Samsetning blóðs
Heilblóð
Blóð sem safnað er við blóðgjöf samanstendur af rauðum blóðkornum, hvítum blóðkornum, blóðflögum og blóðvökva. Þegar blóðgjafi hefur gefið blóð fer blóðpokinn í blóðhlutavinnsluna og er þar skipt upp í þessa blóðhluta með skilvindu. Þannig getur þú verið að bjarga allt að 2-3 einstaklingum með einni blóðgjöf.
Rauð blóðkorn
Aðalhlutverk rauðra blóðkorna er að flytja súrefni frá lungum til vefja líkamans og koltvísýring frá vefjum til lungna.
Rauð blóðkorn eru t.d. gefin til einstaklinga sem eru með lágar blóðbirgðir eða hafa orðið fyrir miklu blóðtapi.
Þau geymast í allt að 6 vikur í kæli.
Blóðflögur
Blóðflögur eru myndaðar í beinmerg. Þær gegna til dæmis hlutverki við stöðvun blæðinga og viðgerð æðaveggja. Blóðflögurnar streyma að skemmdinni, loða hver við aðra og mynda í raun tappa í sárinu.
Blóðflöguþykkni eru meðal annars gefin fólki í krabbameinsmeðferð en einnig notuð við miklar blæðingar, slys og flóknar aðgerðir, svo sem hjartaaðgerðir.
Blóðflögur eru mjög viðkvæmar og eru geymdar í sérstökum skápum við 22°C á stöðugri hreyfingu. Geymslutími er sjö sólarhringar.
Blóðvökvi (plasmi)
Blóðvökvi er sá vökvi sem frumur heilblóðs fljóta í og er að mestum hluta vatn. Einnig inniheldur hann hlaðin atóm, svokallaðar jónir (til dæmis kalíum, natríum og klóríð) og ýmis prótein eins og mótefni og storkuþætti.
Blóðvökvi er einkum notaður þegar bæta þarf tap á mikilvægum storkuþáttum, til dæmis við flóknar skurðaðgerðir, alvarlegar sýkingar, bruna og slys. Blóðvökvi er því mikið notaður við skurðaðgerðir og á gjörgæsludeildum.
Blóðvökvi er geymdur frystur við -30°C og er geymslutími allt að tvö ár.
Hvít blóðkorn
Hvítu blóðkornin eru stór hluti af ónæmiskerfi líkamans Hvít blóðkorn eru sérhæfðar frumur sem sjá um að eyða sýklum og öðrum aðskotaefnum úr líkamanum. Þau geta innihaldið mótefni og eru því síuð frá áður en blóð er gefið til sjúklinga.