Prentað þann 18. nóv. 2024
951/2012
Reglugerð um gjaldtöku vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstarfsmanna.
1. gr. Gjaldtaka.
Um gjaldtöku vegna útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa fer skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991.
Heimilt er að taka gjald fyrir hvers konar umsýslu landlæknis vegna umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi, til viðbótar gjaldi skv. 1. mgr., þegar umsækjandi hefur lokið námi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. Þar á meðal er heimilt að taka gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn um starfsleyfi og sérfræðileyfi, yfirferð og mat gagna.
Ráðherra setur að fengnum tillögum landlæknis gjaldskrá vegna 2. mgr. Gjaldskráin skal taka mið af umsýslu, yfirferð, mati gagna og umfangi þeirrar vinnu sem umsagnaraðilar og matsaðilar inna af hendi við veitingu starfsleyfa og sérfræðileyfa.
Landlækni er heimilt að leggja á gjald skv. 2. mgr. áður en umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar og gögn send til umsagnaraðila eða matsaðila. Gjaldið skal byggt á nákvæmu kostnaðarmati og vera í samræmi við gjaldskrá sbr. 3. mgr.
Um gjaldtöku vegna prófa í faglegri þekkingu og færni fer samkvæmt 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 eða samkvæmt 45. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
2. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 5. gr. og 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og öðlast gildi 1. janúar 2013.
Velferðarráðuneytinu, 8. nóvember 2012.
Guðbjartur Hannesson.
Vilborg Ingólfsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.