Fara beint í efnið
Hæstiréttur Íslands Forsíða
Hæstiréttur Íslands Forsíða

Hæstiréttur Íslands

Ágreiningur um mörk tjáningarfrelsis gagnvart friðhelgi einkalífs

9. febrúar 2022

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem R höfðaði gegn A vegna tveggja nánar tiltekinna ummæla sem A viðhafði í útvarpsþætti. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál nyti aukinnar verndar tjáningarfrelsis og að A yrði játað rúmt frelsi til umræddrar tjáningar.

Skjaldarmerki

Það leiddi af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hefðu haslað sér völl á því sviði kynnu að þurfa að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan teldist eiga erindi við almenning.

Gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kynni þannig að vera hörð og óvægin án þess að hún sætti takmörkunum. Við heildstætt mat á ummælum A væri til þess að líta í hvaða samhengi ummælin hefðu verið viðhöfð og hvernig þau hefðu verið sett fram.

Taldi rétturinn að A hefði verið að fella gildisdóm um störf R sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum. Þótt ummælin hefðu verið óvægin var ekki talið að A hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns. Var A því sýknuð af kröfum R.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni.