Getur verið sálfræðingur hvar sem er
16. október 2024
Kristín Heimisdóttir er í nýrri stöðu sálfræðings HSN á Þórshöfn á Langanesi. Þegar hún fór að læra fagið 38 ára gömul hafði hún ekki hugsað sér að þurfa að flytja í burtu til að geta starfað sem sálfræðingur. Hún vildi vinna í heimabyggð og sýna að það er alveg hægt að vinna sem sálfræðingur hvar sem er á landinu.
Það er óhætt að segja að Kristín Heimisdóttir, sálfræðingur HSN á Þórshöfn sé kona með margvíslega reynslu og marga hatta. Hún hefur búið á Þórshöfn í 20 ár ásamt fjölskyldu sinni, eiginmanni og fjórum börnum. Auk þess að vera sálfræðingur er hún hársnyrtir, einkaþjálfari, söngkona, tónskáld og rithöfundur. Þá er hún meðlimur í kirkjukór, saumaklúbbi og sjósundshópnum Baðbombunum. Og eflaust má tína til fleiri titla fyrir hana.
Kristín stundaði fjarnám í sálfræði við Háskólann á Akureyri en eftir útskrift með BA gráðu ákvað hún að ganga lengra og ná sér í gráðu sem klínískur sálfræðingur. Hún flutti sig til Danmerkur fyrir það, nánar tiltekið til Odder, sem er bær á Jótlandi. „Strax þegar ég var 16 ára gömul tilkynnti ég upphátt að ég vildi verða sálfræðingur, en samt líða alveg 22 ár þangað til ég læt verða af því að fara að læra fagið, þá orðin 38 ára gömul með mjög stórt heimili. Það var alveg ákvörðun að gera þetta, ekki síst þar sem ég er með stóra fjölskyldu, en við létum slag standa.“
Vel sett af heilbrigðisstarfsfólki á svæðinu
Kristín er á starfsstöð HSN á Þórshöfn í Norður-Þingeyjarsýslu, en hinum megin við Hófaskarð eru Raufarhöfn og Kópasker, þar sem einnig eru starfsstöðvar HSN. Eins og víða má alltaf staðan vera betri þegar kemur að fjölda starfsfólks í heilbrigðisgeiranum, en staðan í Norður-Þingeyjarsýslu er samt góð. „Hér erum við t.d. með öfluga hjúkrunarfræðinga og eina ljósmóður. Svo eru hér vel þjálfaðir sjúkraflutningamenn, en alltaf eru tveir slíkir á vakt og svo er læknir alltaf á vakt. Við erum að sjá að heimafólk er að fara burt til að mennta sig en snýr svo aftur til baka sem er mjög ánægjulegt.“
Starfið hennar Kristínar er tiltölulega nýtt á svæðinu. Hún vinnur bæði hjá HSN og á vegum Norðurþings þar sem hún sinnir skólaþjónustu og annað slagið barnavernd. Hún sinnir greiningarviðtölum og meðferðarviðtölum hjá HSN en að auki er hún nýbyrjuð að vinna í geðheilsuteyminu. Hún vinnur fyrir allt starfssvæði HSN, ekki eingöngu í Norður-Þingeyjarsýslu. „Covid kenndi okkur að það eru orðin nokkuð venjubundin vinnubrögð að bjóða upp á fjarþjónustu í gegnum myndsímtöl, en þannig get ég tekið viðtöl við fólk á Siglufirði eða á Sauðárkróki og víðar á starfssvæði HSN ef út í það er farið. Svo vinn ég með fólki á öllum aldri, börnum, unglingum og upp úr. Auk þess er þetta forsenda fyrir að hægt sé að vinna án staðsetningar. Þegar ég fór í háskólanámið hafði ég ekki hugsað mér að þurfa að flytja í burtu til að geta unnið við þetta. Ég vildi vera sálfræðingur sem ynni í heimabyggð og sýna að það er líka alveg hægt.“
Einbeiti sér nú að því sem gerist inn í höfðinu en ekki utan á því
Áður en Kristín ákvað að láta gamlan draum um sálfræðinám rætast var hún búin að reka sína eigin hárgreiðslustofu á Þórshöfn sem hún setti á laggirnar þegar hún flutti þangað árið 2004.
„Í raun er mikill skyldleiki á milli þessara tveggja atvinnugreina. Bestu stundirnar voru þegar maður spjallaði við fólk á meðan liturinn beið í hárinu, í einhverjum tilfellum var ég orðin trúnaðarvinur og fólk hafði stundum þörf fyrir að einhver hlustaði á það. Þannig að ég ákvað að fara að einbeita mér að því sem gerist innan í höfðinu en ekki utan á því og fara að gera það sem mig hafði alltaf langað til að gera.“
Kristín er mjög meðvituð um heilsuna og hreyfir sig reglulega. „Ég get ekki verið góður sálfræðingur ef mér líður ekki sjálfri vel, það er eiginlega lágmark að ég sé einhver fyrirmynd í heilsusamlegu lífi.“ Og talandi um hreyfingu, Kristín er menntaður einkaþjálfari frá World Class og tekur að sér einkaþjálfun á Þórshöfn. „Það er eins og með hársnyrtinn, sálfræðin nýtist mér einstaklega vel í einkaþjálfuninni, því ég tek meðal annars á móti fólki sem hefur kannski aldrei þorað að stíga inn í þetta – þetta er bara 99% í hausnum á okkur.“
Nóg að gera á litlum stað
Á Þórshöfn búa um 400 manns og eðli málsins samkvæmt er stutt í allt. „Ég er í alvöru bara örfáar mínútur frá næstum öllu, hvort sem það er einhver þjónusta sem ég þarf á að halda eða náttúran sjálf. Það getur vel verið að hér sé ekki stór miðbær með kaffihúsum, en ég get farið á mörg yndisleg kaffihús á heimilum fólks hér sem eru hrein dásemd. Hér er mikil og góð samheldni og mjög fjölskylduvænt, við getum auðveldlega skroppið heim í hádegishléinu meira að segja. Þetta eru lífsgæðin – náttúran, tíminn sem maður fær og rólegheitin þrátt fyrir annasama daga. Eftir vinnudaginn er í raun ekkert betra en að skella sér í friðinn út í náttúrunni.“
Kristín tók fjögur stig í klassískum söng og lærði svo að spila helstu grip á gítar sem hún býr mikið að. Það var sem við manninn mælt, hún fór að semja lög, vera í hljómsveit og syngja og spila opinberlega. Hún og Jonni félagi hennar tóku sig til fyrir nokkrum árum og sömdu lög við lítt þekkt kvæði Kristjáns frá Djúpalæk sem var af Langanesströnd, héldu stofutónleika á Bjarmalandi, í landi Djúpalækjar og einnig eiga þau nokkur lög sem finna má á Spotify. Þá hefur hún gefið út tvær bækur fyrir jólin 2019 og 2020.
„Þetta er af sama meiði, ef ég fæ hugmynd, þá þarf ég eiginlega að láta verða af henni. Þetta eru klassískar jólabækur með rosalega löngum nöfnum, en þær heita ‘Sagan af því hvers vegna jólasveinarnir hættu að vera vondir’ og „’Sagan af því þegar Grýla var ung og hvers vegna hún varð illskeytt og vond’. Það eru ótrúlega sálfræðilegar vangaveltur í þessum sögum. Ég er óhrædd við að hoppa út í aðstæður sem eru óþekktar fyrir mig og prófa eitthvað nýtt. Ég hef upplifað ótrúlega hamingju en líka mikla sorg og það kennir mér að lífið er núna. Ég ætla að hafa hugrekki til að lifa því eins vel og skemmtilega og ég get. Ef maður gerir það, þá gerast skemmtilegir hlutir í framhaldinu, það er mín reynsla. Við þurfum bara að vera dugleg að hlusta og fylgjast með hvað lífið er að reyna að segja okkur.“