Fara beint í efnið
Hæstiréttur Íslands Forsíða
Hæstiréttur Íslands Forsíða

Hæstiréttur Íslands

Dómur í manndrápsmáli

21. júní 2023

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem AS, CS, MS og SQ voru ákærð fyrir manndráp með því að hafa í félagi staðið saman að því að svipta brotaþola lífi.

Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að sú þátttaka CS, MS og SQ sem lýst var í ákæru og það sem taldist sannað um þátt þeirra í skipulagningu og öðrum undirbúningi að því að AS gæti hitt brotaþola einan fyrir utan heimili hans fullnægði ekki þeim kröfum sem gera yrði til þess að þau teldust hlutrænt séð hafa verið aðalmenn í manndrápi á grundvelli verkskiptrar þátttöku. Þátttaka þeirra þriggja teldist hlutrænt séð vera hlutdeild í manndrápi.

Ákærðu voru dæmd til fangelsisrefsingar, AS í 16 ár, CS í 3 ár, MS í 4 ár og SQ í 10 ár. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að heimild skorti að lögum til að dæma AS til þyngri tímabundinnar refsingar en mælt er fyrir um í 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá væru ekki skilyrði til að ákveða honum refsingu með vísan til 2. mgr. 70. gr. sömu laga þar sem brot annarra hefðu verið hlutdeildarbrot. Við ákvörðun refsingar þeirra CS, MS og SQ var litið til þess að um hlutdeild í mjög alvarlegu broti væri að ræða. Þar sem þáttur CS og MS í undirbúningi þess þótti smávægilegur var refsing þeirra ákveðin með hliðsjón af 2. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.