Stefnur
Markmið samgöngustefnu embættis héraðssaksóknara er að stuðla að því að starfsfólk noti
vistvæna, fjölbreytta og hagkvæma ferðamáta. Embættið vill leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfið, bæta heilsu starfsfólks, sýna gott fordæmi og efla vitund starfsfólks um vistvænar samgöngur og fjölbreytta möguleika sem í boði eru til að stuðla að slíkum markmiðum.
Leiðir að markmiðum
Starfsfólk héraðssaksóknara er hvatt til að ganga, hjóla, nota aðra vistvæna ferðamáta eða
almenningssamgöngur í ferðum til og frá vinnu. Starfsfólk er einnig hvatt til þess að ganga á starfstengda viðburði ef það tekur ekki of langan tíma, svo fremur sem óveður eða aðrar
aðstæður torvelda ekki. Þá stendur einnig til boða að nota rafmagnshjól embættisins til
notkunar í skemmri ferðir á vinnutíma. Embættið hvetur starfsfólk til að nýta síma- og fjarfundi þar sem það er mögulegt.
Þegar panta þarf leigu- og/eða bílaleigubíla er skylt að óska eftir vistvænum bílum.
Samningur er við Hreyfil um að embættið fái vistvæna leigubíla þegar pantað er. Þá er
starfsfólk einnig hvatt til að samnýta ferðir á vinnutíma eftir því sem kostur er. Fyrir
starfsfólk sem notar vistvænan samgöngumáta greiðir embættið leigubílakostnað í
neyðartilvikum t.d. vegna veikinda barna.
Starfsfólk er hvatt til að gera samgöngusamning við embættið. Í samgöngusamningi er kveðið á um að starfsmaður sem nýtir sér vistvænar samgöngur á leið til og frá vinnu eða á vegum vinnuveitanda fái tiltekna umbun sem tekur mið af reglum Skattsins um samgöngustyrkir og teljast ekki til skattskyldra tekna upp að ákveðnu hámarki á mánuði og að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Embættið kaupir Klappkort fyrir starfsfólk sem ákveður að nota strætisvagna að jafnaði til að ferðast í og úr vinnu eða tilfallandi.
Starfsfólk getur sótt um heilsustyrk sem veittur er árlega. Heimilt er að nota styrkinn til kaupa á reiðhjóli, rafmagnshjóli eða öðrum sambærilegum vistvænum fararskjóta. Enn fremur er heimilt að nýta styrkinn vegna útlagðs kostnaðar sem til fellur við að nýta vistvænan ferðamáta, svo sem til kaupa á hjólreiða- eða hlífðarfatnaði. Héraðssaksóknari kappkostar við að tryggja góða aðstöðu á vinnustað fyrir þá sem stunda vistvænar samgöngur svo sem aðgang að búnings- og sturtuaðstöðu.
Embætti héraðssaksóknara 2. september 2024
Embætti héraðssaksóknara ætlar að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og
loftslagsmálum og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni í
lágmarki. Haustið 2018 kynnti ríkisstjórnin aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
fyrir árin 2018-2030 þar sem kveðið er á um að dregið verði úr losun
gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Aðgerðaráætluninni er ætlað að
tryggja að Ísland nái markmiðum Parísarsamkomulagsins til 2030 og markmiði
ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Embætti héraðssaksóknara
leggur sitt af mörkum til að skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart
Parísarsamkomulaginu sé náð og tekur þannig virkan þátt í baráttunni við
loftslagsbreytingar.
Framtíðarsýn
Tilgangur með loftslagsstefnu embættis héraðssaksóknara er að draga markvisst
úr áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda (GHL) af starfseminni og
leggja mat á og miðla árangri og hafa þannig bein og óbein áhrif á
loftslagsskuldbindingar landsins.
Markmið
Embætti héraðssaksóknara ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um
40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019 og stefnir einnig að kolefnishlutlausri
starfsemi með því að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun frá árinu 2022.
Gildissvið
Stefna þessi hefur það hlutverk að stuðla að vernd umhverfisins og tekur til
umhverfisáhrifa af innri rekstri embættis héraðssaksóknara. Stefnan tekur til
allrar starfsemi embættis héraðssaksóknara og varðar alla starfsmenn
embættisins. Loftlagsáhrif embættisins eru mest vegna losunar frá flugferðum
starfsmanna, akstri starfsmanna til og frá vinnu og öðrum akstri á vegum
embættisins. Áhrifin ná einnig til losunar vegna úrgangs og orkunotkunar.
Umfang
Umhverfis- og loftslagsstefna embættisins fjallar um samdrátt í losun
gróðurhúsalofttegunda samkvæmt leiðbeiningum um loftslagsstefnur opinberra
aðila. Stefnan tekur til eftirfarandi umhverfisþátta sem unnt er að fylgjast með
og mæla hverju sinni:
Samgöngur
Losun GHL vegna aksturs á bifreiðum embættisins
Losun GHL vegna aksturs bílaleigu og leigubíla
Losun GHL vegna flugferða starfsmanna innanlands
Losun GHL vegna flugferða starfsmanna erlendis
Fjöldi samgöngusamninga sem embættið gerir við starfsmenn
Orkunotkun
Rafmagnsnotkun á starfsstöð
Heitavatnsnotkun á starfsstöð
Úrgangur
Losun GHL vegna lífræns úrgangs sem fellur til
Losun GHL vegna blandaðs úrgangs sem fellur til
Heildarmagn úrgangs sem fellur til
Magn útprentaðs skrifstofupappírs (miðað er við að allur útprentaður
pappír verði endurunninn)
Innkaup
Hlutfall umhverfisvottaðs skrifstofupappírs sem embættið kaupir
Hlutfall umhverfisvottaðrar ræstiþjónustu og ræsti- og hreinsiefna sem
embættið kaupirHlutfall umhverfisvottaðra matvæla sem embættið kaupir
Magn rekstrarvara, raftækja og prenthylkja sem embættið kaupir
Áherslur í umhverfis- og lofslagsmálum
Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna, úrgangs og
orkunotkunarFæra Grænt bókhal
Efla fjarfundarmenningu, rafræn samskipti og vistvæna varðveislu skjala.
Draga úr úrgangsmyndun og auka endurvinnslu
Huga að orkusparnaði
Stuðla að umhverfisvænum innkaupum
Kolefnisjafna losun með ábyrgum hætti
Leggja áherslu á að efla þekkingu starfsmanna í loftslagsmálum og
umhverfismálum almenntVinna að verkefnum samkvæmt aðgerðum Grænna skrefa í ríkisrekstri og
uppfylla öll fimm grænu skrefin í lok árs 2022
Árlega verði skoðaðar mælingar samkvæmt grænu bókhaldi næst liðins árs og
stefna og framkvæmd endurskoðuð í ljósi þeirra niðurstaða.
Eftirfylgni
Umhverfis og loftslagsstefnu embættis héraðssaksóknara er fylgt eftir með því
að ljúka innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri sem hófst hjá embættinu árið
2019.
Árangur loftslagsstefnu embættisins er mældur í gegnum Grænt bókhald þar
sem upplýsingum um samgöngur, úrgangsmyndun, orkunotkun, neyslu og
kolefnislosun frá starfseminni er safnað saman. Fyrir 1. apríl ár hvert tekur
rekstrarfulltrúi embættisins Grænt bókhald fyrra árs saman og skilar því í
Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Niðurstöðurnar eru síðan nýttar til að greina
tækifæri til úrbóta, sýna fram á gagnsemi stefnunnar og halda starfsfólki
upplýstu um hvernig miðar við framkvæmd hennar.
Loftslagsstefnan er samþykkt og rýnd árlega af Héraðssaksóknara. Lagt er mat á
árangur hennar, framkvæmd einstakra þátta og upplýsingum miðlað um þau efni
á vefsíðu embættis héraðssaksóknara og innra svæði embættisins.
Jafnlaunastefna embættis héraðssaksóknara er hluti af jafnlaunastjórnunarkerfi embættisins og nær til alls starfsfólks þess hvort sem gerður hefur verið ráðningarsamningur eða skipað/sett í embætti.
Jafnlaunastefnan:
er launastefna embættisins og órjúfanlegur hluti af launaákvörðunum embættisins.
tryggir að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá séu greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf líkt og kveðið er á um í lögum.
Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismun og skal það tryggt með því að:
Unnið sé markvisst að jafnréttismálum innan embættisins.
Innleiða og viðhalda jafnlaunakerfinu til samræmis við kröfur ÍST 85:2012 staðalsins
og öðlast jafnlaunavottun í samræmi við 7. gr. laga nr. 150/2020.Tryggja stöðugar umbætur á kerfinu með framkvæmd launagreininga, innri úttekt og
reglulegu stöðumati.Brugðist sé við óútskýrðum launamun með úrbótum og eftirliti.
Embættið skuldbindi sig til að fylgja viðeigandi lagakröfum, kjarasamningum,
stofnanasamningum og öðrum kröfum sem embættið undirgengst varðandi
meginregluna um að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu skuli greidd
jöfn laun fyrir sömu störf eða jafnverðmæt störf.Skapa umgjörð til að setja fram og rýna jafnlaunamarkmið embættisins.
Kynna jafnlaunastefnu embættisins fyrir starfsfólki, hafa hana aðgengilega á Innri vef
embættisins og fyrir almenningi.
Héraðssaksóknari ber ábyrgð á jafnlaunastjórnunarkerfinu og framgangi jafnlaunastefnunnar sem tekur til alls starfsfólks embættisins. Fyrirspurnum um jafnlaunastjórnunarkerfið skal beint til lögfræðings yfirstjórnar.
Jafnréttisáætlun héraðssaksóknara byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Áætlunin var samþykkt af Héraðssaksóknara 14. febrúar 2024 og skal endurskoða á þriggja ára fresti sbr. 5. gr. laganna. Áætlunin tekur gildi þegar Jafnréttisstofa hefur samþykkt hana og er aðgengileg á innri vef embættisins.
1. Launajafnrétti
Markmið: Starfsfólk skal hafa jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.
Aðgerð | Ábyrgð | Verklok |
---|---|---|
Gera nýja stefnu í jafnlaunamálum og kynna fyrir starfsfólki. | Héraðssaksóknari, Yfirstjórn og jafnlaunahópur. | Lokið í febrúar 2024 |
Greina laun og fríðindi starfsmanna til að kanna hvort um kynbundinn launamun er að ræða. | Fjármálastjóri | Mars 2024 |
Framkvæma launagreiningu þar sem kannað er hvort fólk óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. | Héraðssaksóknari | Mars 2024 |
Komi í ljós óútskýrður munur á launakjörum skal sá munur leiðréttur. | Héraðssaksóknari | Innan tveggja mánaða frá launagreiningu ár hvert. |
2. Laus störf - endurmenntun
Markmið: Að laus störf hjá embættinu standi opin fólki af öllum kynjum. Unnið verði að því að jafna hlutföll karla og kvenna. Að starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun sé aðgengileg öllu starfsfólki, óháð kyni.
Aðgerð | Ábyrgð | Verklok |
---|---|---|
Í starfsauglýsingum sé hvatning til einstaklinga óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu að sækja um. | Lögfræðingur yfirstjórnar | Þegar störf eru auglýst. |
Haldin sé samantekt yfir auglýst störf, umsækjendur og ráðningar. | Fjármálastjóri | Í mars ár hvert. |
Samantekt á samsetningu starfsmannahópsins. | Fjármálastjóri | Í mars ár hvert. |
Greina sókn fólks í sambærilegum störfum í endurmenntun og starfsþjálfun. Leita skýringa og bregðast við ef fram kemur mismunur milli hópa. | Yfirstjórn og lögfræðingur yfirstjórnar. | Í mars ár hvert. |
3. Samræming vinnu og einkalífs
Markmið: Að vera fjölskylduvænn vinnustaður. Að starfsfólk sé hvatt til að axla jafna ábyrgð á fjölskyldu og heimili og nýti rétt sinn til foreldra- og fæðingarorlofs og leyfi vegna veikindi barna
Aðgerð | Aðgerð | Verklok |
---|---|---|
Að útbúa og kynna fyrir starfsfólki stefnu embættisins þegar kemur að samræmingu vinnu og einkalífs. | Yfirstjórn/ lögfræðingur yfirstjórnar. | Maí ár hvert |
Að á Innri vef sé umfjöllun um mikilvægi jafnrar þátttöku á heimilum og einnig að teknar séu saman upplýsingar um nýtingu úrræðisins og þær birtar á Innri vef. | Lögfræðingur yfirstjórnar. | Maí ár hvert |
4. Vernd gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og vernd gegn óréttlæti í starfi
Markmið: Stjórnendur tryggi gott vinnuumhverfi. Að forvarnar- og viðbragðsáætlun sem tekur á kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni sé til fyrir vinnustaðinn. Starfsfólk þekki réttindi sín og viti hvert það getur leitað verði það fyrir óæskilegri hegðun á vinnustaðnum. Starfsfólk hafi góðan aðgang að öryggis-/trúnaðarmanni og viti hvaða hlutverki þeir gegni.
Aðgerð | Ábyrgð |
---|---|
Stjórnendur fái fræðslu og þjálfun þar sem áhersla er á góða stjórnunarhætti, ábyrgð stjórnenda til að tryggja gott og öruggt félagslegt vinnuumhverfi og hlutverk þeirra að stuðla að inngildandi vinnumenningu. Einnig að brugðist verði af festu við kvörtunum starfsfólks í því skyni að trygga tiltrú fólks á því að kvartanir þeirra séu teknar alvarlega. | Héraðssaksóknari/lögfræðingur yfirstjórnar. |
Vinna forvarnar- og viðbragðsáætlun og kynna fyrir starfsfólki. | Lögfræðingur yfirstjórnar/ Öryggisnefnd |
Fræða starfsfólk um kynbundið ofbeldi, kynbundið áreiti og kynferðislega áreitni. Forvarnar- og viðbragðsáætlun ásamt verkferlum kynnt fyrir starfsfólki og stuðlað verði að aukinni vitund um hvaða úrræði eru í boði fyrir starfsfólk sem vill kvarta undan óviðeigandi hegðun. | Yfirstjórn/ Lögfræðingur yfirstjórnar.v |
Trúnaðarmenn séu kosnir af starfsfólki á 2. ára fresti. Upplýsingar um trúnaðar- og öryggistrúnaðarmenn séu aðgengilegar starfsmönnum á Innri vef embættisins. Trúnaðarmenn kynni sig og hlutverk sitt fyrir starfsfólki. | Lögfræðingur yfirstjórnar/ Öryggisnefnd/ Trúnaðarmenn. |
5. Eftirfylgni og endurskoðun
Markmið: Að jafnréttisáætlun skili tilætluðum árangri. Að jafnréttisáætlunin sé í sífelldri þróun eins og önnur stefnumótun. Að endurskoða og uppfæra jafnréttisáætlunina.
Aðgerð | Ábyrgð | Verklok |
---|---|---|
Framkvæma viðhorfskönnun meðal starfsfólks með tilliti til verkefna áætlunarinnar. | Lögfræðingur yfirstjórnar | Í janúar ár hvert |
Yfirferð yfir stöðu verkefna á fundi Yfirstjórnar að vori og hausti. | Héraðssaksóknari | Í apríl og október ár hvert. |
Vinna tillögu að nýrri jafnréttisáætlun á grundvelli reynslu, verkefna og niðurstaðna kannanna. | Jafnlaunahópur | Hefja vinnu haustið 2026 og henni sé lokið fyrir Jafnlaunaúttekt vorið 2027. |
Jafnréttisáætlun Héraðssaksóknara gildir frá 1. mars 2024 og skal endurskoðuð á þriggja ára fresti, næst 1. mars 2027.
Markmið
Markmið með persónuverndarstefnu héraðssaksóknara er að vinnsla með persónuupplýsingar einstaklinga sé í samræmi við lagafyrirmæli og þau verkefni sem embættið hefur með höndum í samræmi við lögbundið hlutverk þess. Upplýsingum er safnað, þeim miðlað og þær varðveittar í samræmi við lög. Í persónuverndarstefnu þessari er lögð rík áhersla á að vernda persónuupplýsingar og veita upplýsingar um hvernig unnið er með þær hjá embættinu, hver tilgangur vinnslunnar er og hvað er gert við þær.
Persónuverndarstefnan tekur til einstaklinga en ekki lögaðila.
Ábyrgðaraðili
Ábyrgðaraðili er embætti héraðssaksóknara, Skúlagötu 17, 101 Reykjavík, kt. 441115-1480. Unnt er að hafa samband með því að hringja í síma 444-0150, með því að senda erindi í gegnum heimasíðuna eða með því að senda tölvupóst á hersak@hersak.is
Persónuverndarfulltrúi
Persónuverndarfulltrúi embættisins hefur eftirlit með því að farið sé að gildandi lögum og reglum um persónuvernd. Fyrirspurnum, athugasemdum eða ábendingum sem varða persónuupplýsingar og persónuvernd er hægt að beina til persónuverndarfulltrúa.
Persónuverndarfulltrúi héraðssaksóknara er með aðsetur hjá embætti ríkislögreglustjóra en sá er einnig persónuverndarfulltrúi allra lögreglustjóra, ríkissaksóknara og Fangelsismálastofnunar ríkisins. Er tilnefning hans byggð á heimild í lögum um persónuvernd, um sameiginlegan persónuverndarfulltrúa fleiri en eins stjórnvalds. Unnt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa í síma 444 2500 eða með því að senda tölvupóst á personuverndarfulltrui@logreglan.is.
Tengiliður héraðssaksóknara við persónuverndaryfirvöld og persónuverndarfulltrúa er lögfræðingur yfirstjórnar.
Vinnsla persónuupplýsinga hjá héraðssaksóknara, tilgangur vinnslunnar og grundvöllur
Hjá embætti héraðssaksóknara eru fimm meginstarfssvið. Saksóknarsvið 1, saksóknarsvið 2, rannsóknarsvið, rekstrar- og stjórnsýslusvið og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu. Á öllum starfssviðum er unnið með persónuupplýsingar.
Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga á þessum sviðum, utan rekstrar- og stjórnsýslusviðs, er að undirbúa, greina og rannsaka meinta refsiverða háttsemi og ljúka refsimeðferð sakamála. Einnig að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins, gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum. Þá er tilgangur vinnslunnar einnig að vinna að öðrum lögbundnum verkefnum sem lögreglu er ætlað samkvæmt 1. gr. lögreglulaga.
Hvað varðar rekstrar- og stjórnsýslusvið er að auki tilgangur vinnslu persónuupplýsinga sá að reka embætti héraðssaksóknara í samræmi við önnur lög og hlutverk í þágu stjórnsýslu og mannauðs sem þar starfar og almenns rekstrar.
Meginhlutverk embættis héraðssaksóknara er að annast meðferð ákæruvalds í sakamálum samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, einkum er varða alvarleg brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig rannsóknir sakamála er varða alvarleg fjármuna- og efnahagsbrot, brot gegn valdsstjórninni og brot lögreglumanna í starfi. Embættið annast einnig stjórnsýslumeðferð mála og rekstur í samræmi við fjöldamörg lög, m.a. lög um meðferð sakamála, stjórnsýslulög, lögreglulög, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og margvísleg önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru á grundvelli þessara laga.
Enn fremur spannar rekstur héraðssaksóknara ýmis lagafyrirmæli er varða rekstur stofnunar, þ.á m. lög um opinber fjármál, lög um fjárreiður ríkisins og lög um opinber innkaup. Starfrækir embættið einnig skrifstofu fjármálagreininga lögreglu en um þá starfsemi sérstaklega gilda lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, auk áðurnefndra lögreglulaga, stjórnsýslulaga og laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.
Ákvæði um rannsókn og saksókn er að finna í lögum um meðferð sakamála og reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Enn fremur er stuðst við útgefin fyrirmæli embættis ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvaldsins og getur gefið héraðssaksóknara bindandi fyrirmæli um meðferð sakamála.
Verkefni er varða ákærumeðferð og rannsóknir embættisins falla undir lög 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
Öll önnur verkefni embættisins er varða stjórnsýslu, rekstur, starfsmannahald, innkaup o.fl. falla undir lög 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 eins og hún var leidd í lög á Íslandi (svonefnd almenna persónuverndarreglugerðin).
Rannsókn sakamála og ákærumeðferð þeirra eru með vísan til laga 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi undanþegnar mörgum ákvæðum laga um persónuvernd, þ.m.t. ákvæðum um upplýsinga- og aðgangsrétt hins skráða að persónuupplýsingum um sig (takmarkaður aðgangur).
Embætti héraðssaksóknara vísar sakamálum til meðferðar dómstóla ef mál þykir vera nægjanlegt eða líklegt til sakfellis svo og einnig í tengslum við þvingunarráðstafanir samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Sé sakamáli ekki vísað til dómstóla lýkur héraðssaksóknari máli með endanlegri ákvörðun samkvæmt úrræðum laga um meðferð sakamála eða stjórnvaldsákvörðun samkvæmt stjórnsýslulögum ellegar vísar því til úrlausnar annars aðila samkvæmt lögum.
Um aðgang að upplýsingum og gögnum vegna meðferðar sakamáls hjá héraðssaksóknara gilda reglur laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, einkum ákvæði 37. og 47. gr. en einnig ákvæði fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 9/2017 um aðgang að gögnum sakamála sem er lokið.
Að öðru leyti og vegna stjórnsýslumála embættisins, verkefna sem tengjast innra starfi embættisins o.fl. gilda ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga um upplýsingarétt, 16. gr. sömu laga um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti og 17. gr. laganna um takmörkun á upplýsingarétti. Um upplýsingarétt almennings til aðgangs að gögnum og upplýsingum gilda jafnframt ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 með þeim takmörkunum og undantekningum sem leiða má af efni laganna en þar ber helst að nefna að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda þau ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn.
Hvaðan berast persónuupplýsingar
Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga er forsenda þess að héraðssaksóknari geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Persónuupplýsingar berast frá öðrum löggæslu- og eftirlitsstofnunum, einstaklingum og lögaðilum, t.d. fjármálafyrirtækjum, en einnig öðrum ríkisstofnunum og öðrum aðilum jafnt hér á landi sem erlendis.
Til hverra er persónuupplýsingum miðlað
Héraðssaksóknari afhendir persónuupplýsingar í samræmi við lagaskyldur þar að lútandi, t.d. til dómara, verjenda og réttargæslumanna í sakamálum, við vísun mála til annarra stofnana s.s. dómstóla, skattayfirvalda eða annarra stjórnvalda, svo og til einstaklinga eða lögaðila sem sýna fram á rétt til slíkra upplýsinga eða lögvarða hagsmuni af því að fá slíkar upplýsingar enda sé afhending gagna í samræmi við gildandi lög.
Réttindi hins skráða einstaklings og aðgangur hans að gögnum
Þrátt fyrir takmarkanir sem kunna að gilda um aðgang að gögnum og upplýsingum samkvæmt lögum um meðferð sakamála, stjórnsýslulögum og persónuverndarlögum, getur einstaklingur (hinn skráði) farið fram á að fá upplýsingar um vinnslu eigin persónuupplýsinga hjá héraðssaksóknara og enn fremur óskað eftir aðgangi að þeim. Er sérhver slík beiðni metin og tekin ákvörðun um hvaða upplýsingar eru veittar og hvernig fer með aðgang að þeim.
Trúnaður og þagnarskylda
Starfsfólk héraðssaksóknara hefur aðgang að þeim upplýsingum sem það þarf til að geta sinnt starfi sínu. Fer aðgangur eftir starfssviði hvers og eins og verkefnum sem viðkomandi annast.
Allt starfsfólk héraðssaksóknara er bundið þagnarskyldu samkvæmt lögum og helst þagnarskylda þótt látið sé af störfum. Við undirritun ráðningarsamnings skrifar starfsmaður undir yfirlýsingu um þagnarskyldu. Um þagnaskyldu starfsfólks héraðssaksóknara gilda einkum ákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga, svo og einnig 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála, 22. gr. lögreglulaga og 55. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ef brotið er gegn þagnarskyldu getur slíkt varðað refsingu samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga.
Þá gilda enn fremur leiðbeinandi tilmæli til starfsfólks héraðssaksóknara sem birt eru á innri vef embættisins, siðareglur ákærenda sem birtar eru m.a. á vef ríkissaksóknara, svo og einnig viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna sem birt eru á heimasíðu Stjórnarráðsins.
Öryggismál
Héraðssaksóknari ábyrgist að persónuupplýsingar sem óskað er eftir séu varðveittar á tryggum stað og að enginn óviðkomandi aðili hafi aðgang að þeim. Skal öll miðlun persónuupplýsinga vera í samræmi við lagaheimild, vera eingöngu á grundvelli lögskipaðra verkefna og þjóna málefnalegum tilgangi.
Tölvu- og upplýsingakerfi héraðssaksóknara eru rekin innan embættisins og hýst hjá því svo og hjá embætti ríkislögreglustjóra. Þau helstu eru málaskrárkerfið GoPro, landskerfi lögreglunnar sem eru málaskrá lögreglu og málaskrá ákæruvaldsins og tölvu- og upplýsingakerfi skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
Vefsíða héraðssaksóknara (ytri vefur) er hýst hjá Hugsmiðjunni á Íslandi og er engin tenging milli vefsíðunnar og annarra tölvu- og upplýsingakerfa embættisins. Embættið er einnig með innri vef sem geymir mikilvægar upplýsingar til starfsfólks er varða innri gæðareglur starfseminnar, fréttir og tilkynningar, fræðsluefni, upplýsingar um viðburði og aðrar upplýsingar sem eingöngu eru ætlaðar starfsfólki og starfsemi héraðssaksóknara. Innri vefur embættisins er einungis aðgengilegur starfsmönnum embættisins.
Tímaskráning starfsfólks fer fram í Vinnustund sem er hluti af Oracle (fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins). Embætti héraðssaksóknara er í greiðslu- og bókhaldsþjónustu hjá Fjársýslu ríkisins.
Varðveislutími
Persónuupplýsingar eru varðveittar meðan þörf er á þeim og verkefni embættisins og málefnalegar ástæður gefa tilefni til. Þá hagar embætti héraðssaksóknara skjalamálum sínum í samræmi við lög um opinber skjalasöfn og geymslutími og skilaskylda gagna fer samkvæmt þeim lögum. Þá gilda sérákvæði laga um meðferð sakamála um skil haldlagðra gagna og muna og upptöku.
Persónuvernd
Einstaklingur getur lagt fram kvörtun til Persónuverndar sem annast eftirlit á sviði persónuverndar, sbr. nánar https://www.personuvernd.is/.
Önnur ákvæði
Rýna skal persónuverndarstefnu embættisins, leggja mat á árangur af henni og framkvæmd einstakra þátta, meta þörf á endurskoðun og miðla upplýsingum um þessi efni eftir þörfum.
Embætti héraðssaksóknara
Reykjavík 14. maí 2020,
Ólafur Þór Hauksson