Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Breytingareglugerð

1286/2022

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

1. gr.

Á eftir 24. gr. reglugerðarinnar kemur nýr kafli, III. kafli A, með fjórum nýjum greinum, sem orðast svo ásamt fyrirsögnum:

a.

24. gr. a Gildissvið.

Þessi kafli gildir um brennsluver þar sem nafnvarmaafl er jafnt og eða meira en 1 MW og minna en 50 MW ("meðalstór brennsluver"), óháð þeirri eldsneytistegund sem þau nota.

Þessi kafli gildir einnig um samsetningu sem mynduð er af meðalstórum brennsluverum skv. 24. gr. b, þ.m.t. samsetning þar sem heildarnafnvarmaafl er jafnt og eða meira en 50 MW, nema samsetningin myndi brennsluver sem fellur undir III. kafla tilskipunar 2010/75/ESB.

Þessi kafli gildir ekki um:

  1. brennsluver sem falla undir III. eða IV. kafla tilskipunar 2010/75/ESB,
  2. brennsluver sem falla undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/68/EB,
  3. brennsluver á býlum með heildarnafnvarmaafl jafnt og eða minna en 5 MW, sem eingöngu nota óunninn alifuglaáburð, eins og um getur í a-lið 9. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009, sem eldsneyti,
  4. brennsluver þar sem loftkenndar brennsluafurðir eru nýttar við beina hitun, þurrkun eða hverja aðra meðhöndlun hluta eða efna,
  5. brennsluver þar sem loftkenndar brennsluafurðir eru nýttar við beina gaskynta hitun sem notuð er til að hita rými innandyra í þeim tilgangi að bæta aðstæður á vinnustað,
  6. eftirbrennsluver sem hönnuð eru til að hreinsa úrgangsloft úr iðnaðarferlum með brennslu og sem eru ekki starfrækt sem sjálfstæð brennsluver,
  7. hvers kyns tæknibúnað sem er notaður til að knýja ökutæki, skip eða loftfar,
  8. gashverfla og gas- og dísilhreyfla sem eru notaðir á grunnsævispöllum,
  9. búnað til að endurvinna sundrunarhvata,
  10. búnað til að breyta brennisteinsvetni í brennistein,
  11. hvarftanka sem eru notaðir í efnaiðnaði,
  12. koksofnasamstæður,
  13. Cowper-hitablásara,
  14. líkbrennslustöðvar,
  15. brennsluver sem brenna hreinsunarstöðvaeldsneyti, eingöngu eða ásamt öðru eldsneyti, til orkuframleiðslu í jarðolíu- og gashreinsunarstöðvum,
  16. endurnýtingarsuðukatla innan stöðva fyrir framleiðslu pappírsmauks.

Þessi kafli gildir ekki um rannsóknarstarfsemi, þróunarstarf eða prófanir sem varða meðalstór brennsluver.

b.

24. gr. b Samlegð.

Samsetning sem er mynduð af tveimur eða fleiri meðalstórum brennsluverum skal teljast vera eitt meðalstórt brennsluver að því er varðar þennan kafla og skal leggja nafnvarmaafl þeirra saman í þeim tilgangi að reikna út heildarnafnvarmaafl brennsluversins, ef:

úrgangsloft frá slíkum meðalstórum brennsluverum er losað gegnum sameiginlegan reykháf eða
úrgangsloft frá slíkum meðalstórum brennsluverum gæti, að mati Umhverfisstofnunar og að teknu tilliti til tæknilegra og efnahagslegra þátta, verið losað gegnum sameiginlegan reykháf.

c.

24. gr. c Viðmiðunarmörk fyrir losun.

Með fyrirvara um II. kafla tilskipunar 2010/75/ESB skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í XI. viðauka gilda um meðalstór brennsluver.

Frá 1. janúar 2025 skal losun brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og ryks út í andrúmsloftið frá starfandi meðalstóru brennsluveri með nafnvarmaafl sem er meira en 5 MW ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í töflu 2 og 3 í 1. hluta XI. viðauka.

Frá 1. janúar 2030 skal losun brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og ryks út í andrúmsloftið frá starfandi meðalstóru brennsluveri með nafnvarmaafl sem er jafnt og eða minna en 5 MW ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í töflu 1 og 3 í 1. hluta XI. viðauka.

Umhverfisstofnun getur veitt starfandi meðalstórum brennsluverum, sem ekki eru starfrækt í meira en 500 rekstrarstundir á ári samkvæmt hlaupandi meðaltali á fimm ára tímabili, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í töflu 1, 2 og 3 í 1. hluta XI. viðauka.

Umhverfisstofnun getur framlengt mörkin skv. 4. mgr. í 1.000 rekstrarstundir í eftirfarandi neyðartilvikum eða við eftirfarandi sérstakar aðstæður:

fyrir framleiðslu varaafls á tengdum eyjum ef truflun verður í aðalaflgjöfum eyjar,
fyrir meðalstór brennsluver sem notuð eru til hitaframleiðslu ef óvenju kalt er í veðri.

Í öllum tilvikum skulu viðmiðunarmörk fyrir losun á ryki, sem nema 200 mg/Nm3, gilda um brennsluver sem brenna eldsneyti í föstu formi.

Starfandi meðalstór brennsluver, sem eru hluti af litlu, einangruðu kerfi (SIS) eða einangruðu örkerfi (MIS), skulu fara að viðmiðunarmörkunum fyrir losun sem sett eru fram í töflu 1, 2 og 3 í 1. hluta XI. viðauka frá 1. janúar 2030.

Til 1. janúar 2030 getur Umhverfisstofnun veitt starfandi meðalstórum brennsluverum, með nafnvarmaafl sem er meira en 5 MW, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í XI. viðauka að því tilskildu að minnst 50% af nýtanlegri hitaframleiðslu brennsluversins, sem hlaupandi meðaltal yfir 5 ára tímabil, séu afhent sem gufa eða heitt vatn inn á almennt net fyrir fjarhitun. Komi til slíkrar undanþágu skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun ekki fara yfir 1.100 mg/Nm3 fyrir brennisteinstvíoxíð og 150 mg/Nm3 fyrir ryk.

Til 1. janúar 2030 getur Umhverfisstofnun veitt meðalstórum brennsluverum, sem brenna föstum lífmassa sem aðaleldsneyti og eru staðsett á svæðum þar sem, samkvæmt mati sbr. tilskipun 2008/50/EB, samræmi við viðmiðunarmörkin í þeirri tilskipun er tryggt, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun á ryki sem sett eru fram í XI. viðauka. Komi til slíkrar undanþágu skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun ekki fara yfir 150 mg/Nm3 fyrir ryk.

Umhverfisstofnun skal í öllum tilvikum tryggja að ekki sé valdið neinni umtalsverðri mengun og að háu umhverfisverndarstigi fyrir umhverfið í heild sé náð.

Til 1. janúar 2030 getur Umhverfisstofnun veitt starfandi meðalstórum brennsluverum, með nafnvarmaafl sem er meira en 5 MW og sem eru notuð til að keyra gasþjöppustöðvar sem krafist er til að tryggja öryggi og vernd landsbundins flutningskerfis jarðgass, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun köfnunarefnisoxíða sem sett eru fram í töflu 3 í 1. hluta XI. viðauka.

Frá 20. desember 2018 skal losun brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og ryks út í andrúmsloftið frá nýju meðalstóru brennsluveri ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta XI. viðauka.

Umhverfisstofnun getur veitt nýjum meðalstórum brennsluverum, sem ekki eru starfrækt í meira en 500 rekstrarstundir á ári samkvæmt hlaupandi meðaltali á þriggja ára tímabili, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta XI. viðauka. Komi til slíkrar undanþágu skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun á ryki, sem nema 100 mg/Nm3, gilda um brennsluver sem brenna eldsneyti í föstu formi.

Á svæðum eða hlutum svæða sem uppfylla ekki viðmiðunarmörk fyrir loftgæði, sem mælt er fyrir um í tilskipun 2008/50/EB, skal Umhverfisstofnun að því er varðar einstaka meðalstór brennsluver á þessum svæðum eða hlutum svæða, meta þörfina á því að beita strangari viðmiðunarmörkum fyrir losun en þeim sem sett eru fram í þessum kafla, sem hluta af þróun áætlana um loftgæði sem um getur í 23. gr. tilskipunar 2008/50/EB að því tilskildu að beiting slíkra viðmiðunarmarka fyrir losun myndi stuðla á skilvirkan hátt að merkjanlega betri loftgæðum.

Umhverfisstofnun getur veitt meðalstóru brennsluveri, sem að öllu jöfnu notar eldsneyti með litlum brennisteini, undanþágu í allt að sex mánuði frá kröfunni um viðmiðunarmörk losunar á brennisteinsdíoxíði, þegar rekstraraðilinn er ófær um að virða þessi viðmiðunarmörk fyrir losun vegna þess að aðföng á brennisteinslitlu eldsneyti hafa brugðist sökum alvarlegs skorts á því.

Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá skyldunni til að fara að viðmiðunarmörkum fyrir losun í tilvikum þar sem meðalstórt brennsluver sem notar aðeins loftkennt eldsneyti verður í sérstöku undantekningartilviki að grípa til notkunar annars eldsneytis vegna skyndilegs rofs á framboði á gasi og myndi af þeim sökum þurfa að vera búið aukahreinsibúnaði. Tímabilið sem slík undanþága er veitt fyrir skal ekki vera lengra en tíu dagar nema þegar rekstraraðilinn sýnir Umhverfisstofnun fram á að færð séu rök fyrir lengra tímabili.

Þegar meðalstórt brennsluver notar samtímis tvær eða fleiri eldsneytistegundir skulu viðmiðunarmörk fyrir losun hvers mengunarefnis reiknuð út með því að:

  1. nota viðmiðunarmörkin fyrir losun sem gilda fyrir hverja eldsneytistegund eins og sett er fram í XI. viðauka,
  2. ákvarða vegin viðmiðunarmörk fyrir losun fyrir hverja eldsneytistegund, en þau fást með því að margfalda einstök viðmiðunarmörk fyrir losun sem um getur í a-lið með varmagildi hverrar eldsneytistegundar og deila í hvert margfeldi með samanlögðu varmagildi allra eldsneytistegundanna, og
  3. leggja saman vegin viðmiðunarmörk losunar fyrir hverja eldsneytistegund.

d.

24. gr. d Skyldur rekstraraðila brennsluvers.

Rekstraraðili brennsluver skal annast vöktun á losun í samræmi við a.m.k. 1. hluta XII. viðauka.

Fyrir meðalstór brennsluver sem nota margs konar eldsneyti skal vöktun á losun fara fram við brennslu á eldsneyti eða eldsneytissamsetningum sem líklegt er að hafi í för með sér mestu losun og á tímabili sem samsvarar venjulegum notkunaraðstæðum.

Rekstraraðili brennsluvers skal halda skrá um og vinna úr öllum niðurstöðum vöktunarinnar með þeim hætti að hægt sé að sannreyna að farið sé að viðmiðunarmörkum fyrir losun í samræmi við reglurnar sem settar eru fram í 2. hluta XII. viðauka.

Fyrir meðalstór brennsluver sem nota auka hreinsibúnað til að uppfylla viðmiðunarmörkin fyrir losun skal rekstraraðili halda skrá yfir eða geyma upplýsingar sem sýna fram á að búnaðurinn starfi á skilvirkan og stöðugan hátt.

2. gr.

Við reglugerðina bætast tveir nýir viðaukar, XI. viðauki og XII. viðauki, sem eru birtir með þessari reglugerð.

3. gr.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2193 frá 25. nóvember 2015 um takmörkun á losun tiltekinna mengunarefna frá meðalstórum brennsluverum út í andrúmsloftið, sem vísað er til í tölulið 21azf XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 183/2021, þann 11. júní 2021.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 23. nóvember 2022.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Stefán Guðmundsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.