð á 20-40% sjúklinga. Stjórnendur á Landspítala binda vonir við að hægt verði að halda áfram að fjölga aðgerðum og að biðtími verði ásættanlegur fyrir árslok 2025.

Liðskipti á hné og mjöðm

Síðastliðið vor gerðu Sjúkratryggingar Íslands samninga við Handlæknastöðina í Glæsibæ og Klíníkina í Ármúla um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á hné og mjöðm á árinu 2023 með það að markmiði að vinna á biðlistum þeirra opinberu heilbrigðisstofnana sem framkvæma liðskiptaaðgerðir. Embætti landlæknis kom að þessu verkefni með því að senda spurningalista í Heilsuveru til þeirra einstaklinga sem beðið höfðu hvað lengst samkvæmt gögnum í miðlægum biðlistagrunni og uppfylltu skilyrði samningsins. Í lok október höfðu 1.643 einstaklingar fengið spurningalistann sendan. Af þeim höfðu 1.167 svarað (ríflega 70%). Svörin vörpuðu ljósi á að talsvert virðist vera um margskráningar á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á hné eða mjöðm, þ.e. að einstaklingar sem lokið hafa aðgerð kunna enn að vera skráðir í bið eftir aðgerð annars staðar. Þetta veldur oftalningu á fjölda sem bíður eftir liðskiptaaðgerð á hné og mjöðm í þeim gögnum sem embættið birtir. Embættið vinnur nú þegar að úrbótum. Svör við spurningalistanum sýndu jafnframt að margir kjósa að bíða áfram eftir aðgerð á sinni stofnun, en þriðjungur sagðist ekki vilja fá boð um aðgerð frá öðrum aðgerðarstað.

Gögn um fjölda lokinna aðgerða sýna skýrt að liðskiptaaðgerðir á hné og mjöðm á því tímabili sem innköllunin nær til, 1. september 2022 til 31. ágúst 2023, eru talsvert fleiri en verið hefur undanfarin tímabil, sérstaklega liðskipti á hné. Frekari gögn um liðskiptaaðgerðir sérstaklega má sjá í mælaborði á vef embættisins sem uppfært er mánaðarlega.

Frekari upplýsingar:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is