Prentað þann 21. nóv. 2024
1101/2021
Reglugerð um próf til viðurkenningar bókara.
1. gr.
Prófnefnd viðurkenndra bókara hefur umsjón með prófi til viðurkenningar bókara samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II laga nr. 145/1994, með síðari breytingum.
Ráðherra skipar án tilnefningar þriggja manna prófnefnd sem skal sjá um undirbúning og framkvæmd prófa. Prófnefnd skal ljúka störfum eigi síðar en 1. apríl 2024.
Prófnefnd skal rita fundargerðir. Í þær skal færa ákvarðanir nefndarinnar og niðurstöður prófa.
2. gr.
Próf skulu auglýst í fjölmiðlum og á heimasíðu ráðuneytisins með a.m.k. átta vikna fyrirvara.
Ráðherra ákveður prófgjöld. Skulu þátttakendur greiða prófgjald fyrir þau tímamörk sem prófnefnd ákveður. Upplýsingar um fjárhæðir prófgjalda skulu liggja fyrir í síðasta lagi fjórum vikum fyrir próf. Miða skal við að tekjur af gjaldinu standi undir kostnaði við prófið, þ.m.t. þóknun prófgerðarmanna.
Gjald skv. 2. mgr. er aðeins endurkræft ef próf verður ekki haldið eða ef próftaka er ekki unnt að taka próf sökum mikillar röskunar á framkvæmd prófa.
Prófnefnd ákveður hvort haldið skal upptökupróf gegn aukaprófgjaldi. Upptökupróf skulu auglýst sérstaklega á heimasíðu ráðuneytisins.
3. gr.
Prófnefnd tekur ákvörðun um prófsefni og tilhögun prófa, t.d. hvort próf eru skrifleg staðbundin próf eða rafræn. Prófið skiptist í þrjá hluta; tvo fræðilega hluta og eitt raunhæft verkefni. Prófnefnd semur prófefnislýsingu fyrir hvern hluta og skal hún liggja fyrir á heimasíðu ráðuneytisins þegar próf eru auglýst samkvæmt 1. mgr. 2. gr.
Við ákvörðun skv. 1. mgr. skal prófnefnd leggja til grundvallar að efni hvers hluta krefjist þekkingar á eftirtöldum sviðum:
-
Reikningshald og upplýsingatækni:
- Grundvallarhugtök og -reglur reikningshalds, m.a. reglur reikningsskilaráðs.
- Lög og reikningsskilareglur.
- Bókhaldslegt mat, afstemmingar, ársreikningsgerð.
- Innra eftirlit og upplýsingakerfi.
-
Skattskil:
- Skattskil einstaklinga, örfélaga og lítilla félaga.
- Helstu atriði skattalaga og -reglna, s.s. tekjuskattur og virðisaukaskattur.
- Lög og reglur er tengjast launum og launatengdum gjöldum.
- Félagaform og ábyrgðir eiganda.
-
Raunhæft verkefni leyst með tölvu:
- Efnisþættir úr I. og II. prófhluta.
- Prófjöfnuður, afstemmingar og lokafærslur.
- Uppgjör, þ.m.t. tekjuskattur og virðisaukaskattur.
- Uppstilling ársreiknings, þ.m.t. gerð og framsetning.
- Útreikningur tekjuskatts og skattskil.
4. gr.
Prófnefnd tekur hverju sinni ákvörðun um fjölda sjálfstæðra úrlausnarefna, vægi og tímalengd prófhluta.
Prófnefnd er heimilt að fela óháðum aðilum að semja prófverkefni, fara yfir og gefa einkunn fyrir prófúrlausn. Prófverkefni skulu samin af einstökum prófnefndarmönnum eða þeim sem prófnefnd felur það starf. Verkefnin og vægi úrlausnarefna innan þeirra skulu lögð fyrir prófnefnd til samþykktar.
Þá er prófnefnd heimilt að semja við óháðan aðila um framkvæmd prófa.
5. gr.
Prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum.
Við mat á úrlausnum skal gefin einkunn fyrir hvern prófhluta.
Einkunnir í einstökum prófhlutum skulu gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Lágmarkseinkunn til að standast einstaka prófhluta er 5,0. Til þess að standast fullnaðarpróf þarf próftaki að hljóta a.m.k. 7,0 í vegna meðaleinkunn (lokaeinkunn) úr öllum prófhlutum. Vegin meðaleinkunn (lokaeinkunn) er gefin með tveimur aukastöfum. Ef próftaki nær ekki tilskilinni lágmarkseinkunn, í einstökum prófhlutum eða veginni lokaeinkunn, er honum heimilt að þreyta próf að nýju þegar/ef próf eru haldin.
Einkunnir skulu birtar próftökum innan 30 daga frá dagsetningu prófs.
Fyrir hvern prófhluta skal prófnefnd halda prófsýningu. Prófnefnd er ekki skylt að halda prófsýningu fyrir upptökupróf. Prófnefnd ákveður tilhögun og framkvæmd prófsýninga, t.d. hvort prófsýning verður staðbundin eða rafræn. Próftaki á þó rétt á því að sjá prófúrlausn sína vegna upptökuprófs ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar.
Próftaka er heimilt að skjóta mati á úrlausn sinni til endurmats til prófnefndar innan 30 daga frá birtingu einkunnar. Prófnefnd getur skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próftaka á ábyrgð prófnefndar.
Ákvörðun prófnefndar um úrlausn er endanleg.
Til að standast próf til viðurkenningar bókara skal próftaki hafa lokið öllum prófhlutum með fullnægjandi árangri. Nýtt próf fellir niður eldra próf (próf endurtekið) að því er einkunn varðar.
Prófnefnd skal afhenda þeim próftökum sem standast próf skírteini því til staðfestingar.
6. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 42. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerðir nr. 649/2019 og nr. 975/2020 um próf til viðurkenningar bókara.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. september 2021.
F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,
Ingvi Már Pálsson.
Harpa Theodórsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.