Alþjóðlegur dagur skóga helgaður næringu úr skógi
21. mars 2025

Alþjóðlegur dagur skóga er helgaður skógum og næringu árið 2025 samkvæmt ákvörðun FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, og UNFF, skógaráðs Sameinuðu þjóðanna. Ljósmyndakeppni er haldin um þema dagsins og skilafrestur er 12. mars. FAO hefur einnig gefið út myndband um þetta þema dagsins og er það fáanlegt með íslenskum texta.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti 21. mars alþjóðlegan dag skóga á sínum tíma til að vekja athygli á mikilvægi hvers kyns skóga og trjáa utan skóglendis. Skógar hafa verið ofarlega í allri alþjóðlegri umræðu frá því að heimsmarkmiðin til 2030 um sjálfbæra þróun voru sett og Parísarsamkomulagið samþykkt.
Árlega ákveður CPF, samstarfsvettvangur ríkja heims um skóga, sérstakt þema eða yfirskrift fyrir alþjóðlegan dag skóga. Með því að helga daginn að þessu sinni skógum og næringu er vakin athygli á því hversu miklu máli skógar heimsins skipta í því að afla næringar fyrir heimsbyggðina og fyrir lífsafkomu fólks. Auk þess að vera uppspretta fæðu, orku, tekna og starfa skapa skógar næringarríkan jarðveg, stuðla að framboði á hreinu vatni og fóstra fjölbreytt lífríki og búsvæði tegunda, þar á meðal frjóbera sem sjá um að fræva nytjaplöntur.