Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 30. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. maí 2024

540/2020

Reglugerð um fiskeldi.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi nær til eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar á íslensku forráðasvæði. Ákvæði reglugerðarinnar gilda fyrir rekstur fiskeldisstöðva með eldi og um ræktun lagarlífvera. Reglugerðin nær ekki til skráningarskyldra aðila samkvæmt reglugerð um skráningarskylda aðila í fiskeldi.

Reglugerðin nær ekki yfir geymslu á villtum lagardýrum sem eru án fóðrunar, m.a. kræklingarækt.

2. gr. Tilvísanir til staðla.

Með tilvísun til NS 9415:2009 er átt við norska staðalinn NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanlegg - Krav til lokalitetsundersøkelse, risikoanalyse, utforming, dimensjonering, utførelse, montering og drift) eða aðra alþjóðlega staðla sem Matvælastofnun metur að séu sambærilegir.

Með vöruvottun er átt við vottun aðila sem uppfyllir staðalinn ÍST EN ISO 17065:2012 (Samræmismat - Kröfur til aðila sem votta vörur, ferli og þjónustu).

Með faggildri skoðunarstofu er átt við skoðunarstofu sem uppfyllir staðalinn ÍST EN ISO/IEC 17020 (Samræmismat - Almenn viðmið um rekstur ýmiss konar stofnana sem annast skoðanir).

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Aukabúnaður: Tæknibúnaður, fastur eða hreyfanlegur, sem notaður er á eldiskvíum og getur vegna bilana eða vankanta leitt til þess að fiskur strjúki.

Áhættumat erfðablöndunar: Mat á því magni frjórra eldislaxa sem strjúka úr eldi í sjó og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna og metið er að erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, verði það mikil að tíðni arfgerða villtra stofna breytist og valdi versnandi hæfni stofngerða þeirra.

Burðarþolsmat: Mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.

Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.

Eldisker: Ker með rennandi sjó, ferskvatni eða ísöltu vatni þar sem aldar eru lagarlífverur.

Eldisstofn: Hópur dýra alinn í eldisstöð undan dýri sem alið hefur allan sinn aldur í eldisstöð.

Eldissvæði: Svæði þar sem fiskeldi er leyft og afmarkað með sérstökum hnitum.

Erfðabreytt lífvera: Lífvera, önnur en maður, þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun.

Festingar: Fullbúið kerfi af línum og botnfestum sem heldur flotkrögum eða flekum á réttum stað. Festingar eru samsettar úr íhlutum í festingar.

Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.

Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki eru nýtt í þágu fiskeldis.

Fleki: Fljótandi vinnu- eða geymslupallur.

Flotkragi: Rammi sem flýtur og heldur uppi einum eða fleiri netpokum.

Geldstofn: Fiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.

Grunngögn: Staðarúttekt, vöruvottorð, meginíhlutavottorð, matsgreiningarskýrsla og skýrsla um skoðun festinga.

Hvíldartími: Tími eftir eldi kynslóðar þegar ekkert eldi má fara fram í eldiseiningu.

Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstrarleyfishafa framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila sem hefur til þess tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í rekstrarleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.

Íhlutir í festingar: Keðjur, lásar, kósar, tóg, flot, tengi, lóð og fleira sem kann að vera notað í festingar.

Íhlutir: Með íhlutum er átt við einstaka hluti í búnaði m.a. meginíhluti.

Jarðtjörn: Tjörn sem er grafin niður og er með gegnumstreymi út í ferskt vatn, sjó eða salt vatn.

Kví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir við yfirborð lagar.

Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu.

Kynkirtlavísitala: Líffræðilega hugtakið kynkirtlavísitala (e. gonadosomatic index) hér eftir tilgreint sem (GSI) er útreikningur sem hlutfall massa kynkirtla af heildar líkamsmassa fisks. Það er táknað með jöfnunni GSI = [kynkirtlaþyngd / heildarþyngd vefja] × 100.

Kynþroski: Mat á kynþroska krefst ákvörðunar á kynkirtlavísitölu í byrjun júlí. Sé kynkirtlavísitalan GSI < 0,3 er ekki gert ráð fyrir að fiskur nái kynþroska að hausti. Þetta gildir fyrir bæði kyn.

Kynslóðaskipt eldi: Eldi einnar kynslóðar innan sama sjókvíaeldissvæðis.

Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, s.s. fiskar, lindýr, krabbadýr og skrápdýr.

Lagarlífverur: Allar lífverur í ferskvatni og sjó, s.s. lagardýr, gróður og örverur.

Landeldi: Eldi á fiski í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi. Eldið fer fram í fersku vatni, ísöltu eða sjó.

Lax: Fiskur af tegundinni Salmo salar.

Laxfiskur: Fiskar af tegundunum lax (Salmo salar), urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss).

Legustæði: Svæði sjókvíaeldisstöðvar sem afmarkast af útjöðrum festinga.

Lífmassi: Lífmassi er margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði í sjó eða landeldi.

Lokaður eldisbúnaður: Eldisbúnaður þar sem eldisdýrum er haldið í lokuðu rými í sjó eða söltu vatni, sjó- eða vatnsskiptum er stýrt og mögulegt er að endurnýta úrgang vegna eldisins með því að fjarlægja hann úr eldisbúnaðinum. Kröfur vegna slíks eldisbúnaðar skulu taka mið af sömu stöðlum og kröfum og gerðar eru til kvía sem notaðar eru í sjó.

Meginíhlutir: Flotkragi, fleki, netpoki og festingar.

Mótvægisaðgerðir: Eru aðgerðir sem geta falist í notkun á búnaði, eldisaðferðum, auknu innra eftirliti og eldisstofnum til að koma í veg fyrir spjöll eða draga úr spjöllum á villtum nytjastofnum umfram skilgreindar lágmarkskröfur.

Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

Notendahandbók: Skjal sem inniheldur rétta lýsingu á íhlutum, flutningi, geymslu, meðhöndlun, uppsetningu, tengingum, notkun og takmörkunum meginíhluta sjókvíaeldisstöðvar.

Ófrjór lax: Lax sem framleiðir ekki frjóar kynfrumur.

Ræktun: Sérhver starfsemi sem hefur það markmið að auka eða viðhalda nýliðun, auka lífvænleika og vöxt einnar eða fleiri lagarlífvera, auka heildarlífmassa eða auka ákveðnar veiðar fram yfir það sem næst við sjálfbæra nýtingu í náttúrulegum vistkerfum. Það getur falið í sér sleppingu, búsvæðagerð, útrýmingu óæskilegra lífvera, áburðargjöf eða sambland af þessum aðgerðum.

Seiðaeldi: Klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska.

Sjálfbær nýting: Nýting á náttúrulegri auðlind þar sem ekki er gengið á auðlindina og hún nær að endurnýja sig og viðhalda sér og fjölbreytileika sínum.

Sjálfbær veiðinýting fiskstofns: Nýting fiskstofns með veiðum á þann hátt að stofninn nái að viðhalda bæði stofnstærð og líffræðilegum fjölbreytileika sínum.

Sjókvíaeldi: Eldi á eldisdýrum í kvíum eða lokuðum eldisbúnaði sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni.

Sjókvíaeldisstöð: Starfsstöð rekin sem ein heild. Stöðin getur verið hefðbundin kví í sjó eða sökkvanlegur eða fljótandi lokaður eldisbúnaður, fleki, fóðurlagnir og/eða annar sá búnaður sem er nauðsynlegur til reksturs slíkrar stöðvar.

Sjókvíaeldissvæði: Fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi þar sem gert er ráð fyrir einum árgangi eldisfisks hverju sinni og möguleiki er að fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfræki sjókvíaeldisstöðvar á sama svæði með skilyrtri samræmingu í útsetningu seiða og hvíld svæðisins. Afmörkun sjókvíaeldissvæða tekur á hverjum tíma mið af niðurstöðum rannsókna á dreifingu sjúkdómsvalda.

Sjór: Salt vatn utan árósa.

Sníkjudýr: Dýr sem lifir sníkjulífi á eða í eldisdýri og getur valdið því skaða.

Staðarúttekt: Staðbundnar rannsóknir á umhverfisþáttum sem uppfylla kröfur norska staðalsins NS 9415:2009 eða aðra alþjóðlega staðla sem Matvælastofnun metur sambærilega.

Starfsstöð: Svæði þar sem fiskeldismannvirki er staðsett.

Strandeldi: Eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerum á landi.

Umhverfisálag: Álag (kraftar) á fljótandi eldismannvirki frá vindi, straumum, vindbáru, úthafsöldu, sjávarflóðum og ís.

Vatnafiskur: Lax (Salmo salar), silungur (urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss)), áll (Anguilla anguilla) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.

Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti vera í ef fiskur væri ræktaður þar.

Villtur fiskstofn: Fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.

Villtur laxastofn: Laxastofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.

Vinnslustöð: Hver sú aðstaða þar sem eldisafurðir eru verkaðar, unnar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar.

Vöruvottorð: Skírteini sem skjalfestir að íhlutir standist kröfur NS 9415:2009.

WGS84: Alþjóðlegt hnitakerfi sem miðar við ímyndað skilgreint yfirborð sjávar í kyrrstöðu hornrétt á meðalþyngdarsvið jarðar.

II. KAFLI Burðarþolsmat og skipting hafsvæða í eldissvæði.

4. gr. Burðarþolsmat.

Ráðherra ákveður hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær það skuli gert á grundvelli laga um fiskeldi. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun skal vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og endurskoða matið svo oft sem þurfa þykir að mati stofnunarinnar.

Hafrannsóknastofnun skal birta útgefið burðarþolsmat á vefsíðu stofnunarinnar.

5. gr. Breyting á rekstrarleyfum vegna burðarþolsmats.

Lífmassi eldisdýra hvers rekstrarleyfis skal að hámarki samrýmast burðarþolsmati og skal Matvælastofnun, ef við á, breyta gildandi rekstrarleyfum í samræmi við 24. gr.

6. gr. Skipting hafsvæða í eldissvæði.

Hafrannsóknastofnun ákveður skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða og skulu útlínur hvers eldissvæðis fyrir sig skilgreindar með hnitastaðsetningum. Hnit skulu vera lengd og breidd til útsetningar á sjókorti með nákvæmni upp á a.m.k. einn hundraðasta hluta úr mínútu. Viðmiðun skal vera WGS84. Áður skal stofnunin leita umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og, þar sem við á, svæðisráðs viðkomandi svæðis um tillögu sína, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018. Þar sem strandsvæðisskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða liggur fyrir skal Hafrannsóknastofnun taka tillit til þess við ákvörðun um skiptingu í eldissvæði. Þar sem strandsvæðisskipulag liggur ekki fyrir skal Skipulagsstofnun birta tillögu Hafrannsóknastofnunar opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar og veita þriggja vikna frest til að skila inn athugasemdum áður en stofnunin veitir umsögn til Hafrannsóknastofnunar.

Við ákvörðun um skiptingu fjarða og hafsvæða í eldissvæði skal taka tillit til þeirrar starfsemi, þ.m.t. eldisstarfsemi, sem þegar er til staðar í hverjum firði eða á hverju hafsvæði fyrir sig. Jafnframt skal taka tillit til umsókna sem eru í vinnslu hjá Matvælastofnun og/eða Skipulagsstofnun í samræmi við bráðabirgðaákvæði II í lögum um fiskeldi eða reglugerð þessari. Við afmörkun eldissvæða skal miða við að ekki séu fleiri en einn rekstraraðili með starfsemi innan hvers eldissvæðis. Þó er heimilt að aðilar sem stunda sameiginlegan rekstur séu innan sama eldissvæðis. Sé um að ræða kynslóðaskipt eldi á skilgreindum eldissvæðum hjá sama rekstraraðila eða aðilum sem stunda sameiginlegan rekstur skal leitast við að tilgreindur lífmassi á hverju eldissvæði sé sem jafnastur. Þá skal jafnframt við svæðaskiptingu taka tillit til fjarlægðarmarka á milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila, sbr. 5. mgr. 18. gr. og fjarlægðarmarka frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu, sbr. 6. mgr. 18. gr.

III. KAFLI Áhættumat erfðablöndunar.

7. gr. Tillaga að áhættumati erfðablöndunar.

Hafrannsóknastofnun gerir tillögu til ráðherra um það magn frjórra laxa, mælt í lífmassa, sem heimila skal að ala í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði á grundvelli áhættumats erfðablöndunar. Með áhættumatinu er áhætta af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna miðað við magn frjórra eldislaxa á tilteknu hafsvæði metin með líkani.

Í áhættumati erfðablöndunar skal tekið tillit til mótvægisaðgerða sem draga úr mögulegri erfðablöndun, svo sem aukins innra eftirlits, ljósastýringar og stærðar seiða og möskvastærða netpoka umfram þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerð þessari. Hafrannsóknastofnun skal leita eftir tillögum eldisfyrirtækja að slíkum mótvægisaðgerðum. Tillögur eldisfyrirtækja skulu studdar vísindagögnum eftir því sem við á.

Áhættumatið skal byggt á þáttum eins og áætlun um fjölda strokufiska og endurkomuhlutfalli þeirra, áhrifum hafstrauma og dreifingu fiska, fjarlægð áa frá sjókvíaeldissvæðum, stofnstærð laxa í ám og öðru sem þýðingu kann að hafa.

8. gr. Endurskoðun áhættumats erfðablöndunar.

Áhættumat skal endurskoða svo oft sem þörf þykir en þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Undirbúi Hafrannsóknastofnun tillögu að endurskoðuðu áhættumati skal stofnunin áður leita ráðgefandi álits samráðsnefndar um fiskeldi um tillöguna. Stofnunin skal taka rökstudda afstöðu til álitsins og gerir breytingar á tillögunni ef stofnunin telur ástæðu til þess.

9. gr. Staðfesting og útgáfa áhættumats erfðablöndunar.

Ráðherra staðfestir áhættumat erfðablöndunar að fenginni tillögu Hafrannsóknastofnunar. Tillagan er bindandi fyrir ráðherra.

Áhættumat tekur gildi með birtingu á staðfestingu ráðherra í Stjórnartíðindum.

10. gr. Breyting á rekstrarleyfum vegna áhættumats erfðablöndunar.

Rekstrarleyfi fyrir eldi frjórra laxa skulu samrýmast staðfestu áhættumati erfðablöndunar og skal Matvælastofnun, ef við á, breyta gildandi rekstrarleyfum, í samræmi við 24. gr.

IV. KAFLI Umsóknir vegna starfrækslu fiskeldisstöðva.

11. gr. Móttaka umsókna.

Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar.

Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar, eða eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórnar, um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir skal umsækjandi afhenda Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 1. mgr. og skulu þær afgreiddar samhliða, sbr. þó 3. mgr. 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

12. gr. Umsókn um nýtt rekstrarleyfi.

Umsókn um nýtt rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Matvælastofnun er heimilt að taka á móti umsóknum rafrænt. Í umsókn skulu m.a. koma fram eftirfarandi upplýsingar og viðeigandi gögn:

  1. Nafn og kennitala umsækjanda, heimilisfang, netfang og símanúmer.
  2. Upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð.
  3. Upplýsingar um að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði.
  4. Afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld, álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, eða heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 17. gr. þeirra laga til að vinna samtímis að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.
  5. Gögn um heimild til afnota af landi eða vatni eða gögn um úthlutun eldissvæðis ef við á skv. 4. gr. a laga um fiskeldi.
  6. Leyfi til mannvirkjagerðar, ef við á, og leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða fyrirhugaðan atvinnurekstur.
  7. Upplýsingar um heildarstærð stöðvar í rúmmetrum, staðsetningu og afstöðumynd af væntanlegri starfsemi þar sem fram kemur lega og stærð einstakra eldiseininga.
  8. Upplýsingar um hámarks lífmassa stöðvar.
  9. Upplýsingar um eldisstofna, þ.m.t. hlutfall frjórra laxa og ófrjórra í laxeldi, og eldisaðferðir, þ.e. hvort um sé að ræða eldi, ræktun eða aðrar aðferðir.
  10. Upplýsingar um erfðabreyttrar lagarlífverur, sbr. lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur.
  11. Rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferli eldis, s.s. öflun hrogna og seiða.
  12. Upplýsingar um að eldisbúnaður sem fyrirhugað er að nota standist þær kröfur sem gerðar eru í þessari reglugerð.
  13. Upplýsingar um innra eftirlit fiskeldisstöðvar og gæðakerfi ef við á.
  14. Önnur gögn sem nauðsynleg eru til að Matvælastofnun geti metið hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.

Með umsókn um rekstrarleyfi sjókvíaeldis skulu m.a. koma til viðbótar fram eftirfarandi upplýsingar og viðeigandi gögn:

  1. Upplýsingar um hnit staðsetningar á útlínum sjókvíaeldisstöðvar. Hnit skulu vera lengd og breidd til útsetningar á sjókorti með nákvæmni upp á a.m.k. einn hundraðasta hluta úr mínútu. Viðmiðun skal vera WGS84.
  2. Áætlun um fjárfestingar í búnaði ásamt staðfestingu á stöðu eigin fjár og eiginfjárhlutfalli umsækjanda þegar umsókn er lögð fram. Eiginfjárhlutfall skal vera að lágmarki 30% að teknu tilliti til fjárfestinga í búnaði samkvæmt áætlun.
  3. Gögn er varða tryggingar, sbr. 14. gr. b. laga um fiskeldi.
  4. Upplýsingar um að eldisbúnaður sem fyrirhugað er að nota í sjókvíaeldi standist kröfur NS 9415:2009.
  5. Upplýsingar um hvort um sé að ræða eldi án kynslóðaskipta eða kynslóðaskipt eldi.
  6. Upplýsingar um mótvægisaðgerðir umsækjanda ef um ræðir til að koma í veg fyrir eða draga úr spjöllum á villtum nytjastofnum umfram þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerð þessari.

13. gr. Umsókn um breytingar á gildandi rekstrarleyfi.

Matvælastofnun er heimilt að undangenginni umsókn að gera breytingar á eldistegundum, tilfærslu á staðsetningu eldissvæða eða hvíldartíma í rekstrarleyfi.

Umsókn um breytingu á rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Þar skulu m.a. koma fram eftirfarandi upplýsingar og viðeigandi gögn:

  1. Tilgreina skal í umsókn í hverju breytingin felst þ.m.t. stöðu fyrir og eftir áætlaða breytingu og hvort hún sé í samræmi við skiptingu Hafrannsóknastofnunar í eldissvæði.
  2. Nafn og kennitala umsækjanda, heimilisfang, netfang og símanúmer.
  3. Afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld, álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, eða heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 17. gr. framangreindra laga til að vinna samtímis að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.
  4. Önnur þau gögn sem tilgreind eru í 12. gr. sem nauðsynleg eru til að Matvælastofnun geti metið hvort skilyrði til breytingar á gildandi rekstrarleyfi séu fyrir hendi.

Við breytingu á rekstrarleyfi skal gildistími rekstrarleyfis haldast óbreyttur.

Um breytingar á rekstrarleyfi vegna breytinga á burðarþoli og áhættumati fer samkvæmt 24. gr.

14. gr. Umsókn um endurnýjun.

Sækja skal um endurnýjun rekstrarleyfis a.m.k. sjö mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út. Við endurnýjun rekstrarleyfis skal Matvælastofnun meta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru til rekstursins og skal umsækjandi leggja fram öll þau gögn sem Matvælastofnun telur nauðsynleg.

15. gr. Afgreiðsla umsókna.

Matvælastofnun skal tilkynna umsækjanda innan mánaðar frá því umsókn berst hvort hún telst fullnægjandi. Umsókn skal þó ekki tekin til afgreiðslu fyrr en þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem til fellur við afgreiðslu umsóknar hefur verið greitt.

16. gr. Framsending umsókna um starfsleyfi.

Matvælastofnun skal framsenda umsóknir um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

17. gr. Afhending leyfa.

Matvælastofnun afhendir umsækjanda útgefin starfs- og rekstrarleyfi samtímis.

V. KAFLI Útgáfa rekstrarleyfa.

18. gr. Málsmeðferð umsóknar.

Áður en rekstrarleyfi er veitt skal Matvælastofnun leggja mat á hvort fyrirhuguð starfsemi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru um heilbrigði lagardýra og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum og um velferð lagardýra.

Við meðferð umsóknar um sjókvíaeldi skal kannað hvort umsókn samrýmist burðarþolsmati viðkomandi eldissvæðis, fjarða eða hafsvæða á grundvelli laga um fiskeldi.

Ef umsókn varðar sjókvíaeldi á frjóum laxi þá skal Matvælastofnun leggja mat á hvort umsókn samrýmist áhættumati erfðablöndunar.

Matvælastofnun skal kanna hvort fyrirhuguð starfsemi samrýmist skipulagi á svæðinu samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða.

Matvælastofnun skal tryggja að minnsta fjarlægð á milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í sjókvíaeldi samkvæmt meginviðmiði sé eigi styttri en 5 km miðað við útmörk hverrar fiskeldisstöðvar. Matvælastofnun getur þó að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun heimilað styttri fjarlægðir milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila.

Matvælastofnun skal tryggja að fjarlægðarmörk sjókvíaeldisstöðvar frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu séu eigi styttri en 5 km þegar um laxfiska er að ræða í eldi. Miðast framangreind fjarlægðarmörk við loftlínu, nema þegar tangar skilja á milli.

Matvælastofnun getur aflað umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við á um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vist- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi.

Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á þá þætti sem um getur í þessari grein getur Matvælastofnun lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar áður en rekstrarleyfi er veitt.

19. gr. Efni rekstrarleyfis.

Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa og hvort um sé að ræða seiðaeldi, áframeldi, landeldi, strandeldi eða sjókvíaeldi. Þá skal í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi og leyfilega eldisstofna. Í þeim tilvikum þar sem ekki er mögulegt að mæla nákvæmlega lífmassa má með heimild Matvælastofnunar styðjast við reiknilíkan við mat á lífmassa þannig að sem nákvæmust niðurstaða fáist.

Í rekstrarleyfi fiskeldisstöðva á landi skal kveða á um að gildistaka þess sé háð því skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur.

Í rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar í sjókvíaeldi þarf að tilgreina hnit eldissvæðis og hnit sjókvíaeldisstöðva innan hvers skilgreinds eldissvæðis. Hnit skulu vera lengd og breidd til útsetningar á sjókorti með nákvæmni upp á a.m.k. einn hundraðasta hluta úr mínútu. Viðmiðun skal vera WGS84.

Í sjókvíaeldi þarf einnig að koma fram hvort eldið sé kynslóðaskipt eða án kynslóðaskiptingar. Í rekstrarleyfi fyrir laxeldi skal m.a. kveðið á um hvort um sé að ræða eldi á frjóum laxi eða ófrjóum og skyldu til að halda skrá yfir uppruna eldislaxa, sem byggist á gagnagrunni um erfðaefni hjá framleiðanda hrogna. Ætli rekstrarleyfishafi að stunda bæði eldi á frjóum og ófrjóum laxi skal Matvælastofnun gefa út aðskilin rekstrarleyfi. Eldi ófrjórra laxa skal halda aðgreindu frá eldi frjórra laxa.

Ef við á skal tilgreina mótvægisaðgerðir í rekstrarleyfi.

Matvælastofnun er heimilt að skilyrða rekstrarleyfi við samræmda útsetningu seiða og hvíld eldissvæða. Matvælastofnun er heimilt að skilyrða rekstrarleyfi við að rekstrarleyfishafi vinni með öðrum rekstrarleyfishöfum á sama eða samliggjandi sjókvíaeldissvæðum sameiginlega að sjúkdómavörnum, viðbrögðum við sjúkdómum og vöktun sníkjudýra.

20. gr. Auglýsing að tillögu að rekstrarleyfi.

Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum og auglýsa á vefsíðu sinni hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar eða álit Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdar skal liggja fyrir áður en tillaga að rekstrarleyfi er auglýst opinberlega.

Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.

Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu auglýsa tillögu að rekstrar- og starfsleyfi á sama tíma.

21. gr. Ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis.

Fullnægi umsókn skilyrðum laga skal Matvælastofnun taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis til 16 ára innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að rekstrarleyfi rann út.

Sé fyrirhuguð starfsemi háð mati á umhverfisáhrifum skal Matvælastofnun kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en gefið er út rekstrarleyfi og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum starfseminnar til grundvallar. Matvælastofnun skal taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins. Matvælastofnun skal í greinargerðinni einnig taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Sé framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar skal Matvælastofnun áður en hún gefur út rekstrarleyfi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.

Matvælastofnun skal taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar.

Matvælastofnun skal tryggja að rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi samræmist burðarþolsmati skv. 6. gr. b laga um fiskeldi. Einnig skal Matvælastofnun tryggja að rekstrarleyfi samræmist staðfestu áhættumati erfðablöndunar skv. 6. gr. a laga um fiskeldi ef um eldi á frjóum laxi í sjókvíaeldi er að ræða.

Matvælastofnun skal tilkynna umsækjanda um rekstrarleyfi og Umhverfisstofnun og þeim sem hafa gert athugasemdir við umsóknina um afgreiðslu rekstrarleyfis.

Matvælastofnun skal, áður en rekstrarleyfi í sjókvíaeldi er gefið út, krefja umsækjanda um sönnun þess að hann hafi keypt tryggingu að fjárhæð kr. 3.000 fyrir hvert tonn af lífmassa sem umsækjandi hefur heimild fyrir samkvæmt rekstrarleyfi. Trygging skal gilda út gildistíma rekstrarleyfis og í tvö ár að gildistíma loknum.

22. gr. Birting rekstrarleyfis.

Matvælastofnun auglýsir á vefsíðu sinni útgáfu og gildistöku rekstrarleyfa. Birting á vefsíðu Matvælastofnunar telst vera opinber birting.

Matvælastofnun skal birta ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest.

Rekstrarleyfi skal fylgja greinargerð Matvælastofnunar þar sem farið er yfir málsmeðferðina, gerð grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstutt sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins. Matvælastofnun skal í greinargerðinni einnig taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga, þegar tilefni er til, ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Í greinargerðinni skal tekin rökstudd afstaða til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar og gerð grein fyrir afstöðu til athugasemda sem bárust.

23. gr. Úttekt Matvælastofnunar og staðfesting á gildistöku rekstrarleyfis.

Áður en rekstrarleyfi tekur gildi skal Matvælastofnun gera úttekt á fiskeldisstöð til að staðreyna að fiskeldisstöðin uppfylli ákvæði laga og reglugerða og að rekstrarleyfishafi sé fær um að uppfylla skilyrði rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal gefa út skriflega staðfestingu fyrir gildistöku rekstrarleyfis.

Gildi rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skal háð því skilyrði að rekstrarleyfishafi skili inn stöðvarskírteini útgefnu af faggiltri skoðunarstofu fyrir hverja einstaka starfsstöð sem kveðið er á um í rekstrarleyfi. Ef starfsstöðvar sem tilgreindar eru í rekstrarleyfi eru teknar í notkun á mismunandi tíma getur Matvælastofnun heimilað rekstraraðilum að skila inn stöðvarskírteini í samræmi við það.

24. gr. Breytingar á rekstrarleyfum vegna breytinga á áhættumati og burðarþolsmati.

Verði breytingar á áhættumati erfðablöndunar eða burðarþolsmati á svæði sem rekstrarleyfi nær til, sem hefur áhrif á heimilan hámarkslífmassa samkvæmt rekstrarleyfi, skal Matvælastofnun breyta rekstrarleyfum með því að gefa út viðauka við rekstrarleyfi. Í viðaukanum skal skilgreindur hámarkslífmassi í samræmi við breytingar á áhættumati eða burðarþoli fyrir viðkomandi svæði. Jafnframt skal kveðið á um aðlögun lífmassa og skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishöfum hæfilegan tíma til aðlögunar og leita eftir tillögum rekstrarleyfishafa um hvernig þeir ætli að aðlaga rekstur að breytingum á áhættumati erfðablöndunar eða burðarþoli.

Séu fleiri en einn rekstrarleyfishafi á svæði þar sem breytingar á áhættumati eða burðarþolsmati hafa áhrif til aukningar eða minnkunar skal lífmassi breytast hlutfallslega miðað við tilgreint hámarksmagn í rekstrarleyfi og viðauka við rekstrarleyfi ef við á.

Sé þörf á að draga úr hámarkslífmassa í eldi skal Matvælastofnun þó að jafnaði ekki miða við lengri aðlögunartíma en sem nemur slátrun hverrar kynslóðar sem alin er í sjó á því svæði sem rekstrarleyfi nær til. Hver kynslóð skal miðast við móttöku hrogna í seiðastöð.

Áður en leyfi er veitt skal Matvælastofnun tryggja að fyrirhuguð breyting samræmist matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum eða tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun um matsskyldu.

Við breytingar á rekstrarleyfum vegna breytinga á áhættumati eða burðarþolsmati skal gildistími rekstrarleyfis haldast óbreyttur.

25. gr. Endurskoðun rekstrarleyfis.

Matvælastofnun skal endurskoða rekstrarleyfi a.m.k. einu sinni á gildistíma þess, svo sem ef heimild til afnota af landi breytist og/eða ef upp koma aðrar ástæður sem krefjast endurskoðunar.

Matvælastofnun skal endurskoða rekstrarleyfi þannig að leyfilegur hámarkslífmassi sé tilgreindur í rekstrarleyfi. Matvælastofnun skal tryggja við slíka endurskoðun að samræmis sé gætt við hámarksframleiðslumagn gildandi rekstrarleyfa að öðru óbreyttu.

Matvælastofnun skal jafnframt endurskoða rekstrarleyfi í sjókvíaeldi til samræmis við svæðaskiptingu Hafrannsóknastofnunar. Þannig skulu ytri mörk eldissvæðis tilgreind auk staðsetninga fiskeldisstöðva sem falla innan viðkomandi eldissvæðis.

Matvælastofnun skal tilkynna rekstrarleyfishöfum að endurskoðun rekstrarleyfis sé fyrirhuguð. Við slíka endurskoðun skal rekstrarleyfishafi afhenda Matvælastofnun öll gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar eru til endurskoðunar á skilyrðum rekstrarleyfis.

Við endurskoðun skal gildistími rekstrarleyfis haldast óbreyttur.

VI. KAFLI Kröfur um búnað, merkingar og viðhald sjókvíaeldisstöðva.

26. gr. Staðarúttekt.

Áður en sjókvíaeldisstöð er færð á legustað skal framkvæma staðarúttekt sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009 til slíkra úttekta. Við stækkun legustæða skal uppfæra gerða staðarúttekt þannig að hún gildi einnig fyrir hið stækkaða legustæði.

Staðarúttekt skal framkvæmd af faggiltri skoðunarstofu. Faggiltu skoðunarstofunni er heimilt að nota fyrirliggjandi gögn við úttektina þegar hún hefur yfirfarið þau og staðfest að gögnin uppfylli kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009.

Staðarúttekt skal skrá í staðarúttektarskýrslu í samræmi við NS 9415:2009 og skal skýrslan vera aðgengileg Matvælastofnun í þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um og liggja fyrir áður en rekstrarleyfi Matvælastofnunar tekur gildi.

27. gr. Matsgreining festinga.

Áður en festingum er komið fyrir á legustæði, skal faggilt skoðunarstofa gera matsgreiningu á festingum í samræmi við kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009. Matsgreining festinga getur ekki farið fram fyrr en staðarúttekt, sbr. 26. gr., hefur farið fram og niðurstöður hennar liggja fyrir.

Matsgreining festinga skal:

  1. Innihalda mat sem sýnir að festingar standist kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009.
  2. Byggja á niðurstöðum úr staðarúttekt.
  3. Taka tillit til þeirrar sjókvíaeldisstöðvar sem koma á fyrir á legustæði.

28. gr. Meginíhlutir, notendahandbók og vottun.

Meginíhlutir, íhlutir í festingum og aukabúnaður sem notaðir eru í sjókvíaeldisstöð og falla undir NS 9415:2009 skulu uppfylla kröfur staðalsins. Netpoki, flotkragar, flekar og íhlutir í festingum skulu jafnframt hafa fengið vöruvottun frá faggiltri skoðunarstofu.

Faggilt skoðunarstofa skal votta að meginíhlutir, íhlutir í festingum og aukabúnaður sem notaður er við rekstur sjókvíaeldisstöðvar uppfylli kröfur staðalsins.

Uppfylla skal kröfur NS 9415:2009 varðandi uppsetningu og notkun á notendahandbók. Fyrir vöruvottun er skilyrði að fyrir liggi notendahandbók sem uppfyllir kröfur í NS 9415:2009.

Vottun faggiltrar skoðunarstofu um framangreint skal vera aðgengileg fyrir Matvælastofnun í þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um og liggja fyrir áður en rekstrarleyfi Matvælastofnunar tekur gildi.

29. gr. Matsgreiningarskýrsla, útlagning festinga og skoðun.

Matsgreiningarskýrsla skal gerð af faggiltri skoðunarstofu og innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  1. Hvaða legustæði greiningin á við um.
  2. Matgreiningu festinga samkvæmt 27. gr.
  3. Niðurstöður matsgreininga festinga og kröfur sem gerðar eru til festinganna.
  4. Lýsingu á öllu festingakerfinu í samræmi við kröfur NS 9415:2009.
  5. Teikningu eða kort af festingakerfinu sem allir meginíhlutir sjókvíaeldisstöðvarinnar eru teiknaðir inn á.
  6. Lýsingu á gerð búnaðar og samsetningu þess búnaðar sem matsgreining festinga gildir um.
  7. Áreiðanleikaflokkun.

Matsgreiningarskýrsla skal vera aðgengileg í þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um eða í starfsstöð viðkomandi eldisstöðvar í landi.

Festingar sjókvíaeldisstöðva skal leggja út og skulu þær ávallt fullnægja þeim kröfum sem fram koma í matsgreiningu festinga. Frávik frá matsgreiningu festinga skal skjalfesta og færa inn í matsgreiningarskýrslu af faggiltri skoðunarstofu. Við umtalsverð frávik skal önnur matsgreining á festingum framkvæmd af faggiltri skoðunarstofu og sama á við ef gerðar eru breytingar á sjókvíaeldisstöðinni sem hafa áhrif á þá krafta sem reyna á festingar mannvirkisins.

Festingar skulu eigi síðar en tveimur mánuðum eftir útlagningu skoðaðar með neðansjávarmyndavélum, fjarstýrðum kafbáti eða álíka tækjum. Tímasetning og niðurstöður slíkrar skoðunar skal skjalfesta í sérstakri skýrslu eða upptöku um skoðun á festingu sem skal vera aðgengileg í þeirri eldisstöð sem hún á við um eða í tilheyrandi starfsstöð í landi.

30. gr. Útgáfa stöðvarskírteinis.

Allar sjókvíaeldisstöðvar skulu hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu og skal skírteinið aðeins gilda fyrir eina stöð á einum stað.

Í stöðvarskírteini skulu koma fram upplýsingar um hönnun, ástand og samsetningu búnaðar sjókvíaeldisstöðvar og vottun um að búnaður uppfylli kröfur laga og gildandi staðla. Jafnframt skal koma fram í stöðvarskírteini staðsetning og ytri mörk stöðvar auk staðsetningar stöðvar innan eldissvæðis.

Stöðvarskírteini er ekki hægt að gefa út fyrr en farið hefur fram skoðun af faggiltri skoðunarstofu á þeirri sjókvíaeldisstöð sem skírteinið gildir um. Við slíka skoðun skal staðfesta að:

  1. Meginíhlutir og aukabúnaður séu í áreiðanlegu ástandi.
  2. Meginíhlutir passi saman og séu settir saman í samræmi við notendahandbækur.
  3. Aukabúnaði sé tryggilega fyrir komið og í samræmi við notendahandbækur.
  4. Meginíhlutir þoli það umhverfisálag sem er á legustað.

Ef gerðar eru breytingar á sjókvíaeldisstöð umfram það sem lýst er í stöðvarskírteini er óheimilt að taka hinn breytta hluta í notkun fyrr en nýtt stöðvarskírteini hefur verið gefið út. Sama á við ef hluti meginíhluta er færður milli staðsetninga.

Í stöðvarskírteini skal einnig koma fram:

  1. Nafn skoðunaraðila, einkennismerki, heimilisfang, faggildingarnúmer og undirskrift.
  2. Faggildingarmerki faggildingaraðila.
  3. Dagsetning og gildistími.
  4. Heiti starfsstöðvar.

Stöðvarskírteini gildir í fimm ár frá útgáfudegi.

Við útgáfu stöðvarskírteinis skulu liggja fyrir:

  1. Nauðsynleg vöruvottorð og meginíhlutavottorð.
  2. Upplýsingar um nálægð eða samtengingu milli fleka og viðkomandi eldiskvía.
  3. Staðarúttekt og matsgreiningarskýrsla og skýrsla um skoðun festinga.
  4. Vottorð faggiltrar skoðunarstofu um að hönnun sjókvíaeldisstöðvar uppfylli kröfur NS 9415:2009.

31. gr. Lýsing á uppsetningu sjókvíaeldisstöðvar.

Stöðvarskírteini skal einnig lýsa uppsetningu sjókvíaeldisstöðvarinnar og mögulegri framtíðaruppsetningu. Upplýsingar í stöðvarskírteini um mögulega framtíðarsamsetningu/-uppsetningu er skilyrði þess að hægt verði að breyta skírteini án þess að gefa þurfi út nýtt. Lýsing á uppsetningu sjókvíaeldisstöðvar skal vera í samræmi við eftirfarandi kröfur:

  1. Fyrir netpoka þurfa að liggja fyrir upplýsingar um styrkleikaflokk, festipunkta við flotkraga, lögun og búnað til að halda pokanum opnum.
  2. Fyrir flotkraga þurfa að liggja fyrir upplýsingar um lögun, efni, fjölda og staðsetningu í mannvirkinu.
  3. Fyrir fleka þurfa að liggja fyrir upplýsingar um staðsetningu á legustað, fjarlægð til næsta flotkraga og hvort flekinn er með sérstakar festingar eða festur saman með hinu fljótandi mannvirki.
  4. Fyrir festingar þurfa að liggja fyrir upplýsingar um allt festingakerfið skjalfest með teikningum eða korti sem allir meginíhlutir eru teiknaðir inn á.
  5. Fyrir aukabúnað þurfa að liggja fyrir upplýsingar um notkun og staðsetningu.

Rekstrarleyfishafa sjókvíaeldis er skylt að færa skrá yfir alla meginíhluti sem skipt er út og inn á legustæði.

Stöðvarskírteini og skrá um meginíhluti skulu vera aðgengileg á þeirri eldisstöð sem þau eiga við um eða í tilheyrandi starfsstöð í landi.

32. gr. Skýrslugjöf.

Faggilt skoðunarstofa sem gefur út stöðvarskírteini skal eigi síðar en tveimur vikum eftir útgáfu skírteinis senda inn rafrænt afrit af stöðvarskírteini og grunngögnum þeim sem notuð voru við útgáfuna, til Matvælastofnunar.

33. gr. Notkun og viðhald.

Rekstrarleyfishafi skal sjá um að meginíhlutir, íhlutir í festingar og aukabúnaður sjókvíaeldisstöðvar séu á hverjum tíma rétt samsett og komið fyrir í samræmi við kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009, notendahandbók, stöðvarskírteini og uppfylli skilyrði rekstrarleyfis.

Rekstrarleyfishafi skal sjá til þess að sjókvíaeldisstöð á hans vegum sé ávallt í áreiðanlegu tæknilegu ástandi. Meginíhlutir, íhlutir í festingar, aukabúnaður og annar vöruvottaður búnaður skal notaður og honum viðhaldið í samræmi við kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009 og notendahandbók.

Hafi rekstrarleyfishafi vitneskju eða ætti að hafa vitneskju um frávik á búnaði eða þjónustu sem gætu leitt til stroks skal hann tafarlaust setja í gang eigin verkferla til að koma í veg fyrir slíkt. Tilkynna skal um frávik til Matvælastofnunar og til framleiðanda eða þjónustuaðila.

34. gr. Eftirlit og viðgerðir á netpokum.

Rekstrarleyfishafi skal við eftirlit og viðgerðir á netpokum skipta við verkstæði sem faggilt skoðunarstofa hefur vottað að uppfylli kröfur sem gerðar eru í NS 9415:2009 um viðgerðir.

Viðgerðir skulu skráðar í sérstaka ástands- og viðgerðarskýrslu sem inniheldur:

  1. Nafn, heimilisfang og undirskrift verkstæðis.
  2. Númer vottunarskírteinis.
  3. Einkennisnúmer netpokans.
  4. Lýsingu á umfangi og staðsetningu skemmda.
  5. Lýsingu á viðgerðinni.

Bráðabirgðaviðgerðir á legustað sem nauðsynlegar eru til að hindra strok meðan netpokinn er í notkun falla ekki undir ákvæði þetta.

Ástands- og viðgerðarskýrsla skal vera aðgengileg fyrir Matvælastofnun á þeirri sjókvíaeldisstöð sem hún gildir um.

35. gr. Merkingar sjókvíaeldisstöðva.

Sjókvíaeldisstöð skal merkt á eftirfarandi hátt þannig að það sé vel sjáanlegt sjófarendum:

  1. Gult merki og gult endurskinsmerki við jaðar sjókvíaeldisstöðvar.
  2. Gult ljós við jaðar sjókvíaeldisstöðvar eða með lýsingu frá eldiskvíum og fleka.
  3. Radarspegill við jaðar sjókvíaeldisstöðvar.
  4. Skila skal til Landhelgisgæslu Íslands upplýsingum er varða hnitsetningar ankera og tóga sjókvíaeldisstöðva.
  5. Flot sem notuð eru til merkinga skulu vera gul að lit.
  6. Óbein lýsing eða önnur lýsing við eða á sjókvíaeldisstöð má ekki vera blindandi fyrir sjófarendur.
  7. Með jaðri sjókvíaeldisstöðvar er átt við stað þar sem tóg frá ankerum eru fest eða sem á einhvern annan hátt markar jaðar stöðvarinnar.

Óheimilt er að stunda veiðar nær jaðri sjókvíaeldisstöðvar en 150 m eða sigla nær jaðri sjókvíaeldisstöðvar en 50 m.

Tæknilegar leiðbeiningar um merkingu sjókvíaeldisstöðva er að finna í viðauka V.

Þegar nákvæm staðsetning á sjókvíaeldisstöð liggur fyrir skal rekstrarleyfishafi tilkynna hnit til Landhelgisgæslu Íslands. Jafnframt skal rekstrarleyfishafi tilkynna Landhelgisgæslu Íslands þegar sjókvíaeldisstöðvar eru færðar til innan þess eldissvæðis sem fyrirtækið hefur fengið úthlutað.

36. gr. Hlífar fyrir skrúfu.

Rekstrarleyfishafi skal tryggja að allir bátar sem notaðir eru við sjókvíaeldisstöðvar séu útbúnir með hlíf fyrir skrúfu til að koma í veg fyrir að skrúfublöð rífi gat á netpoka.

VII. KAFLI Innflutningur á notuðum eldisbúnaði.

37. gr. Innflutningur á notuðum eldisbúnaði.

Innflutningur á notuðum eldisbúnaði er óheimill. Til slíks búnaðar teljast m.a. eldiskvíar, eldisker, nætur, fóðrarar og fiskidælur. Þó er heimilt að flytja inn notuð vísindatæki og tæknibúnað, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði enda þyki sannað að ekki berist smitefni með honum sem valda dýrasjúkdómum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.

VIII. KAFLI Starfræksla fiskeldisstöðva.

38. gr. Eldisfiskur.

Eingöngu er heimilt að hafa í fiskeldisstöð eldisfisk sem tilgreindur er í rekstrarleyfi.

Óheimilt er að vera með villtan fisk og eldisfisk í sömu fiskeldisstöð án heimildar fisksjúkdómanefndar.

Í sjókvíaeldisstöðvum er þó heimilt að hafa villtan þorsk í afmörkuðum kvíum.

Við eldi frjórra laxa í sjókvíaeldi ber rekstrarleyfishafa skylda til að halda hlutfalli kynþroska í lágmarki á eldistíma.

Til að hindra að eldisfiskar hefji þroskun kynkerfa skal viðhafa ljósastýringu á tímabilinu 15. nóvember til 30. apríl.

Matvælastofnun er heimilt, að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun, að setja nánari skilyrði um ljósastýringu. Matvælastofnun er heimilt að hafa eftirlit með kynþroska laxa í kvíum og í sláturhúsum.

39. gr. Skilyrði flutnings.

Óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldisstöð fyrr en Matvælastofnun hefur gefið út rekstrarleyfi og staðfesting stofnunarinnar um gildistöku liggur fyrir ásamt stöðvarskírteini fyrir einstaka starfsstöðvar.

40. gr. Takmörkun á flutningi á milli fiskeldisstöðva.

Óheimilt er að flytja eldistegundir, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli fiskeldisstöðva, og lifandi fisk og hrogn milli ótengdra vatnasvæða.

Matvælastofnun getur bannað flutning á fiski milli tiltekinna fiskeldisstöðva eða um tiltekin svæði nema að uppfylltum vissum skilyrðum sem lúta að því að draga úr hættu á að sjúkdómar dreifist.

Óheimilt er að flytja notaðan eldisbúnað milli eldissvæða nema að fengnu samþykki Matvælastofnunar.

41. gr. Framkvæmd flutnings.

Flutning á lifandi eldisfiski á sjó eða landi skal tilkynna Matvælastofnun. Matvælastofnun er heimilt að hafa eftirlit með flutningnum. Matvælastofnun setur nánari reglur um tilkynningaskyldu og flutning á lifandi eldisfiski.

Við flutning á laxfiskum skal flutningsaðili útbúa verklagsreglur, að höfðu samráði við Matvælastofnun, þar sem fram kemur lýsing á búnaði sem notaður er til flutnings og hver ber ábyrgð á einstökum verkþáttum og réttum viðbrögðum ef fiskur strýkur.

Matvælastofnun getur í neyðartilvikum heimilað flutning eldisstöðvar út fyrir staðsetningu starfsstöðvar.

42. gr. Sótthreinsun búnaðar.

Tæki, sem notuð eru til flutnings á lifandi eldisfiskum, skulu vera þannig gerð að auðvelt sé, að mati Matvælastofnunar, að þrífa þau og sótthreinsa. Ávallt skal þrífa þau að flutningi loknum. Sótthreinsa skal tækin ef hefja á flutning frá nýjum aðila.

Rekstrarleyfishafi skal óska eftir staðfestingu þjónustuaðila á að búnaður sem notaður er í sjó við eldiskvíarnar hafi verið þveginn og sótthreinsaður áður en hann fær heimild til að koma inn á sjókvíaeldisstöð.

Rekstrarleyfishafi skal þrífa og sótthreinsa búnað sem fluttur er á milli fjarða eða sjókvíaeldissvæða.

43. gr. Bólusetning og lyfjagjöf.

Notkun bóluefna og sýklalyfja í fiskeldi er óheimil nema með samþykki Matvælastofnunar. Óheimilt er að meðhöndla eldisdýr með sýklalyfjum nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis eða viðurkenndrar rannsóknastofu.

Varúðar skal gætt við notkun lyfja og annarra efna í fiskeldisstöð til að koma í veg fyrir að efnin berist út í umhverfið.

44. gr. Umhirða eldisfiska.

Huga skal að velferð eldisfiska í öllu eldi.

Sýktur fiskur skal fjarlægður og honum eytt svo fljótt sem verða má samkvæmt nánari ákvörðun dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun. Gripið skal til þeirra ráðstafana sem ástæða þykir til svo að koma megi í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Matvælastofnun er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði.

Þegar því verður við komið skal fjarlægja daglega dauð lagardýr úr eldiseiningu og skrá fjölda og þyngd fiska. Upplýsingar um afföll skulu vera aðgengilegar eftirlitsmönnum Matvælastofnunar í fiskeldisstöð.

45. gr. Strok.

Rekstrarleyfishafi, sem hefur ástæðu til að ætla að hann hafi misst eldisfisk úr fiskeldisstöð, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu, Matvælastofnunar, sveitarfélaga og næstu veiðifélaga.

Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um strokufisk úr eldi í sjó skal Fiskistofa án tafar að eigin frumkvæði kanna hvort strok hafi átt sér stað. Staðfesti Fiskistofa strok eldisfisks skal stofnunin tryggja að brugðist sé við í samræmi við 13. gr. laga um fiskeldi.

Við slíkan atburð skal rekstrarleyfishafi fylgja leiðbeiningum sem fram koma í viðauka IV og á heimasíðu Fiskistofu (www.fiskistofa.is).

Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru til þess að varna því að slíkur atburður sem greinir í 1. mgr. valdi vistfræðilegu tjóni.

Rekstrarleyfishafi skal sjá til þess að viðbragðsáætlun vegna stroks sé staðsett á starfsstöð og kynna starfsmönnum hana. Viðbragðsáætlun vegna stroks skal innihalda leiðbeiningar um:

  1. Hvernig hindra skal áframhaldandi strok.
  2. Hvernig tilkynna skal um strok.
  3. Hvernig endurheimta skal fisk sem sleppur.

Fiskistofa getur veitt undanþágu frá banni á veiðum á villtum lagardýrum og eldisdýrum sem sleppa úr fiskeldisstöð.

46. gr. Útsetning og hvíld sjókvíaeldissvæða.

Matvælastofnun veitir heimild til útsetningar seiða m.t.t. fjölda seiða og tímasetningar á einstökum sjókvíaeldissvæðum.

Þegar eldi og slátrun hverrar kynslóðar lýkur skal sjókvíaeldissvæði vera í hvíld í a.m.k. 90 daga.

Matvælastofnun getur gert kröfur um aukinn hvíldartíma eða gert kröfu um samræmdan hvíldtíma ótengdra aðila á eldissvæðum ef þörf er á.

46. gr. a Neðansjávareftirlit.

Rekstrarleyfishafa ber skylda til þess að viðhafa neðansjávareftirlit með ástandi netpoka á a.m.k. 30 daga fresti. Ef meðalþyngd laxa í sjókvíum er hærri en 4 kg á tímabilinu 1. júlí til 30. nóvember skal viðhafa neðansjávareftirlit með ástandi netpoka á 14 daga fresti. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá ákvæðum 2. málsl. enda sýni þjónustudýralæknir rekstrarleyfishafa fram á með fullnægjandi hætti að undir 1% af öllum fiski á viðkomandi eldissvæði muni ná kynþroska að hausti.

Eftirlit samkvæmt grein þessari má framkvæma með köfun eða með neðansjávarmyndavélum.

Matvælastofnun hefur heimild til þess að setja nánari reglur um framkvæmd neðansjávareftirlits og skýrslugerð rekstrarleyfishafa. Skýrslu með niðurstöðum eftirlits skal skila til Matvælastofnunar eigi síðar en 7 dögum eftir að síðasta kví á eldissvæði hefur verið skoðuð. Leiði neðansjávareftirlit í ljós frávik skulu þau tilkynnt samdægurs til Matvælastofnunar.

IX. KAFLI Innra eftirlit fiskeldisstöðva og gæðastjórnun.

47. gr. Innra eftirlit fiskeldisstöðva.

Rekstrarleyfishafi skal bera ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, þ.m.t. eldisdýrum og heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Innra eftirlit skal tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla eða rekstrarleyfi sem eru veitt samkvæmt þeim. Rekstrarleyfishafi skal í innra eftirliti tryggja að haft sé daglegt eftirlit með eldisfiski svo framarlega að aðstæður leyfi.

Rekstrarleyfishafar skulu hafa viðbragðsáætlun vegna stroks.

Rekstrarleyfishafi skal sannprófa að eftirlit og úrbætur séu í samræmi við reglur um innra eftirlit.

Matvælastofnun skal sannreyna með reglulegum hætti að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.

48. gr. Innra eftirlit allra sjókvíaeldisstöðva og seiðaeldisstöðva fyrir sjókvíaeldi sem og landeldisstöðva þar sem hámarkslífmassi í rekstrarleyfi er yfir 20 tonnum.

Innra eftirlit allra sjókvíaeldisstöðva og seiðaeldisstöðva fyrir sjókvíaeldi sem og landeldisstöðva þar sem hámarkslífmassi er yfir 20 tonnum skal felast m.a. í því að:

  1. Starfrækja gæðakerfi sem hluta af innra eftirliti þar sem koma fram verklagsreglur stöðvar þar sem m.a. er fjallað um þjálfun starfsmanna, viðhalds- og viðbragðsáætlanir, sbr. viðauka III.
  2. Koma á virku eftirliti þar sem fram kemur hvað á að vakta, hver á að annast vöktun, hvenær og hvernig vöktun fer fram.
  3. Skilgreina viðmiðanir fyrir þau eftirlitsatriði sem eru vöktuð.
  4. Skilgreina hver er ábyrgur fyrir framkvæmd úrbóta og lýsa aðferðum og aðgerðum sem nauðsynlegar teljast til að leiðrétta frávik.
  5. Skrá allt eftirlit, úrbætur og viðhald sem tengist innra eftirliti eldisstöðvar og geyma í minnst fimm ár. Allar skráningar skulu dagsettar og undirritaðar.
  6. Rekstrarleyfishafi skal sannreyna að verklagsreglur og viðbragðsáætlanir uppfylli markmið og gera nauðsynlegar úrbætur.

49. gr. Viðbótarreglur um innra eftirlit sjókvíaeldisstöðva.

Innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skal m.a. fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í viðauka VI og skulu rekstrarleyfishafar sjókvíaeldisstöðvar starfa eftir viðbragðsáætlun sem samþykkt er af Matvælastofnun. Viðbragðsáætlun skal fela í sér aðgerðir vegna viðkomu snýkjudýra í eldinu. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun og birtar opinberlega í samræmi við 56. gr.

Viðbragðsáætlun skal auk þeirra atriða sem tiltekin eru í viðauka VI fela í sér aðgerðir fari meðaltalsfjöldi kynþroska kvenlúsa (með eða án eggjastrengja) innan viðkomandi svæðis umfram 0,5, 1, 1,5 og 2 á hvern fisk. Viðbragðsáætlun rekstrarleyfishafa skal virkjuð þegar meðaltalsfjöldi kynþroska kvenlúsa innan viðkomandi svæðis fer umfram 0,5 á hvern fisk og skal Matvælastofunun tilkynnt um það. Þegar tilkynning um virkjun viðbragðsáætlunar berst Matvælastofnun skal stofnunin meta hvort ráðstafanir rekstrarleyfishafa samkvæmt viðbragðsáætlun nái þeim árangri sem að sé stefnt eða hvort annarra aðgerða en tilgreindar eru í viðbragðsáætlun sé þörf. Rekstraraðili skal einnig tilkynna Matvælastofnun þegar meðaltalsfjöldi kvenlúsa innan viðkomandi svæðis fer umfram 1, 1,5 og 2 á hvern fisk og þá skal Matvælastofnun meta hvort annarra aðgerða en tilgreindar eru í viðbragðsáætlun sé þörf. Matvælastofnun skal leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvörðun um aðgerðir er tekin.

50. gr. Þjálfun starfsmanna allra sjókvíaeldisstöðva og landeldisstöðva þar sem hámarkslífmassi í rekstrarleyfi er yfir 20 tonnum.

Rekstrarleyfishafi skal tryggja að áður en starfsmenn hefja störf í fiskeldisstöð fái þeir þjálfun í að hindra strok og öðlist þekkingu og færni til að grípa strax til viðeigandi ráðstafana ef strok eiga sér stað og hvaða reglur gilda um veiðar á eldisfiski sem sleppur úr eldisstöð og hvernig framkvæma skal veiðar á þeim.

Jafnframt skal nýjum starfsmönnum kynnt gæðakerfi eldisstöðvar og þær verklagsreglur sem farið er eftir við stjórnun í eldisstöðinni.

X. KAFLI Opinbert eftirlit með fiskeldisstöðvum.

51. gr. Eftirlit Matvælastofnunar.

Matvælastofnun skal hafa eftirlit með fiskeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga um fiskeldi og reglugerða. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu uppfyllt. Í þessu felst m.a. reglubundið eftirlit með að framkvæmd innra eftirlits sé í samræmi við lög og reglur.

Matvælastofnun skal skilgreina umfang og lágmarkstíðni eftirlits og notast við skjalfestar verklagsreglur í eftirliti. Með verklagsreglum skal sannreyna hvort eftirlitskerfi rekstrarleyfishafa uppfylli kröfur, sannprófa skilvirkni eftirlitsins og tryggja að úrbætur séu gerðar þegar um frávik er að ræða.

Matvælastofnun skal hafa eftirlit með hvort rekstrarleyfishafi sjókvíaeldisstöðva og landeldisstöðva þar sem heildarlífmassi er yfir 20 tonnum hafi uppfyllt fyrirmæli og skilyrði sem fram koma í viðauka III.

Matvælastofnun skal hafa eftirlit með heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða í samræmi við lög þar að lútandi.

52. gr. Áhættumiðað eftirlit.

Eftirlit Matvælastofnunar skal vera áhættumiðað þar sem tíðni eftirlits er ákveðin með hliðsjón af skilgreindum áhættuþáttum. Matvælastofnun er heimilt er að draga úr tíðni og umfangi eftirlits með hliðsjón af skilgreindum áhættuþáttum hjá einstökum rekstrarleyfishöfum og viðmiðum Matvælastofnunar um frávik í starfsemi. Matvælastofnun er einnig heimilt að draga úr tíðni og umfangi eftirlits hjá rekstrarleyfishafa sem hefur vottun frá faggiltum aðila eða frá alþjóðlega viðurkenndum aðila um að innra eftirlit fyrirtækisins uppfylli kröfur laga og reglna.

53. gr. Eftirlit falið öðrum.

Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum, sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl., að annast framkvæmd eftirlits samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara.

54. gr. Framkvæmd eftirlits.

Matvælastofnun skal heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar með talið til töku sýna og myndatöku, aðgangur að dagbók rekstrarleyfishafa og að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.

Rekstrarleyfishafa eða starfsmönnum hans er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga og ber rekstrarleyfishafa endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits.

Þá getur Matvælastofnun ákveðið að rekstrarleyfishafi skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

55. gr. Dagbókarskylda og skýrsluskil rekstrarleyfishafa.

Rekstraraðili skal halda dagbók um starfsemina í fiskeldisstöð sinni.

Rekstrarleyfishafi skal gefa Matvælastofnun mánaðarlega skýrslu um starfsemi sína þar sem fram koma upplýsingar sem kveðið er á um í viðauka II. Jafnframt skal rekstrarleyfishafi í sjókvíaeldi skila skýrslu um niðurstöður úr vöktun á viðkomu sníkjudýra í eldi sbr. viðauka VI.

Skýrslur skv. viðauka II skulu sendar til Matvælastofnunar fyrir 15. hvers mánaðar.

Skýrslur skv. viðauka VI skulu sendar til Matvælastofnunar eigi síðar en einni viku eftir framkvæmd vöktunar.

Matvælastofnun er heimilt að framkvæma upplýsingaöflun með rafrænum hætti og skylda rekstrarleyfishafa til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til.

Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari skýrslum og gögnum en hér greinir þegar tilefni er til.

XI. KAFLI Birting upplýsinga.

56. gr. Birting upplýsinga.

Matvælastofnun skal eftir hverja eftirlitsheimsókn birta opinberlega á vefsíðu sinni skýrslu með lýsingu á því sem fram kom og hvort starfsemin sé í samræmi við rekstrarleyfisskilyrði. Skýrslan skal gerð opinber eftir að rekstrarleyfishafi hefur fengið tækifæri til þess að koma að athugasemdum. Athugasemdir skulu eftir atvikum birtar með skýrslunni. Matvælastofnun skal leitast við að birta ofangreint innan tveggja mánaða frá eftirlitsheimsókn.

Matvælastofnum skal birta opinberlega á vefsíðu sinni innan tveggja vikna ákvarðanir sem fela í sér:

  1. afturköllun rekstrarleyfis,
  2. ákvörðun um úrbætur sem unnar eru á kostnað rekstrarleyfishafa,
  3. álagningu dagsekta,
  4. ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta.

Matvælastofnun skal birta opinberlega á vefsíðu sinni samantekt upplýsinga úr framleiðsluskýrslum rekstrarleyfishafa í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar. Þessa samantekt skal birta eigi síðar en 20 dögum eftir að upplýsingar berast frá rekstrarleyfishöfum.

Matvælastofnun skal birta opinberlega á vefsíðu sinni upplýsingar um eftirfarandi þegar slíks verður vart:

  1. strok,
  2. tilkynningarskylda sjúkdóma,
  3. óeðlileg afföll eldisdýra,
  4. slæma meðferð á eldisdýri.

Matvælastofnun skal birta niðurstöður vöktunar á viðkomu sníkjudýra eigi síðar en 20 dögum eftir að vöktunarskýrsla berst.

Matvælastofnun skal við birtingu upplýsinga gæta þess að ákvæðum upplýsingalaga sé fylgt.

XII. KAFLI Rannsóknir.

57. gr. Merking eldislaxa.

Framleiðendum laxahrogna er skylt að varðveita í gagnagrunnum erfðavísa eldislaxa þannig að hægt sé á hverjum tíma að rekja uppruna eldislaxa, sem sleppa úr kvíum og veiðast síðar, til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Auk þess er framleiðendum hrogna skylt að varðveita í gagnagrunnum erfðaefni foreldrafiska og halda bókhald yfir það frá hvaða foreldrum er selt til hverrar stöðvar þannig að hægt sé á hverjum tíma að rekja uppruna eldislaxa sem veiðast til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva.

Gögn eða lífsýni merktra eldislaxa skulu send til Matvælastofnunar.

XIII. KAFLI Gjaldtaka.

58. gr. Eftirlitsgjald.

Fyrir eftirlit Matvælastofnunar eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum skulu fiskeldisstöðvar greiða eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar. Eftirlitsgjald skal greitt samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðu dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Eftirlitsgjaldið skal ekki vera hærra en raunkostnaður sem hlýst af eftirlitinu og er ætlað að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:

  1. Launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits.
  2. Öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar.
  3. Kostnaði við sýnatöku og greiningar á rannsóknastofum.

59. gr. Þjónustugjald vegna afgreiðslu umsóknar um rekstrarleyfi.

Við móttöku Matvælastofnunar á umsókn um rekstrarleyfi samkvæmt reglugerð þessari skulu umsækjendur greiða Matvælastofnun þjónustugjald skv. gjaldskrá Matvælastofnunar.

XIV. KAFLI Önnur ákvæði.

60. gr. Úrbætur á kostnað rekstraraðila.

Matvælastofnun er heimilt á kostnað rekstrarleyfishafa að láta fjarlægja búnað fiskeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, hreinsa eldissvæði og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum um fiskeldi, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi. Með sama hætti getur Matvælastofnun látið slátra eldisfiski og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir á kostnað rekstrarleyfishafa þegar hann hefur ekki farið að ákvæðum laga og reglugerða um leyfilegan lífmassa samkvæmt rekstrarleyfi. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtur síðar hjá rekstrarleyfishafa eða úr tryggingu hans. Kostnað má innheimta með fjárnámi.

61. gr. Skil á rekstrarleyfi.

Þegar rekstri er hætt og rekstrarleyfi skilað til Matvælastofnunar skal rekstrarleyfishafi hreinsa svæði sjókvíaeldisstöðvarinnar og þar með allan búnað á og undir sjávaryfirborði. Hreinsun skal lokið innan 6 mánaða frá því að rekstri var hætt.

XV. KAFLI Þvingunarúrræði og viðurlög.

62. gr. Þvingunarúrræði.

Matvælastofnun beitir ákvæðum laga um fiskeldi vegna brota á reglugerð þessari.

63. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um fiskeldi.

XVI. KAFLI Gildistaka o.fl.

64. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Reglugerð nr. 401/2012 heldur gildi sínu gagnvart rekstrarleyfum gefnum út fyrir gildistöku reglugerðar þessarar að því leyti sem það samræmist bráðabirgðaákvæðum þessarar reglugerðar. Reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi fellur úr gildi nema að því er varðar þær umsóknir og þau rekstrarleyfi sem fjallað er um í ákvæði II og III til bráðabirgða í lögum um fiskeldi nr. 71/2008.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Bleikjueldi í sjókvíum.

Kröfur VI. kafla reglugerðar þessarar taka ekki gildi að því er varðar bleikjueldi í sjókvíum fyrr en við endurnýjun rekstrarleyfa eða við útgáfu nýrra rekstrarleyfa fyrir sjókvíaeldi á bleikju.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.