Reglur og leiðbeiningar
Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2022
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Útgáfa dómsúrlausna og markmið hennar
Um útgáfu dóma og úrskurða á öllum dómstigum og úrskurða Endurupptökudóms á vefsíðum dómstólanna fer eftir því sem segir í 6. mgr. 7., 20., 28. og 38. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og reglum þessum.
Útgáfa dómsúrlausna skal miða að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Auk þess er útgáfunni ætlað að styðja við fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð sem meðal annars er ætlað að veita dómstólum aðhald og stuðla að því að borgararnir geti treyst því að allir njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.
Við útgáfu dómsúrlausna skal gætt að stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og lagaákvæðum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
2. gr.
Frestur til útgáfu
Dómsúrlausn sem gefin er út samkvæmt reglum þessum skal að jafnaði gefin út á vefsíðu viðkomandi dómstóls innan fimm virkra daga frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar, þó eigi síðar en innan 14 virkra daga frá uppkvaðningu.
Dómsúrlausn skal þó ekki gefin út fyrr en liðin er að lágmarki ein klukkustund frá uppkvaðningu svo lögmanni, verjanda eða réttargæslumanni gefist ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu máls.
Landsréttur getur eigi að síður ákveðið að fresta útgáfu úrskurðar þar sem leyst er úr kröfu lögreglu eða ákæruvalds undir rannsókn sakamáls ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess.
3. gr.
Viðbótarupplýsingar
Með útgáfu á dómsúrlausn skal fylgja stutt lýsing á sakarefni máls og niðurstöðu þess. Enn fremur skulu fylgja útgáfu efnisorð (lykilorð/uppflettiorð) sem eiga við um mál auk þess sem tilgreina skal í leitarvél þau lagaákvæði sem reyndi á í máli.
4. gr.
Aðferðir til að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga
Unnt er að beita eftirfarandi aðgerðum við útgáfu dómsúrlausnar í þeim tilgangi að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga aðila dómsmáls eða annarra sem koma þar við sögu, eftir því sem nánar er tilgreint í reglunum.
Gefa dómsúrlausn ekki út, sbr. 6. og 7. gr.
Gæta nafnleyndar um þá sem greindir eru í dómsúrlausn í samræmi við 9. og 10. gr.
Afmá í dómsúrlausn upplýsingar í samræmi við 12. gr.
Nú verður ekki tryggt að leynd ríki um atriði sem leynt eiga að fara með því að fella út nöfn og/eða eftir atvikum afmá önnur atriði úr dómsúrlausn. Er þá heimilt í stað þess að gefa út dómsúrlausnina sjálfa að gefa út útdrátt þar sem meðal annars kemur fram á hverju niðurstaðan er reist. Jafnframt má ákveða að fresta útgáfu slíks útdráttar sé það til þess fallið að tryggja betur persónuvernd.
Ef sérstakar ástæður mæla með geta forstöðumenn dómstólanna ákveðið að gæta nafnleyndar eða afmá upplýsingar úr dómsúrlausn í ríkari mæli en leiðir af reglum þessum, svo sem ef útgáfa hennar án þess að nöfn eða aðrar upplýsingar séu afmáðar yrði sérstaklega þungbær fyrir aðila eða aðra eða vegna fámenns landsvæðis þar sem atvik máls gerðust eða eru tengd við.
II. KAFLI
Dómsúrlausnir sem gefa skal út
5. gr.
Útgáfa dómsúrlausna Hæstaréttar og Landsréttar
Gefa skal út allar dómsúrlausnir Landsréttar og Hæstaréttar.
Þegar dómsúrlausn Landsréttar eða dómur Hæstaréttar er gefinn út skulu fylgja viðeigandi dómsúrlausnir lægri réttar eða hlekkur á þær. Skal þá gætt að því að útgáfa á dómsúrlausnum lægri réttar sé í samræmi við ákvæði I., III. og IV. kafla reglna þessara þannig að markmiðum 1. gr. þeirra verði náð.
6. gr.
Útgáfa dómsúrlausna í héraði
Dómsúrlausnir í héraði sem fela í sér lyktir máls skulu gefnar út með þeim undantekningum sem fram koma í 2. mgr. þessarar greinar og 7. gr.
Ekki skal gefa út dómsúrlausnir í héraði þegar um er að ræða :
Kröfu um gjaldþrotaskipti.
Kröfu um opinber skipti.
Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar.
Beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
Mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.
Beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
Beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981.
Mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
Mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993.
Mál um erfðir.
Kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál).
Úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess.
Einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum.
Kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð.
7. gr.
Undanþáguheimildir um dómsúrlausnir í héraði
Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri með hliðsjón af hagsmunum málsaðila eða annarra sem getið er í dómsúrlausn ákveðið að vikið skuli frá ákvæðum 6. gr. Dómstjóri skal skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá.
Þegar um er að ræða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. er dómstjóri ekki bundinn af fresti samkvæmt 1. mgr. 2. gr.
8. gr.
Útgáfa úrskurða Endurupptökudóms
Gefa skal út úrskurði Endurupptökudóms ef sú dómsúrlausn sem leitað hefur verið eftir endurupptöku á hefur verið gefin út í samræmi við reglur þessar.
III. KAFLI
Um nafnleynd við útgáfu dómsúrlausna
9. gr.
Nafnleynd í einkamálum
Við útgáfu allra dómsúrlausna í einkamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir þegar í úrlausn er fjallað um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna, umgengni við þau og barnavernd. Sama á við þegar fram koma upplýsingar sem viðkvæmar teljast, þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar.
Við útgáfuna skal þá jafnframt má út önnur atriði úr henni sem geta ein og sér eða fleiri saman tengt aðila eða aðra við sakarefnið, svo sem fæðingardaga, heimilisföng, verknaðarstað og vettvang annarra atvika.
Þegar gætt er nafnleyndar skal hún að öðru jöfnu taka til matsmanna og þeirra sem láta í té sérfræði álit.
Nafnleyndar skal gæta um lögaðila ef gæta ber nafnleyndar um fyrirsvarsmann hans.
Við útgáfuna skal jafnframt huga að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.
10. gr.
Nafnleynd í sakamálum
Við útgáfu dóma í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur nema hann hafi ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið. Einnig skal gæta nafnleyndar um dómfellda ef birting á nafni hans getur verið andstæð hagsmunum brotaþola eða vitna svo sem vegna fjölskyldutengsla. Við mat á hagsmunum brotaþola skal leita sjónarmiða hans.
Þegar dómi í sakamáli er áfrýjað til æðri réttar skal gæta nafnleyndar um meðákærða, hvort sem hann hefur verið sakfelldur eða sýknaður, ef þeirri niðurstöðu hefur ekki verið áfrýjað til æðra dóms.
Í úrskurðum sem ganga undir rannsókn eða meðferð sakamáls skal Landsréttur gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir. Á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila.
Þegar svo stendur á að Landsréttur eða Hæstiréttur ákveður að gæta nafnleyndar í dómsúrlausn sinni skal ganga úr skugga um að nafnleyndar sé einnig gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs. Sé nafnleyndar ekki gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs skal æðra dómstigið óska eftir því að dómur lægra dómstigs verði endurútgefinn með nafnleynd áður en dómur æðra dómstigs er gefinn út.
Við útgáfuna skal jafnframt gæta að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.
Við útgáfu úrskurða Endurupptökudóms í sakamálum skal fara eftir ákvæðum greinarinnar eftir því sem við getur átt.
11. gr.
Nafnleynd eftir útgáfu dómsúrlausnar
Að liðnu ári frá því að dómsúrlausn í einkamáli eða sakamáli var gefin út og nafnleynd ekki viðhöfð getur sá sem í hlut á komið á framfæri við forstöðumann viðkomandi dómstóls beiðni um nafnleynd. Skal brugðist við slíkri beiðni svo skjótt sem auðið er.
IV. KAFLI
Um brottnám upplýsinga við útgáfu dómsúrlausnar
12. gr.
Um brottnám upplýsinga í einka- og sakamálum
Við útgáfu dómsúrlausnar skal nema brott upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna, upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar nema að því leyti sem slík atriði eru kjarni þess máls sem dómsúrlausn lýtur að. Sama á við þótt nafnleyndar hafi verið gætt ef nafnleyndin ein og sér nægir ekki til að vernda þá hagsmuni sem henni er ætlað að vernda.
Afmá skal kennitölur og heimilisföng úr öllum dómsúrlausnum áður en þær eru gefnar út.
Þegar upplýsingar hafa verið afmáðar úr dómsúrlausn skal þess gætt að það sem eftir stendur verði ekki tengt þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda.
Teljist nauðsynlegt að afmá úr dómsúrlausn upplýsingar í þeim mæli að dómsúrlausn, einstakir hlutar hennar eða samhengi verði við það torskilið er heimilt að setja inn í hina útgefnu dómsúrlausn, innan hornklofa, almennar upplýsingar um hvers konar atriði hafi verið afmáð þannig að útgáfan geti þjónað því markmiði sem henni er ætlað að þjóna samkvæmt 1. gr.
Ef nafnleynd tryggir nægilega vernd þeirra hagsmuna sem um ræðir er þó ekki þörf á að afmá upplýsingar úr dómsúrlausn eða eftir atvikum ekki í jafn ríkum mæli.
V. KAFLI
Ábyrgð á útgáfu, eftirlit og kvartanir
13. gr.
Ábyrgð á útgáfu dómsúrlausna
Hver dómstóll fyrir sig er útgefandi dóma og úrskurða sem þar eru kveðnir upp og ber ábyrgð á því að útgáfa þeirra sé í samræmi við reglur þessar.
14. gr.
Eftirlit
Dómstólasýslan fer með eftirlit með reglum þessum og getur komið ábendingum á framfæri um túlkun reglnanna og hvernig rétt sé að bregðast við varðandi framkvæmd þeirra í einstökum tilvikum, sbr. 2. og 3. mgr. 15. gr.
Dómstólasýslan getur að eigin frumkvæði ákveðið að kanna hvort útgáfa dóma sé í samræmi við reglur þessar og komið á framfæri við dómstól eða dómstóla athugasemdum eða ábendingum um túlkun og beitingu reglnanna.
15. gr.
Athugasemdir og kvartanir
Kvörtun eða athugasemd við útgáfu dómsúrlausnar á netinu skal beina til forstöðumanns þess dómstóls sem gefur úrlausnina út.
Hver sá sem telur að brotið hafi verið gegn reglum þessum við útgáfu dómsúrlausnar getur beint athugasemdum eða ábendingum til dómstólasýslunnar að undangenginni úrlausn kvörtunar til þess dómstóls sem stóð að útgáfu dómsúrlausnar.
Unnt er að beina til dómstólasýslunnar almennum athugasemdum eða ábendingum um framkvæmd útgáfu dómsúrlausna.
16. gr.
Tilkynningar
Verði dómstóll var við að útgáfa dómsúrlausnar samræmist ekki reglum þessum skal hann tilkynna dómstólasýslunni um frávikið án ótilhlýðilegrar tafar.
Feli frávikið í sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga skal dómstóllinn einnig tilkynna viðkomandi um það án ótilhlýðilegrar tafar. Dómstólasýslan gefur út leiðbeiningar um efni slíkrar tilkynningar.
17. gr.
Málsmeðferð
Við meðferð mála vegna ábendinga eða athugasemda skal farið eftir almennum reglum stjórnsýsluréttar eftir því sem við á.
VI. KAFLI
Heimild og gildistaka.
18. gr.
Gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. 41. gr. laga nr. 76/2019, og að höfðu samráði við þá dómstóla sem reglurnar varða. Reglurnar öðlast gildi 1. október 2022 og falla þá úr gildi reglur nr. 3/2019 um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
9. júní 2022
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar
Reglur um réttindi lögmanna við rekstur máls fyrir Hæstarétti Íslands
1. gr.
Til að flytja áfrýjað einkamál fyrir Hæstarétti þarf lögmaður að hafa málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti. Sömu réttindi þarf til að fá í sakamáli skipun sem verjandi eða réttargæslumaður eða til að flytja mál ákærða eða brotaþola fyrir réttinum.
Lögmanni sem hefur málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum og hefur fengið réttindi skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur er heimilt að flytja áfrýjað einkamál fyrir Hæstarétti og fá skipun í sakamáli sem verjandi eða réttargæslumaður eða til að flytja mál ákærða eða brotaþola fyrir réttinum.
Um heimild lögmanns í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að flytja mál fyrir réttinum fer eftir 3. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
2. gr.
Til að kæra úrskurð Landsréttar í einkamáli til Hæstaréttar og skila greinargerð vegna kæru í einkamáli, svo sem skylt er samkvæmt 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þarf lögmaður að hafa málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti.
3. gr.
Í sakamálum er lögmanni sem skipaður hefur verið verjandi eða réttargæslumaður fyrir Landsrétti heimilt að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar sem og að skila greinargerð til réttarins vegna kæru.
4. gr.
Lögmaður sem lætur frá sér fara kæru eða greinargerð skal undirrita hana sjálfur.
5. gr.
Lögmaður sem hefur málflutningsréttindi fyrir Landsrétti getur sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og tekið til andsvara vegna beiðni um slíkt leyfi.
Lögmaður sem hefur málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum getur sótt um leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar á dómi héraðsdóms til réttarins og tekið til andsvara vegna beiðni um slíkt leyfi.
Reglur þessar voru samþykktar af dómurum Hæstaréttar Íslands 15. október 2018.
Reykjavík, 16. október 2018
Þorsteinn A. Jónsson,
skrifstofustjóri.
Reglur Hæstaréttar um málsgögn í áfrýjuðum einkamálum nr. 434/2018.
1. gr.
Þegar áfrýjandi afhendir Hæstarétti áfrýjunarstefnu og greinargerð sína skal hann jafnframt skila málsgögnum á skrifstofu réttarins sem eru ágrip framlagðra skjala í héraði og eftir atvikum í Landsrétti. Til málsgagna teljast einungis þau málsskjöl og önnur gögn sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir, auk skjala sem stefndi reisti mál sitt á í héraði og eftir atvikum í Landsrétti og áfrýjandi má með réttu telja nauðsynleg vegna varna stefnda fyrir réttinum. Í málsgögnum skulu einnig vera endurrit þinghalda í héraði og eftir atvikum í Landsrétti og önnur gögn, sem mælt er fyrir um í reglum þessum.
Áfrýjandi skal afhenda Hæstarétti sjö eintök málsgagna. Afhenda skal stefnda, eða hverjum stefnda ef þeir eru fleiri en einn, eitt eintak málsgagna um leið og þau eru afhent Hæstarétti.
2. gr.
Áfrýjandi ber ábyrgð á gerð málsgagna og að þau séu í samræmi við þessar reglur. Hann skal hafa samráð við stefnda um gerð þeirra og hvaða skjölum, sem lögð voru fram í héraði og eftir atvikum Landsrétti, sé ofaukið vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti. Hann skal taka sanngjarnt tillit til sjónarmiða stefnda um hvaða skjöl eigi að vera í málsgögnum.
Nú greinir aðila á um hverra skjala sé þörf við gerð málsgagna og stefndi telur ástæðu til að þar séu skjöl sem áfrýjandi telur ofaukið og er stefnda þá heimilt að leggja þau fram af sinni hálfu. Í því tilviki ber hann ábyrgð á gerð þeirra málsgagna sem hann skilar.
Málsaðilum er skylt að gæta þess að ekki séu í málsgögnum, sem þeir afhenda Hæstarétti, skjöl sem engu skipta við úrlausn málsins fyrir réttinum og að þar sé aðeins eitt eintak af hverju skjali.
3. gr.
Nú er dómi Landsréttar áfrýjað til Hæstaréttar og er áfrýjanda þá heimilt að hafa röð þeirra skjala sem lögð voru fyrir Landsrétt í þeirri röð sem mælt er fyrir um í reglum Landsréttar um málsgögn í einkamálum. Skal röð skjala sem bæst hafa við frá meðferð málsins í Landsrétti vera sem hér segir:
a. Efnisskrá, sbr. 2. mgr. 4. gr.,
b. áfrýjunarstefna fyrir Landsrétti og greinargerð áfrýjanda, séu gögnin ekki þegar hluti málsgagna,
c. greinargerð stefnda fyrir Landsrétti, sé hún ekki þegar hluti málsgagna,
d. gagnáfrýjunarstefna fyrir Landsrétti og greinargerð í gagnsök ef því er að skipta,
e. ný skjöl sem lögð voru fram í Landsrétti, að því marki sem áfrýjandi telur, að teknu tilliti til sjónarmiða stefnda, að vera þurfi í málsgögnum. Skjölin skulu vera í tímaröð. Ótímasett skjöl skulu vera þar sem þau eiga helst heima miðað við efnislegt samhengi þeirra við önnur skjöl,
f. endurrit af bókunum í þingbók í Landsrétti í tímaröð,
g. endurrit af framburði málsaðila og vitna fyrir Landsrétti ef því er að skipta og að því leyti sem þörf er á vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti,
h. dómur Landsréttar, sem áfrýjað er,
i. áfrýjunarstefna,
j. greinargerð áfrýjanda.
Nú er héraðsdómi áfrýjað beint til Hæstaréttar og skal þá röð skjala í málsgögnum vera sem hér segir:
a. Efnisskrá, sbr. 3. mgr. 4. gr.,
b. héraðsdómsstefna og skrá um framlögð gögn við þingfestingu máls í héraði,
c. greinargerð stefnda í héraði,
d. gagnstefna í héraði og greinargerð í gagnsök ef því er að skipta,
e. framlögð skjöl í héraði, að því marki sem áfrýjandi telur, að teknu tilliti til sjónarmiða stefnda, að vera þurfi í málsgögnum. Skjölin skulu vera í tímaröð. Ótímasett skjöl skulu vera þar sem þau eiga helst heima miðað við efnislegt samhengi þeirra við önnur skjöl,
f. endurrit af bókunum í þingbók í héraði í tímaröð,
g. endurrit af framburði málsaðila og vitna fyrir héraðsdómi að því leyti sem þörf er á vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti,
h. dómur héraðsdóms, sem áfrýjað er,
i. áfrýjunarstefna,
j. greinargerð áfrýjanda.
4. gr.
Fremst í málsgögnum skal vera efnisskrá.
Nú er dómi Landsréttar áfrýjað til Hæstaréttar og er áfrýjanda þá heimilt að skipa efnisskrá vegna þeirra málsgagna sem lögð voru fyrir Landsrétt með sama hætti og þar var gert. Að auki skal hann bæta við nýrri efnisskrá vegna þeirra málsgagna sem bæst hafa við málið og skal henni skipað svo:
a. Í fyrsta kafla skal geta allra skjala í framlagningarröð í Landsrétti með réttu númeri og með vísan til blaðsíðutals í málsgögnum. Skulu blaðsíður tölusettar í framhaldi af blaðsíðutali þeirra málsgagna sem lögð voru fyrir Landsrétt. Tilgreina skal þau skjöl, sem lögð voru fram í Landsrétti en sleppt er í málsgögnum,
b. í öðrum kafla skal greina skjöl í þeirra röð sem þau koma fyrir í málsgögnum, sbr. e. lið 1. mgr. 3. gr., og geta blaðsíðutals í málsgögnum,
c. í þriðja kafla skal greina öll þinghöld í málinu í Landsrétti og vísa til síðutals í málsgögnum þar sem endurrit þinghalds er að finna,
d. í fjórða kafla skal geta nýrra skjala, sem lögð eru fyrir Hæstarétt með bókstafsmerkingum þeirra og jafnframt geta síðutals þar sem þau má finna í málsgögnum,
e. í fimmta kafla skal tiltaka nöfn þeirra sem komið hafa fyrir dóm við meðferð málsins í Landsrétti,
f. í sjötta kafla skal vera tímaskrá þar sem tilgreind eru öll meginatriði málsatvika í tímaröð ef þess gerist þörf vegna atvika sem gerst hafa eftir að málinu var áfrýjað til Landsréttar,
g. í sjöunda kafla skal vera í stuttu máli hlutlæg greining málsins og lýsing ágreiningsefna fyrir Hæstarétti. Hún skal vera stutt og svo glögg sem verða má,
Nú er héraðsdómi áfrýjað beint til Hæstaréttar og skal efnisskrá þá skipað svo:
a. í fyrsta kafla skal geta allra skjala í framlagningarröð í héraði með réttu númeri og með vísan til blaðsíðutals í málsgögnunum. Tilgreina skal þau skjöl, sem lögð voru fram í héraði, en sleppt er í málsgögnum,
b. í öðrum kafla skal greina skjöl í þeirri röð sem þau koma fyrir í málsgögnum, sbr. e. lið 2. mgr. 3. gr., og geta blaðsíðutals í málsgögnum,
c. í þriðja kafla skal greina öll þinghöld í málinu í héraði og vísa til síðutals í málsgögnum þar sem endurrit þinghalds er að finna,
d. í fjórða kafla skal geta nýrra skjala, sem lögð eru fyrir Hæstarétt með bókstafsmerkingum þeirra og jafnframt geta síðutals þar sem þau má finna í málsgögnum,
e. í fimmta kafla skal tiltaka nöfn þeirra sem komið hafa fyrir dóm við meðferð málsins í héraði,
f. í sjötta kafla skal vera tímaskrá þar sem tilgreind eru öll meginatriði málsatvika í tímaröð,
g. í sjöunda kafla skal vera í stuttu máli hlutlæg greining málsins og lýsing ágreiningsefna fyrir Hæstarétti. Hún skal vera stutt og svo glögg sem verða má.
Ef málsgögn eru í fleiri en einu hefti, skal auk síðutals tilgreina í hvaða bindi þau eru.
Nú skilar stefndi einnig málsgögnum af sinni hálfu og skal kaflaskipan í efnisskrá hans vera með sama hætti og hér greinir. Þó skal í efnisskrá stefnda einungis geta skjala, sem þar eru tekin upp.
5. gr.
Málsgögn skulu vera í einu bindi eða fleirum ef þarf. Á kápu skal greina nafn og númer máls og nöfn þeirra sem flytja málið fyrir Hæstarétti. Endurrit og ljósrit skjala skulu vera skýr og vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.
6. gr.
Nú er hluta skjals, sem lagt var fram í héraði eða eftir atvikum í Landsrétti, sleppt og skal þess þá getið sérstaklega í skjalinu þar sem úrfellingin er. Taka skal fram hve mörgum síðum er sleppt.
7. gr.
Málsgögn skulu vera með síðutali. Ný skjöl fyrir Hæstarétti skulu merkt með bókstöfum og skulu þau þeirra, sem komast í málsgögnin, jafnframt verða síðusett þar á viðeigandi hátt.
8. gr.
Uppdrættir, ljósmyndir og annað, sem ekki er unnt að hafa í málsgögnum þannig að vel fari, skulu vera í sérstöku bindi eða möppu. Það skal merkt með rómverskum tölum og skal þessara gagna getið þar í málsgögnum, sem þau væru ella.
9. gr.
Nú afhendir áfrýjandi eða stefndi málsgögn til Hæstaréttar sem eru í verulegu ósamræmi við reglur þessar og getur þá rétturinn, allt þar til 7 dögum fyrir flutning málsins, mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Nú er fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt og getur þá Hæstiréttur frestað máli þar til úr hefur verið bætt.
10. gr.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 180. gr. og 3. mgr. 183. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 29. gr. laga nr. 49/2016 og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 601/2014 um málsgögn í einkamálum.
Hæstarétti Íslands, 18. apríl 2018.
Þorgeir Örlygsson.
Þorsteinn A. Jónsson.
Reglur Hæstaréttar um málsgögn í áfrýjuðum sakamálum nr. 433/2018.
1. gr.
Þegar ríkissaksóknara hafa borist dómsgerðir samkvæmt 1. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og verjandi hefur verið skipaður, skal ríkissaksóknari í samráði við verjanda útbúa málsgögn. Til þeirra teljast afrit þeirra málskjala og endurrita sem aðilar telja þörf á við úrlausn málsins, eins og áfrýjun er háttað og nánar greinir í reglum þessum.
Hæstarétti skulu afhent málsgögn í sjö eintökum, svo og dómsgerðir.
Ríkissaksóknari skal afhenda verjanda ákærða eitt eintak málsgagna, nema verjandinn hafi óskað þess innan þriggja vikna frá skipun að fá tvö eintök.
2. gr.
Almennt skulu einungis tekin með í málsgögn þau skjöl er lögð voru fram í héraði og fyrir Landsrétti og þörf er á við flutning og úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.
Nú er dómi einungis áfrýjað um hluta þeirra ákæruliða, sem fjallað var um á lægra dómstigi, og skulu þá málsgögn aðeins hafa að geyma skjöl um þá liði, sem áfrýjun sæta.
Þegar dómi er áfrýjað með takmörkuðum hætti, sbr. a. til e. liði 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, skal takmarka málsgögn með hliðsjón af því í hvaða skyni áfrýjað er.
3. gr.
Nú telur ríkissaksóknari, eins og áfrýjun dóms er háttað, og að höfðu samráði við verjanda, að alls engin þörf sé á að taka í málsgögn tiltekin skjöl, sem lögð voru fram við meðferð máls í héraði eða Landsrétti, og skulu þau þá ekki vera meðal málsgagna sem lögð eru fram af hálfu ríkissaksóknara. Fallist verjandi ekki á að þau séu óþörf getur hann útbúið málsgögn af sinni hálfu, sem hafi að geyma þau málskjöl, sem hann telur nauðsynleg vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti og eru ekki þegar á meðal málsgagna.
4. gr.
Fremst í málsgögnum skal vera efnisskrá og skal skipan hennar og einstakra liða vera til samræmis við röðun málsgagna, eins og henni er lýst í 5. gr.
5. gr.
Málsgögn sem lögð voru fram fyrir Landsrétt skulu vera í þeirri röð sem mælt er fyrir um í reglum Landsréttar um málsgögn í sakamálum. Skjöl sem bæst hafa við frá því málsgögnum var skilað til Landsréttar skulu merkt með bókstöfum í áframhaldandi röð miðað við málsgögn fyrir Landsrétti og skulu, ef því er að skipta, geyma endurrit eða ljósrit eftirtalinna gagna í þessari röð, nema sérstakar ástæður mæli með annarri niðurröðun:
I. hluti-dómur Landsréttar og gögn tengd áfrýjun
Hinn áfrýjaða dóm ásamt birtingarvottorði og yfirlýsingu dómþola um áfrýjun, ef því er að skipta.
Áfrýjunarstefnu með áritun um birtingu.
Bréfaskipti sem lúta að áfrýjun, skipun verjanda og réttargæslumanns, ef því er að skipta, fyrir Hæstarétti.
Gögn um persónulega hagi ákærða, svo sem sakavottorð og annað sem talið er skipta máli við ákvörðun refsingar.
II. hluti-endurrit þinghalda, skýrslur fyrir dómi, dómsuppsaga
1. Endurrit þinghalda í málinu fyrir Landsrétti þar með talið af skýrslum fyrir dómi.
2. Tilgreiningu á þeim, sem skýrslu gáfu fyrir Landsrétti.
3. Endurrit þinghalds þar sem dómur var kveðinn upp.
III. hluti-réttarfarsgögn
Úrskurði um gæsluvarðhald sem kveðnir hafa verið upp eftir þingfestingu málsins í Landsrétti. Að öðru leyti nægir yfirlit frá Fangelsismálastofnun um gæsluvarðhaldsvist ákærða vegna rannsóknar málsins, nema ríkissaksóknari telji ástæðu til að láta einstaka úrskurði og dóma, ef því er að skipta, fylgja. Alltaf skal geta úrskurða og dóma í efnisskrá samkvæmt 4. gr.
IV. hluti-önnur gögn
Önnur gögn, sem haft geta þýðingu vegna ákvörðun refsingar, svo sem upplýsingar um ef brotið hefur falið í sér skilorðsrof á reynslulausn samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016.
V. hluti-önnur skjöl lögð fram í Landsrétti
1. Greinargerðir sem lagðar voru fram í Landsrétti.
2. Bókanir, sem kunna að hafa verið lagðar fram.
3. Önnur skjöl.
Skjöl innan hluta III til V skulu raðast eftir því sem unnt er í tímaröð.
6. gr.
Málsgögn skulu vera í einu bindi eða fleirum ef þarf. Á kápu skal greina nafn og númer máls fyrir Hæstarétti svo og nöfn þeirra sem flytja málið. Endurrit og ljósrit skjala skulu vera skýr og vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.
7. gr.
Ef hluta skjals, sem lagt var fram í héraði eða í Landsrétti, er sleppt skal þess getið sérstaklega á viðeigandi stað í skjalinu og þá jafnframt hve mörgum síðum er sleppt.
8. gr.
Málsgögn skulu vera með síðutali. Ný skjöl fyrir Hæstarétti skulu merkt með bókstöfum og þau þeirra, sem komast í málsgögnin, skulu jafnframt vera síðusett þar á viðeigandi hátt.
9. gr.
Uppdrættir, ljósmyndir og annað, sem ekki er unnt að hafa í málsgögnum þannig að vel fari, skulu vera í sérstöku bindi eða möppu. Það skal merkt með rómverskum tölum og skal þessara gagna getið þar í málsgögnum, sem þau væru ella.
10. gr.
Nú afhendir ríkissaksóknari, eða ákærði ef því er að skipta, málsgögn til Hæstaréttar sem eru í verulegu ósamræmi við reglur þessar og getur þá rétturinn, allt þar til 7 dögum fyrir flutning málsins, mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Nú er fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt og getur þá Hæstiréttur frestað máli þar til úr hefur verið bætt.
11. gr.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016 og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 600/2014 um málsgögn í sakamálum.
Hæstarétti Íslands, 18. apríl 2018.
Þorgeir Örlygsson.
Þorsteinn A. Jónsson.
Reglur Hæstaréttar um kærumálsgögn í einkamálum, nr. 140/2018
1. gr.
Þegar sóknaraðili sendir gögn kærumáls (kærumálsgögn) til Hæstaréttar samkvæmt 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu gögnin vera í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum.
Kærumálsgögn skulu vera í sex eintökum.
2. gr.
Sóknaraðili ber ábyrgð á að kærumálsgögn séu í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Hann skal, sé þess kostur, hafa samráð við varnaraðila um hvaða skjöl málsins skuli vera meðal kærumálsgagna.
Þegar málsaðilar senda Hæstarétti gögn samkvæmt reglum þessum skulu þau samtímis send gagnaðila.
3. gr.
Sóknaraðili skal gæta þess að meðal kærumálsgagna séu einungis þau skjöl sem sérstaklega er þörf á til úrlausnar þeim ágreiningi sem kærumálið varðar.
4. gr.
Fremst í kærumálsgögnum skal vera efnisyfirlit. Þar skal eftirfarandi koma fram, í þeirri röð sem að neðan greinir og skal vísað til blaðsíðutals í málsgögnum:
Listi um kærumálsgögn samkvæmt 5. gr.
Listi um öll framlögð skjöl málsins í héraði.
Listi um öll framlögð skjöl málsins í Landsrétti.
Yfirlit um þinghöld í málinu í héraði.
Yfirlit um þinghöld í málinu í Landsrétti.
Stutt hlutlæg greining á ágreiningsefnum kærumálsins og efni dómsmálsins.
5. gr.
Kærumálsgögn skulu vera sem hér greinir:
Hinn kærði úrskurður.
Endurrit þinghalda málsins í Landsrétti og eftir atvikum í héraði.
Kæra og greinargerð sóknaraðila.
Stefna til héraðsdóms eða annað sóknarskjal ef við á og greinargerð stefnda í héraði.
Áfrýjunarstefna og greinargerðir aðila fyrir Landsrétti.
Önnur skjöl, sem nauðsynleg eru til þess að leyst verði úr þeim ágreiningi sem til úrlausnar er í kærumálinu.
Ný skjöl, sem nauðsynleg teljast vegna kærumálsins.
Skjöl, sem getið er í 6. gr. þessara reglna.
Skjöl í töluliðum 6 og 7 skulu vera í tímaröð, nema ljóst sé að önnur röð sé heppilegri.
6. gr.
Sóknaraðili getur látið fylgja gögn sem staðfesta greiðslu útlagðs kostnaðar við kærumálið og yfirlit um tíma, sem unnið hefur verið við þann þátt málsins sérstaklega.
7. gr.
Kærumálsgögn skulu vera í einu bindi, eða fleirum ef þarf.
Á kápu skulu koma fram nöfn málsaðila fyrir Hæstarétti og skal sóknaraðili tilgreindur fyrstur.
Kærumálsgögn skulu vera með síðutali. Þau skulu vera skýr og vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.
8. gr.
Ef varnaraðili skilar greinargerð af sinni hálfu, sbr. 172. gr. laga nr. 91/1991, og telur þörf á fleiri gögnum til að leysa megi úr ágreiningnum í kærumálinu, en er að finna í kærumálsgögnum, getur hann látið þau fylgja greinargerð sinni. Skal hann láta fylgja skrá um þau gögn, sem hann leggur fram og skulu þau vera í tímaröð nema önnur röð sé heppilegri. Ef umfang þeirra skjala sem varnaraðili leggur fram er verulegt skulu þau vera í hefti og með síðutali og að öðru leyti í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Þá getur varnaraðili einnig látið fylgja gögn sem getið er í 6. gr.
9. gr.
Ef gerð kærumálsgagna er í verulegu ósamræmi við fyrirmæli þessara reglna, án þess að 2. mgr. 173. gr. laga nr. 91/1991 eigi við, getur Hæstiréttur mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Sé fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt getur rétturinn frestað máli þar til úr hefur verið bætt.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 29. gr. laga nr. 49/2016, og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum.
Hæstarétti Íslands, 25. janúar 2018
Þorgeir Örlygsson
Þorsteinn A. Jónsson
Leiðbeiningar
Unnt er að óska eftir nafnleynd þegar ár er liðið frá birtingu dómsúrlausnar. Fylltu út form á vef dómstólasýslunnar.