Fara beint í efnið
Blóðbankinn Forsíða
Blóðbankinn Forsíða

Blóðbankinn

Stofnfrumur

Blóðmyndandi stofnfrumur er að finna í beinmerg og eru þær forverar allra blóðfruma. Þær geta þroskast í sérhæfðari frumur svo sem rauð og hvít blóðkorn og blóðflögur í samræmi við þarfir líkamans.

Þegar fólk greinist með hvítblæði eða annan alvarlegan sjúkdóm er stofnfrumumeðferð stundum eina lækningin.

Stofnfrumuskipti

Við stofnfrumuskipti er stofnfrumum sjúklings skipt út fyrir stofnfrumur frá heilbrigðum einstaklingi. Sjúklingurinn fær kröftuga lyfjameðferð eða geisla og þannig eru stofnfrumur hans drepnar. Stofnfrumum frá heilbrigðum gjafa er safnað í sérstakan poka. Þær eru síðan gefnar sjúklingi í æð á sama hátt og gefið er blóð. Stofnfrumurnar rata úr blóðrásinni inn í holrúm beinanna og framleiða þar blóðfrumur eftir nokkrar vikur.

Hentugur stofnfrumugjafi

Mestar líkur er að finna hentugan stofnfrumugjafa innan fjölskyldunnar. Einnig er hægt að nota stofnfrumur úr öðrum ef heppilegur gjafi finnst.

Vilt þú skrá þig á stofnfrumugjafaskrá?

Stofnfrumugjafaskrá er listi yfir einstaklinga sem eru tilbúnir að gefa hluta af sínum blóðmyndandi stofnfrumum (haematopoietic stem cells) til sjúklinga sem þurfa á þeim að halda.

Eigin stofnfrumumeðferð

Hægt er að nota svokallaða eigin stofnfrumumeðferð (autologous hematopoietic stem cell transplantation) við ákveðnum tegundum illkynja sjúkdóma, ýmist í lækningaskyni eða til að bæta lífshorfur. Fjölmennasti hópurinn sem fær slíka meðferð eru sjúklingar með beinmergs- og eitlakrabbamein en meðferðinni er einnig beitt hjá sjúklingum með aðra illkynja sjúkdóma.

Meðferðin felur í sér að blóðmyndandi stofnfrumum sjúklings er safnað með blóðfrumuskilju (apheresis) að undangenginni krabbameinslyfjameðferð.

Stofnfrumum safnað

Til þess að hægt sé að safna stofnfrumum úr blóðrás er gefin sérstök meðferð sem kölluð er tilfærslumeðferð sem felst í gjöf krabbameinslyfja og vaxtarþáttar. Tilgangur tilfærslumeðferðarinnar er að örva beinmerginn til aukinnar framleiðslu á hvítum blóðkornum og að losa stofnfrumur úr beinmergnum út í blóðrásina svo að hægt sé að safna þeim þaðan.

Þegar nægjanlegt magn stofnfruma mælist í blóði sjúklings er stofnfrumum hans safnað með blóðfrumuskilju. Að söfnun lokinni eru stofnfrumurnar frystar og geymdar þar til sjúklingurinn þarf á þeim að halda í kjölfar háskammtalyfjameðferðar.

Háskammtameðferð

Markmið stofnfrumusöfnunar er að safna fullnægjandi magni stofnfruma svo að hægt sé að framkvæma eina háskammtameðferð. Yfirleitt er þó reynt að safna í tvær háskammtameðferðir hjá sjúklingum með mergæxli.

Háskammtameðferð er sterk krabbameinslyfjameðferð, sem ræðst ekki eingöngu á krabbameinsfrumumur líkamans heldur líka á heilbrigðar blóðfrumur. Meðferðin veldur miklum aukaverkunum á starfsemi beinmergs, og bælir framleiðslu á rauðum og hvítum blóðkornum og blóðflögum og getur þannig valdið blóðleysi, aukið hættu á sýkingum og blæðingahneigð.

Gjöf stofnfruma

Til þess að beinmergurinn jafni sig eftir svo kröftuga meðferð, þarf því að gefa stofnfrumur í æð í kjölfar háskammtameðferðar. Stofnfrumurnar finna sér leið úr blóðrásinni og inn í beinmerginn. Beinmergurinn fer aftur að starfa um einni til tveimur vikum eftir stofnfrumuígræðsluna þegar stofnfrumurnar byrja á ný að framleiða blóðfrumur eftir þörfum líkamans.

Myndband: Blóðbankinn og stofnfrumurannsóknir