Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 7. des. 2022

451/2017

Reglugerð breytingu á reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, nr. 872/2009.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Orðskýringar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

Faggrein merkir kennslugrein eða námssvið, sbr. aðalnámskrár ólíkra skólastiga.

Námssvið vísar til sérhæfingar í ákveðnum viðfangsefnum skólastarfs þvert á námsgreinar og skólastig.

Uppeldis- og kennslufræði felur í sér kenningarlegan bakgrunn skólastarfs og kennslu svo og nám og þjálfun á vettvangi með ólíkar áherslur eftir skólastigum.

2. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Inntak í menntun leikskólakennara.

Til þess að uppfylla skilyrði um menntun leikskólakennara skal inntak og vægi menntunar a.m.k. vera sem hér segir:

Í meistaraprófi frá háskóla skal uppeldis- og kennslufræði ásamt námi og þjálfun á vettvangieigi vera minna en 120 staðlaðar námseiningar og nám í faggreinum sem tengist námssviðum leikskólans eigi vera minna en 90 staðlaðar námseiningar. Um getur verið að ræða eina eða fleiri faggreinar eða námssvið.

3. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Inntak í menntun grunnskólakennara.

Til þess að uppfylla skilyrði um menntun grunnskólakennara skal inntak og vægi menntunar a.m.k. vera sem hér segir:

  1. Í meistaraprófi frá háskóla skal uppeldis- og kennslufræði ásamt námi og þjálfun á vettvangi eigi vera minna en 120 staðlaðar námseiningar og nám í faggreinum eigi vera minna en 120 staðlaðar námseiningar.
  2. Í lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á grunnskólastigi er að lágmarki krafist 270 staðlaðra námseininga, þar af skal uppeldis- og kennslufræði ásamt námi og þjálfun á vettvangi vera að lágmarki 60 staðlaðar námseiningar.
  3. Í prófi til meistararéttinda í iðngrein eða öðru faggreinanámi sem ráðherra viðurkennir og sem nýtist til kennslu á grunnskólastigi í skilgreindri faggrein, skal uppeldis- og kennslufræði ásamt námi og þjálfun á vettvangi vera að lágmarki 60 staðlaðar námseiningar.

4. gr.

6. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Inntak í menntun framhaldsskólakennara.

Til þess að uppfylla skilyrði um menntun framhaldsskólakennara skal inntak og vægi menntunar a.m.k. vera sem hér segir:

  1. Í meistaraprófi frá háskóla skal uppeldis- og kennslufræði ásamt námi og þjálfun á vettvangi eigi vera minna en 60 staðlaðar námseiningar og nám í faggreinum eigi vera minna en 180 staðlaðar námseiningar í aðalkennslugrein.
  2. Í lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi er að lágmarki krafist 270 staðlaðra námseininga, þar af skal uppeldis- og kennslufræði ásamt námi og þjálfun á vettvangi vera að lágmarki 60 staðlaðar námseiningar.
  3. Í prófi til meistararéttinda í iðngrein eða öðru fagnámi sem ráðherra viðurkennir og nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, skal uppeldis- og kennslufræði ásamt námi og þjálfun á vettvangi vera að lágmarki 60 staðlaðar námseiningar.

5. gr.

Heiti III. kafla reglugerðarinnar orðast svo: Sérhæfing til kennslu á fleiri skólastigum o.fl.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 8. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 12. maí 2017.

Kristján Þór Júlíusson.

Karitas H. Gunnarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.