Prentað þann 21. nóv. 2024
1260/2019
Reglugerð um GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu.
1. gr. Gildissvið og markmið.
Reglugerð þessi gildir um starfsemi GRÓ - Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu sem er sjálfstæður lögaðili og hefur hæfi að lögum til að gera samninga í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
Miðstöðin hefur það að markmiði að byggja upp færni og þekkingu í þróunarlöndum. Hún starfar undir merkjum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), samkvæmt samningi milli Íslands og UNESCO, á málefnasviðum þar sem sérþekking Íslendinga nýtist í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.
2. gr. GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu.
Miðstöðin fellur undir utanríkisráðuneytið sem sinnir eftirliti og umsýslu með framlögum til miðstöðvarinnar. Miðstöðin starfar á grunni laga nr. 121/2008 um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands, laga nr. 123/2015 um opinber fjármál, stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, heimsmarkmiða SÞ og alþjóðlegra skuldbindinga. Miðstöðin beitir þverfaglegri og samþættri nálgun við að styrkja færni og þekkingu stofnana, samtaka og einstaklinga sem starfa í þróunarlöndum á eftirfarandi sérsviðum, með það að markmiði að stuðla að:
- auknu jafnrétti kynjanna, félagslegu réttlæti og friðaruppbyggingu (í samræmi við heimsmarkmið nr. 5 og 16),
- aukinni nýtingu jarðhita (í samræmi við heimsmarkmið nr. 7),
- verndun og sjálfbærri nýtingu lífríkis hafs og vatna (í samræmi við heimsmarkmið nr. 14),
- endurheimt og sjálfbærri nýtingu lands (í samræmi við heimsmarkmið nr. 15).
3. gr. Verkefni og samstarf.
Miðstöðinni er ætlað að nýta íslenskt þróunarsamvinnufé sem best og hámarka samlegðaráhrif og skilvirkni á verkefnasviðum í samræmi við stefnumál og áherslur UNESCO. Miðstöðin gerir samstarfssamninga við íslenska aðila á viðkomandi sérsviðum, Jafnréttisskóla, Jarðhitaskóla, Landgræðsluskóla og Sjávarútvegsskóla, þar sem m.a. eftirfarandi starfsemi verður sinnt:
- Þjálfun fyrir fagfólk frá þróunarlöndum.
- Stuðningur við fyrrum nemendur.
- Námskeið og netnámskeið.
- Rannsóknir og framhaldsnám.
- Ráðgjafarþjónusta fyrir samstarfsstofnanir og -samtök á landsbundnum og alþjóðlegum vettvangi.
4. gr. Stjórn.
Ráðherra skipar stjórn miðstöðvarinnar til sex ára í senn. Stjórnin skal skipuð fimm fulltrúum. Einn fulltrúi, sem jafnframt er formaður stjórnar, er tilnefndur af utanríkisráðuneyti, einn af mennta- og menningarmálaráðuneyti, einn af aðalframkvæmdastjóra UNESCO, einn af Íslensku UNESCO nefndinni og einn fulltrúi óháður stjórnvöldum er tilnefndur af þróunarsamvinnunefnd. Jafnframt skal heimilt að tilnefna fulltrúa aðildarríkja UNESCO, einkum frá þróunarríkjum, sem óska eftir þátttöku í verkefnum miðstöðvarinnar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.
Formaður boðar til reglulegra funda, að jafnaði fimm sinnum á hverju almanaksári. Stjórn skal halda aukafundi ef formaður boðar til þeirra, annaðhvort að eigin frumkvæði, aðalframkvæmdastjóra UNESCO eða meirihluta stjórnarmanna. Stjórnin skal setja sér skýrar starfsreglur og verkferla.
5. gr. Hlutverk stjórnar.
Meginhlutverk stjórnar er að vera stefnumótandi ásamt því að sinna eftirliti með starfi miðstöðvarinnar. Helstu verkefni stjórnar eru eftirfarandi:
- taka til umfjöllunar og samþykkja árlegar árangursmiðaðar starfsáætlanir miðstöðvarinnar,
- taka til umfjöllunar þær skýrslur sem forstöðumaður miðstöðvarinnar leggur fram, þ.m.t. árlega árangursskýrslu og tveggja ára sjálfsmatsskýrslur miðstöðvarinnar um framlag hennar til markmiða UNESCO,
- taka til umfjöllunar stærri mál miðstöðvarinnar eftir þörfum,
- taka til umfjöllunar reglubundnar, óháðar endurskoðunarskýrslur um reikningsskil miðstöðvarinnar og hafa eftirlit með að nauðsynlegt bókhald vegna gerðar reikningsskila sé látið í té,
- samþykkja reglur og ákvarða verklag við meðferð fjármála og mannauðsmál fyrir miðstöðina, í samræmi við lög,
- bera ábyrgð á að reksturinn sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem og þær kröfur sem leiða má af alþjóðlegum skuldbindingum.
6. gr. Forstöðumaður.
Forstöðumaður miðstöðvarinnar er skipaður af utanríkisráðherra samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 og hefur umsjón með daglegum rekstri og gerð samstarfssamninga skv. 3. gr. og eftirfylgni með þeim. Hann situr fundi stjórnar án atkvæðisréttar.
Forstöðumaður stýrir samráðsvettvangi stjórnenda Jafnréttisskóla, Jarðhitaskóla, Landgræðsluskóla og Sjávarútvegsskóla. Auk þess starfar samstarfsráð hvers skóla þar sem sæti eiga forstöðumaður miðstöðvarinnar, stjórnandi viðkomandi skóla og fulltrúi þess aðila sem vistar skólann.
7. gr. Fjármál.
Kostnaður við rekstur miðstöðvarinnar og verkefni hennar greiðist að hluta úr ríkissjóði í samræmi við fjárlög og fellur þar undir sér fjárlagalið á málefnasviði 35 um opinbera þróunarsamvinnu. Miðstöðinni ber að setja sér markmið um öflun sértekna á viðkomandi sérsviðum, sem endurspegluð verði í samstarfssamningum, t.d. með öflun styrkja, mótframlaga frá samstarfsstofnunum og með þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.
8. gr. Starfsáætlanir og eftirlit.
Árlegar árangursmiðaðar starfsáætlanir sem miðstöðin vinnur í samráði við samstarfsaðila sína skulu settar fram sem grundvöllur að fjármögnun starfs innan hvers málefnasviðs og er árangur jafnframt útlistaður í árlegri skýrslu sem lögð er fyrir stjórn miðstöðvarinnar og utanríkisráðuneytið. Miðstöðin framkvæmir einnig sjálfsmat á tveggja ára fresti sem lagt er fyrir stjórn.
Miðstöðin skal standa skil á ársskýrslum og ársreikningum til utanríkisráðuneytisins og UNESCO. Utanríkisráðuneytið gerir úttektir á starfseminni og skal miðstöðin veita ráðuneytinu aðgang að gögnum eins og óskað er eftir.
9. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 10. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands nr. 121/2008, öðlast gildi þann 1. janúar 2020. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 854/2019 um Þekkingarmiðstöð þróunarlanda.
Utanríkisráðuneytinu, 18. desember 2019.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Sturla Sigurjónsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.