Prentað þann 13. des. 2024
1170/2015
Reglugerð um fiskeldi.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Afmörkun og hvíld eldissvæða.
- III. KAFLI Móttaka og afgreiðsla umsókna.
- IV. KAFLI Rekstrarleyfi.
- 11. gr. Umsagnir.
- 12. gr. Umsókn um rekstrarleyfi.
- 13. gr. Málsmeðferð umsóknar.
- 14. gr. Efni og útgáfa rekstrarleyfis.
- 15. gr. Úttekt Matvælastofnunar og gildistaka rekstrarleyfis.
- 16. gr. Forsendubrestur.
- 17. gr. Afturköllun og skil á rekstrarleyfi.
- 18. gr. Nýting skv. rekstrarleyfi minni en 40% af burðarþoli sjókvíaeldissvæðis.
- 19. gr. Framsal.
- V. KAFLI Kröfur um staðsetningu og búnað sjókvíaeldisstöðva fyrir laxfiska, merkingar og viðhald.
- 20. gr. Hlífar fyrir skrúfu.
- 21. gr. Staðarúttekt.
- 22. gr. Matsgreining festinga.
- 23. gr. Meginíhlutir.
- 24. gr. Matsgreiningarskýrsla, útlagning festinga og skoðun.
- 25. gr. Krafa um stöðvarskírteini.
- 26. gr. Stöðvarskírteini.
- 27. gr. Lýsing á uppsetningu sjókvíaeldisstöðvar.
- 28. gr. Gildistími stöðvarskírteinis.
- 29. gr. Skýrslugjöf.
- 30. gr. Notkun og viðhald.
- 31. gr. Eftirlit og viðgerðir á netpokum.
- 32. gr. Merkingar sjókvíaeldisstöðva.
- VI. KAFLI Starfræksla fiskeldisstöðva.
- VII. KAFLI Flutningur.
- VIII. KAFLI Gæðastjórnun og innra eftirlit fiskeldisstöðva.
- IX. KAFLI Opinbert eftirlit með fiskeldisstöðvum.
- X. KAFLI Rannsóknir.
- XI. KAFLI Gjaldtaka.
- XII. KAFLI Innflutningur á notuðum eldisbúnaði.
- XIII. KAFLI Viðurlög.
- XIV. KAFLI Gildistaka o.fl.
- Viðauki I
- Viðauki II
- Viðauki III
- Viðauki IV
- Viðauki V
I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi nær til eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar á íslensku forráðasvæði. Ákvæði reglugerðarinnar gilda fyrir rekstur allra fiskeldisstöðva með eldi og um ræktun lagarlífvera. Reglugerðin nær ekki yfir geymslu á villtum lagardýrum sem eru án fóðrunar, m.a. kræklingarækt.
2. gr. Tilvísanir til staðla.
Með tilvísun til NS 9415:2009 er átt við norska staðalinn NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanleg) eða aðra alþjóðlega staðla sem að Matvælastofnun metur að séu sambærilegir.
Með vöruvottun er átt við vottun aðila sem uppfyllir staðalinn ÍST EN 45011:1989 (Almennar reglur um aðila sem votta vörugæði).
Með faggildri skoðunarstofu er átt við skoðunarstofu sem uppfyllir staðalinn ÍST EN ISO/IEC 17020 (Almennar reglur um starfsemi skoðunarstofa af ýmsum gerðum).
3. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Aukabúnaður: Tæknibúnaður, fastur eða hreyfanlegur, sem notaður er á eldiskvíum og getur vegna bilana eða vankanta leitt til þess að fiskur sleppi.
Burðarþolsmat: Mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
Eldisafurðir: Eldisfiskur eins og honum er dreift til neyslu eða afurðir unnar úr honum.
Eldisdýr: Lifandi lagardýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
Eldiseining: Kví, eldisker og jarðtjörn eða þyrping samfastra eða mjög nálægra eininga. Nær einnig til sjóinntaks og frárennslis strandeldisstöðva.
Eldisker: Ker með rennandi sjó, ferskvatni eða ísöltu vatni þar sem í eru aldar lagarlífverur.
Eldisstofn: Hópur dýra alinn í eldisstöð undan dýri sem alið hefur allan sinn aldur í eldisstöð.
Eldissvæði: Svæði þar sem eldi er leyft og sem er afmarkað með sérstökum hnitum.
Erfðabreyttar lífverur: Allar lífverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun.
Festingar: Fullbúið kerfi af línum og botnfestum sem heldur flotkrögum eða flekum á réttum stað. Festingar eru samsettar úr íhlutum í festingar.
Fiskeldi: Fiskeldi er geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki eru nýtt í þágu fiskeldis.
Fleki: Fljótandi vinnu- eða geymslupallur.
Flotkragi: Rammi sem flýtur og heldur uppi einum eða fleiri netpokum.
Framleiðslumagn í rekstrarleyfi:
- Eldi án kynslóðaskipta: Framleiðslumagn miðast við ársframleiðslu slátraðra tonna af óslægðum eldisfiski úr keri/kví. Ársframleiðsla er miðuð við almanaksár.
- Kynslóðaskipt eldi: Framleiðslumagn miðast við meðaltal ársframleiðslu slátraðra tonna af óslægðum eldisfiski úr kví einnar kynslóðar. Ársframleiðsla er miðuð við almanaksár.
Heilsárseldi: Eldi í sjókvíum frá göngustærð upp í markaðsstærð.
Hvíldartími: Tími þar sem ekkert eldi má fara fram í eldiseiningu.
Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstrarleyfishafa framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila sem hefur til þess tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í rekstrarleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.
Íhlutir: Með íhlutum er átt við einstaka hluti í búnaði m.a. meginíhluti.
Íhlutir í festingar: Keðjur, lásar, kósar, tóg, flot, tengi, lóð og fleira sem kann að vera notað í festingar.
Jarðtjörn: Tjarnir sem eru grafnar niður og eru með gegnumstreymi út í ferskt vatn, sjó eða salt vatn.
Klakfiskur: Fiskur nýttur til undaneldis.
Kví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir eða við yfirborð lagar.
Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu.
Kvíaþyrping: Þyrping samfastra eða nálægra kvía.
Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðbúinn kynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali úr hverri kynslóð.
Kynslóðaskipt eldi: Eldi einnar kynslóðar innan sama sjókvíaeldissvæðis.
Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, s.s. fiskar, lindýr, krabbadýr og skrápdýr.
Lagarlífverur: Allar lífverur í ferskvatni og sjó, s.s. lagardýr, gróður og örverur.
Landeldi: Eldi á fiski í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi. Eldið fer fram í fersku vatni, ísöltu eða sjó.
Legustæði: Svæði sjókvíaeldisstöðvar sem afmarkast af útjöðrum festinga.
Lífmassi: Lífmassi er samanlagt margfeldi af fjölda og meðalþyngd fiska á tilteknu eldissvæði. Lífmassi við hver mánaðamót er talinn hæfilegur tími til að sýna breytileika yfir árið.
Meginíhlutir: Flotkragi, fleki, netpoki og festingar.
Notendahandbók: Skjal sem inniheldur rétta lýsingu á íhlutum, flutningi, geymslu, meðhöndlun, uppsetningu, tengingum, notkun og takmörkunum meginíhluta sjókvíaeldisstöðvar.
Ræktun: Sérhver starfsemi sem hefur það markmið að auka eða viðhalda nýliðun, auka lífvænleika og vöxt einnar eða fleiri lagarlífvera, auka heildarframleiðslu eða auka ákveðnar veiðar fram yfir það sem næst við sjálfbæra nýtingu í náttúrulegum vistkerfum. Það getur falið í sér sleppingu, búsvæðagerð, útrýmingu óæskilegra lífvera, áburðargjöf eða sambland af þessum aðgerðum.
Seiðaeldi: Klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska.
Sérhæft nám í fiskeldisfræði: Nám á framhaldsskóla- eða háskólastigi eða eftir að starfsmenn hafa aflað sér sambærilegrar þekkingar og reynslu úr atvinnulífinu.
Sjókvíaeldi: Eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni.
Sjókvíaeldisstöð: Starfsstöð rekin sem ein heild. Getur verið hefðbundin sjókví, sökkvanleg kví eða fljótandi lokuð sjókví með sjódælingu. Einnig fleki, fóðurlagnir og annar sá búnaður sem nauðsynlegur er til reksturs slíkrar stöðvar.
Sjókvíaeldissvæði: Fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi þar sem gert er ráð fyrir einum árgangi eldisfisks hverju sinni og möguleiki er að fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfræki sjókvíaeldisstöðvar á sama svæði með skilyrtri samræmingu í útsetningu seiða og hvíld svæðisins. Afmörkun sjókvíaeldissvæða tekur á hverjum tíma mið af niðurstöðum rannsókna á dreifingu sjúkdómsvalda.
Skiptieldi: Eldi á fiski í strandeldi upp í nokkur hundruð gramma stærð og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð.
Staðarúttekt: Staðbundnar rannsóknir á umhverfisþáttum sem uppfylla kröfur norska staðalsins NS 9415:2009 eða aðra alþjóðlega staðla sem Matvælastofnun metur sambærilega.
Starfsstöð: Svæði þar sem fiskeldismannvirki er staðsett.
Strandeldi: Eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi. Sjó eða ísöltu vatni er dælt í eldiseininguna.
Umhverfisálag: Álag (kraftar) á fljótandi eldismannvirki frá vindi, straumum, vindbáru, úthafsöldu, sjávarflóðum og ís.
Vöruvottorð: Skírteini sem skjalfestir að íhlutir standist kröfur NS 9415:2009.
Vinnslustöð: Hver sú aðstaða þar sem eldisafurðir eru verkaðar, unnar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar.
II. KAFLI Afmörkun og hvíld eldissvæða.
4. gr. Fjarlægðarmörk.
Lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila samkvæmt meginviðmiði skal vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hefur verið úthlutað. Matvælastofnun getur að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva.
Framangreind ákvæði um fjarlægðarmörk gilda með fyrirvara um ákvæði auglýsingar nr. 460/2004 um friðunarsvæði þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt.
Við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíaeldisstöðvar skal miða við, að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði sl. 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skal fjarlægðin vera 15 km, nema notaðir séu stofnar af nærliggjandi vatnasvæði eða geldstofnar, má þá stytta fjarlægðina niður í 5 km.
5. gr. Hvíld eldissvæða og útsetning.
Þegar eldi og slátrun hverrar kynslóðar lýkur skal sjókvíaeldissvæði vera í hvíld í a.m.k. 90 daga.
Matvælastofnun getur gert kröfu um aukna og/eða samræmda hvíld stöðva eða svæða hjá samliggjandi sjókvíaeldisstöðvum og ákveðið að stærri svæði verði hvíld í lengri tíma ef þörf er á slíku. Matvælastofnun tekur ákvörðun um útsetningu seiða m.t.t. fjölda seiða og tímasetningu á einstökum sjókvíaeldissvæðum.
6. gr. Eldistegundir.
Eldistegundir þeirra eldisstöðva sem afrennsli hafa í veiðivötn takmarkast við þær tegundir sem fyrirfinnast á vatnasvæðinu og leita skal heimildar Matvælastofnunar um flutning annarra tegunda inn á eldisstöðvar á viðkomandi svæði.
III. KAFLI Móttaka og afgreiðsla umsókna.
7. gr. Móttaka umsókna.
Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Umsækjendur skulu afhenda Matvælastofnun umsóknir vegna ofangreindra leyfa og skulu þær afgreiddar samhliða.
8. gr. Framsending starfsleyfisumsókna.
Matvælastofnun skal framsenda umsóknir um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
9. gr. Afgreiðsla umsókna.
Umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skal afgreiða innan sex mánaða frá því að þær berast. Matvælastofnun skal tilkynna umsækjanda innan mánaðar frá því umsókn berst stofnuninni hvort umsókn telst fullnægjandi. Verði tafir á málsmeðferð vegna ófullnægjandi gagna umsækjanda framlengist frestur til afgreiðslu sem því nemur.
10. gr. Afhending leyfa.
Ef umsóknir eru samþykktar skal Matvælastofnun afhenda umsækjanda starfsleyfi og rekstrarleyfi samtímis.
IV. KAFLI Rekstrarleyfi.
11. gr. Umsagnir.
Til að starfrækja fiskeldisstöð þarf rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitir.
Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt getur Matvælastofnun aflað umsagnar Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við á, um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vist- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt geta af leyfisskyldri starfsemi.
Sé um endurnýjun á rekstrarleyfi að ræða telst ekki nauðsynlegt að afla slíkra umsagna, enda sé ekki um verulegar breytingar að ræða á eðli og umfangi reksturs skv. 7. gr. laga nr. 71/2008. Sé um aukna framleiðslu eða nýjar eldistegundir að ræða mundi slíkt m.a. teljast til verulegra breytinga.
12. gr. Umsókn um rekstrarleyfi.
Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Þar skulu m.a. koma fram eftirfarandi upplýsingar og viðeigandi gögn:
- Nafn og kennitala umsækjanda, heimilisfang, netfang og símanúmer.
- Fram þarf að koma hvort um sé að ræða umsókn um nýtt rekstrarleyfi, eða breytingu á gildandi leyfi.
- Upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð.
- Upplýsingar um að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði.
- Upplýsingar um að gæðakerfi eldisstöðvar muni standast kröfur 42.-45. gr.
- Upplýsingar um heildarstærð stöðvar í rúmmetrum, staðsetningu og afstöðumynd af væntanlegri starfsemi þar sem fram kemur lega og stærð einstakra eldiseininga. Einnig skulu liggja fyrir upplýsingar um hnitstaðsetningar á útlínum sjókvíaeldisstöðvar. Hnit skulu vera lengd og breidd til útsetningar á sjókorti með nákvæmni upp á a.m.k. einn hundraðasta hluta úr mínútu. Viðmiðun skal vera WGS84.
- Upplýsingar um eldistegundir þar sem fram kemur yfir hvaða hluta af eldisferlinu fyrirhuguð starfsemi nær.
- Upplýsingar um árlega framleiðslugetu stöðvar, hámarkslífmassa stöðvar og áætlað árlegt framleiðslumagn af hverri eldistegund.
- Upplýsingar um hvort um sé að ræða eldi án kynslóðaskipta eða kynslóðaskipt eldi.
- Upplýsingar um eldisstofna og eldisaðferðir, þ.e. hvort um sé að ræða eldi, ræktun eða aðrar aðferðir.
- Afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, nema fyrir liggi heimild Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 17. gr. þeirra laga til að vinna samtímis að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.
- Skilríki um heimild til afnota lands, vatns og sjávar. Umsókn skal einnig fylgja leyfi til mannvirkjagerðar og leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða fyrirhugaðan atvinnurekstur.
- Áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar ásamt staðfestingu um a.m.k. 30% eigin fjármögnun eldisins. Umsækjandi skal leggja fram staðfestingu endurskoðanda um stöðu eiginfjár eða staðfestingu um fyrirhugaða hlutafjáraukningu eftir útgáfu rekstrarleyfis. Þegar staðfesting kveður á um fyrirhugaða hlutafjáraukingu skal gildistaka rekstrarleyfis skilyrt því að ný staðfesting berist frá endurskoðanda um að staða eiginfjár uppfylli ofangreinda kröfu um 30% eigin fjármögnun eftir hlutafjáraukingu.
- Rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferli eldis, öflun hrogna og seiða.
- Burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.
- Upplýsingar um erfðabreyttrar lagarlífverur, sbr. lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur.
- Gögn er varða tryggingar, sbr. 3. mgr. 14. gr.
- Upplýsingar um að eldisbúnaður sem fyrirhugað er að nota í sjókvíaeldi standist kröfur NS 9415:2009.
- Önnur gögn sem nauðsynleg eru til að Matvælastofnun geti metið hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.
Rekstrarleyfishafi sem vill endurnýja rekstrarleyfi sitt skal sækja um endurnýjun á leyfi a.m.k. sex mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út. Ekki er nauðsynlegt að leggja fram viðbótargögn ef engar aðrar efnisbreytingar en breytingar á gildistíma eru gerðar á rekstrarleyfinu, þó með þeirri undantekningu að upplýsingar og gögn sem lögð voru fram með upprunalegri umsókn og hafa takmarkaðan gildistíma skulu uppfærð og send samhliða beiðni um endurnýjun rekstrarleyfis.
Ef rekstrarleyfishafi óskar eftir breytingum á gildandi rekstrarleyfi skal hann leggja fram nýja umsókn og skal við meðferð hennar fylgja ákvæðum 11.-14. gr. reglugerðarinnar.
13. gr. Málsmeðferð umsóknar.
Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skal Matvælastofnun meta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur vegna lagareldisdýra og afurða þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum.
Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á sama sjókvíaeldissvæði skulu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun, enda fullnægi umsókn skilyrðum laga um fiskeldi nr. 71/2008 og reglugerðar þessarar.
Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skal Matvælastofnun leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar.
Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á þá þætti sem um getur í 1. mgr. og 3. mgr. getur Matvælastofnun lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar áður en rekstrarleyfi er veitt.
Við meðferð umsóknar skal kannað hvort staðsetning sjókvíaeldisstöðvar trufli siglingar eða valdi siglingahættu.
14. gr. Efni og útgáfa rekstrarleyfis.
Telji Matvælastofnun að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga um fiskeldi og reglugerðar þessarar skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi til tíu ára í senn. Ef vistfræðileg rök mæla með er heimilt að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma.
Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar einnig skal tekið fram hvort um sé að ræða seiðaeldi, strandeldi, skiptieldi, heilsárseldi eða annað ræktunar- eða eldisform. Þá skal í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna, leyfilegt framleiðslumagn, hámarkslífmassa stöðvar og skyldu rekstrarleyfishafa til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Jafnframt skulu í rekstrarleyfi vera ákvæði um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings og ákvæði um viðbragðsáætlun til að endurheimta fisk sem sleppur. Jafnframt skal í rekstrarleyfi fyrir laxeldi í sjókvíaeldi kveðið á um skyldu til notkunar erfðavísa þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Einnig skal í rekstrarleyfi kveða á um skyldu til utanáliggjandi merkingar á eldislaxi í sjókvíaeldi samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Þá skal koma fram í rekstrarleyfi að gildistaka þess sé háð úttekt Matvælastofnunar skv. 15. gr.
Matvælastofnun skal, áður en rekstrarleyfi í sjókvíaeldi er gefið út, krefja umsækjanda um sönnun þess að hann hafi keypt tryggingu að fjárhæð kr. 3.000 fyrir hvert tonn sem umsækjanda er heimilað að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi. Falli tryggingin niður eða henni sagt upp fellur rekstrarleyfið úr gildi nema rekstrarleyfishafi leggi fram aðra fullnægjandi tryggingu að mati Matvælastofnunar. Framlögð trygging skal gilda áfram í tvö ár eftir að gildistíma tryggingar eða rekstrarleyfis lýkur. Trygging þessi skal nýtast til greiðslu þess kostnaðar sem kann að falla til við það að fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur rekstri, viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu. Matvælastofnun skal eiga rétt til bóta úr tryggingunni vegna kostnaðar sem stofnunin hefur stofnað til með heimild skv. lögum nr. 71/2008 og reglugerðum settum á grundvelli laganna.
Í rekstrarleyfi til sjókvíaeldis skal kveða á um að gildistaka þess sé háð því skilyrði að rekstrarleyfishafi skili inn stöðvarskírteini útgefnu af faggiltri skoðunarstofu fyrir hverja einstaka starfsstöð áður en rekstur hefst.
Í rekstrarleyfi fiskeldisstöðva á landi skal kveða á um að gildistaka þess sé háð því skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur.
15. gr. Úttekt Matvælastofnunar og gildistaka rekstrarleyfis.
Ekki er heimilt að hefja starfsemi á grundvelli útgefins rekstrarleyfis fyrr en eftir að Matvælastofnun hefur framkvæmt úttekt á fiskeldisstöð og gefið út skriflega staðfestingu fyrir gildistöku. Markmið úttektarinnar er að staðreyna að fiskeldisstöðin uppfylli ákvæði laga og reglugerðar þessarar og að rekstrarleyfishafi sé fær um að uppfylla skilyrði rekstrarleyfis.
Gildi rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skal háð því skilyrði að rekstrarleyfishafi skili inn stöðvarskírteini útgefnu af faggiltri skoðunarstofu fyrir hverja einstaka starfsstöð sem kveðið er á um í rekstrarleyfi.
Ef fiskeldistöð er rekin án rekstrarleyfis eða stöðvarskírteina og hefur ekki fengið staðfestingu Matvælastofnunar á gildistöku rekstrarleyfis skal Matvælastofnun stöðva starfsemina.
16. gr. Forsendubrestur.
Ef fiskeldisstöð hefur ekki innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun sem fylgdi umsókn, sbr. ákvæði 12. gr., skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfi úr gildi. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá 1. málslið ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, þó ekki lengur en í 12 mánuði. Rekstrarleyfi skal fellt úr gildi ef starfsemi fiskeldisstöðvar stöðvast í tvö ár.
Matvælastofnun er heimilt, fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis, að minnka leyfilegt framleiðslumagn samkvæmt rekstrarleyfi sé nýting þess minni en 50% af burðarþoli.
Áður en gripið er til þess að afturkalla leyfi skal Matvælastofnun ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
17. gr. Afturköllun og skil á rekstrarleyfi.
Matvælastofnun getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga um fiskeldi og reglugerðar þessarar. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis. Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi verður ófær um að stunda rekstur og þegar eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð.
Þegar rekstri er hætt og rekstrarleyfi skilað til Matvælastofnunar skal rekstrarleyfishafi hreinsa svæði sjókvíaeldisstöðvarinnar og þar með allan búnað á og undir sjávaryfirborði. Hreinsun skal lokið innan 6 mánaða frá því að rekstri var hætt.
Áður en gripið er til þess að afturkalla leyfi skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
18. gr. Nýting skv. rekstrarleyfi minni en 40% af burðarþoli sjókvíaeldissvæðis.
Gefi Matvælastofnun út rekstrarleyfi til sjókvíaeldis sem gerir ráð fyrir minni nýtingu en 40% af burðarþoli viðkomandi sjókvíaeldissvæðis skulu þau einungis veitt til tiltekins tíma, allt að fjórum árum. Heimilt er að endurnýja slíkt leyfi í fjögur ár í senn en liggi fyrir, við lok leyfistímans, fleiri en ein umsókn um rekstrarleyfi á umræddu svæði og þær uppfylla skilyrði laga um fiskeldi nr. 71/2008 og þessarar reglugerðar skal Matvælastofnun gefa út rekstrarleyfi til þess umsækjanda sem nær hagkvæmastri nýtingu á svæðinu með tilliti til burðarþols. Þó er heimilt að endurnýja fyrra leyfi sem ekki er með hagkvæmasta nýtingu ef munur á nýtingu er óverulegur að mati Matvælastofnunar.
19. gr. Framsal.
Framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis án skriflegs samþykkis Matvælastofnunar er óheimil. Slíku samþykki skal þinglýst í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.
V. KAFLI Kröfur um staðsetningu og búnað sjókvíaeldisstöðva fyrir laxfiska, merkingar og viðhald.
20. gr. Hlífar fyrir skrúfu.
Rekstrarleyfishafar skulu tryggja að allir bátar sem notaðir eru við sjókvíaeldisstöðvar séu útbúnir með hlíf fyrir skrúfu til að koma í veg fyrir að skrúfublöð rífi gat á netpoka.
21. gr. Staðarúttekt.
Áður en sjókvíaeldisstöð er færð á legustað skal framkvæma staðarúttekt sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009 til slíkra úttekta. Við stækkun legustæða skal uppfæra gerða staðarúttekt þannig að hún gildi einnig fyrir hið stækkaða legustæði.
Staðarúttekt skal framkvæmd af faggildri skoðunarstofu. Faggildu skoðunarstofunni er heimilt að nota fyrirliggjandi gögn við úttektina ef hún hefur yfirfarið þau og staðfest að gögnin uppfylli kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009.
Staðarúttekt skal skrá í staðarúttektarskýrslu í samræmi við NS:4519:2009 og skal skýrslan vera aðgengileg fyrir Matvælastofnun á þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um og skal hún liggja fyrir áður en rekstrarleyfi Matvælastofnunar tekur gildi.
22. gr. Matsgreining festinga.
Áður en festingum er komið fyrir á legustæði, skal fara fram matsgreining festinga í samræmi við kröfur sem gerðar eru NS 9415:2009 og skal greining framkvæmd af faggildri skoðunarstofu. Matsgreining festinga getur ekki farið fram fyrr en staðarúttekt, sbr. 21. gr., hefur farið fram og niðurstöður þar um liggja fyrir.
Matsgreining festinga skal:
- Innihalda mat sem sýnir að festingar standist kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009.
- Byggja á niðurstöðum úr staðarúttekt.
- Taka tillit til þeirrar sjókvíaeldisstöðvar sem koma á fyrir á legustæði.
23. gr. Meginíhlutir.
Meginíhlutir, íhlutir í festingum og aukabúnaður sem notaðir eru í sjókvíaeldisstöð og falla undir NS 9415:2009 skulu uppfylla kröfur staðalsins. Netpoki, flotkragar, flekar og íhlutir í festingum skulu jafnframt hafa fengið vöruvottun frá faggildri skoðunarstofu.
Faggild skoðunarstofa skal votta að meginíhlutir, íhlutir í festingum og aukabúnaður sem notaður er við rekstur sjókvíaeldisstöðvar uppfylli kröfur staðalsins.
Uppfylla skal kröfur NS 9415:2009 varðandi uppsetningu og notkun á notendahandbók. Fyrir vöruvottun er skilyrði að fyrir liggi notendahandbók sem uppfyllir kröfur í NS 9415:2009.
Vottun faggildrar skoðunarstofu um framangreint skal vera aðgengileg fyrir Matvælastofnun á þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um og skal hún liggja fyrir áður en rekstrarleyfi Matvælastofnunar tekur gildi.
24. gr. Matsgreiningarskýrsla, útlagning festinga og skoðun.
Matsgreiningarskýrsla skal gerð af faggildri skoðunarstofu og innihalda eftirfarandi upplýsingar:
- Hvaða legustæði greiningin á við um.
- Matgreiningu festinga samkvæmt 22. gr.
- Niðurstöður matsgreininga festinga og kröfur sem gerðar eru til festinganna.
- Lýsingu á öllu festingakerfinu í samræmi við kröfur NS 9415:2009.
- Teikningu eða kort af festingakerfinu þar sem allir meginíhlutir sjókvíaeldisstöðvarinnar eru teiknaðir inn á.
- Lýsingu á gerð búnaðar og samsetningu þess búnaðar sem matsgreining festinga gildir um.
- Áreiðanleikaflokkun.
Matsgreiningarskýrsla skal vera aðgengileg á þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um eða í starfsstöð viðkomandi eldisstöðvar í landi.
Festingar sjókvíaeldisstöðva skal leggja út og skulu þær á hverjum tíma fullnægja þeim kröfum sem fram koma í matsgreiningu festinga. Frávik frá matsgreiningu festinga skal skjalfesta og færa inn í matsgreiningarskýrslu af faggildri skoðunarstofu. Við umtalsverð frávik skal önnur matsgreining festinga framkvæmd af faggildri skoðunarstofu og sama á við ef gerðar eru breytingar á sjókvíaeldisstöðinni sem hafa áhrif á þá krafta sem mannvirkið hefur á festingarnar.
Festingar skulu eigi síðar en tveimur mánuðum eftir útlagningu skoðaðar með neðansjávarmyndavélum, fjarstýrðum kafbáti eða álíka tækjum. Tímasetning og niðurstöður slíkrar skoðunar skal skjalfesta í sérstakri skýrslu eða upptöku um skoðun á festingu sem skal vera aðgengileg á þeirri eldisstöð sem hún á við um eða í tilheyrandi starfsstöð í landi.
25. gr. Krafa um stöðvarskírteini.
Allar sjókvíaeldisstöðvar skulu hafa stöðvarskírteini útgefið af faggildri skoðunarstofu og skal skírteinið aðeins gilda fyrir eina stöð á einum stað.
Við útgáfu stöðvarskírteinis skulu liggja fyrir:
- Nauðsynleg vöruvottorð og meginíhlutavottorð, sbr. bráðabirgðaákvæði III.
- Upplýsingar um nálægð eða samtengingu milli fleka og viðkomandi eldiskvía.
- Staðarúttekt og matsgreiningarskýrsla og skýrsla um skoðun festinga.
- Vottorð faggildrar skoðunarstofu um að hönnun sjókvíaeldisstöðvar uppfylli kröfur NS 9415:2009.
Stöðvarskírteini er ekki hægt að gefa út fyrr en farið hefur fram skoðun af faggildri skoðunarstofu á sjókvíaeldisstöð sem skírteinið gildir um. Við slíka skoðun skal staðfesta að:
- Meginíhlutir og aukabúnaður séu í áreiðanlegu ástandi.
- Meginíhlutir passi saman og séu settir saman í samræmi við notendahandbækur.
- Aukabúnaði sé áreiðanlega fyrir komið og í samræmi við notendahandbækur.
- Meginíhlutir þoli það umhverfisálag sem er á legustað.
26. gr. Stöðvarskírteini.
Í stöðvarskírteini skal staðfest að skilyrði 25. gr. séu uppfyllt. Í skírteininu skal einnig koma fram:
- Nafn skoðunaraðila, einkennismerki, heimilisfang, faggildingarnúmer og undirskrift.
- Faggildingarmerki faggildingaraðila.
- Dagsetning og gildistími.
- Heiti starfsstöðvar.
27. gr. Lýsing á uppsetningu sjókvíaeldisstöðvar.
Stöðvarskírteini skal einnig lýsa uppsetningu sjókvíaeldisstöðvarinnar og mögulegri framtíðaruppsetningu. Upplýsingar í stöðvarskírteini um mögulega framtíðarsamsetningu/-uppsetningu er skilyrði þess að hægt verði að gera á því breytingar án þess að gefa þurfi út nýtt stöðvarskírteini. Lýsing á uppsetningu sjókvíaeldisstöðvar skal vera í samræmi við eftirfarandi kröfur:
- Fyrir netpoka þurfa að liggja fyrir upplýsingar um styrkleikaflokk, festipunkta við flotkraga, lögun og búnað til að halda pokanum opnum.
- Fyrir flotkraga þurfa að liggja fyrir upplýsingar um lögun, efni, fjölda og staðsetningu í mannvirkinu.
- Fyrir fleka þurfa að liggja fyrir upplýsingar um staðsetningu á legustað, fjarlægð til næsta flotkraga og hvort flekinn er með sérstakar festingar eða festur saman með hinu fljótandi mannvirki.
- Fyrir festingar þurfa að liggja fyrir upplýsingar um allt festingakerfið skjalfest með teikningum eða korti þar sem allir meginíhlutir eru teiknaðir inn á.
- Fyrir aukabúnað þurfa að liggja fyrir upplýsingar um notkun og staðsetningu.
Rekstrarleyfishafa sjókvíaeldis er skylt að færa skrá yfir alla meginíhluti sem skipt er út og inn á legustæði.
Stöðvarskírteini og skrá um meginíhluti skulu vera aðgengileg á þeirri eldisstöð sem þau eiga við um eða í tilheyrandi starfsstöð í landi.
28. gr. Gildistími stöðvarskírteinis.
Stöðvarskírteini gildir í fimm ár frá útgáfudegi. Ef gerðar eru breytingar á sjókvíaeldisstöð umfram það sem lýst er í stöðvarskírteini er óheimilt að taka hinn breytta hluta í notkun fyrr en nýtt stöðvarskírteini hefur verið gefið út. Sama á við um ef hluti meginíhluta er færður milli staðsetninga.
29. gr. Skýrslugjöf.
Faggild skoðunarstofa sem gefur út stöðvarskírteini skal eigi síðar en tveimur vikum eftir útgáfu skírteinis senda inn rafrænt afrit af stöðvarskírteini og grunngögnum þeim sem notuð voru við útgáfuna, til Matvælastofnunar með þeim hætti sem hún ákveður. Með grunngögnum er átt við staðarúttekt, vöruvottorð, meginíhlutavottorð, matsgreiningarskýrslu og skýrslu um skoðun festinga.
30. gr. Notkun og viðhald.
Rekstrarleyfishafi skal sjá um að meginíhlutir, íhlutir í festingar og aukabúnaður sjókvíaeldisstöðvar séu á hverjum tíma rétt samsett og fyrir komið í samræmi við kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009, notendahandbók, stöðvarskírteini og uppfylli skilyrði rekstrarleyfis.
Rekstrarleyfishafi skal sjá til þess að sjókvíaeldisstöð á hans vegum sé ávallt í áreiðanlegu tæknilegu ástandi. Meginíhlutir, íhlutir í festingar, aukabúnaður og annar vöruvottaður búnaður skal notaður og honum viðhaldið í samræmi við kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009 og notendahandbók.
Hafi rekstrarleyfishafi vitneskju eða ætti að hafa vitneskju um frávik á búnaði eða þjónustu sem gætu leitt til slysasleppinga skal hann tafarlaust setja í gang eigin verkferla til að koma í veg fyrir eða draga úr slysasleppingum. Tilkynna skal um frávik til Matvælastofnunar og til framleiðanda eða þjónustuaðila.
31. gr. Eftirlit og viðgerðir á netpokum.
Rekstrarleyfishafi skal við eftirlit og viðgerðir á netpokum einungis skipta við verkstæði sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009. Faggild skoðunarstofa skal votta að viðgerðaraðili uppfylli skilyrði þar um.
Viðgerðir skulu skráðar í sérstaka ástands- og viðgerðarskýrslu sem inniheldur:
- Nafn, heimilsfang og undirskrift verkstæðis.
- Númer vottunarskírteinis.
- Einkennisnúmer netpokans.
- Lýsingu á umfangi og staðsetningu skemmda.
- Lýsingu á viðgerðinni.
Bráðabirgðaviðgerðir á legustað sem nauðsynlegar eru til að hindra slysasleppingu meðan netpokinn er í notkun falla ekki undir ákvæði þetta.
Ástands- og viðgerðarskýrsla skal vera aðgengileg fyrir Matvælastofnun á þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um.
32. gr. Merkingar sjókvíaeldisstöðva.
Sjókvíaeldisstöð skal merkja á eftirfarandi hátt þannig að það sé vel sjáanlegt sjófarendum:
- Gult merki og gult endurskinsmerki við jaðar sjókvíaeldisstöðvar.
- Gult ljós við jaðar sjókvíaeldisstöðvar eða með lýsingu frá eldiskvíum og fleka.
- Radarspegill við jaðar sjókvíaeldisstöðvar.
- Skila skal til Landhelgisgæslu Íslands upplýsingum er varða hnitsetningar ankera og tóga sjókvíaeldisstöðva.
- Flot sem notuð eru til merkinga skulu vera gul á litinn.
- Óbein lýsing eða önnur lýsing við eða á sjókvíaeldisstöð má ekki blinda sjófarendur.
- Með jaðri sjókvíaeldisstöðvar er átt við stað þar sem tóg frá ankerum eru fest eða sem á einhvern annan hátt markar jaðar stöðvarinnar.
Óheimilt er að stunda veiðar nær jaðri sjókvíaeldisstövðvar en 100 m eða sigla nær jaðri sjókvíaeldisstöðvar en 20 m.
Tæknilegar leiðbeiningar um merkingu sjókvíaeldisstöðva er að finna í viðauka 5.
Þegar nákvæm staðsetning á sjókvíaeldisstöð liggur fyrir skal rekstrarleyfishafi tilkynna hnit til Landhelgisgæslu Íslands. Jafnframt skal rekstrarleyfishafi tilkynna Landhelgisgæslu Íslands þegar sjókvíaeldisstöðvar eru færðar til innan þess eldissvæðis sem fyrirtækið hefur fengið úthlutað.
VI. KAFLI Starfræksla fiskeldisstöðva.
33. gr. Sótthreinsun búnaðar.
Tæki, sem notuð eru til flutnings á lifandi eldisfiskum, skulu vera þannig gerð að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa. Ávallt skal þrífa þau að flutningi loknum. Sótthreinsa skal tækin ef hefja á flutning frá nýjum aðila.
Rekstrarleyfishafi skal óska eftir staðfestingu þjónustuaðila á að búnaður sem notaður er í sjó við eldiskvíarnar hafi verið þveginn og sótthreinsaður áður en hann fær heimild til að koma inn á sjókvíaeldisstöð.
Rekstrarleyfishafi skal þrífa og sótthreinsa búnað sem fluttur er á milli fjarða eða sjókvíaeldissvæða.
34. gr. Eldisfiskur.
Eingöngu er heimilt að hafa í fiskeldisstöð eldisfisk sem tilgreindur er í rekstrarleyfi.
Óheimilt er að vera með villtan fisk og eldisfisk í sömu fiskeldisstöð án heimildar fisksjúkdómanefndar.
Í sjókvíaeldisstöðvum er þó heimilt að hafa villtan þorsk í afmarkaðri kvíaþyrpingu.
35. gr. Bólusetning og lyfjagjöf.
Notkun bóluefna og sýklalyfja í fiskeldi er óheimil nema með samþykki Matvælastofnunar. Óheimilt er að meðhöndla eldisdýr með sýklalyfjum nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis eða viðurkenndrar rannsóknastofu.
Varúðar skal gætt við notkun lyfja og annarra efna í fiskeldisstöð til að koma í veg fyrir að efnin berist út í umhverfið.
36. gr. Umhirða fiska.
Huga skal að velferð eldisfiska á öllu eldistímabilinu.
Sýktur fiskur skal fjarlægður og honum eytt svo fljótt sem verða má samkvæmt nánari ákvörðun dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun. Gripið skal til þeirra ráðstafana sem ástæða þykir til svo að koma megi í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Matvælastofnun er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði.
Þegar því verður við komið skal fjarlægja daglega dauð lagardýr úr eldiseiningu og skrá fjölda og þyngd fiska. Upplýsingar um afföll skulu vera aðgengilegar eftirlitsmönnum Matvælastofnunar í fiskeldisstöð.
37. gr. Slysasleppingar.
Rekstrarleyfishafi, sem missir fisk úr fiskeldisstöð skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu. Við slíkan atburð skal rekstrarleyfishafi fylgja leiðbeiningum sem fram koma í viðauka 4 og á heimasíðu Fiskistofu (www.fiskistofa.is).
Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru til þess að varna því að slíkur atburður sem greinir í 1. mgr. valdi tjóni.
Leyfishafi skal sjá til þess að viðbragðsáætlun vegna slysasleppinga sé staðsett á starfsstöð og kynna starfsmönnum hana. Viðbragðsáætlun vegna slysasleppinga skal innihalda leiðbeiningar um:
- Hvernig hindra skal áframhaldandi slysasleppingar.
- Hvernig tilkynna skal um slysasleppingu.
- Hvernig endurheimta skal fisk sem sleppur.
Fiskistofa getur veitt undanþágu frá banni á veiðum á villtum lagardýrum og eldisdýrum sem sleppa úr fiskeldisstöð.
38. gr. Slátrun á eldisfiski.
Slátrun heyrir undir Matvælastofnun og um hana gilda reglur er fram koma í lögum nr. 55/1998 með síðari breytingum, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Eftirlit með heilbrigði og heilnæmi fiska, sem teknir eru til slátrunar, heyrir einnig undir Matvælastofnun í samræmi við lög og reglugerðir þar að lútandi.
VII. KAFLI Flutningur.
39. gr. Eldisfiskur.
Óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldisstöð fyrr en Matvælastofnun hefur gefið út rekstrarleyfi og staðfesting stofnunarinnar um gildistöku liggur fyrir ásamt stöðvarskírteini fyrir einstaka starfsstöðvar.
40. gr. Takmörkun á flutningi á milli fiskeldisstöðva.
Óheimilt er að flytja eldistegundir, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli fiskeldisstöðva, svo og flytja og sleppa lifandi fiski og hrognum milli ótengdra vatnasvæða.
Matvælastofnun getur bannað flutning á fiski á milli tiltekinna fiskeldisstöðva eða um tiltekin svæði nema að uppfylltum vissum skilyrðum sem lúta að því að draga úr hættu á að sjúkdómar dreifist.
Óheimilt er að flytja notaðan eldisbúnað milli eldissvæða nema að fengnu samþykki Matvælastofnunar.
41. gr. Framkvæmd flutnings.
Flutning á lifandi eldisfiski á sjó eða landi skal tilkynna Matvælastofnun. Matvælastofnun er heimilt að hafa eftirlit með flutningnum og gætir þess að hann sé í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur. Matvælastofnun setur nánari reglur um tilkynningaskyldu og flutning á lifandi eldisfiski.
Við flutning á laxfiskum skal flutningsaðili útbúa verklagsreglur, að höfðu samráði við Matvælastofnun, þar sem fram kemur lýsing á búnaði sem notaður er til flutnings og hver ber ábyrgð á einstökum verkþáttum og réttum viðbrögðum ef fiskur sleppur.
Matvælastofnun getur í neyðartilvikum heimilað flutning eldisstöðvar út fyrir starfssvæði stöðvarinnar.
VIII. KAFLI Gæðastjórnun og innra eftirlit fiskeldisstöðva.
42. gr. Innra eftirlit með lagardýrum og búnaði.
Forsvarsmaður fiskeldisstöðvar, sem sér um daglegan rekstur, skal hafa eftirlit með umhverfi, þar með talið mannvirkjum og búnaði, og heilbrigði lagardýra. Í fiskeldisstöðvum skal hafa eftirlit með eldisfiski daglega svo framarlega sem það er hægt vegna veðurs.
43. gr. Innra eftirlit fiskeldisstöðva.
Innra eftirliti skal komið á í eldisstöðvum í því skyni að koma í veg fyrir slysasleppingar með því að:
- Koma á fyrirbyggjandi aðgerðum í formi verklagsreglna, viðhaldsáætlana og þjálfunar starfsmanna.
- Koma á virku eftirliti þar sem fram kemur hvað á að vakta, hver á að annast vöktunina, hvenær og hvernig vöktunin fer fram.
- Skilgreina viðmiðanir fyrir þau eftirlitsatriði sem eru vöktuð.
- Skilgreina hver er ábyrgur fyrir framkvæmd úrbóta og lýsa aðferðum og aðgerðum sem nauðsynlegar teljast til að leiðrétta frávikið.
- Skrá allt eftirlit, úrbætur og viðhald sem tengist innra eftirliti eldisstöðvar og geyma í minnst fimm ár. Allar skráningar skulu dagsettar og undirritaðar af eftirlitsaðila.
- Sannprófun innra eftirlits eldisstöðvar skal framkvæmd í samræmi við viðauka 3.
44. gr. Sérákvæði fyrir sjókvíaeldisstöðvar laxfiska.
Sjókvíaeldisstöðvar laxfiska þurfa að uppfylla ákvæði viðauka 3 við gerð gæðahandbókar.
45. gr. Starfsmenn fiskeldisstöðva.
Rekstrarleyfishafi skal tryggja að áður en starfsmenn hefja störf fái þeir þjálfun sem hefur það að markmiði að hindra slysasleppingar og hafi þekkingu og færni til að grípa strax til viðeigandi ráðstafana ef slysasleppingar eiga sér stað. Jafnframt skal nýjum starfsmönnum kynnt gæðakerfi eldisstöðvar og þær verklagsreglur sem farið er eftir við stjórnun í eldisstöðinni.
Innan árs frá því að starfsmaður hefur starf í fiskeldisstöð skal rekstrarleyfishafi veita starfsmanni fræðslu um:
- Helstu ástæður fyrir slysasleppingum og hvernig best er að koma í veg fyrir þær.
- Hvaða reglur gilda um veiðar á eldisfiski sem sleppur úr eldisstöð og hvernig framkvæma skal veiðar á þeim.
IX. KAFLI Opinbert eftirlit með fiskeldisstöðvum.
46. gr. Almennt eftirlit og hlutverk Matvælastofnunar.
Matvælastofnun skal hafa eftirlit með fiskeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga um fiskeldi, reglugerðar þessarar og rekstrarleyfis. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu uppfyllt. Matvælstofnun skal í eftirliti sínu notast við skjalfestar verklagsreglur. Með verklagsreglum skal sannreyna hvort eftirlitskerfi rekstrarleyfishafa uppfylli kröfur, sannprófa skilvirkni eftirlitsins og tryggja að úrbætur séu gerðar þegar um frávik er að ræða. Eftirlit með heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða skal einnig framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við lög þar að lútandi.
Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum, sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl., að annast eftirlitið samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við eftirlitið.
Matvælastofnun skal ætíð vera heimill aðgangur að eldisstöð, gæðahandbók, dagbók og öðrum tilheyrandi gögnum. Dagbók skal vera í samræmi við viðauka 1.
Matvælastofnun skal árlega hafa eftirlit með því hvort rekstrarleyfishafi hafi uppfyllt fyrirmæli og skilyrði sem fram koma í viðauka 3.
Matvælastofnun skal árlega útbúa samantekt á heildarframleiðslu í fiskeldi á Íslandi. Í samantektinni skal einnig sundurgreina framleiðsluna á einstök rekstrarleyfi og starfsstöðvar.
47. gr. Framleiðsluskýrsla.
Rekstrarleyfishafi skal gefa Matvælastofnun árlega skýrslu um starfsemi sína þar sem fram koma upplýsingar sem kveðið er á um í viðauka 2. Skýrslan skal send til Matvælastofnunar fyrir 1. febrúar ár hvert.
48. gr. Ákveðnir þættir eftirlits samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Matvælastofnun sér um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun.
Í þjónustusamningi skal ákveðið hvaða hluta eftirlits og eftirfylgni Matvælastofnun sinnir, hvernig ábyrgð er skipt milli stofnananna, hvernig úrvinnslu ábendinga og kvartana er háttað og hver þóknun Matvælastofnunar er. Gera skal áætlun um skipulag eftirlitsins fyrir a.m.k. eitt ár í senn og skal áætlunin liggja fyrir í lok nóvember fyrir komandi ár. Í samningnum skal nánar kveðið á um hvernig samstarfi og samskiptum stofnananna verði háttað m.t.t. framkvæmdar eftirlits, niðurstöðu eftirlits, eftirlitsáætlunar o.fl.
X. KAFLI Rannsóknir.
49. gr. Merkingar laxfiska.
Matvælastofnun skal gera kröfur um auðkenningu eldislax þannig að 10% af útsettum seiðum í sjókvíar verði uggaklippt. Matvælastofnun getur krafist þess að hærra hlutfall af útsettum seiðum sé uggaklippt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Veiðimálastofnun skal veita Matvælastofnun ráðgjöf um framkvæmd auðkenningar. Ekki er skylt að auðkenna eldislax þegar notast er við geldstofna.
Auk þess er framleiðendum laxahrogna skylt að varðveita í gagnagrunnum erfðavísa eldislaxa þannig að hægt sé á hverjum tíma að rekja uppruna laxfiska sem sleppa úr kvíum og veiðast síðar, m.a. ef óvissa ríkir um áhrif eldis á umhverfið. Gögn eða lífsýni af merktum eldisfiskum skulu send til Matvælastofnunar. Auk þess er framleiðendum hrogna skylt að varðveita í gagnagrunnum erfðaefni foreldrafiska og halda bókhald yfir það frá hvaða foreldrum er selt til hverrar stöðvar þannig að hægt sé á hverjum tíma að rekja uppruna fiska sem sleppa úr kvíum eða stöðvum og veiðast síðar.
XI. KAFLI Gjaldtaka.
50. gr. Eftirlitsgjald.
Fyrir eftirlit Matvælastofnunar eða faggildra eftirlitsaðila á hennar vegum skulu fiskeldisstöðvar greiða eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Eftirlitsgjald skal greitt samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðir dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Eftirlitsgjaldið skal ekki vera hærra en raunkostnaður sem hlýst af eftirlitinu og er ætlað að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:
- Launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits.
- Öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar.
- Kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
51. gr. Þjónustugjald vegna afgreiðslu umsóknar um rekstrarleyfi.
Við móttöku Matvælastofnunar á umsókn um rekstrarleyfi samkvæmt reglugerð þessari skulu umsækjendur greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem til fellur við afgreiðslu umsóknar. Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu sem stofnuninni er falið að annast í tengslum við afgreiðslu á umsóknum um rekstrarleyfi samkvæmt reglugerð þessari og lögum um fiskeldi nr. 71/2008. Matvælastofnun er ekki heimilt að taka umsóknir til afgreiðslu fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt.
XII. KAFLI Innflutningur á notuðum eldisbúnaði.
52. gr. Um innflutning á notuðum eldisbúnaði.
Innflutningur á notuðum eldisbúnaði er óheimill. Til slíks búnaðar teljast m.a. eldiskvíar, eldisker, nætur, fóðrarar og fiskidælur. Matvælastofnun getur þó heimilað að flutt séu inn notuð vísindatæki og tæknibúnaður, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með honum sem valda dýrasjúkdómum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað hann að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.
XIII. KAFLI Viðurlög.
53. gr. Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi.
XIV. KAFLI Gildistaka o.fl.
54. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi heldur gildi sínu gagnvart rekstrarleyfum gefnum út fyrir gildistöku reglugerðar þessarar að því leyti sem það samræmist bráðabirgðaákvæðum þessarar reglugerðar.
Ákvæði til bráðabirgða. vegna eldri búnaðar sjókvíaeldisstöðva fyrir eldi laxfiska.
I.
Allir íhlutir sem falla undir NS 9415:2009 sem keyptir eru til sjókvíaeldisstöðva eftir 1. janúar 2016 skulu uppfylla kröfur staðalsins og vera vöruvottaðir.
II.
Undanþágur frá kröfu um vöruvottun - meginíhlutavottorð.
Búnaður í sjó sem ekki hefur verið vöruvottaður skal hafa meginíhlutavottorð til að heimilt sé að nota hann eftir 31. desember 2017.
Í meginíhlutavottorði skal skriflega skjalfest að skilyrði ákvæðis III hér að neðan séu uppfyllt. Því til viðbótar skal meginíhlutavottorð innihalda:
- Lýsingu á þeim meginíhlut sem vottorðið gildir um.
- Sýna nafn, firmamerki, heimilisfang, faggildingarnúmer og undirskrift faggildrar skoðunarstofu.
- Sérstakt númer.
- Útgáfudagsetningu og dagsetningu sem segir til um gildistíma.
Meginíhlutavottorð gildir í þrjú ár frá útgáfudegi.
Meginíhlutavottorðið skal vera aðgengilegt á þeirri eldisstöð þar sem íhluturinn er í notkun, eða í starfsstöð viðkomandi eldisstöðvar í landi.
III.
Skilyrði fyrir meginíhlutavottorði.
Meginíhlutavottorð skal gefið út af skoðunarstofu sem hefur faggildingu til að gefa út slíkt vottorð.
Meginíhlutavottorð er aðeins hægt að gefa út ef:
- Fyrir liggur notendahandbók fyrir meginíhlutnum sem stenst kröfur í NS 9415:2009.
- Að staðfest sé að meginíhluturinn sé í ásættanlegu ástandi.
- Að fyrir liggi hve mikið umhverfisálag meginíhluturinn þolir.
- Að metið hafi verið og skjalfest að meginíhluturinn uppfylli virknikröfur í NS 9415:2009 fyrir viðkomandi umhverfisaðstæður.
IV.
Búnaður sem ekki uppfyllir kröfur um meginíhlutavottorð.
Aðilar sem nota búnað sem ekki uppfyllir NS 9415:2009 eða er ekki með meginíhlutavottorð skulu eftir 31. desember 2017 uppfylla eftirfarandi kröfur:
- Vera með notendahandbók, með teikningum/myndum, lýsingu á íhlutum og samsetningu í samræmi við NS 9415:2009.
- Vera með skráningar á viðhaldi og viðhaldsáætlun.
- Vera með gátlista til notkunar við eftirlit með búnaðinum.
V.
Matsgreining festinga.
Öll eldissvæði skulu vera komin með matsgreiningu festinga fyrir 1. janúar 2018 í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
VI.
Stöðvarskírteini.
Þær sjókvíaeldisstöðvar sem eru í rekstri við gildistöku reglugerðar þessarar skulu fyrir 1. janúar 2020 hafa stöðvarskírteini útgefið af faggildri skoðunarstofu. Stöðvarskírteinið skal aðeins gilda fyrir eina stöð á einum stað.
VII.
Eftirlit og viðgerðir á netpokum.
Þrátt fyrir ákvæði 31. gr. er rekstrarleyfishafa heimilt í tengslum við eftirlit og viðgerðir á netpokum að skipta við verkstæði sem ekki eru faggild í samræmi við NS 9415:2009 fram til 1. júlí 2018. Engu að síður skulu rekstrarleyfishafar geta framvísað skjölum fyrir viðgerð á netpoka þar sem fram koma niðurstöður styrkleikaprófana og lýsing á viðhaldi og viðgerðum netpoka. Þessi skjöl skulu vera í samræmi við kröfur í NS 9415:2009.
VIII.
Bleikjueldi í sjókvíum.
Kröfur 5. kafla reglugerðar þessarar taka ekki gildi að því er varðar bleikjueldi í sjókvíum fyrr en við endurnýjun núgildandi rekstrarleyfa eða við útgáfu nýrra rekstrarleyfa fyrir sjókvíaeldi á bleikju.
IX.
Rekstrarleyfishafar í sjókvíaeldi sem ekki voru í rekstri fyrir 11. desember 2015 fá frest fram til 15. mars 2017 til að skila inn stöðvarskírteini samkvæmt 15. gr. Matvælastofnun er heimilt með þeim fyrirvara sem kveðið er á um í þessu ákvæði að staðfesta gildi rekstrarleyfis án þess að fyrir liggi stöðvarskírteini og rekstrarleyfishöfum er heimilt að hefja starfsemi á grundvelli útgefins rekstrarleyfis án þess að fyrir liggi stöðvarskírteini. Hafi rekstrarleyfishafi í sjókvíaeldi sem ekki var í rekstri fyrir 11. desember 2015 ekki skilað inn stöðvarskírteini samkvæmt 15. gr. fyrir 15. mars 2017 fellur leyfi hans úr gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Stundi rekstraraðili starfsemi í samræmi við rekstrarleyfi sem gefið var út fyrir 11. desember 2015 getur Matvælastofnun heimilað að staðsetningar festinga séu utan eldissvæðis ef uppsetning þeirra samræmist matsgreiningu festinga, sbr. 22. gr. Matvælastofnun skal einungis veita heimild skv. 1. málsl. ef tryggt er að staðfesting festinga hefur ekki áhrif á skipaumferð eða aðra starfsemi í nágrenni við eldissvæðið. Nái festingar út fyrir eldissvæði skal rekstraraðili sækja um stækkun á svæðinu í samræmi við 12. gr. reglugerðarinnar.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.