ABOTA - samtökin heimsækja Hæstarétt
22. maí 2023
Laugardaginn 20. maí sl. tók Hæstiréttur á móti fjölmennum hópi lögmanna og dómara frá Bandaríkjunum. Hópurinn kom til landsins á vegum ABOTA-samtakanna (American Board of Trial Advocates) og dvaldi í nokkra daga.
Svo fjölmennur hópur hefur ekki áður verið saman kominn í dómsal réttarins en þar hélt Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar erindi um íslenska stjórnskipun og réttarfar. Einnig vék hann að samskiptum bandarískra og íslenskra lögfræðinga á liðnum áratugum.
Við þetta tækifæri flutti Eliza Reid forsetafrú erindi um bók hennar sem kom nýlega út og heitir Secrets of the Sprakkar. Í bókinni fjallar Eliza um ýmis málefni er lúta að lífi og störfum kvenna á Íslandi. Ræðir hún við konur á ólíkum sviðum þjóðfélagins sem hafa frá mörgu að segja og bregður upp litríkri mynd af nútímasamfélagi, kostum þess og göllum. Mikil ánægja var með erindi Elizu og fengu gestir bókina áritaða af henni.
Einnig flutti Carrin F. Patman sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi erindi um samskipti ríkjanna og helstu áskoranir sem þau standa frammi fyrir.
Að lokum tók til máls Steven W. Quattlebaum forseti ABOTA. Hann gerði stutta grein fyrir starfsemi samtakanna og þakkaði fyrir móttökurnar.