Fara beint í efnið

Prentað þann 6. jan. 2025

Breytingareglugerð

1062/2021

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi.

1. gr.

Ákvæði 49. gr. reglugerðarinnar breytist og orðast svo:

Innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skal m.a. fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í viðauka VI og skulu rekstrarleyfishafar sjókvíaeldisstöðvar starfa eftir viðbragðsáætlun sem samþykkt er af Matvælastofnun. Viðbragðsáætlun skal fela í sér aðgerðir vegna viðkomu snýkjudýra í eldinu. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun og birtar opinberlega í samræmi við 56. gr.

Viðbragðsáætlun skal auk þeirra atriða sem tiltekin eru í viðauka VI fela í sér aðgerðir fari meðaltalsfjöldi kynþroska kvenlúsa (með eða án eggjastrengja) innan viðkomandi svæðis umfram 0,5, 1, 1,5 og 2 á hvern fisk. Viðbragðsáætlun rekstrarleyfishafa skal virkjuð þegar meðaltalsfjöldi kynþroska kvenlúsa innan viðkomandi svæðis fer umfram 0,5 á hvern fisk og skal Matvælastofunun tilkynnt um það. Þegar tilkynning um virkjun viðbragðsáætlunar berst Matvælastofnun skal stofnunin meta hvort ráðstafanir rekstrarleyfishafa samkvæmt viðbragðsáætlun nái þeim árangri sem að sé stefnt eða hvort annarra aðgerða en tilgreindar eru í viðbragðsáætlun sé þörf. Rekstraraðili skal einnig tilkynna Matvælastofnun þegar meðaltalsfjöldi kvenlúsa innan viðkomandi svæðis fer umfram 1, 1,5 og 2 á hvern fisk og þá skal Matvælastofnun meta hvort annarra aðgerða en tilgreindar eru í viðbragðsáætlun sé þörf. Matvælastofnun skal leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvörðun um aðgerðir er tekin.

2. gr.

Fyrirsögn viðauka VI orðast svo: Leiðbeiningar um vöktun á viðkomu sníkjudýra í sjókvíaeldi og viðbragðsáætlun vegna viðkomu sníkjudýra.

3. gr.

Í upphafi viðauka VI kemur ný málsgrein ásamt fyrirsögn sem orðast svo:

Viðbragðsáætlun vegna viðkomu sníkjudýra.

Rekstrarleyfishafi skal starfa eftir viðbragðsáætlun vegna viðkomu sníkjudýra í sjókvíaeldi. Viðbragðsáætlunin skal fela í sér fyrirbyggjandi eða annars konar aðgerðir sem stuðla að heilbrigði og velferð lagardýra ásamt því að hindra útbreiðslu og útrýma smitsjúkdómum í lagardýrum og minnka smitálag á umhverfi.

Í viðbragðsáætlun skal skilgreina eftirfarandi og viðbrögð rekstrarleyfishafa:

  1. Fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir álag vegna sníkjudýra s.s. með búnaði eða með hreinsifiski.
  2. Tímabil, tíðni og umfang talningar fyrir hvert svæði.
  3. Skilgreind mörk á lágmarksfjölda sníkjudýra, eftir árstíma, staðháttum og stærð fisks sem fela í sér þörf á aðgerðum.
  4. Áætlun um viðbrögð við lágmarksfjölda sníkjudýra eftir tegund, þroska og áhrifum á eldisfisk. Í áætlun skulu tilgreind einstök skref sem taka mið af mismunandi ástandi.
  5. Í áætlun skal tilgreina hvenær rekstrarleyfishafi muni upplýsa Matvælastofnun um viðbrögð, hvenær ósk um meðhöndlun skuli lögð fram og hvað felist í ósk um meðhöndlun þ.m.t. böðun, lyfjablöndun fóðurs eða önnur lyfjagjöf.
  6. Jafnframt skal í áætlun tilgreint hvenær slátrun er valkostur í viðbragðsáætlun.
  7. Í áætlun skal einnig tilgreina skref um samræmd viðbrögð ótengdra rekstrarleyfishafa á eldissvæðum ef þörf er á.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum og öðlast gildi þann 1. nóvember 2021.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 22. september 2021.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kolbeinn Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.