Fara beint í efnið
Hæstiréttur Íslands Forsíða
Hæstiréttur Íslands Forsíða

Hæstiréttur Íslands

Heimsókn til Hæstaréttar Bretlands

29. mars 2023

Hæstiréttur heimsótti Hæstarétt Bretlands 17. mars síðastliðin og hélt fund með sex af dómurum réttarins, þar með talið Lord Reed forseta dómsins og Lord Hodge varaforseta hans.

Einnig sátu fundinn Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, og Róbert Spanó fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.

Á fundi með dómurum beggja dómstólanna var fjallað um áhrif mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstólsins á rétt beggja landanna.

Bæði löndin hafa veitt mannréttindasáttmálanum lagagildi en það var gert í Bretlandi með lögum um mannréttindi (Human Right Act) frá árinu 1998. Í þeim lögum kemur meðal annars fram að túlka eigi bresk lög í samræmi við sáttmálann auk þess sem þar segir að taka eigi tillit til dómar Mannréttindadómstólsins. Aftur á móti hefur ekki verið sett skrifleg stjórnarskrá í Bretlandi svo mannréttindasáttmálinn hefur ekki sömu stöðu að því leyti og hér á landi eftir að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður árið 1995 í því skyni að tryggja samræmi hans við alþjóðlegar skuldbindingar.

Hæstiréttur Bretlands tók til starfa árið 2009 en áður starfaði æðsti dómstóll þjóðarinnar innan Lávarðadeildarinnar á Breska þinginu.

Myndin var tekin við þetta tækifæri.

Hæstiréttur Bretlands gaf út fréttatilkynningu þar sem sagt er frá fundinum en umfjöllunina má sjá hér: Hæstiréttur Bretlands - fréttatilkynning.