Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

1355/2022

Reglugerð um hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið og hlutverk.

Markmið reglugerðar þessarar er að skýra nánar inntak og hlutverk hæfniramma um almenna og sérhæfða þekkingu, leikni og hæfni sem kennarar og skólastjórnendur skulu búa yfir vegna uppeldis‑, kennslu- og stjórnunarstarfa þeirra í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Hæfnirammanum er ætlað að veita viðurkenndum háskólum leiðsögn um inntak kennaramenntunar og útgáfu leyfisbréfa, vera grunnur að innra og ytra mati á gæðum skólastarfs og veita leiðsögn um ráðningar og starfsþróun kennara og skólastjórnenda.

2. gr. Gildissvið og orðskýringar.

Reglugerð þessi tekur til hæfniramma um viðmið um almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda sem starfa við leik-, grunn- eða framhaldsskóla, þ.m.t. hæfni kennara í íslensku.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

  1. Faggrein, námsgrein eða námssvið: Tilvísun í inntak náms, sbr. aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla.
  2. Farsæld barna: Aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.
  3. Greinasvið: Sérhæfing í ákveðnum faggreinum, námsgreinum eða námssviðum á grunnskólastigi.
  4. Hæfnirammi: Viðmið um almenna og sérhæfða hæfni sem kennarar og skólastjórnendur skulu búa yfir, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 95/2019. Um er að ræða nánari útfærslu á hæfni kennara og skólastjórnenda til að hagnýta þekkingu og leikni í samræmi við aldur og þroska nemenda, faggrein, námssvið og greinasvið viðkomandi skólastiga og aðstæður hverju sinni.
  5. Inngildandi skólastarf: Starfshættir skóla þar sem öllum nemendum er veitt gæðamenntun og gert er ráð fyrir margbreytileika nemendahópsins hvað varðar námslegar, félagslegar og þroskatengdar þarfir.
  6. Uppeldis- og kennslufræði/menntunarfræði: Kenningarlegur bakgrunnur skólastarfs og kennslu, sem og nám og þjálfun á vettvangi með ólíkar áherslur eftir skólastigum.

3. gr. Kennaramenntun.

Háskólum sem fengið hafa viðurkenningu til kennslu og rannsókna á sviði menntavísinda er heimilt að skipuleggja kennaranám sem felur í sér fjölbreyttar námsleiðir og kjörsvið í samræmi við ákvæði 5. gr. og 9. gr. laga nr. 95/2019 og taka mið af reglugerð þessari.

Háskólar skipuleggja kennaranám, sbr. 6. og 7. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

Menntun kennara tekur mið af þörfum samfélagsins og er í stöðugri þróun í samræmi við innlendar og alþjóðlegar rannsóknir í menntavísindum. Við skipulag námsleiða og kjörsviða í kennaranámi skal miða að því að tryggja traustar undirstöður almennrar og sérhæfðrar hæfni kennara og skólastjórnenda, ásamt því að leggja grunn að markvissri starfsþróun út starfsævina.

II. KAFLI Almenn og sérhæfð hæfni kennara.

4. gr. Almenn hæfni kennara.

Kennaranám, sbr. 9. gr. laga nr. 95/2019, leggur grunn að almennri hæfni kennara. Kennari skal leitast við að auka hæfni sína með markvissri starfsþróun.

Almenn hæfni kennara tekur til sjö hæfniþátta, sbr. 4. gr. laga nr. 95/2019 sem flokkast í eftirfarandi meginsvið:

  1. Uppeldis- og kennslufræði, sbr. 5. gr.
  2. Nám og kennslu, sbr. 6. gr.
  3. Samvinnu, samskipti og starfsþróun, sbr. 7. gr.
  4. Íslenskt mál, sbr. 8. gr.

Hæfniþættirnir taka mið af lögum og aðalnámskrám fyrir hvert skólastig.

Almenna hæfni má öðlast bæði með bóklegu og verklegu námi og má telja þannig einingar jafngildar. Verklegur þáttur í almennri hæfni skal að lágmarki fela í sér 10 staðlaðar námseiningar.

5. gr. Uppeldis- og kennslufræði.

Kennari þekkir og skilur:

  1. Hlutverk sitt við að standa vörð um og stuðla að menntun og farsæld barna. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. mæta námslegum, félagslegum og persónulegum þörfum nemenda og skipuleggja nám og kennslu út frá líkamlegum, tilfinningalegum og vitsmunalegum þroska þeirra,
    2. skilja hvernig bakgrunnur og reynsla nemenda hefur áhrif á nám, líðan, hegðun og samskipti, þ.m.t. sértækir námserfiðleikar og geð- og þroskaraskanir,
    3. bera kennsl á og bregðast við þörfum barna með ólíkan bakgrunn og
    4. nýta árangursríkar aðferðir til að hafa jákvæð áhrif á hegðun, líðan og félagsfærni barna og stuðla að farsæld þeirra.
  2. Inntak, aðferðir og orðræðu þeirra náms- og greinasviða sem hann kennir. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. aðlaga inntak faggreina, náms- og greinasviða í samræmi við aldur, þroska og þarfir nemenda,
    2. velja námsáherslur og kennsluaðferðir í samræmi við þekkingu og inntak faggreina, náms- og greinasviða,
    3. nýta tengsl ólíkra faggreina, náms- og greinasviða í kennslu og
    4. nýta stafræna tækni í kennslu.
  3. Helstu rannsóknar- og greiningaraðferðir og opinber stefnuskjöl sem nýtast í námi og kennslu. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. auka við þekkingu sína með aðferðum sem nýtast til ígrundunar og við mat á eigin starfi,
    2. nýta fjölbreyttar aðferðir í námi og kennslu, sem meðal annars styðja við inngildandi skólastarf og farsæld barna og
    3. meta gæði rannsókna á kennslu og skólastarfi og hagnýta niðurstöður við þróun eigin starfs.

6. gr. Nám og kennsla.

Kennari býr yfir færni til að:

  1. Skipuleggja og undirbúa nám og kennslu í þeim tilgangi að mæta námslegum markmiðum nemenda. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. setja viðeigandi námsmarkmið með nemendum og styðja við framfarir þeirra í námi,
    2. nýta gagnreyndar aðferðir við kennslu og bekkjar- eða hópstjórnun og
    3. ígrunda og aðlaga eigin kennsluaðferðir til að ná settum markmiðum.
  2. Beita fjölbreyttum kennsluháttum í samræmi við inntak og eðli námsefnis og þarfir nemenda. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. haga kennslu í samræmi við kröfur aðalnámskráa og námsbrautarlýsinga,
    2. nýta sveigjanlega náms- og kennsluhætti sem örva þroska og áhuga allra nemenda og mæta námslegum þörfum þeirra og
    3. beita kennsluháttum sem auka hæfni nemenda til að nota íslensku í námi, samskiptum og til virkrar þátttöku.
  3. Haga skipulagi og nýta tæki og gögn sem auðvelda nemendum námið og gera þeim kleift að taka þátt í skólastarfi á uppbyggilegan og öruggan hátt í samstarfi við aðra. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. skipuleggja nám og kennslu sem gerir ráð fyrir margbreytileika nemendahópsins og skapar öllum nemendum styðjandi námsumhverfi,
    2. nýta árangursríkar aðferðir sem stuðla að lýðræðislegri þátttöku allra nemenda og áhrifa á eigið nám og val í námi og
    3. nýta möguleika stafrænnar tækni í námi og kennslu.
  4. Leggja mat á og greina námsframvindu sem nýtist við undirbúning kennslu. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. nota fjölbreyttar námsmatsaðferðir sem stuðla að námi og leiða af sér raunhæft, réttmætt og áreiðanlegt mat á framvindu náms og þroska og
    2. greina viðeigandi upplýsingar til að geta hagað kennslu og skólastarfi í samræmi við markmið náms.

7. gr. Samvinna, samskipti og starfsþróun.

Kennari er fær um að taka þátt í:

  1. Faglegri samvinnu sem stuðlar að starfsþróun innan skólasamfélagsins með það að markmiði að styðja við nám, þroska, velferð og vellíðan nemenda. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. taka þátt í samstarfi sem lýtur að skipulagi náms og kennslu og aðbúnaði nemenda,
    2. leggja sitt af mörkum til að efla faglega þróun inngildandi skólastarfs og
    3. eiga í víðtæku samstarfi um nám og kennslu til að skapa hvetjandi námsumhverfi og jákvæðan skólabrag.
  2. Farsælum samskiptum við nemendur, foreldra og aðra innan skólasamfélagsins. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. mynda jákvæð tengsl við nemendur og vera fyrirmynd þeirra á sviði samskipta og samvinnu,
    2. eiga í uppbyggilegum samskiptum og skapa grundvöll samvinnu og
    3. vinna að upplýsingagjöf, samstarfi og samráði milli starfsfólks skóla og foreldra um nám og velferð nemenda.
  3. Starfsþróun sem stuðlar að því að auka eigin hæfni og vera faglegur leiðtogi alla starfsævina. Hann býr yfir hæfni til að:

    1. skapa umbótamiðað lærdómssamfélag,
    2. takast á við krefjandi aðstæður sem fylgja starfi með fjölbreyttum hópi nemenda,
    3. leysa vandamál og ágreining með lausnamiðuðum hætti,
    4. styðja við eigin velferð og annarra og
    5. taka ábyrgð á eigin starfsþróun.

8. gr. Íslenskt mál.

Megintungumál við kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum skal vera íslenska.

Kennari býr yfir hæfni til að:

  1. Leggja mat á og efla eigin málfærni í samræmi við sérhæfingu.
  2. Beita íslensku í ræðu og riti á viðeigandi og árangursríkan hátt, útskýra, rökstyðja og stuðla að málefnalegum umræðum.
  3. Beita kennsluháttum sem örva nemendur til að tjá sig, skapa og miðla þekkingu sinni á íslensku.
  4. Beita fjölbreyttum aðferðum í kennslu íslensks tungumáls.
  5. Nýta áhrif fjölmenningar, fjöltyngis og íslensku sem annars máls við nám og kennslu.

9. gr. Hæfni kennara í íslensku.

Við brautskráningu úr kennaranámi við íslenska háskóla skal kennari búa yfir hæfni í íslensku sem samsvarar að lágmarki C1 í Evrópska tungumálarammanum.

Einstaklingur sem lokið hefur kennaranámi innan EES og fengið útgefið íslenskt leyfisbréf, samkvæmt lögum nr. 26/2010 með síðari breytingum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, skal við umsókn um auglýst kennslustarf sýna fram á hæfni í íslensku í samræmi við skilgreindar kröfur í auglýsingu um starfið. Athugun á hæfni í íslensku fer fram eftir útgáfu leyfisbréfs í tengslum við ráðningu í kennslustarf.

Kröfur um hæfni í íslensku skulu miðast við það starf sem auglýst er en að jafnaði skal miða við að hæfni í íslensku sé samsvarandi C1 í Evrópska tungumálarammanum. Heimilt er að skilgreina aðrar kröfur um íslenskuhæfni með hliðsjón af því starfi sem umsækjanda er ætlað að sinna, til dæmis kennslu í erlendum tungumálum eða kennslu í skólum sem starfa á grundvelli alþjóðlegra námskráa.

Sá sem fer með ráðningu metur íslenskuhæfni umsækjanda. Mat á hæfni í íslensku skal miðast við það starf sem sótt er um og viðkomandi er ætlað að sinna.

10. gr. Sérhæfð hæfni kennara.

Sérhæfð hæfni kennara tekur mið af aldri og þroska nemenda, faggrein, námssviði, greinasviði, starfsmenntun eða öðrum þáttum sem tengjast námi og kennslu, námsumhverfi og skólastarfi.

Sérhæfð hæfni kennara tekur mið af fjölbreyttum veruleika skólastarfs og leggja skal áherslu á að menntun kennara og skólastjórnenda haldist í hendur við þróun skólastarfs og starfsþróun.

Kennari með sérhæfingu á leikskólastigi hefur lokið að lágmarki 90 stöðluðum námseiningum í námssviðum aðalnámskrár leikskóla, til viðbótar þeim 60 stöðluðu námseiningum sem snúa að almennri hæfni kennara.

Kennari með sérhæfingu á að lágmarki einu námssviði á leikskólastigi hefur lokið að lágmarki 90 stöðluðum námseiningum á viðkomandi námssviði, til viðbótar þeim 60 stöðluðu námseiningum sem snúa að almennri hæfni kennara.

Kennari með sérhæfingu á grunnskólastigi hefur lokið að lágmarki 90 stöðluðum námseiningum í greinasviðum aðalnámskrár grunnskóla, til viðbótar þeim 60 stöðluðu námseiningum sem snúa að almennri hæfni kennara.

Kennari með sérhæfingu á ákveðnu greinasviði eða í ákveðinni námsgrein á grunnskólastigi hefur lokið að lágmarki 90 stöðluðum námseiningum á viðkomandi greinasviði eða í námsgrein, til viðbótar þeim 60 stöðluðu námseiningum sem snúa að almennri hæfni kennara. Sérhæfinguna skal öðlast með að lágmarki 60 stöðluðum námseiningum á viðkomandi greinasviði eða í námsgrein, auk að lágmarki 30 staðlaðra námseininga í kennslufræði viðkomandi greinasviðs eða námsgreinar.

Kennari með sérhæfingu í námsgrein á framhaldsskólastigi þarf að lágmarki að ljúka 120 stöðluðum námseiningum í viðkomandi námsgrein, til viðbótar þeim 60 stöðluðu námseiningum sem snúa að almennri hæfni kennara.

Kennari með sérhæfingu í löggiltri starfsgrein á framhaldsskólastigi eða í verkgrein á grunnskólastigi þarf að lágmarki að ljúka 60 stöðluðum námseiningum sem snúa að almennri hæfni kennara.

Kennari með sérhæfingu í viðfangsefnum skólastarfs þvert á skólastig, þarf að lágmarki að ljúka 90 stöðluðum námseiningum í viðkomandi sérhæfingu, til viðbótar þeim 60 stöðluðu námseiningum sem snúa að almennri hæfni kennara.

Sérhæfða hæfni má öðlast bæði með bóklegu og verklegu námi og má telja þannig einingar jafngildar.

III. KAFLI Sérhæfð hæfni skólastjórnenda.

11. gr. Sérhæfð hæfni skólastjórnenda.

Skólastjórnandi í leik-, grunn- eða framhaldsskóla býr, auk almennrar hæfni, yfir sérhæfðri hæfni sem snýr að skólaþróun, stjórnun, rekstri og stjórnsýslu, sbr. 5. gr. laga nr. 95/2019.

Við sérhæfingu skólastjórnenda skal lagður grunnur að hæfni á eftirfarandi sviðum:

  1. Faglegri forystu um þróun náms og kennslu og farsæld nemenda.
  2. Samskiptum og samvinnu innan skóla og utan.
  3. Mannauðsmálum og velferð.
  4. Fjármálum og rekstri.

Skólastjórnandi skal búa yfir:

  1. Þekkingu á þeim lögum, reglugerðum og öðrum opinberum fyrirmælum sem varða skólastarf og hæfni til að leiða skólastarf í samræmi við markmið og ákvæði laga.
  2. Hæfni í að leiða daglegt, umbótamiðað skólastarf, m.a. með tilliti til fjármála, reksturs og mannauðs.
  3. Þekkingu og hæfni til að leiða og styðja við lærdómssamfélag innan skóla með formlegum og óformlegum hætti.
  4. Þekkingu og hæfni til að veita faglega forystu við náms- og gæðamat skóla.
  5. Hæfni til að eiga samskipti við ólíka aðila innan og utan skóla og stuðla að samvinnu og samstarfi aðila innan og utan skólasamfélagsins.
  6. Þekkingu á þróun, straumum og stefnum í menntavísindum og skólastarfi.
  7. Þekkingu á möguleikum og takmörkunum stafrænnar tækni í skólastarfi, bæði með tilliti til rekstrar og skólaþróunar.
  8. Þekkingu og hæfni til að standa vörð um og stuðla að farsæld barna og ungmenna í skólastarfi.

IV. KAFLI Önnur ákvæði.

12. gr. Starfsþróun kennara og skólastjórnenda.

Kennarar og skólastjórnendur starfa í þágu menntunar og farsældar nemenda og skulu með starfsþróun sinni leggja áherslu á að auka við hæfni sína, skv. reglugerð þessari.

Starfsþróun kennara og skólastjórnenda og skólaþróun skal vera markviss þáttur í skólastarfi og taka mið af menntastefnu stjórnvalda og starfsþróunaráætlunum skóla.

Leitast skal við að kennari sem hefur störf við leik-, grunn- eða framhaldsskóla njóti starfstengdrar leiðsagnar til allt að tveggja ára. Miða skal við að leiðsögnin sé á ábyrgð kennara með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæði 8. gr. laga nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 872/2009 um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.

Mennta- og barnamálaráðuneytinu, 22. nóvember 2022.

Ásmundur Einar Daðason.

Erna Kristín Blöndal.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.