Saga HVE
Heilbrigðisstofnun Vesturlands var formlega stofnsett 1. janúar 2010. Með því urðu að einni stjórnsýslulegri heild átta sjálfstæðar stofnanir á Vesturlandi. Allar þessar stofnanir höfðu áður tilheyrt heilbrigðisumdæmi Vesturlands, sbr. reglugerð nr. 785/2007 þótt tvær þeirra séu í raun utan hinnar hefðubundnu landshlutaskiptingar.
HVE Akranesi skiptist í sjúkrasvið og heilsugæslusvið.
Heilsugæslustöðin veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa í heilsugæsluumdæmi Akraness og hefur jafnframt forystuhlutverk varðandi heilsuvernd og forvarnarstarf.
Sjúkrahúsið er deildaskipt sjúkrahús. Aðal upptökusvæðið er vestur- og norðvesturhluti landsins. Veitt er fjölþætt sérfræðiþjónusta með viðbúnaði til móttöku og meðferðar bráðveikra allan sólarhringinn. Íbúum höfuðborgarsvæðisins og öðrum landsmönnum er í vaxandi mæli boðin sérfræðiþjónusta í tilteknum greinum.
HVE tekur þátt í menntun heilbrigðisstétta í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og aðrar menntastofnanir. Starfsmenn HVE Akranesi eru um 240 talsins.
Heilsugæslustöðin Borgarnesi var formlega opnuð 10.janúar 1976 og var fyrsta heilsugæslustöð landsins. Á stöðinni fer fram fjölbreytt starfsemi þar sem starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmóðir, sjúkraliðar, læknaritarar og sjúkraflutningamenn auk ræstitæknis. Starfsmenn HVE Borgarnesi eru um 20 talsins.
Heilsugæslustöðin í Borgarnesi veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa heilsugæsluumdæmisins sem samanstendur af Borgarbyggð, Skorradalshreppi og Eyja- og Miklaholtshreppi. Íbúafjöldi upptökusvæðisins er u.þ.b. 3750. Að auki eru innan umdæmisins tvö háskólaþorp, Bifröst og Hvanneyri, ásamt fjölda sumarbústaða þar sem íbúar eru almennt ekki skráðir með fasta búsetu. Þannig að dulin búseta á svæðinu er töluverð.
Lögsagnarumdæmi heilsugæslunnar er 5.511 ferkílómetrar.
Boðið er upp á alla almenna læknisþjónustu, almenna hjúkrunarþjónustu, heimahjúkrun, ungbarnaeftirlit og mæðravernd. Skólaheilsugæslu bæði í grunnskóla og framhaldsskóla. Einnig hefur verið starfrækt sykursýkismóttaka og þyngdarstjórnunarmeðferð.
Í húsnæði heilsugæslunnar hafa aðstöðu, sjúkraþjálfari og tveir sálfræðingar. Einnig eru augnlæknir, sjóntækjafræðingur og heyrnartæknir með reglulega móttöku á stöðinni.
Læknishéruðin í Búðardal og á Reykhólum voru sameinuð í eitt tveggja lækna hérað með lögum árið 1974 og þannig stofnuð Heilsugæslustöðin Búðardal. Starfsemin hennar flutti í nýtt húsnæði að Gunnarsbraut 2 í Búðardal þann 1. nóvember 1978 en hafði áður verið í læknishúsi í Brekkuhvammi 1. Á Reykhólum fór starfið fram í gömlu læknishúsi þar en í september 1983 var flutt í núverandi húsnæði sem reist hafði verið undir starfsemina við Hellisbraut.
Heilsugæslustöðvarnar í Búðardal og á Reykhólum veita íbúum Dalabyggðar og Reykhólahrepps almenna heilsugæsluþjónustu.
Þann 1. janúar 2010 sameinuðust allar heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi í eina, Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Innan hennar myndar starfsemin í Búðardal og á Reykhólum einingu sem kallast HVE Búðardal. Íbúafjöldi á svæði HVE Búðardals er um það bil 1000 manns.
Við HVE Búðardal starfa nú um 10 manns en sumir þeirra í hlutastarfi.
Heilsugæslustöð H1 hefur verið starfrækt á Grundarfirði frá árinu 1974 Heilsugæslustöðin var flutt í núverandi húsnæði sem staðsett er á Hrannarstíg 7 árið 1994.
Starfssvæði stöðvarinnar nær frá Berserkseyri að Búlandshöfða í Eyrarsveit Snæfellsnesi.
Fjöldi íbúa á starfssvæðinu árið 2010 er 908 manns. Starfsfólk stöðvarinnar eru 10 manns.
HVE Hólmavík skiptist í heilsugæslusvið og hjúkrunarsvið.
Heilsugæslustöðin veitir almenna heilsugæsluþjónustu í umdæmi heilsugæslunnar á Hólmavík, sem nær yfir Árneshrepp, Kaldrananeshrepp og Strandabyggð. Íbúafjöldi á svæðinu er tæpl. 700 manns.
Hjúkrunardeildin er með átta einstaklingsherbergi og tvær litlar íbúðir sem ætlaðar eru fyrir tvo einstaklinga hvor, auk þess er eitt bráðarými og sjúkra- og iðjuþjálfunaraðstaða.
Saga HVE Hólmavík
Læknir kom á Hólmavík árið 1903. Hafði hann aðstöðu í sjúkraskýli að Kópnesbraut 7 en þar var hann ennfremur til heimilis. Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík var stofnuð árið 1998, þá sameinuðust sjúkrahús og heilsugæsla sem áður voru aðskilin í rekstri.
Heilsugæslustöð hefur verið starfrækt í núverandi húsnæði frá árinu 1985. Heilsugæslustöðin þjónar íbúum Árneshrepps, Kaldrananeshrepps og Strandabyggðar. Heilsugæslustöðin er ágætlega búin, með lítilli slysastofu, rannsóknarstofu, tækjum til röntgenmyndatöku og tannlæknastofu. Þar er lyfsala til húsa sem stofnunin rekur. Á stöðinni er veitt öll grunnheilbrigðisþjónusta, svo sem almennar lækningar, ungbarna- og mæðravernd og heimahjúkrun.
Hjúkrunardeildin er með átta einstaklingsherbergi og tvær litlar íbúðir sem ætlaðar eru fyrir tvo einstaklinga hvor, auk þess er eitt bráðarými og sjúkra- og iðjuþjálfunaraðstaða. Hjúkrunardeildin var byggð á árunum 1948-50 sem læknabústaður og sjúkraskýli. Árið 2003 var tekin í notkun ný viðbygging, samhliða því voru gerðar endurbætur á eldra húsnæði sem bættu alla aðstöðu heimilismanna og starfsfólks.
Læknishéraðið nær yfir Árneshrepp, Kaldrananeshrepp og Strandabyggð. Á þessu sést að héraðið er mjög víðfeðmt og strjálbýlt. Það getur orðið erfitt yfirferðar á vetrum og oft þarf að grípa til sérútbúinna farartækja. Farnar eru skipulagðar ferðir í H-stöð í Árneshrepp.
Við stofnunina er vel útbúin sjúkraflutningabifreið.
HVE Hvammstanga skiptist í heilsugæslusvið og hjúkrunarsvið og þjónar Hvammstangalæknishéraði sem er Húnaþing vestra og Bæjarhreppur í Strandasýslu. Fjöldi íbúa er u.þ.b. 1250.
Heilsugæslustöðin veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa heilsugæsluumdæmis Hvammstanga.
Á sjúkrahúsinu eru nú (2010) 18 hjúkrunarrými og 2 sjúkra- og bráðarými. Einnig er boðið upp á dagþjónustu fyrir eldra fólk í héraðinu.
Starfsmenn HVE Hvammstanga eru í kringum 45 talsins
Úr sögu sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar á Hvammstanga
Björn G Blöndal var fyrsti héraðslæknir í Miðfjarðarlæknishéraði sem hafði búsetu á Hvammstanga, en hann settist að í fyrsta íbúðarhúsi sem byggt hafði verið á Hvammstanga árið 1901, en húsið var byggt árið áður. Fyrsta byggingin sem sérstaklega var reist fyrir heilbrigðisþjónustu var læknisbústaður sem steyptur var upp árið 1918 og tekinn í notkun árið 1919. Í upphafi sinnti héraðslæknirinn um sjúklingana á heimili sínu og naut við það aðstoðar konu sinnar og vinnufólks.
Á árunum 1926 til 1930 var húsnæðið stækkað og "sjúkraskýlið" byggt. Fljótlega var farið að ráða fleira starfsfólk. Fyrsta hjúkrunarkonan Margrét Halldórsdóttir var ráðin til starfa 1923 og starfaði hún samfellt til 1956. 1931 var ráðin matselja að sjúkrahúsinu, en áður hafði læknirinn séð sjúklingum fyrir fæði. Ólafur Gunnarsson var fyrsti læknirinn sem hafði búsetu í læknisbústaðnum, en Jónas Sveinsson tók við af honum, en sennilegi munu tilraunir hans til að yngja upp gamalmenni hér í Húnaþingi halda nafni hans hæst á lofti hér um slóðir.
Á árunum 1957 til 1960 reis aðalbygging sjúkrahússins. Þá hafði verið rætt um nýbyggingu við sjúkraskýlið í mörg ár, en það var ekki fyrr en Kvennabandið lagðist þungt á árarnar, fyrst undir forystu Jónínu S. Líndal á Lækjamóti og síðan Jósefínu Helgadóttur á Laugarbakka, að málið komst á verulegan skrið. Byggingin var samþykkt í Sýslunefnd árið 1955, en Kvennabandið lagði verulegar upphæðir til byggingar og búnaðar hins nýja sjúkrahúss. Eftir þessar endurbætur voru 21 sjúkrarúm á sjúkrahúsinu auk þriggja íbúða fyrir starfsfólk og þjónusturýma. Árið 1984 var byggð setustofa við sjúkrahúsið sem bætti úr brýnni þörf fyrir samverustað fyrir vistfólk. Á þeim tíma voru um 40 sjúkrarúm í notkun í allt of litlu rými þó íbúðum starfsfólks hafi þá verið búið að breyta í sjúkrastofur.
Árið 1986 var nýbyggð heilsugæslustöð tekin í notkun sem gjörbylti allri aðstöðu til þjónustu við sjúklinga í læknishéraðinu. Um 10 árum áður hafði heilsugæslan verið gerð að tveggja lækna stöð og fleira starfsfólk ráðið til að sinna heilsugæslu m.a. héraðshjúkrunarfræðingur.
Árið 1992 hófust gagngerar endurbætur á húsnæði sjúkrahússins. Eldra húsnæði var allt innréttað upp á nýtt og byggð ný 750 fm viðbygging. Framkvæmdir þessar stóðu yfir í nokkur ár og lauk framkvæmdum innanhúss á árinu 2000, en lóðarfrágangi á árinu 2002. Í desember 2002 voru endurbæturnar formlega vígðar af Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra sem afhjúpaði við það tækifæri útilistaverkið Tungukotsmóra.
Heilsugæslustöð hefur verið starfrækt í Ólafsvík frá árinu 1971. Fyrsta húsnæðið var að Hjarðartúni 6, síðan flytur stöðin í núverandi húsnæði í lok árs 1986. Starfssvæði stöðvarinnar er Snæfellsbær sem er Fróðárhreppur, Staðarsveit, Breiðuvík, Hellissandur, Rif og Ólafsvík.
Heilsugæslustöðin er ágætlega búin, með slysastofu, rannsóknarstofu, tækjum til röntgenmyndatöku o.fl.
Í húsnæði stöðvarinnar er sjálfstætt rekin tannlæknaþjónusta og við hana starfa tannlæknir og tvær aðstoðarstúlkur. Einnig hefur sjúkraþjálfari aðstöðu í stöðinni.
HVE Ólafsvík veitir almenna heilsugæsluþjónusu fyrir íbúa Snæfellsbæjar sem nær yfir Staðarsveit, Breiðuvík, Hellissand, Rif og Ólafsvík. Fjöldi íbúa á starfssvæðinu er um það bil 1700.
HVE Stykkishólmi skiptist í sjúkrahús og heilsugæslustöð.
Heilsugæslustöðin veitir almenna heilsugæsluþjónustu í umdæmi heilsugæslunnar í Stykkishólmi, sem nær yfir Stykkishólmsbæ og Helgafellssveit. Íbúafjöldi á svæðinu telur um það bil 1160 manns.
Á HVE Stykkirhólmi er 5 daga deild sem veitir sérhæfða meðferð við háls- og bakvandamálum, sem telur 13 rúm. Auk þess er 6-8 rúma almenn legudeild, þar af 3 hjúkrunarrými.