Prentað þann 21. nóv. 2024
550/2018
Reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Markmið, skilgreiningar og stjórn.
- II. KAFLI Starfsleyfi.
- 5. gr. Starfsleyfi.
- 6. gr. Útgáfa starfsleyfis.
- 7. gr. Skráningarskylda.
- 8. gr. Starfsleyfisskilyrði.
- 9. gr. Viðmiðunarmörk.
- 10. gr. Vöktun.
- 11. gr. Umhverfisgæðakröfur.
- 12. gr. Þróun á bestu aðgengilegu tækni.
- 13. gr. Breytingar á starfsemi.
- 14. gr. Endurskoðun á starfsleyfisskilyrðum.
- 15. gr. Lokun svæðis.
- 16. gr. Áhrif yfir landamæri.
- 17. gr. Tækninýjungar.
- III. KAFLI Brennsluver.
- 18. gr. Gildissvið.
- 19. gr. Samlegðarreglur.
- 20. gr. Viðmiðunarmörk fyrir losun.
- 21. gr. Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum.
- 22. gr. Gangtruflun eða bilun í hreinsibúnaði.
- 23. gr. Vöktun losunar út í andrúmsloft.
- 24. gr. Brennsluver sem brenna margs konar eldsneytistegundum.
- 24. gr. a Gildissvið.
- 24. gr. b Samlegð.
- 24. gr. c Viðmiðunarmörk fyrir losun.
- 24. gr. d Skyldur rekstraraðila brennsluvers.
- IV. KAFLI Brennslustöðvar.
- 25. gr. Gildissvið.
- 26. gr. Skilgreining á brennsluleif.
- 27. gr. Umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð.
- 28. gr. Skilyrði starfsleyfis fyrir brennslustöð.
- 29. gr. Stjórnun losunar.
- 30. gr. Bilun.
- 31. gr. Vöktun losunar.
- 32. gr. Samræmi við viðmiðunarmörk.
- 33. gr. Rekstrarskilyrði.
- 34. gr. Afhending og móttaka úrgangs.
- 35. gr. Brennsluleifar.
- 36. gr. Umtalsverð breyting.
- 37. gr. Upplýsingar til almennings.
- V. KAFLI Starfsemi sem notast við lífræna leysa.
- VI. KAFLI Stöðvar sem framleiða títandíoxíð.
- VII. KAFLI Loftgæði.
- VIII. KAFLI Losun gróðurhúsalofttegunda.
- IX. KAFLI Skyldur rekstraraðila.
- X. KAFLI Eftirlit með atvinnurekstri.
- XI. KAFLI Gjaldskrá.
- XII. KAFLI Valdsvið og þvingunarúrræði.
- XIII. KAFLI Málsmeðferð og úrskurðir.
- XIV. KAFLI Viðurlög.
- XV. KAFLI Gildistaka o.fl.
- Viðaukar
- Viðauki XI
- Viðauki XII
I. KAFLI Markmið, skilgreiningar og stjórn.
1. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt er markmið reglugerðarinnar að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og að koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin tekur til hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi, í lofthelgi, efnahagslögsögu og farkostum sem ferðast undir íslenskum fána, sem hafa eða geta haft áhrif á þá þætti sem tilgreindir eru í 1. gr., að svo miklu leyti sem önnur lög eða reglugerðir taka ekki til þeirra. Reglugerðin nær einnig til starfsemi og framkvæmda í efnahagslögsögunni vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis.
Reglugerðin gildir ekki um rannsóknarstarfsemi, þróunarstarf eða prófanir á nýjum vörum og vinnsluferlum sem falla undir I. viðauka.
3. gr. Skilgreiningar.
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- Almenningur: einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar og, í samræmi við lög eða venju, samtök þeirra, félög eða hópar.
- Atvinnurekstur: er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
- BAT-niðurstöður: tilvísun til reglugerðar sem ráðherra setur þar sem settar eru fram niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni, lýsing á henni, upplýsingar til að meta notkunarsvið hennar, losunargildin sem tengjast þessari bestu aðgengilegu tækni, tengd vöktun, tengd notkunargildi og, eftir sem við á, viðeigandi ráðstafanir til úrbóta á staðnum.
-
Besta aðgengilega tækni: áhrifaríkasta og þróaðasta stigið í framþróun starfsemi og tengdra rekstraraðferða er gefur til kynna að nota megi tiltekna tækni sem hagkvæman grunn fyrir viðmiðunarmörk fyrir losun og önnur skilyrði fyrir leyfi til að koma í veg fyrir eða, þar sem því verður ekki við komið, draga úr losun og áhrifum á umhverfið í heild:
- tækni: sú tækni og þær aðferðir sem eru notaðar við hönnun, smíði, viðhald, rekstur og lokun stöðvar,
- aðgengileg tækni: tækni sem hefur verið þróuð í þeim mæli að hægt sé að nota hana á hlutaðeigandi sviði iðnaðar, við skilyrði sem eru efnahagslega og tæknilega hagkvæm, að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings, óháð því hvort þessi tækni er notuð eða þróuð í hlutaðeigandi aðildarríki, að því tilskildu að rekstraraðilinn eigi þokkaleg tök á að nýta sér hana,
- besta tækni: sú tækni sem er árangursríkust við að ná víðtækri, almennri vernd umhverfisins í heild.
- Blandaður heimilis- og rekstrarúrgangur: úrgangur frá heimilishaldi, svo og úrgangur frá verslun, iðnaði og stofnunum sem vegna eðlis síns eða samsetningar líkist úrgangi frá heimilishaldi en að undanskildum hlutum sem tilgreindir eru undir númeri 20 01 í I. viðauka við reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs, og er safnað saman og haldið aðskildum þar sem þeir falla til og að undanskildum öðrum úrgangi sem tilgreindur er undir númeri 20 02 í sama viðauka.
- Brennslustöð: sorpbrennslustöð og/eða sorpsambrennslustöð.
- Brennsluver: sérhver tæknibúnaður þar sem eldsneyti er brennt í því skyni að nýta þann varma sem þá myndast.
- Brennsluver sem brennir margs konar eldsneyti: hvert það brennsluver sem unnt er að knýja samtímis eða til skiptis með tveimur eða fleiri gerðum eldsneytis.
- Díoxín og fúrön: öll fjölklóruð díbensó-p-díoxín og díbensófúrön sem eru tilgreind í 2. hluta VI. viðauka.
-
Efni: frumefni og sambönd þeirra, bæði náttúruleg og manngerð og óhreinindi sem verða til í vinnslu, en þó ekki leysiefni sem skilja má frá án þess að það hafi áhrif á stöðugleika efnisins eða breyti samsetningu þess, að undanskildum eftirfarandi efnum:
- geislavirkum efnum eins og þau eru skilgreind í 1. gr. tilskipunar ráðsins 96/29/KBE frá 13. maí 1996 um grundvallaröryggisstaðla um verndun heilbrigðis starfsmanna og almennings gegn hættu af völdum jónandi geislunar, sbr. lög um geislavarnir,
- erfðabreyttum örverum eins og þær eru skilgreindar í reglugerð um afmarkaða notkun erfðabreyttra örvera, sbr. lög um erfðabreyttar lífverur,
- erfðabreyttum lífverum eins og þær eru skilgreindar í reglugerð um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera, sbr. lög um erfðabreyttar lífverur.
- Eldsneyti: föst, fljótandi eða gaskennd brennanleg vara.
- Gashreyfill: brunahreyfill sem starfar samkvæmt Otto-vinnuhringnum og notar neistakveikju til að brenna eldsneyti eða þjöppukveikju þegar um er að ræða vélar sem nota tvær eldsneytistegundir.
- Gashverfill: vél sem snýst og breytir varmaorku í vélræna vinnu og er í meginatriðum gerð úr þjöppu, varmaeiningu, þar sem eldsneyti er oxað til að hita vinnsluvökvann, og hverfli.
- Grunnvatn: vatn, kalt eða heitt, sem er neðanjarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi.
- Hlutfall brennisteinshreinsunar: það hlutfall magns af brennisteini á tilteknu tímabili sem brennsluver losar ekki út í andrúmsloftið á móti brennisteinsmagninu í því eldsneyti í föstu formi sem kemur inn í brennsluverið og er notað í verinu á sama tímabili.
- Hættuleg efni: efni eða efnablanda sem getur valdið dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun, inntöku eða í snertingu við húð, er eldnærandi, eld- eða sprengifimt eða getur valdið tjóni á umhverfi og flokkast sem slíkt í reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna. Eiturefni teljast til hættulegra efna.
- Innra eftirlit: er eigið eftirlit starfsleyfishafa með sjálfum sér, framkvæmt af starfsmönnun hans eða aðkeyptum þjónustuaðila, sem til þess hefur tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.
- Jarðvegur: yfirborðslag jarðskorpunnar sem liggur milli berggrunnsins og yfirborðsins. Jarðvegurinn er samsettur úr steinefnum, lífrænu efni, vatni, lofti og lífverum.
-
Lífmassi: eitthvað af eftirtöldu:
- vara sem samanstendur af plöntuefni frá landbúnaði eða skógrækt sem hægt er að nota sem eldsneyti í þeim tilgangi að endurheimta orkuinnihald þess,
-
eftirfarandi úrgangur:
- úrgangur úr jurtaríkinu frá landbúnaði og skógrækt,
- úrgangur úr jurtaríkinu frá matvælavinnslu ef varminn, sem losnar, er nýttur,
- trefjaríkur úrgangur úr jurtaríkinu frá framleiðslu á deigi úr nýjum trefjum og frá framleiðslu á pappír úr pappírsdeigi ef hann er sambrenndur á framleiðslustað og varminn, sem losnar, er nýttur,
- korkúrgangur,
- viðarúrgangur, að undanskildum viðarúrgangi sem kann að innihalda halógenuð, lífræn efnasambönd eða þungmálma af völdum meðhöndlunar með viðarvarnarefnum eða yfirborðsmeðferðarefnum og sem inniheldur einkum viðarúrgang frá byggingar- og niðurrifsstarfsemi.
-
Lífrænn leysir: sérhvert rokgjarnt, lífrænt efnasamband sem er notað í eftirfarandi tilgangi:
- eitt eða í efnasamböndum og án þess að það verði fyrir efnabreytingu til að leysa upp hráefni, vörur eða úrgangsefni,
- sem hreinsiefni til að leysa upp aðskotaefni,
- sem uppleysiefni,
- sem dreifiefni,
- sem seigjustillandi efni,
- sem yfirborðsspennustillandi efni,
- sem mýkiefni eða
- sem rotvarnarefni.
- Lífrænt efnasamband: sérhvert efnasamband sem inniheldur a.m.k. frumefnið kolefni og eitt eða fleiri eftirtalinna frumefna: vetni, halógena, súrefni, brennistein, fosfór, kísil eða köfnunarefni, að undanskildum kolefnisoxíðum og ólífrænum karbónötum og bíkarbónötum.
- Lítið, einangrað kerfi: þar sem notkun er innan við 3.000 GWh á árinu 1996, og þar sem innan við 5% ársnotkunar er fengin með samtenginu við önnur kerfi.
- Losun: bein eða óbein losun efna, titrings, varma eða hávaða frá stökum eða dreifðum losunarstöðum á stöðinni út í andrúmsloft, vatn eða jarðveg.
- Losunargildi sem tengjast bestu aðgengilegu tækni: svið losunargilda sem fást við venjuleg rekstrarskilyrði með notkun bestu aðgengilegu tækni eða sambland bestu aðgengilegu tækni, eins og henni er lýst í niðurstöðum um bestu aðgengilegu tækni, gefið upp sem meðaltal yfir tiltekið tímabil, við tilgreindar viðmiðunaraðstæður.
- Mengun: er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
- Mengunarvarnaeftirlit: allar aðgerðir, þ.m.t. vettvangsferðir, vöktun losunar og úttektir á innri skýrslum og skjölum varðandi eftirfylgni, sannprófanir á innri vöktun, kannanir á þeirri tækni sem notuð er og á því hvort umhverfisstjórnunin í stöðinni sé fullnægjandi og eru kannanirnar framkvæmdar af hálfu eða á vegum eftirlitsaðila til að hafa eftirlit með og stuðla að því að stöðvarnar fari að leyfisskilyrðum og, ef nauðsyn krefur, að vakta umhverfisleg áhrif þeirra.
- Nafnafköst: samanlögð afköst brennsluofna sorpbrennslustöðvar eða sorpsambrennslustöðvar samkvæmt lýsingu framleiðanda og staðfestingu rekstraraðila, með tilliti til varmagildis úrgangsins sem tilgreint er sem magn úrgangs sem brennt er á klukkustund.
- Rekstraraðili: einstaklingur eða lögaðili, sem rekur eða stýrir, í heild eða að hluta, stöð eða brennsluveri, brennslustöð eða, þar sem kveðið er á um slíkt í lögum, sem hefur verið falið fjárhagslegt, ótvírætt vald yfir tæknilegri starfsemi stöðvarinnar eða versins.
- Rekstrarstundir: sá tími, gefinn upp sem klukkustundir, sem brennsluver, í heild eða að hluta, er í rekstri og losar útblástur út í andrúmsloftið, að frátöldum gangsetningar- og stöðvunartímabilum.
- Reykháfur: mannvirki með eina eða fleiri loftrásir sem leiða út úrgangslofttegundir til að losa þær út í andrúmsloftið.
- Rokgjarnt, lífrænt efnasamband: lífrænt efnasamband sem og sá hluti kreósóts sem hefur gufuþrýsting sem er 0,01 kPa eða meiri við 293,15 K eða er rokgjarnt í samsvarandi mæli við þau notkunarskilyrði sem um er að ræða.
- Sá hluti almennings, sem málið varðar: þeir íbúar sem verða fyrir áhrifum eða sem er líklegt að verði fyrir áhrifum eða sem eiga hagsmuna að gæta vegna töku ákvörðunar við veitingu eða uppfærslu starfsleyfis eða skilyrðum fyrir því; samkvæmt þessari skilgreiningu teljast öll frjáls félagasamtök, sem stuðla að umhverfisvernd og uppfylla allar kröfur laga, hafa að gæta.
- Skýrsla um grunnástand: upplýsingar um ástand jarðvegs- og grunnvatnsmengunar af völdum viðkomandi hættulegra efna.
- Sorpbrennslustöð: staðbundin eða færanleg tæknieining ásamt búnaði sem er sérstaklega ætlaður til varmameðhöndlunar á úrgangi, hvort sem varminn, sem myndast við brennsluna, er nýttur eða ekki, með brennslu úrgangs með oxun, ásamt annarri varmatengdri meðhöndlun, svo sem hitasundrun, gösun eða plasmameðferð, ef efnin, sem myndast við meðhöndlunina, eru brennd á eftir.
- Sorpsambrennslustöð: staðbundin eða færanleg tæknieining sem hefur þann megintilgang að framleiða orku eða framleiða efnislegar vörur og sem notar úrgang sem venjulegt eða viðbótareldsneyti eða þar sem úrgangur er varmameðhöndlaður í þeim tilgangi að farga honum með brennslu úrgangs með oxun, ásamt annarri varmatengdri meðhöndlun, svo sem hitasundrun, gösun eða plasmameðferð, ef efnin, sem myndast við meðhöndlunina, eru brennd á eftir.
- Spilliefni: úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni og skráð eru á lista í reglugerð um úrgang.
- Starfsleyfi: skrifleg heimild til að starfrækja að öllu leyti eða að hluta tilgreindan atvinnurekstur.
- Starfsleyfisskilyrði: viðmiðunarmörk fyrir losun eða önnur skilyrði, a.m.k. innan atvinnugeira, sem eru samþykkt í þeim tilgangi að þau séu notuð beint til að setja skilyrði fyrir leyfi.
- Stöð: staðbundin tæknieining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka eða í 1. hluta VII. viðauka og öll önnur starfsemi á sama stað sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem tilgreind er í þessum viðaukum.
- Tilvísunarskjal um bestu aðgengilegu tækni: skjal, sem verður til við upplýsingaskipti, er gert fyrir skilgreinda starfsemi og þar sem einkum er lýst þeirri tækni sem beitt er, núgildandi losunar- og notkunargildum, tækni sem kemur til greina fyrir ákvörðun á bestu aðgengilegu tækni sem og niðurstöðum um bestu aðgengilegu tækni og öllum tækninýjungum, með sérstakri áherslu á viðmiðanirnar sem taldar eru upp í III. viðauka.
- Tækninýjungar: ný tækni fyrir iðnaðarstarfsemi sem, ef hún er þróuð á viðskiptalegum forsendum, gæti veitt annaðhvort hærra almennt umhverfisverndarstig eða a.m.k. sama umhverfisverndarstig og meiri sparnað en núverandi besta aðgengilega tækni.
- Umhverfisgæðastaðall: tilteknar kröfur sem verður að fullnægja á tilteknum tíma fyrir tiltekið umhverfi eða sérstaka hluta þess.
- Umtalsverð breyting: breyting á eðli eða starfsemi eða stækkun á stöð eða brennsluveri, sorpbrennslustöð eða sorpsambrennslustöð sem getur haft umtalsverð neikvæð áhrif á heilbrigði manna eða umhverfið.
- Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.
- Viðmiðunarmörk fyrir losun: gæðatala sem tölugildi, gefin upp í tengslum við tilteknar færibreytur, styrk og/eða losunarmagn, sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum.
- Þekjuefni: hvers kyns efnablanda sem er notuð til að mynda lag sem skreytir eða verndar yfirborðsfleti eða er látið þekja yfirborð í öðrum tilgang, þ.m.t. allir lífrænir leysar eða efnablöndur, sem innihalda lífræna leysa, sem eru nauðsynlegir til að tryggja rétta notkun viðkomandi efnablöndu.
4. gr. Stjórn mála.
Umhverfis- og auðlindaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar sem og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eftir því sem við á.
II. KAFLI Starfsleyfi.
5. gr. Starfsleyfi.
Allur atvinnurekstur, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, skal hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út, sbr. þó 7. gr. Starfsleyfi skal veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Óheimilt er að hefja atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út eða hann ekki verið skráður hjá Umhverfisstofnun.
Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir, eða ef breyting verður á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags, sbr. einnig 13. og 14. gr.
Leiði endurskoðun eða breyting á starfsleyfi til breytinga á starfsleyfisskilyrðum, sbr. 8. gr., skal útgefandi starfsleyfis auglýsa drög að slíkri breytingu að lágmarki í fjórar vikur.
Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með því og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og eftir atvikum heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi, sbr. 1. mgr., enda sé fram komin fullnægjandi starfsleyfisumsókn til útgefanda starfsleyfis og, ef við á, að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum eða niðurstaða um matskyldu starfseminnar. Afmarka skal undanþágu við þá þætti sem nauðsyn krefur í samræmi við þá meginreglu að allur atvinnurekstur skuli hafa gilt starfsleyfi. Við veitingu undanþágu skal kveða á um að rekstraraðili fylgi öðrum ákvæðum útgefins starfsleyfis eða starfsleyfistillögu og skýrslugjöf rekstraraðila til útgefanda starfsleyfis um framgang nauðsynlegra úrbóta sem tengjast forsendum undanþágu. Útgefandi starfsleyfis skal birta undanþágu ráðherra á vefsíðu sinni sem og eftirlitsskýrslur fyrirtækja sem starfa á undanþágu.
6. gr. Útgáfa starfsleyfis.
Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. I., VII. og IX. viðauka, sbr. þó 7. gr. Heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. X. viðauka, sbr. þó 7. gr.
Rekstraraðilar skulu tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina komi fram í umsókn um starfsleyfi. Umsóknum skal, eftir því sem við á hverju sinni, fylgja lýsing á eftirfarandi:
- stöðinni og starfsemi hennar,
- hráefnum og hjálparefnum, öðrum efnum og þeirri orku sem er notuð eða framleidd í stöðinni,
- upptökum losunar í stöðinni,
- staðháttum við stöðina,
- eftir atvikum skýrslu um grunnástand í samræmi við 2. mgr. 15 gr.,
- eðli og magni fyrirsjáanlegrar losunar frá stöðinni út í hvern hluta umhverfisins, svo og tilgreining á umtalsverðum áhrifum losunarinnar á umhverfið,
- áformaðri tækni og öðrum aðferðum til að koma í veg fyrir mengun eða, ef það tekst ekki, draga úr losun frá stöðinni,
- fyrirbyggjandi ráðstöfunum, undirbúningi fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurheimt úrgangs sem myndast í stöðinni,
- frekari ráðstöfunum sem eru ráðgerðar til að fara að almennu meginreglunum um grundvallarskyldur rekstraraðila sem kveðið er á um í 11. gr.,
- ráðstöfunum, sem eru ráðgerðar til að vakta losun út í umhverfið,
- helstu valkostum, sem umsækjandinn hefur rannsakað, í stað áformaðrar tækni, aðferða og ráðstafana, í formi yfirlits,
Einnig skal fylgja afrit af gildandi deiliskipulagi eða gildandi aðalskipulagi sé deiliskipulag ekki til staðar.
Í umsókn um starfsleyfi skal einnig vera samantekt, sem ekki er á tæknimáli, um þau atriði sem getið er í 2. mgr.
Heimilt er að setja eftirfarandi upplýsingar í umsóknina eða láta þær fylgja henni ef þær uppfylla einhver skilyrða 2. mgr.:
- upplýsingar, sem eru veittar í samræmi við kröfur sem kveðið er á um í lögum um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðum settum samkvæmt þeim,
- öryggisskýrslu sem tekin er saman í samræmi við IV. kafla reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna,
- aðrar upplýsingar, sem eru lagðar fram í samræmi við önnur lög.
Sé atvinnurekstur, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, háður mati á umhverfisáhrifum eða tilkynningarskyldur skal niðurstaða matsins eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi er auglýst. Útgefandi starfsleyfis skal kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og skal taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar hvað varðar tengsl við verksvið útgefanda, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum.
Nýr atvinnurekstur skal vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Deiliskipulag þarf þó ekki að vera til staðar vegna atvinnurekstrar, sbr. VII., IX. og X. viðauka, enda samrýmist starfsemin gildandi aðalskipulagi hvað varðar landnotkun og byggðaþróun og sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Útgefandi starfsleyfis skal leita umsagnar viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti. Deiliskipulag þarf auk þess ekki að vera til staðar vegna atvinnustarfsemi, sbr. viðauka I, sé um að ræða nýjan atvinnurekstur á stað þar sem áður var sambærilegur atvinnurekstur með starfsleyfi. Starfsemin skal þá samrýmast aðalskipulagi varðandi landnotkun og byggðaþróun og vera í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Útgefandi starfsleyfis skal leita umsagnar viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti.
Útgefandi starfsleyfis skal vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega á vefsíðu sinni hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur útgefanda starfsleyfis innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
Útgefandi starfsleyfis skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir tilkynnt um afgreiðsluna.
Útgefandi starfsleyfis skal auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis telst vera opinber birting. Starfsleyfi skal fylgja greinargerð þar sem farið er yfir málsmeðferðina, tekin afstaða til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum ef við á og gerð grein fyrir afstöðu útgefanda starfsleyfis til athugasemda sem bárust.
Útgefandi starfsleyfis skal hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi, starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 7. gr., og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu, sbr. viðauka IV. Útgefandi starfsleyfis skal hafa aðgengilegar, þ.m.t. á vefsíðu sinni í tengslum við a-, b- og f-lið, eftirfarandi upplýsingar:
- efni ákvörðunarinnar um útgáfu starfsleyfis, þ.m.t. afrit af starfsleyfinu og öllum síðari uppfærslum,
- forsendur sem ákvörðunin byggist á,
- samantekt um samráð sem fram fór áður en ákvörðunin var tekin og afstöðu útgefanda starfsleyfis til athugasemda sem bárust,
- tilvísunarskjal um bestu aðgengilegu tækni viðkomandi starfsemi,
- hvernig starfsleyfisskilyrðin sem um getur í 8. gr., þ.m.t. viðmiðunarmörk fyrir losun, hafa verið ákvörðuð í tengslum við bestu aðgengilegu tækni og losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni,
- þar sem undanþága hefur verið veitt í samræmi við 5. mgr. 9. gr.: ástæðurnar fyrir þeirri undanþágu á grundvelli viðmiðananna sem mælt er fyrir um í þeirri málsgrein og skilyrðin sem sett eru.
Útgefandi starfsleyfis skal einnig gera öllum aðgengilegar, þ.m.t. á vefsíðu sinni a.m.k. í tengslum við a-lið:
- viðeigandi upplýsingar um ráðstafanir sem rekstraraðili hefur gert vegna endanlegrar stöðvunar starfsemi í samræmi við 15. gr.,
- niðurstöður vöktunar á losun eins og krafist er í starfsleyfisskilyrðum og eftirlitsaðili er ábyrgur fyrir.
7. gr. Skráningarskylda.
Ráðherra er heimilt, sbr. 8. gr. laga um hollustuhætti og mengunvarvarnir, að kveða á um í reglugerð að atvinnurekstur, sbr. IX. og X. viðauka, sé háður skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfis. Um framvæmd skráningarskyldu fer samkvæmt reglugerð um skráningarskyldu sem ráðherra setur skv. 1. mgr. 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
8. gr. Starfsleyfisskilyrði.
Umhverfisstofnun skal tryggja að í starfsleyfi, sbr. viðauka I og IX, séu öll skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja að farið verði að kröfum 11. og 54. gr., sbr. þó 7. gr. Starfsleyfisskilyrði skulu að lágmarki fela í sér ákvæði um:
- aðferðafræði við mælingar, tíðni og matsferli, þ. á m. geta verið kröfur um faggilta rannsóknaaðila eða kröfur um að farið sé að ÍST stöðlum eða alþjóðlegum stöðlum sem Umhverfisstofnun telur mikilvægt að gildi til að tryggja vísindaleg gæði mælinga eða ef sú krafa kemur til vegna bestu aðgengilegu tækni,
- viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna sem tilgreind eru í II. viðauka og fyrir önnur mengandi efni, sem telja má líklegt að verði losuð frá viðkomandi stöð í umtalsverðu magni, með hliðsjón af eðli þeirra og getu til að færa mengun frá einum stað til annars,
- viðeigandi kröfur sem tryggja vernd jarðvegs og grunnvatns og ráðstafanir varðandi vöktun og stjórnun úrgangs sem myndaður er í stöðinni,
-
viðeigandi kröfur um vöktun losunar þar sem tilgreint er:
- aðferðafræði við mælingar, tíðni og matsferli, og
- þar sem b-lið 3. mgr. 9. gr. er beitt: að niðurstöður vöktunar á losun séu tiltækar fyrir sama tímabil og viðmiðunaraðstæður og fyrir losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni,
-
upplýsingagjöf til útgefanda starfsleyfis með reglubundnum hætti og minnst árlega:
- upplýsingar á grundvelli niðurstaðna vöktunar á losun sem um getur í c-lið og önnur nauðsynleg gögn sem gera eftirlitsaðila kleift að sannreyna hvort farið sé að leyfisskilyrðunum og
- þar sem b-lið 3. mgr. 9. gr. er beitt: samantekt á niðurstöðum vöktunar á losun sem gerir mögulegan samanburð við losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni,
- viðeigandi kröfur um reglulegt viðhald og eftirlit að því er varðar ráðstafanir sem gerðar eru til að fyrirbyggja losun í jarðveg og grunnvatn skv. b-lið og viðeigandi kröfur varðandi reglubundið eftirlit með jarðvegi og grunnvatni í tengslum við viðkomandi hættuleg efni sem eru líkleg til að finnast á staðnum og með hliðsjón af mögulegri jarðvegs- og grunnvatnsmengun á stöðvarsvæðinu,
- ráðstafanir varðandi önnur skilyrði en venjuleg rekstrarskilyrði, svo sem ræsingar- og stöðvunaraðgerðir, leka, bilanir, tímabundnar stöðvanir og endanlega stöðvun rekstrar,
- lágmörkun víðfeðmrar mengunar eða mengunar sem fer yfir landamæri,
- skilyrði fyrir mati á samræmi við viðmiðunarmörk fyrir losun eða tilvísun í viðeigandi kröfur sem tilgreindar eru annars staðar og
- áhættumat, viðbragðsáætlun og bráðamengunartryggingu eða aðra tryggingu sem Umhverfisstofnun metur gilda, sbr. 16. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.
Útgefandi starfsleyfis skal taka mið af BAT-niðurstöðum við útfærslu starfsleyfisskilyrða og jafnframt hafa hliðsjón af BAT-niðurstöðum sem eru í vinnslu. Að því er varðar a-lið 1. mgr. má auka eða skipta út viðmiðunarmörkum fyrir losun með jafngildum breytum eða tæknilegum ráðstöfunum sem tryggja samsvarandi umhverfisverndarstig.
Umhverfisstofnun er heimilt að setja strangari starfsleyfisskilyrði en BAT-niðurstöður, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 1. ml. 3. mgr. 9. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, telji stofnunin það nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna og skal stofnunin rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega. Umhverfisstofnun er jafnframt heimilt að setja starfsleyfisskilyrði á grundvelli bestu aðgengilegu tækni sem ekki er lýst í BAT-niðurstöðum og skal í þeim tilvikum tryggja:
- að sú tækni sé ákvörðuð með sérstöku tilliti til viðmiðananna sem taldar eru upp í III. viðauka og
- að farið sé að kröfunum í 9. gr.
Þar sem niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni, sbr. a-lið, innihalda ekki losunargildi sem tengjast bestu aðgengilegu tækni skal Umhverfisstofnun tryggja að tæknin sem vísað er til í a-lið tryggi samsvarandi umhverfisverndarstig og besta aðgengilega tæknin sem lýst er í niðurstöðum um bestu aðgengilegu tækni.
Þegar starfsemi eða vinnsluferli sem fer fram innan stöðvar fellur ekki undir neinar af BAT-niðurstöðum eða þar sem þessar niðurstöður fjalla ekki um öll möguleg umhverfisáhrif starfseminnar eða ferlisins skal Umhverfisstofnun, að undangengnu samráði við rekstraraðila, setja leyfisskilyrðin á grundvelli bestu aðgengilegu tækni sem það hefur ákvarðað fyrir viðkomandi starfsemi eða ferli með því að taka sérstakt tillit til viðmiðananna sem taldar eru upp í III. viðauka.
Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun þegar rekstur er stöðvaður og til að koma rekstrarsvæði í viðundandi horf, að mati útgefanda starfsleyfis, þegar atvinnurekstur er endanlega stöðvaður eða lagður niður.
Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir skulu tilgreina í starfsleyfi, sbr. IX. og X. viðauka, rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, stærð og skilyrði, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Ákvæði um mengunarvarnir skulu taka mið af BAT-niðurstöðum þegar þær liggja fyrir.
9. gr. Viðmiðunarmörk.
Viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna skulu gilda á losunarstað efnanna við stöðina. Þegar viðmiðunarmörk eru ákvörðuð skal ekki taka tillit til þynningar sem á sér stað áður en að losunarstað er komið. Að því er varðar óbeina losun mengandi efna í vatn er heimilt að taka tillit til áhrifa hreinsivirkis, sbr. lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þegar viðmiðunarmörk fyrir losun eru ákvörðuð fyrir viðkomandi stöð, að því tilskildu að samsvarandi umhverfisverndarstig fyrir umhverfið í heild sé tryggt og að því tilskildu að þetta leiði ekki til aukinnar mengunar í umhverfinu.
Viðmiðunarmörk skulu fyrir losun og jafngildar breytur og tæknilegar ráðstafanir byggjast á bestu aðgengilegu tækni, án þess að mælt sé fyrir um tilgreinda aðferð eða tækni.
Umhverfisstofnun skal í starfsleyfi ákvarða viðmiðunarmörk fyrir losun sem tryggja, við venjuleg rekstrarskilyrði, að losun fari ekki yfir losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni eins og mælt er fyrir um í BAT-niðurstöðum með öðru af eftirfarandi:
- með setningu viðmiðunarmarka fyrir losun sem fara ekki yfir losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni. Þessi viðmiðunarmörk fyrir losun skal gefa upp fyrir sama eða styttra tímabil og við sömu viðmiðunaraðstæður og þau losunargildi sem tengjast bestu aðgengilegu tækni, eða
- með setningu annarra viðmiðunarmarka fyrir losun en þeirra sem um getur í a-lið að því er varðar gildi, tímabil og viðmiðunaraðstæður.
Beiti Umhverfisstofnun b-lið þessarar málsgreinar skal stofnunin meta minnst árlega niðurstöður vöktunar á losun til að tryggja að losun við venjulegar rekstraraðstæður fari ekki yfir losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni.
Þrátt fyrir 3. mgr. er Umhverfisstofnun heimilt í sérstökum tilvikum að ákvarða vægari viðmiðunarmörk fyrir losun. Slíkri undanþágu má aðeins beita þegar mat sýnir að það að ná losunargildum sem tengjast bestu aðgengilegu tækni, eins og lýst er í BAT-niðurstöðum, myndi leiða til óeðlilega mikils kostnaðar í samanburði við umhverfislegan ávinning vegna:
- landfræðilegrar staðsetningar eða staðbundinna umhverfisaðstæðna viðkomandi stöðvar, eða
- tæknilegra eiginleika viðkomandi stöðvar.
Umhverfisstofnun skal skrá í viðauka við starfsleyfisskilyrðin ástæður fyrir beitingu undanþágu skv. 4. mgr., þ.m.t. niðurstöðu matsins og rökstuðning fyrir setningu skilyrðanna. Þau viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru á grundvelli þessarar heimildar skulu samt sem áður ekki vera yfir viðmiðunarmörkum fyrir losun sem sett eru fram í viðaukum við þessa reglugerð. Umhverfisstofnun skal í öllum tilvikum tryggja að ekki sé valdið umtalsverðri mengun og að háu umhverfisverndarstigi fyrir umhverfið í heild sé náð. Umhverfisstofnun skal endurmeta beitingu undanþágu skv. 4. mgr. sem hluta af hverri endurskoðun starfsleyfisskilyrða skv. 14. gr.
Umhverfisstofnun er heimilt í starfsleyfi að veita tímabundnar undanþágur frá viðmiðunarmörkum um losun og frá a- og b-lið 54. gr. vegna prófana og notkunar á tækninýjungum fyrir tímabil sem ekki má vera lengra en níu mánuðir samfleytt, að því tilskildu að eftir tilgreint tímabil sé notkun tækninnar hætt eða starfsemin nái a.m.k. losunargildum sem tengjast bestu aðgengilegu tækni.
10. gr. Vöktun.
Umhverfisstofnun skal eftir atvikum byggja kröfur um vöktun á BAT-niðurstöðum.
Umhverfisstofnun skal ákvarða tíðni reglubundins viðhalds og eftirlits í starfsleyfi. Miða skal við að framkvæma reglubundið eftirlit a.m.k. fimmta hvert ár fyrir grunnvatn og tíunda hvert ár fyrir jarðveg nema slík vöktun byggist á kerfisbundnu mati á áhættu á mengun.
11. gr. Umhverfisgæðakröfur.
Ef kveðið er á um strangari skilyrði um umhverfisgæði í reglugerð en hægt er að uppfylla með BAT-niðurstöðum skal Umhverfisstofnun, og eftir atvikum heilbrigðisnefnd, taka tillit til þess við útgáfu starfsleyfis.
12. gr. Þróun á bestu aðgengilegu tækni.
Umhverfisstofnun skal hafa aðgengilegar á vefsvæði sínu upplýsingar um útgáfu nýrra eða uppfærðra BAT-niðurstaðna.
13. gr. Breytingar á starfsemi.
Rekstraraðili skal upplýsa útgefanda starfsleyfis tímanlega um allar fyrirhugaðar breytingar á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar sem geta haft afleiðingar fyrir umhverfið. Við áform um slíkar breytingar skal útgefandi starfsleyfis endurskoða starfsleyfi eftir því sem við á.
Ef fyrirhuguð breyting sem rekstraraðili áformar, sbr. 1. mgr., er umtalsverð skal útgefandi starfsleyfis endurskoða starfsleyfið.
Sérhver breyting á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar skal teljast umtalsverð ef hún nær þeim viðmiðunargildum fyrir afkastagetu sem sett eru fram í I. viðauka.
14. gr. Endurskoðun á starfsleyfisskilyrðum.
Útgefandi starfsleyfis skal endurskoða starfsleyfi reglulega og ekki sjaldnar en á 16 ára fresti. Hann skal uppfæra þau ef nauðsyn krefur.
Rekstraraðili skal, sé þess óskað af útgefanda starfsleyfis, leggja fram allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að endurskoða starfsleyfisskilyrðin, þ.m.t. einkum niðurstöður vöktunar á losun og önnur gögn sem gera mögulegan samanburð á starfsemi stöðvarinnar með bestu aðgengilegu tækni, sem lýst er í viðeigandi BAT-niðurstöðum og losunargildunum sem tengjast bestu aðgengilegu tækni.
Við endurskoðun starfsleyfis skal útgefandi starfsleyfis nota þær upplýsingar sem komið hafa fram við vöktun eða eftirlit.
Útgefandi starfsleyfis skal innan fjögurra ára frá birtingu BAT-niðurstaðna varðandi aðalstarfsemi stöðvar tryggja að:
- öll starfsleyfisskilyrði fyrir viðkomandi stöð séu endurmetin og ef nauðsyn krefur uppfærð til að tryggja að farið sé að þessari reglugerð, einkum 3. og 4. mgr. 9. gr. eftir því sem við á,
- stöðin uppfylli starfsleyfisskilyrði.
Við endurskoðun starfsleyfis skal útgefandi starfsleyfis taka tillit til allra nýrra eða uppfærðra BAT-niðurstaðna sem við á fyrir stöðina og samþykktar hafa verið síðan starfsleyfið var veitt eða endurskoðað síðast. Þegar stöð fellur ekki undir BAT-niðurstöður skal endurskoða starfsleyfisskilyrðin og ef nauðsyn krefur uppfæra að svo miklu leyti sem þróun á bestu aðgengilegu tækni gerir mögulega umtalsverða minnkun á losun.
Starfsleyfisskilyrðin skal endurmeta og ef nauðsyn krefur uppfæra a.m.k. í eftirfarandi tilvikum:
- þegar mengun af völdum stöðvar er slík að nauðsynlegt reynist að endurskoða gildandi viðmiðunarmörk fyrir losun sem tilgreind eru í starfsleyfi eða láta ný viðmiðunarmörk koma fram í leyfinu,
- þegar nota þarf aðra tækni vegna rekstraröryggis,
- þegar nauðsynlegt er að fara að nýjum eða endurskoðuðum umhverfisgæðastöðlum í samræmi við 11. gr.
15. gr. Lokun svæðis.
Umhverfisstofnun skal setja ákvæði í starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. I. og IX. viðauka, um lokun iðnaðarsvæðis þegar starfsemi er stöðvuð endanlega.
Þegar starfsemi felur í sér notkun, framleiðslu eða losun tiltekinna hættulegra efna skal rekstraraðili, með hliðsjón af mögulegri jarðvegs- og grunnvatnsmengun á iðnaðarsvæði starfseminnar, taka saman og leggja fyrir Umhverfisstofnun skýrslu um grunnástand svæðisins áður en starfsemin hefst eða áður en starfsleyfi starfseminnar er uppfært.
Skýrsla um grunnástand skal innihalda upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að ákvarða stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengunar þannig að hægt sé að gera magnbundinn samanburð við stöðuna þegar starfsemi er endanlega stöðvuð. Í skýrslunni um grunnástand skulu koma fram a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
- upplýsingar um núverandi notkun og, þegar þær eru tiltækar, upplýsingar um fyrri notkun svæðisins,
- upplýsingar um mælingar á jarðvegi og grunnvatni, sem sýna stöðuna á þeim tíma sem skýrslan er gerð, þegar þær eru tiltækar en annars nýjar jarðvegs- og grunnvatnsmælingar með hliðsjón af mögulegri jarðvegs- og grunnvatnsmengun vegna þeirra hættulegu efna sem viðkomandi stöð notar, framleiðir eða losar.
Umhverfisstofnun skal senda skýrslu um grunnástand til viðkomandi sveitarstjórnar.
Við endanlega stöðvun starfseminnar skal rekstraraðili meta stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengunar vegna hættulegra efna sem stöðin notar, framleiðir eða losar. Ef starfsemin hefur valdið umtalsverðri mengun í jarðvegi eða grunnvatni með hættulegum efnum samanborið við stöðuna sem staðfest er í skýrslu um grunnástand skal rekstraraðili grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að taka á þeirri mengun í þeim tilgangi að koma iðnaðarsvæðinu aftur í fyrra ástand. Í þeim tilgangi er heimilt að taka tillit til þess hvort slíkar ráðstafanir eru tæknilega framkvæmanlegar.
Við endanlega stöðvun starfseminnar og þegar heilsufari manna eða umhverfi stafar umtalsverð hætta af mengun jarðvegs og grunnvatns á iðnaðarsvæðinu, sem er afleiðing af leyfðri starfsemi rekstraraðilans áður en starfsleyfið er uppfært, skal rekstraraðili grípa til nauðsynlegra ráðstafana með tilliti til ástands iðnaðarsvæðisins. Þær skulu miða að því að fjarlægja, koma í veg fyrir, afmarka eða draga úr hættulegum efnum þannig að af iðnaðarsvæðinu stafi ekki lengur slík hætta með tilliti til núverandi nota eða samþykktra nota í framtíðinni.
Þar sem þess er ekki krafist að rekstraraðili taki saman skýrslu um grunnástand skal rekstraraðili við endanlega stöðvun starfseminnar grípa til nauðsynlegra ráðstafana sem miða að því að fjarlægja, koma í veg fyrir, afmarka eða draga úr hættulegum efnum þannig að af iðnaðarsvæðinu, með tilliti til núverandi nota eða samþykktra nota í framtíðinni, stafi ekki lengur umtalsverð hætta fyrir heilsufar manna eða umhverfið vegna mengunar jarðvegs og grunnvatns sem leitt hefur af starfseminni og með tilliti til ástands iðnaðarsvæðisins.
16. gr. Áhrif yfir landamæri.
Umhverfisstofnun skal, ef starfsemi er líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfi annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, senda upplýsingar um starfsemina til ríkisins á sama tíma og almenningi er veittur aðgangur að þeim.
Umhverfisstofnun skal tryggja að almenningur í ríki, sem líklegt má telja að verði fyrir umtalsverðum áhrifum, sbr. 1. mgr., hafi einnig aðgang að umsóknum um starfsleyfi þannig að hann öðlist rétt til að koma á framfæri athugasemdum um þær áður en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun.
Umhverfisstofnun skal upplýsa ríki, sbr. 1. mgr., um þá ákvörðun sem tekin er varðandi umsókn um starfsleyfi og skal framsenda því viðeigandi upplýsingar.
17. gr. Tækninýjungar.
Stuðla skal að þróun og notkun tækninýjunga, eftir því sem við á, einkum að því er varðar þær tækninýjungar sem tilgreindar eru í tilvísunarskjölum um bestu aðgengilegu tækni.
III. KAFLI Brennsluver.
18. gr. Gildissvið.
Þessi kafli gildir um brennsluver með heildarnafnvarmaafl sem er jafnt og eða meira en 50 MW, óháð þeirri eldsneytistegund sem notuð er.
Þessi kafli gildir ekki um eftirfarandi brennsluver:
- ver þar sem brennsluafurðir eru nýttar við beina hitun, þurrkun eða hverja aðra meðhöndlun hluta eða efna,
- eftirbrennsluver sem hönnuð eru til að hreinsa úrgangsloft með brennslu og sem eru ekki starfrækt sem sjálfstæð brennsluver,
- búnað til að endurvinna sundrunarhvata;
- búnað til að breyta brennisteinsvetni í brennistein;
- hvarftanka sem eru notaðir í efnaiðnaði;
- koksofnasamstæður;
- Cowper-hitablásara;
- hvers kyns tæknibúnað sem er notaður til að knýja ökutæki, skip eða loftfar;
- gashverfla og gashreyfla sem eru notaðir á grunnsævispöllum,
- ver sem nota sem eldsneyti einhvers konar fastan eða fljótandi úrgang, annan en þann sem tilgreindur er í b-lið 23. liðar 3. gr.
19. gr. Samlegðarreglur.
Ef úrgangsloft tveggja eða fleiri brennsluvera er losað um sameiginlegan reykháf skal líta á þau sem eitt brennsluver og leggja afkastagetu þeirra saman við útreikning á heildarnafnvarmaafli.
Í þeim tilgangi að reikna út heildarnafnvarmaafl samsetningar brennsluvera skal ekki telja með einstök brennsluver með nafnvarmaafl undir 15 MW.
20. gr. Viðmiðunarmörk fyrir losun.
Stjórna skal losun úrgangslofts frá brennsluverum með reykháfum með einni eða fleiri loftrásum. Við ákvörðun um hæð slíkra reykháfa skal markmiðið vera að vernda heilsufar manna og umhverfið.
Öll starfsleyfi fyrir brennsluver skulu bundin skilyrðum sem tryggja að losun frá þeim út í andrúmsloftið fari ekki yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta V. viðauka.
Viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í 1. og 2. hluta V. viðauka, sem og lágmarkshlutfall brennisteinshreinsunar, sem sett er fram í 5. hluta þess viðauka, skulu gilda um losun hvers sameiginlegs reykháfs með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins. Þar sem í V. viðauka er kveðið á um að beita megi viðmiðunarmörkum fyrir losun fyrir hluta brennsluvers með takmarkaðan fjölda rekstrarstunda skulu þessi viðmiðunarmörk gilda um losun þess hluta versins en þau skulu sett með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins.
Umhverfisstofnun getur veitt rekstraraðila brennsluvers, sem að öllu jöfnu notar eldsneyti með litlu magni af brennisteini, undanþágu í allt að sex mánuði frá kröfu um viðmiðunarmörk losunar á brennisteinsdíoxíði þegar rekstraraðilinn getur ekki uppfyllt viðmiðunarmörk vegna þess að aðföng á brennisteinslitlu eldsneyti hafa brugðist sökum alvarlegs skorts á því.
Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá kröfu um viðmiðunarmörk fyrir losun þegar rekstraraðili brennsluvers sem notar aðeins loftkennt eldsneyti verður í sérstöku undantekningartilviki að grípa til notkunar annars eldsneytis vegna skyndilegs rofs á framboði á gasi og brennsluverið þyrfti af þeim sökum að vera búið hreinsibúnaði fyrir úrgangsloft. Slík undanþága skal ekki veitt fyrir lengra tímabil en tíu daga nema brýn þörf sé á áframhaldandi orkuöflun. Rekstraraðilinn skal tafarlaust upplýsa eftirlitsaðila um hvert einstakt tilvik sem um getur í 1. málsl.
Þegar brennsluver er stækkað skulu viðmiðunarmörk fyrir losun, sem sett eru fram í 2. hluta V. viðauka, gilda fyrir stækkaðan hluta versins sem breytingin hefur áhrif á og skal setja viðmiðunarmörkin með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins. Ef um er að ræða breytingu á brennsluveri, sem getur haft afleiðingar fyrir umhverfið og hefur áhrif á hluta versins með 50 MW nafnvarmaafl eða meira, skulu viðmiðunarmörk fyrir losun gilda fyrir þann hluta versins sem hefur breyst með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins.
21. gr. Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum.
Rekstraraðili brennsluvers, með rafmagnsaflgetu að nafngildi 300 MW eða meira, skal meta hvort eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
- hæfileg geymslusvæði séu tiltæk,
- flutningsaðstæður séu tæknilega og efnahagslega hagkvæmar og
- ísetning endurbótahluta til föngunar á koldíoxíði sé tæknilega og efnahagslega hagkvæm.
Ef skilyrði skv. 1. mgr. eru uppfyllt skal Umhverfisstofnun sjá til þess að hæfilegt svæði á stöðinni sé tekið frá fyrir nauðsynlegan búnað til föngunar og þjöppunar á koldíoxíði. Umhverfisstofnun skal ákvarða hvort skilyrði hafi verið uppfyllt, á grundvelli matsins skv. 1. mgr. og annarra fyrirliggjandi upplýsinga, sérstaklega varðandi verndun umhverfisins og heilsufars manna.
22. gr. Gangtruflun eða bilun í hreinsibúnaði.
Umhverfisstofnun skal tryggja að ákvæði séu í starfsleyfum fyrir brennsluver um verklagsreglur varðandi truflun eða bilun í hreinsibúnaði.
Rekstraraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun um gangtruflun eða bilun í hreinsibúnað innan 48 klukkustunda.
Ef kemur til bilunar skal Umhverfisstofnun krefjast þess að rekstraraðilinn dragi úr starfseminni eða stöðvi hana ef ekki reynist unnt að koma aftur á eðlilegri starfsemi innan 24 klukkustunda eða reka verið með eldsneyti sem mengar minna.
Samanlögð starfræksla án hreinsunar skal á hverju 12 mánaða tímabili aldrei fara yfir 120 klukkustundir.
Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá tímamörkunum í 3. og 4. mgr. í öðru eftirfarandi tilvika:
- þegar brýn þörf er á áframhaldandi orkuöflun,
- þegar annað brennsluver getur um takmarkaðan tíma komið í stað þess bilaða sem hefði í för með sér aukningu á heildarlosun.
23. gr. Vöktun losunar út í andrúmsloft.
Vöktun loftmengandi efna skal fara fram í samræmi við 3. hluta V. viðauka. Uppsetning og rekstur á sjálfvirkum vöktunarbúnaði skal vera háður eftirliti og árlegum eftirlitsprófunum eins og kveðið er á um í 3. hluta V. viðauka. Umhverfisstofnun ákvarðar staðsetningu sýnatöku- eða mælipunkta sem nota skal fyrir vöktun losunar.
Allar niðurstöður vöktunar skal skrá, vinna úr og setja fram með þeim hætti að Umhverfisstofnun geti sannreynt að farið sé að rekstrarskilyrðum og viðmiðunarmörkum fyrir losun sem eru í starfsleyfinu.
Viðmiðunarmörkum fyrir losun í andrúmsloftið er náð ef uppfyllt eru skilyrði sem sett eru fram í 4. hluta V. viðauka.
24. gr. Brennsluver sem brenna margs konar eldsneytistegundum.
Ef brennsluver brennir margs konar eldsneytistegundum og notar samtímis tvær eða fleiri eldsneytistegundir skal Umhverfisstofnun setja viðmiðunarmörk fyrir losun í samræmi við eftirfarandi þrep:
- með því að nota viðmiðunarmörkin fyrir losun sem gilda fyrir hverja eldsneytistegund og mengunarefni og svara til heildarnafnvarmaafls alls versins eins og þau eru sett fram í 1. og 2. hluta V. viðauka,
- með því að ákvarða vegin viðmiðunarmörk fyrir losun fyrir hverja eldsneytistegund, en þau fást með því að margfalda einstök viðmiðunarmörk fyrir losun sem um getur í a-lið með varmagildi hverrar eldsneytistegundar og deila í hvert margfeldi með samanlögðu varmagildi allra eldsneytistegundanna,
- með því að leggja saman vegin viðmiðunarmörk losunar fyrir hverja eldsneytistegund.
24. gr. a Gildissvið.
Þessi kafli gildir um brennsluver þar sem nafnvarmaafl er jafnt og eða meira en 1 MW og minna en 50 MW ("meðalstór brennsluver"), óháð þeirri eldsneytistegund sem þau nota.
Þessi kafli gildir einnig um samsetningu sem mynduð er af meðalstórum brennsluverum skv. 24. gr. b, þ.m.t. samsetning þar sem heildarnafnvarmaafl er jafnt og eða meira en 50 MW, nema samsetningin myndi brennsluver sem fellur undir III. kafla tilskipunar 2010/75/ESB.
Þessi kafli gildir ekki um:
- brennsluver sem falla undir III. eða IV. kafla tilskipunar 2010/75/ESB,
- brennsluver sem falla undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/68/EB,
- brennsluver á býlum með heildarnafnvarmaafl jafnt og eða minna en 5 MW, sem eingöngu nota óunninn alifuglaáburð, eins og um getur í a-lið 9. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009, sem eldsneyti,
- brennsluver þar sem loftkenndar brennsluafurðir eru nýttar við beina hitun, þurrkun eða hverja aðra meðhöndlun hluta eða efna,
- brennsluver þar sem loftkenndar brennsluafurðir eru nýttar við beina gaskynta hitun sem notuð er til að hita rými innandyra í þeim tilgangi að bæta aðstæður á vinnustað,
- eftirbrennsluver sem hönnuð eru til að hreinsa úrgangsloft úr iðnaðarferlum með brennslu og sem eru ekki starfrækt sem sjálfstæð brennsluver,
- hvers kyns tæknibúnað sem er notaður til að knýja ökutæki, skip eða loftfar,
- gashverfla og gas- og dísilhreyfla sem eru notaðir á grunnsævispöllum,
- búnað til að endurvinna sundrunarhvata,
- búnað til að breyta brennisteinsvetni í brennistein,
- hvarftanka sem eru notaðir í efnaiðnaði,
- koksofnasamstæður,
- Cowper-hitablásara,
- líkbrennslustöðvar,
- brennsluver sem brenna hreinsunarstöðvaeldsneyti, eingöngu eða ásamt öðru eldsneyti, til orkuframleiðslu í jarðolíu- og gashreinsunarstöðvum,
- endurnýtingarsuðukatla innan stöðva fyrir framleiðslu pappírsmauks.
Þessi kafli gildir ekki um rannsóknarstarfsemi, þróunarstarf eða prófanir sem varða meðalstór brennsluver.
24. gr. b Samlegð.
Samsetning sem er mynduð af tveimur eða fleiri meðalstórum brennsluverum skal teljast vera eitt meðalstórt brennsluver að því er varðar þennan kafla og skal leggja nafnvarmaafl þeirra saman í þeim tilgangi að reikna út heildarnafnvarmaafl brennsluversins, ef:
úrgangsloft frá slíkum meðalstórum brennsluverum er losað gegnum sameiginlegan reykháf eða
úrgangsloft frá slíkum meðalstórum brennsluverum gæti, að mati Umhverfisstofnunar og að teknu tilliti til tæknilegra og efnahagslegra þátta, verið losað gegnum sameiginlegan reykháf.
24. gr. c Viðmiðunarmörk fyrir losun.
Með fyrirvara um II. kafla tilskipunar 2010/75/ESB skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í XI. viðauka gilda um meðalstór brennsluver.
Frá 1. janúar 2025 skal losun brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og ryks út í andrúmsloftið frá starfandi meðalstóru brennsluveri með nafnvarmaafl sem er meira en 5 MW ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í töflu 2 og 3 í 1. hluta XI. viðauka.
Frá 1. janúar 2030 skal losun brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og ryks út í andrúmsloftið frá starfandi meðalstóru brennsluveri með nafnvarmaafl sem er jafnt og eða minna en 5 MW ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í töflu 1 og 3 í 1. hluta XI. viðauka.
Umhverfisstofnun getur veitt starfandi meðalstórum brennsluverum, sem ekki eru starfrækt í meira en 500 rekstrarstundir á ári samkvæmt hlaupandi meðaltali á fimm ára tímabili, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í töflu 1, 2 og 3 í 1. hluta XI. viðauka.
Umhverfisstofnun getur framlengt mörkin skv. 4. mgr. í 1.000 rekstrarstundir í eftirfarandi neyðartilvikum eða við eftirfarandi sérstakar aðstæður:
fyrir framleiðslu varaafls á tengdum eyjum ef truflun verður í aðalaflgjöfum eyjar,
fyrir meðalstór brennsluver sem notuð eru til hitaframleiðslu ef óvenju kalt er í veðri.
Í öllum tilvikum skulu viðmiðunarmörk fyrir losun á ryki, sem nema 200 mg/Nm3, gilda um brennsluver sem brenna eldsneyti í föstu formi.
Starfandi meðalstór brennsluver, sem eru hluti af litlu, einangruðu kerfi (SIS) eða einangruðu örkerfi (MIS), skulu fara að viðmiðunarmörkunum fyrir losun sem sett eru fram í töflu 1, 2 og 3 í 1. hluta XI. viðauka frá 1. janúar 2030.
Til 1. janúar 2030 getur Umhverfisstofnun veitt starfandi meðalstórum brennsluverum, með nafnvarmaafl sem er meira en 5 MW, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í XI. viðauka að því tilskildu að minnst 50% af nýtanlegri hitaframleiðslu brennsluversins, sem hlaupandi meðaltal yfir 5 ára tímabil, séu afhent sem gufa eða heitt vatn inn á almennt net fyrir fjarhitun. Komi til slíkrar undanþágu skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun ekki fara yfir 1.100 mg/Nm3 fyrir brennisteinstvíoxíð og 150 mg/Nm3 fyrir ryk.
Til 1. janúar 2030 getur Umhverfisstofnun veitt meðalstórum brennsluverum, sem brenna föstum lífmassa sem aðaleldsneyti og eru staðsett á svæðum þar sem, samkvæmt mati sbr. tilskipun 2008/50/EB, samræmi við viðmiðunarmörkin í þeirri tilskipun er tryggt, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun á ryki sem sett eru fram í XI. viðauka. Komi til slíkrar undanþágu skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun ekki fara yfir 150 mg/Nm3 fyrir ryk.
Umhverfisstofnun skal í öllum tilvikum tryggja að ekki sé valdið neinni umtalsverðri mengun og að háu umhverfisverndarstigi fyrir umhverfið í heild sé náð.
Til 1. janúar 2030 getur Umhverfisstofnun veitt starfandi meðalstórum brennsluverum, með nafnvarmaafl sem er meira en 5 MW og sem eru notuð til að keyra gasþjöppustöðvar sem krafist er til að tryggja öryggi og vernd landsbundins flutningskerfis jarðgass, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun köfnunarefnisoxíða sem sett eru fram í töflu 3 í 1. hluta XI. viðauka.
Frá 20. desember 2018 skal losun brennisteinstvíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og ryks út í andrúmsloftið frá nýju meðalstóru brennsluveri ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta XI. viðauka.
Umhverfisstofnun getur veitt nýjum meðalstórum brennsluverum, sem ekki eru starfrækt í meira en 500 rekstrarstundir á ári samkvæmt hlaupandi meðaltali á þriggja ára tímabili, undanþágu frá samræmi við viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta XI. viðauka. Komi til slíkrar undanþágu skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun á ryki, sem nema 100 mg/Nm3, gilda um brennsluver sem brenna eldsneyti í föstu formi.
Á svæðum eða hlutum svæða sem uppfylla ekki viðmiðunarmörk fyrir loftgæði, sem mælt er fyrir um í tilskipun 2008/50/EB, skal Umhverfisstofnun að því er varðar einstaka meðalstór brennsluver á þessum svæðum eða hlutum svæða, meta þörfina á því að beita strangari viðmiðunarmörkum fyrir losun en þeim sem sett eru fram í þessum kafla, sem hluta af þróun áætlana um loftgæði sem um getur í 23. gr. tilskipunar 2008/50/EB að því tilskildu að beiting slíkra viðmiðunarmarka fyrir losun myndi stuðla á skilvirkan hátt að merkjanlega betri loftgæðum.
Umhverfisstofnun getur veitt meðalstóru brennsluveri, sem að öllu jöfnu notar eldsneyti með litlum brennisteini, undanþágu í allt að sex mánuði frá kröfunni um viðmiðunarmörk losunar á brennisteinsdíoxíði, þegar rekstraraðilinn er ófær um að virða þessi viðmiðunarmörk fyrir losun vegna þess að aðföng á brennisteinslitlu eldsneyti hafa brugðist sökum alvarlegs skorts á því.
Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá skyldunni til að fara að viðmiðunarmörkum fyrir losun í tilvikum þar sem meðalstórt brennsluver sem notar aðeins loftkennt eldsneyti verður í sérstöku undantekningartilviki að grípa til notkunar annars eldsneytis vegna skyndilegs rofs á framboði á gasi og myndi af þeim sökum þurfa að vera búið aukahreinsibúnaði. Tímabilið sem slík undanþága er veitt fyrir skal ekki vera lengra en tíu dagar nema þegar rekstraraðilinn sýnir Umhverfisstofnun fram á að færð séu rök fyrir lengra tímabili.
Þegar meðalstórt brennsluver notar samtímis tvær eða fleiri eldsneytistegundir skulu viðmiðunarmörk fyrir losun hvers mengunarefnis reiknuð út með því að:
- nota viðmiðunarmörkin fyrir losun sem gilda fyrir hverja eldsneytistegund eins og sett er fram í XI. viðauka,
- ákvarða vegin viðmiðunarmörk fyrir losun fyrir hverja eldsneytistegund, en þau fást með því að margfalda einstök viðmiðunarmörk fyrir losun sem um getur í a-lið með varmagildi hverrar eldsneytistegundar og deila í hvert margfeldi með samanlögðu varmagildi allra eldsneytistegundanna, og
- leggja saman vegin viðmiðunarmörk losunar fyrir hverja eldsneytistegund.
24. gr. d Skyldur rekstraraðila brennsluvers.
Rekstraraðili brennsluver skal annast vöktun á losun í samræmi við a.m.k. 1. hluta XII. viðauka.
Fyrir meðalstór brennsluver sem nota margs konar eldsneyti skal vöktun á losun fara fram við brennslu á eldsneyti eða eldsneytissamsetningum sem líklegt er að hafi í för með sér mestu losun og á tímabili sem samsvarar venjulegum notkunaraðstæðum.
Rekstraraðili brennsluvers skal halda skrá um og vinna úr öllum niðurstöðum vöktunarinnar með þeim hætti að hægt sé að sannreyna að farið sé að viðmiðunarmörkum fyrir losun í samræmi við reglurnar sem settar eru fram í 2. hluta XII. viðauka.
Fyrir meðalstór brennsluver sem nota auka hreinsibúnað til að uppfylla viðmiðunarmörkin fyrir losun skal rekstraraðili halda skrá yfir eða geyma upplýsingar sem sýna fram á að búnaðurinn starfi á skilvirkan og stöðugan hátt.
IV. KAFLI Brennslustöðvar.
25. gr. Gildissvið.
Þessi kafli gildir um sorpbrennslustöðvar og sorpsambrennslustöðvar sem brenna eða sambrenna föstum eða fljótandi úrgangi.
Þessi kafli gildir ekki um gösunar- eða hitasundrunarstöðvar ef gasið frá þessari hitameðferð úrgangs er hreinsað að því marki að það sé ekki lengur úrgangur áður en það er brennt og það valdi ekki meiri losun en sem leiðir af brennslu náttúrulegs gass.
Að því er varðar þennan kafla skulu allar brennslulínur og sambrennslulínur, úrgangsmóttaka, geymsla, aðstaða til formeðhöndlunar á staðnum, kerfi sem veita úrgangi, eldsneyti og lofti til brennslustöðvarinnar, katlar, búnaður fyrir meðhöndlun á úrgangslofti, búnaður á staðnum fyrir meðhöndlun og geymslu á brennsluleifum og skólpi, reykháfar, tæki og búnaður til að stjórna brennslunni eða sambrennslunni, skráning og vöktun brennsluskilyrða eða sambrennsluskilyrða teljast til sorpbrennslustöðva eða sorpsambrennslustöðva.
Ef öðrum aðferðum en oxun, svo sem hitasundrun, gösun eða rafgasferlum, er beitt við hitameðhöndlun úrgangs skal sorpbrennslustöðin eða sorpsambrennslustöðin standa fyrir bæði hitameðhöndlunarferlinu og síðara brennsluferli.
Ef sorpsambrennsla fer þannig fram að megintilgangur stöðvarinnar er ekki orkuframleiðsla eða að framleiða vörur heldur fremur varmameðhöndlun úrgangs skal líta á stöðina sem sorpbrennslustöð.
Þessi kafli gildir ekki um eftirfarandi brennslustöðvar:
-
stöðvar sem einungis meðhöndla eftirfarandi úrgang:
- úrgang, sbr. 3. gr.,
- geislavirkan úrgang,
- dýraskrokka sem heyra undir reglugerð um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis,
- úrgang sem fellur til við leit að og nýtingu olíu- og gasauðlinda frá mannvirkjum á hafi úti og brennslu þeirra þar,
- tilraunaver sem notuð eru til rannsókna, þróunar og prófana í því skyni að bæta brennsluferlið og sem meðhöndla minna en 50 tonn af úrgangi á ári.
26. gr. Skilgreining á brennsluleif.
Að því er varðar þennan kafla skal brennsluleif merkja allan fljótandi eða fastan úrgang sem sorpbrennslustöð eða sorpsambrennslustöð myndar.
27. gr. Umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð.
Í umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð skal auk þess sem fram kemur í 6. gr. gera grein fyrir ráðstöfunum sem eru fyrirhugaðar til að tryggja að:
- brennslustöðin sé hönnuð, búin og verði haldið við og rekin með þeim hætti að kröfurnar sem til hennar eru gerðar verði uppfylltar,
- varminn, sem myndast við brennslu- og sambrennsluferlið, sé endurheimtur eftir því sem við verður komið til framleiðslu varma, gufu eða orku,
- dregið verði úr magni og skaðsemi brennsluleifa og þær endurunnar eftir því sem við á, og
- förgun brennsluleifa verði í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs.
28. gr. Skilyrði starfsleyfis fyrir brennslustöð.
Starfsleyfi fyrir brennslustöð skal innihalda:
- skrá yfir allar gerðir úrgangs sem heimilt er að meðhöndla með því að nota, ef mögulegt er, a.m.k. þær gerðir úrgangs sem settar eru fram í Evrópsku úrgangsskránni sem komið var á fót með ákvörðun 2000/532/EB, sbr. reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs, og sem inniheldur upplýsingar um magn hverrar gerðar af úrgangi, eftir því sem við á,
- heildarafkastagetu versins til brennslu- eða sambrennslu úrgangs,
- viðmiðunarmörk fyrir losun út í andrúmsloft og vatn,
- kröfur um pH-gildi, hitastig og rennsli að því er varðar losun skólps,
- sýnatöku- og mælingaaðferðir og tíðni sem nota skal til að uppfylla skilyrðin sem sett eru fyrir vöktun losunar,
- leyfilegan hámarkstíma fyrir hvers konar tæknilega óumflýjanlegar stöðvanir, raskanir eða bilanir á hreinsibúnaði eða mælibúnaði en á þeim hámarkstíma má losun út í andrúmsloftið og losun skólps fara yfir þau viðmiðunarmörk fyrir losun sem mælt er fyrir um.
Starfsleyfi fyrir brennslustöð sem notar hættulegan úrgang skal jafnframt innihalda:
- skrá yfir magn mismunandi flokka hættulegs úrgangs sem heimilt er að meðhöndla,
- lágmarks- og hámarksmassaflæði þessa hættulega úrgangs, lágmarks- og hámarksvarmagildi og hámarksinnihald hans af fjölklóruðum bífenýlum, pentaklórfenóli, klór, flúor, brennisteini, þungmálmum og öðrum mengunarefnum.
Umhverfisstofnun skal reglulega endurskoða starfsleyfi brennslustöðva og uppfæra ef nauðsyn krefur, sbr. einnig 14. gr.
29. gr. Stjórnun losunar.
Stýra skal losun úrgangslofts frá brennslustöðvum með reykháf. Hæð reykháfsins skal ákvörðuð með það í huga að vernda heilsufar manna og umhverfið. Losun út í andrúmsloftið frá brennslustöðvum skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk í reglugerð sem sett eru fram í 3. og 4. hluta VI. viðauka eða ákvörðuð í samræmi við 4. hluta þess viðauka. Ef meira en 40% varmalosunar í brennslustöð kemur frá brennslu hættulegs úrgangs eða stöðin sambrennir ómeðhöndlaðan, blandaðan heimilis- og rekstrarúrgang skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í 3. hluta VI. viðauka, gilda.
Takmarka skal, eftir því sem við verður komið, losun skólps, sem fellur til við hreinsun úrgangslofts, í vatnsumhverfi og styrkur mengunarefna skal ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í 5. hluta VI. viðauka.
Viðmiðunarmörkin fyrir losun skulu gilda á staðnum þar sem skólpið frá hreinsun úrgangslofts er losað út úr brennslustöðinni. Ef skólp frá hreinsun úrgangslofts er meðhöndlað utan brennslustöðvarinnar í hreinsistöð sem er eingöngu ætluð fyrir meðhöndlun á þessari gerð skólps, skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í 5. hluta VI. viðauka, gilda á þeim stað þar sem skólpið fer frá hreinsistöðinni. Þar sem skólp frá hreinsun úrgangslofts er meðhöndlað sameiginlega með skólpi af öðrum uppruna, annaðhvort í stöðinni eða utan hennar, skal rekstraraðilinn gera viðeigandi útreikninga á massajafnvægi. Til þess skal nota niðurstöður úr mælingunum, sem settar eru fram í 2. lið 6. hluta VI. viðauka, til að ákvarða losunargildin, þar sem skólpið er að lokum losað, sem er hægt að rekja til skólpsins sem kemur frá hreinsun á úrgangslofti. Ekki má þynna skólp til að uppfylla viðmiðunarmörk sem sett eru fram í 5. hluta VI. viðauka.
Svæði brennslustöðva skulu hönnuð og starfrækt þannig að komið verði í veg fyrir óheimila losun og losun sem verður fyrir slysni á hvers kyns mengandi efnum í jarðveg, yfirborðsvatn og grunnvatn. Geymslurými skal vera til staðar fyrir mengað afrennsli regnvatns frá svæði brennslustöðvar eða fyrir mengað vatn sem á rætur að rekja til leka eða slökkvistarfa. Þessi geymsluaðstaða skal nægja til að tryggja að hægt sé að prófa og hreinsa slíkt úrgangsvatn áður en það er losað ef þurfa þykir.
Í brennslustöð skal ekki brenna úrgang lengur en í fjórar klukkustundir óslitið þegar farið er yfir viðmiðunarmörk fyrir losun. Samanlögð tímalengd starfrækslu við slíkar aðstæður skal ekki fara yfir 60 klukkustundir á einu ári. Tímamörkin skulu gilda um þá brennsluofna sem eru tengdir einu og sama hreinsitækinu fyrir úrgangsloft.
30. gr. Bilun.
Verði bilun skal rekstraraðili brennslustöðvar draga úr eða hætta starfsemi eins fljótt og auðið er þar til brennslustöðin getur hafið eðlilega starfsemi á ný.
31. gr. Vöktun losunar.
Umhverfisstofnun skal tryggja að vöktun losunar fari fram í samræmi við 6. og 7. hluta VI. viðauka.
Í brennslustöðvum skal vera sjálfvirkur mælibúnaður sem er háður eftirliti og árlegum eftirlitsprófunum eins og kveðið er á um í 1. lið 6. hluta VI. viðauka.
Umhverfisstofnun ákveður staðsetningu sýnatöku- eða mælipunkta sem nota skal fyrir vöktun losunar.
Rekstraraðili brennslustöðvar skal skrá allar niðurstöður vöktunar, vinna úr og setja fram með þeim hætti að Umhverfisstofnun geti sannreynt að farið sé að rekstrarskilyrðum og viðmiðunarmörkum fyrir losun sem eru í starfsleyfinu.
32. gr. Samræmi við viðmiðunarmörk.
Líta skal svo á að farið sé að viðmiðunarmörkum fyrir losun í andrúmsloft og vatn ef skilyrði í 8. hluta VI. viðauka, eru uppfyllt.
33. gr. Rekstrarskilyrði.
Brennslustöðvar skulu starfræktar á þann hátt að það brennslustig náist að heildarmagn lífræns kolefnis í gjalli og botnösku sé minna en 3% eða að glæðitapið sé minna en 5% af þurrvigt efnisins. Ef nauðsyn krefur skal nota formeðhöndlunartækni fyrir úrgang.
Sorpbrennslustöðvar skulu hannaðar, útbúnar, byggðar og starfræktar með þeim hætti að lofttegundir frá brennslu úrgangs séu hitaðar eftir síðustu inndælingu brunalofts, á stýrðan og einsleitan hátt og jafnvel við óhagstæðustu aðstæður, upp í a.m.k. 850°C í tvær sekúndur. Sorpsambrennslustöðvar skulu hannaðar, útbúnar, byggðar og starfræktar með þeim hætti að lofttegundir frá sambrennslu úrgangs séu hitaðar, á stýrðan og einsleitan hátt og jafnvel við óhagstæðustu aðstæður, upp í a.m.k. 850°C í tvær sekúndur. Ef hættulegur úrgangur, sem inniheldur meira en 1% af halógenuðum lífrænum efnum, gefið upp sem klór, er brenndur eða sambrenndur skal hitastigið sem þarf til að fara að 1. og 2. málsl. vera a.m.k. 1.100°C. Í brennslustöðvum skal mæla hitastigið, sem sett er fram í 1. og 3. málsl., nærri innri vegg brunahólfsins. Umhverfisstofnun getur heimilað að mælingarnar séu gerðar á öðrum lýsandi stað brunahólfsins.
Hvert brunahólf brennslustöðvar skal búið a.m.k. einum aukabrennara. Þessi brennari skal ræsast sjálfvirkt þegar hitastig brunalofttegunda eftir síðustu inndælingu brunalofts fellur niður fyrir hitastigin sem sett eru fram í 2. mgr. Einnig skal nota hann við ræsingar- eða stöðvunaraðgerðir í stöðinni til að tryggja að þessi hitastig haldist ávallt meðan þessar aðgerðir fara fram og svo lengi sem óbrunninn úrgangur er í brunahólfinu. Ekki má láta aukabrennarann ganga fyrir eldsneyti sem getur haft í för með sér meiri losun en þá sem verður við brennslu gasolíu eins og skilgreint er í reglugerð um gæði eldsneytis.
Brennslustöðvar skulu starfrækja sjálfvirkt kerfi til að hindra aðfærslu úrgangs við eftirfarandi aðstæður:
- við ræsingu þar til hitastiginu, sem sett er fram í 2. mgr., hefur verið náð,
- þegar hitastiginu, sem sett er fram í 2. mgr., er ekki haldið,
- þegar samfelldu mælingarnar sýna að farið er yfir viðmiðunarmörk fyrir losun vegna truflana eða bilana í hreinsibúnaðinum fyrir úrgangsloft.
Allur varmi sem brennslustöð myndar skal endurheimtur eftir því sem við verður komið.
Setja skal smitandi, klínískan úrgang beint í ofninn án þess að blanda honum áður við aðra flokka úrgangs og án beinnar meðhöndlunar.
Umhverfisstofnun skal tryggja að sorpbrennslustöð eða sorpsambrennslustöð sé starfrækt og stjórnað af einstaklingi sem er hæfur til að stjórna stöðinni og skal tilgreina það í starfsleyfisskilyrðum.
34. gr. Afhending og móttaka úrgangs.
Rekstraraðili brennslustöðvar skal gera allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir varðandi afhendingu og móttöku úrgangs í því skyni að koma í veg fyrir eða takmarka, eftir því sem við verður komið, mengun andrúmslofts, jarðvegs, yfirborðsvatns og grunnvatns, sem og önnur neikvæð áhrif á umhverfið, lykt og hávaða og beina áhættu fyrir heilbrigði manna.
Rekstraraðilinn skal ákvarða massann fyrir hverja gerð úrgangs áður en tekið er við úrgangi í brennslustöð.
Áður en tekið er við hættulegum úrgangi í brennslustöð skal rekstraraðilinn safna tiltækum upplýsingum um úrganginn í því skyni að sannprófa að kröfurnar fyrir starfsleyfinu séu uppfylltar. Þær upplýsingar skulu taka til eftirfarandi:
- allra stjórnsýsluupplýsinga um myndunarferlið sem er að finna í skjölunum sem um getur í a‑lið 4. mgr.,
- eðlisfræðilegrar og, eftir því sem við verður komið, efnafræðilegrar samsetningar úrgangsins og allra annarra upplýsinga sem eru nauðsynlegar til að meta hvort hann henti fyrir fyrirhugað brennsluferli,
- hættulegra eiginleika úrgangsins, efna sem ekki má blanda honum saman við og varúðarráðstafana sem grípa skal til við meðhöndlun úrgangsins.
Áður en tekið er við hættulegum úrgangi í brennslustöð skal rekstraraðilinn a.m.k. beita eftirfarandi málsmeðferðarreglum:
- athuga skjölin sem krafist er í reglugerð um meðhöndlun úrgangs, sbr. lög um meðhöndlun úrgangs og eftir atvikum þau sem krafist er í reglugerð um flutning úrgangs á milli landa,
- taka dæmigerð sýni eftir því sem við verður komið, eftir því sem við á, áður en afferming fer fram, til að sannprófa að hann sé í samræmi við upplýsingarnar sem kveðið er á um í 3. mgr. um framkvæmd eftirlits og til að gera Umhverfisstofnun kleift að sanngreina eðli úrgangsins sem er meðhöndlaður.
- Sýnin sem um getur í b-lið skal geyma í minnst 1 mánuð eftir brennsluna eða sambrennsluna á úrganginum sem um ræðir.
Umhverfisstofnun getur veitt brennslustöðvum undanþágur frá 2., 3. og 4. mgr. sem eru hluti af stöð sem fellur undir I. viðauka og brennir eða sambrennir aðeins úrgangi sem verður til innan þeirrar stöðvar.
35. gr. Brennsluleifar.
Lágmarka skal magn og skaðsemi brennsluleifa. Brennsluleifar skal endurvinna, eftir því sem við á, beint í stöðinni eða utan hennar.
Flutningur og tímabundin geymsla á þurrum brennsluleifum í formi ryks skal fara þannig fram að komið sé í veg fyrir að brennsluleifarnar dreifist út í umhverfið.
Áður en ákvarðað er hvernig á að farga eða endurvinna brennsluleifarnar skal gera viðeigandi prófanir til að ákvarða eðlisfræðilega og efnafræðilega eiginleika og hugsanlega mengunarhættu af völdum brennsluleifanna. Þessar prófanir skulu taka til þess heildarhluta sem er uppleysanlegur og heildarhluta uppleysanlegra þungmálma.
36. gr. Umtalsverð breyting.
Breyting á starfsemi brennslustöðvar sem meðhöndlar aðeins hættulausan úrgang í brennslustöð sem felur í sér brennslu eða sambrennslu á hættulegum úrgangi telst umtalsverð breyting.
37. gr. Upplýsingar til almennings.
Rekstraraðili brennslustöðvar með nafnrúmtak 2 tonn eða meira á klukkustund skal upplýsa Umhverfisstofnun um rekstur og vöktun stöðvarinnar og gera grein fyrir keyrslu brennslu- eða sambrennsluferlisins og magni losunar út í andrúmsloft og vatn í samanburði við viðmiðunarmörkin fyrir losun. Umhverfisstofnun skal birta þessar upplýsingar á vefsvæði sínu.
V. KAFLI Starfsemi sem notast við lífræna leysa.
38. gr. Gildissvið.
Þessi kafli gildir um starfsemi sem tilgreind er í VII. viðauka og nær þeim viðmiðunargildum fyrir notkun sem sett eru fram í 2. hluta þess viðauka.
39. gr. Skilgreiningar.
Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- Blanda: blanda eins og hún er skilgreind í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 frá 18. desember 2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (efnareglurnar (REACH)), um stofnun Efnastofnunar Evrópu, sbr. reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er efni (REACH).
- Dreifð losun: öll losun önnur en með úrgangslofti á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum út í andrúmsloft, jarðveg og vatn sem og losun á leysum í hvers konar vörum, nema annað sé tekið fram í 2. hluta VII. viðauka,
- Endurnotkun: notkun lífrænna leysa sem eru endurheimtir frá stöð í hvers konar tæknilegum eða viðskiptalegum tilgangi þ.m.t. notkun sem eldsneyti, en endanleg förgun slíkra endurheimtra lífrænna leysa sem úrgangs er undanskilin.
- Farvi: blanda sem notuð er við prentstarfsemi til að þrykkja texta eða myndir á yfirborð, þ.m.t. allir lífrænir leysar eða blöndur, sem innihalda lífræna leysa, sem nauðsynlegar eru fyrir viðeigandi notkun.
- Heildarlosun: summan af dreifðri losun og losun í úrgangslofti.
- Ílag: magn lífrænna leysa og magn þeirra í blöndum sem eru notaðar í starfsemi, þ.m.t. þeirra leysa sem eru endurunnir innan og utan stöðvarinnar og sem eru meðtaldir í hvert sinn sem þeir eru notaðir í starfseminni.
- Lakk: gagnsætt yfirborðsmeðferðarefni.
- Lím: hvers konar blanda sem notuð er til að líma saman aðskilda hluta vöru, þ.m.t. allir lífrænir leysar eða blöndur, sem innihalda lífræna leysa, sem nauðsynlegar eru fyrir viðeigandi notkun.
- Notkun: heildarílag lífrænna leysa inn á stöð á almanaksári eða öðru hverju 12 mánaða tímabili, að frádregnum öllum rokgjörnum lífrænum efnasamböndum sem eru endurheimt fyrir endurnotkun.
- Ræsingar- eða stöðvunaraðgerðir: aðgerðir, að undanskildum reglulegum sveiflufösum í starfseminni, þar sem starfsemi, tæki eða tankur eru tekin í eða úr notkun eða í eða úr biðstöðu.
- Stöð í rekstri: stöð sem var í rekstri 29. mars 1999 eða sem var veitt leyfi eða skráð fyrir 1. apríl 2001 eða sem rekstraraðili hefur lagt fram fullgerða umsókn um leyfi fyrir fyrir 1. apríl 2001, að því tilskildu að rekstur hafi hafist í stöðinni eigi síðar en 1. apríl 2002.
- Stýrðar aðstæður: aðstæður þar sem stöð er starfrækt þannig að rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum sem sleppt er frá starfseminni er safnað og þau losuð á stýrðan hátt, annaðhvort með reykháfi eða hreinsibúnaði, og eru því ekki fullkomlega dreifð.
- Úrgangsloft: endanlega loftkennda losunin sem inniheldur rokgjörn, lífræn efnasambönd eða önnur mengunarefni frá reykháfi eða hreinsibúnaði út í andrúmsloftið.
40. gr. Útskipti hættulegra efna.
Efnum eða efnablöndum, sem vegna innihalds þeirra af rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum flokkast sem krabbameinsvaldar, stökkbreytivaldar eða efni eða blöndur með eiturhrif á æxlun samkvæmt reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna og fá eða eiga að bera hættusetningarnar H340, H350, H350i, H360D eða H360F, skal skipta út hið fyrsta eftir því sem mögulegt er fyrir skaðminni efni eða efnablöndur.
41. gr. Stjórnun losunar.
Umhverfisstofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að hver stöð hlíti öðru hvoru af eftirfarandi:
- losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda frá stöðvum skal ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun í úrgangslofti og viðmiðunarmörkin fyrir dreifða losun eða viðmiðunarmörkin fyrir heildarlosun og að farið sé að öðrum kröfum sem mælt er fyrir um í 2. og 3. hluta VII. viðauka,
- kröfum skerðingaráætlunarinnar, sem sett er fram í 5. hluta VII. viðauka, að því tilskildu að jafngild minnkun losunar náist samanborið við þá sem næst með beitingu viðmiðunarmarkanna fyrir losun sem um getur í a-lið.
Umhverfisstofnun getur heimilað að losun fari yfir viðmiðunarmörk fyrir losun að því tilskildu að ekki sé búist við umtalsverðri áhættu fyrir heilsufar manna eða umhverfið og rekstraraðilinn sýni fram á að besta aðgengilega tækni sé notuð. Rekstraraðili skal sýna fram á að fyrir einstaka stöð séu viðmiðunarmörkin fyrir dreifða losun hvorki tæknilega né fjárhagslega framkvæmanleg.
Umhverfisstofnun getur heimilað að losun frá húðunarstarfsemi, sem fellur undir 8. lið töflunnar í 2. hluta VII. viðauka og sem ekki er möguleg við stýrðar aðstæður, uppfylli ekki kröfur sem settar eru fram í 2. hluta VII. viðauka, ef rekstraraðilinn hefur sýnt fram á að slíkt sé hvorki tæknilega né fjárhagslega framkvæmanlegt þrátt fyrir að besta aðgengilega tækni sé notuð.
Losun á annaðhvort rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum, sem fá eða eiga að bera hættusetningarnar H340, H350, H350i, H360D eða H360F, eða halógenuðum rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum, sem fá eða eiga að bera hættusetningarnar H341 eða H351, skal stjórna við stýrðar aðstæður að svo miklu leyti sem það er tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegt til að vernda lýðheilsu og umhverfið og skal ekki fara yfir viðkomandi viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 4. hluta VII. viðauka.
Stöðvar þar sem ein eða fleiri tegundir af starfsemi fer fram, sem hver um sig fer yfir viðmiðunargildin í 2. hluta VII. viðauka, skulu:
- að því er varðar efni sem eru tilgreind í 4. mgr. uppfylla kröfur þeirrar málsgreinar fyrir hverja starfsemi fyrir sig,
-
að því er varðar öll önnur efni, annaðhvort:
- uppfylla kröfur 1. mgr. fyrir hverja starfsemi fyrir sig eða
- vera með heildarlosun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda sem fer ekki yfir það sem verið hefði ef i-lið hefði verið beitt.
Gera skal allar viðeigandi varúðarráðstafanir til að lágmarka losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda við ræsingar- og stöðvunaraðgerðir.
42. gr. Vöktun losunar.
Rekstraraðili skal sjá til þess að mælingar á losun séu framkvæmdar í samræmi við 6. hluta VII. viðauka.
43. gr. Stjórnun losunar.
Viðmiðunarmörkum fyrir losun í úrgangslofti er náð ef uppfyllt eru skilyrði sem sett eru fram í 8. hluta VII. viðauka.
44. gr. Skýrslugjöf.
Rekstraraðili skal, sé þess óskað, láta Umhverfisstofnun í té nauðsynlegar upplýsingar til að sýna fram á að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar:
- viðmiðunarmörk fyrir losun í úrgangslofti, viðmiðunarmörk fyrir dreifða losun og viðmiðunarmörk fyrir heildarlosun,
- kröfur skerðingaráætlunarinnar skv. 5. hluta VII. viðauka,
- undanþágur sem veittar eru í samræmi við 2. og 3. mgr. 41. gr.
Upplýsingar rekstraraðila skv. 1. mgr. geta falið í sér stjórnunaráætlun fyrir leysa sem útbúin er í samræmi við 7. hluta VII. viðauka.
45. gr. Umtalsverð breyting á stöðvum í rekstri.
Breyting á hámarksmassaílagi af lífrænum leysum í stöð í rekstri, sem meðaltal yfir einn dag, þar sem stöðin er rekin við hönnunarfrálag við aðrar aðstæður en ræsingar- eða stöðvunaraðgerðir og viðhald búnaðar, skal teljast umtalsverð ef hún leiðir til aukningar á losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda um meira en:
- 25% fyrir stöðvar sem sinna annaðhvort starfsemi sem fellur innan lægri viðmiðunargilda í 1., 3., 4., 5., 8., 10., 13., 16. eða 17. lið í töflunni í 2. hluta VII. viðauka eða starfsemi sem fellur undir einhvern annan lið í 2. hluta VII. viðauka og þar sem notkun leysa er minni en 10 tonn á ári,
- 10% fyrir allar aðrar stöðvar.
Þar sem gerð er umtalsverð breyting á stöð í rekstri, eða hún fellur innan gildissviðs þessarar reglugerðar í fyrsta sinn eftir umtalsverða breytingu, skal fara með þann hluta stöðvarinnar, sem umtalsverð breyting er gerð á, annaðhvort sem nýja stöð eða sem stöð í rekstri, að því tilskildu að heildarlosun allrar stöðvarinnar fari ekki yfir það sem orðið hefði ef farið hefði verið með umtalsvert breytta hlutann sem nýja stöð.
Þegar um er að ræða umtalsverða breytingu skal Umhverfisstofnun kanna sérstaklega hvort starfsemi viðkomandi stöðvar uppfylli kröfur þessarar reglugerðar.
46. gr. Upplýsingar til almennings.
Niðurstöðurnar úr þeirri vöktun losunar sem krafist er skv. 42. gr. og Umhverfisstofnun hefur undir höndum skulu gerðar aðgengilegar almenningi.
VI. KAFLI Stöðvar sem framleiða títandíoxíð.
47. gr. Gildissvið.
Þessi kafli gildir um stöðvar sem framleiða títandíoxíð.
48. gr. Bann við förgun úrgangs.
Förgun á eftirfarandi úrgangi í öll vatnshlot, sjó eða höf er óheimil:
- föstum úrgangi,
- móðurvökva frá síunarfasa eftir vatnsrof títanýlsúlfatlausnarinnar frá stöðvum sem nota súlfatferlið; þ.m.t. súri úrgangurinn sem tengist slíkum vökvum, sem inniheldur í heild meira en 0,5% óbundna brennisteinssýru, og ýmsir þungmálmar og þ.m.t. slíkir móðurvökvar sem hafa verið þynntir þar til þeir innihalda 0,5% eða minna af óbundinni brennisteinssýru,
- úrgangi frá stöðvum, sem nota klóríðferlið, sem inniheldur meira en 0,5% óbundna saltsýru og ýmsa þungmálma, þ.m.t. slíkur úrgangur sem hefur verið þynntur þar til hann inniheldur 0,5% eða minna af óbundinni saltsýru,
- síunarsöltum, seyru og fljótandi úrgangi frá meðhöndlun (þykkingu eða hlutleysingu) úrgangs, sem um getur í b- og c-liðum og inniheldur ýmsa þungmálma. Undanþeginn er hlutleystur og síaður eða umhelltur úrgangur, sem inniheldur aðeins snefilmagn af þungmálmum og hefur pH-gildi yfir 5,5 án nokkurrar þynningar.
49. gr. Losun í vatn.
Losun frá stöðvum í vatn skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 1. hluta VIII. viðauka.
50. gr. Losun út í andrúmsloft.
Hindra skal losun sýrudropa frá stöðvum.
Losun frá stöðvum í andrúmsloft skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta VIII. viðauka.
51. gr. Vöktun losunar.
Rekstraraðili skal tryggja vöktun losunar í vatn og í andrúmsloft til að gera Umhverfisstofnun kleift að sannreyna hvort farið sé að leyfisskilyrðum og 49. og 50. gr. Slík vöktun skal fela í sér a.m.k. vöktun losunar eins og sett er fram í 3. hluta VIII. viðauka.
Vöktun skal framkvæmd í samræmi við staðla Staðlasamtaka Evrópu eða, ef þeir eru ekki fáanlegir, staðla Alþjóðlegu staðlasamtakanna, ÍST staðla eða aðra alþjóðlega staðla sem tryggja að gögn séu af sambærilegum vísindalegum gæðum.
VII. KAFLI Loftgæði.
52. gr. Loftgæði.
Ábyrgðaraðilar starfsleyfisskylds atvinnurekstrar, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, sem hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft skulu gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði, til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð um loftgæði og reglugerð um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings.
VIII. KAFLI Losun gróðurhúsalofttegunda.
53. gr. Losun gróðurhúsalofttegunda.
Þegar um er að ræða losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sem tilgreind er í lögum um loftslagsmál skal starfsleyfi fyrir viðkomandi starfsemi ekki fela í sér viðmiðunarmörk fyrir losun að því er varðar beina losun gróðurhúsalofttegunda, nema það sé nauðsynlegt til að tryggja að engin veruleg staðbundin mengun eigi sér stað.
Við starfsemi sem tilgreind er í lögum um loftslagsmál er það undir Umhverfisstofnun komið hvort stofnunin gerir kröfur um orkunýtni brennslueininga eða annarra eininga sem losa koldíoxíð á staðnum.
Ef nauðsyn krefur skal Umhverfisstofnun gera breytingar á starfsleyfi eftir því sem við á, sbr. 1. og 2. mgr. sem og 14. gr.
Ákvæði greinarinnar eiga ekki við um starfsemi sem tímabundið fellur ekki undir kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda, sbr. lög um loftslagsmál.
IX. KAFLI Skyldur rekstraraðila.
54. gr. Meginreglur um grundvallarskyldur rekstraraðila.
Rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. I. og IX. viðauka, skulu tryggja að starfsemi þeirra sé rekin í samræmi við eftirfarandi meginreglur:
- að gerðar séu allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun,
- að notuð sé besta aðgengilega tækni,
- að starfsemin leiði ekki til umtalsverðrar mengunar,
- að komið sé í veg fyrir myndun úrgangs í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs,
- að úrgangur sem verður til sé útbúinn fyrir endurnotkun, endurunninn, endurheimtur eða, þar sem það er tæknilega eða fjárhagslega ómögulegt, honum fargað um leið og forðast er eða dregið úr öllum áhrifum á umhverfið,
- að orka sé vel nýtt,
- að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir slys eða takmarka afleiðingar þeirra slysa sem geta orðið,
- að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar þegar starfsemi er stöðvuð endanlega til að komast hjá allri hættu á mengun og koma staðnum, þar sem starfsemin fer fram, aftur í viðunandi horf eins og skilgreint er í 15. gr.
55. gr. Óhöpp og slys.
Við óhöpp eða slys sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfið skal hlutaðeigandi rekstraraðili, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, í samræmi við ákvæði laga um umhverfisábyrgð:
- upplýsa Umhverfisstofnun, og eftir atvikum hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, tafarlaust um óhappið eða slysið, og
- grípa tafarlaust til ráðstafana til að takmarka afleiðingarnar fyrir umhverfið og til að fyrirbyggja frekari möguleg óhöpp eða slys.
Umhverfisstofnun, og eftir atvikum hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, skal krefjast þess að rekstraraðilinn grípi til viðeigandi viðbótarráðstafana sem stofnunin telur nauðsynlegar til að takmarka afleiðingar fyrir umhverfið og til að fyrirbyggja frekari möguleg óhöpp eða slys.
56. gr. Skyldur rekstraraðila.
Rekstraraðilar, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, skulu tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settra samkvæmt þeim, starfsleyfisskilyrði og almennar kröfur, sbr. reglugerð um skráningarskyldu.
Ef frávik verða skal rekstraraðili upplýsa eftirlitsaðila tafarlaust um það og grípa tafarlaust til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að öllum kröfum vegna starfseminnar sé framfylgt eins fljótt og auðið er.
X. KAFLI Eftirlit með atvinnurekstri.
57. gr. Eftirlit.
Eftirlit skal vera með atvinnurekstri, sbr. I, VII., IX. og X. viðauka, sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta sem og hollustuhátta. Umhverfisstofnun annast eftirlit með atvinnurekstri, sbr. I., VII. og IX. viðauka, og heilbrigðisnefndir annast eftirlit með atvinnurekstri, sbr. X. viðauka.
Rekstraraðili skal aðstoða eftirlitsaðila eins og nauðsyn krefur til að gera eftirlitsaðilanum kleift að framkvæma hvers kyns eftirlit með starfseminni, taka sýni og afla allra upplýsinga sem eru þeim nauðsynlegar við framkvæmd eftirlitsins.
Umhverfisstofnun skal gera eftirlitsáætlun sem taki til atvinnurekstrar, sbr. I., VII., IX. og X viðauka, og skal áætlunin endurskoðuð reglulega og uppfærð eftir því sem við á. Eftirlitsáætlun skal innihalda eftirfarandi:
- almennt mat á umtalsverðum umhverfisþáttum,
- hvaða landfræðilegt svæði eftirlitsáætlunin nær yfir,
- skrá yfir þær stöðvar sem áætlunin nær yfir,
- verklagsreglur fyrir samningu áætlana um reglubundið mengunarvarnaeftirlit skv. 4. mgr.,
- verklagsreglur fyrir óvenjubundið mengunarvarnaeftirlit skv. 5. mgr., svo sem fyrirvaralaust eða stikkprufu eftirlit,
- ákvæði, ef nauðsyn krefur, um samvinnu milli mismunandi eftirlitsstjórnvalda.
Á grundvelli eftirlitsáætlana gerir eftirlitsaðili reglulega áætlanir um reglubundið eftirlit með atvinnurekstri samkvæmt I., VII., IX. og X. viðauka, þ.m.t. um tíðni vettvangsheimsókna fyrir mismunandi starfsemi. Tímabilið milli tveggja vettvangsheimsókna skal byggjast á kerfisbundnu mati á umhverfisáhættu viðkomandi starfsemi og skal, fyrir starfsemi samkvæmt viðaukum I og IX, ekki vera lengra en eitt ár fyrir starfsemi sem veldur mestri áhættu en þrjú ár fyrir starfsemi sem veldur minnstri áhættu. Ef eftirlit sýnir fram á verulegt brot á leyfisskilyrðum skal viðbótareftirlit fara fram innan sex mánaða frá því eftirliti. Kerfisbundið mat á umhverfisáhættu skal byggjast á a.m.k. eftirfarandi viðmiðunum:
- mögulegum og raunverulegum áhrifum viðkomandi stöðvar á heilbrigði manna og umhverfið með tilliti til umfangs og gerðar losunar, viðkvæmni umhverfisins á staðnum og hættu á mengunarslysum,
- skrá yfir hvernig starfsleyfisskilyrðum er fylgt eftir,
- þátttöku rekstraraðilans í umhverfisstjórnunarkerfi ESB (EMAS) samkvæmt reglugerð um frjálsa þátttöku fyrirtækja og stofnana í umhverfisstjórnunarkerfi Evrópusambandsins (EMAS) eða í öðru sambærilegu vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi eða Svansvottun.
Fyrirvaralaust eða annað óvenjubundið eftirlit skal fara fram til rannsóknar á alvarlegum ábendingum vegna umhverfisins, alvarlegum umhverfisslysum, óhöppum og tilvikum, þar sem reglum er ekki fylgt, eins fljótt og auðið er og eftir því sem við á, fyrir veitingu, endurskoðun eða uppfærslu leyfis.
Eftir hverja vettvangsheimsókn skal eftirlitsaðili taka saman skýrslu með lýsingu á því sem fram kom og skiptir máli varðandi það hvort starfsemin sé í samræmi við starfsleyfisskilyrðin og niðurstöðum um hvort frekari aðgerðir eru nauðsynlegar. Skýrslan skal gerð aðgengileg á vefsvæði eftirlitsaðila eftir að rekstraraðili hefur fengið tækifæri til að koma að athugasemdum og brugðist hefur verið við þeim. Athugasemdirnar skulu eftir atvikum birtar með skýrslunni.
58. gr. Frávik.
Eftirlitsaðili skal hafa eftirlit með atvinnurekstri, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir viðkomandi starfsemi.
Komi fram frávik skal eftirlitsaðili krefja rekstraraðila um úrbætur sem eftirlitsaðilinn telur nauðsynlegar og fullnægjandi.
59. gr. Þagnarskylda.
Þeir sem starfa samkvæmt reglugerð þessari eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
XI. KAFLI Gjaldskrá.
60. gr.
Um gjaldtöku fyrir skráningu, starfsleyfi og eftirlit fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
XII. KAFLI Valdsvið og þvingunarúrræði.
61. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.
Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðum settum samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum getur eftirlitsaðili beitt ákvæðum XVII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hámark dagsekta skv. 61. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir skal vera 500.000 kr. á dag.
XIII. KAFLI Málsmeðferð og úrskurðir.
62. gr. Kærur.
Um ágreining sem rís um framkvæmd reglugerðarinnar eða um ákvarðanir yfirvalda fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunavarnir.
Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
XIV. KAFLI Viðurlög.
63. gr. Sektir eða fangelsi.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
Tilraun til brota og hlutdeild í brotum samkvæmt reglugerð þessari eru refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
64. gr. Sektir lögaðila.
Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
XV. KAFLI Gildistaka o.fl.
65. gr. Innleiðing.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 um losun í iðnaði.
66. gr. Lagastoð.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og efnalög nr. 61/2013. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um atriði er varða skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
67. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi nema 15. gr. sem öðlast gildi 1. júlí 2018. Við gildistöku reglugerðarinnar falla úr gildi reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit, reglugerð nr. 795/1999 um úrgang frá títandíoxíðiðnaði, reglugerð nr. 255/2002 um takmörkun á útstreymi rokgjarnra lífrænna efna vegna notkunar á lífrænum leysiefnum í tiltekinni starfsemi og reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs.
Ákvæði til bráðabirgða.
Auglýsing nr. 582/2000 um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar, með síðari breytingum, heldur gildi sínu og er heilbrigðisnefndum heimilt án ítarlegri starfsleyfisgerðar að gefa út starfsleyfi fyrir rekstur sem fellur undir fylgiskjal auglýsingarinnar.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.