Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Prentað þann 5. des. 2025

Stofnreglugerð

429/2025

Reglugerð um gjaldtöku embættis landlæknis vegna afgreiðslu umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstarfsmanna.

1. gr. Gildissvið.

Gjaldtaka er heimil af hálfu embættis landlæknis fyrir mat umsagnaraðila á umsókn um starfsleyfi eða sérfræðileyfi þegar reglugerð um skilyrði til að hljóta starfsleyfi í viðkomandi heilbrigðisstétt heimilar eða gerir kröfu um að umsagnar sé aflað.

2. gr. Umsagnargjald.

Gjald fyrir umsögn vegna mats á umsókn um starfsleyfi á grundvelli náms á framhaldsskólastigi skal vera 54.400 krónur.

Gjald fyrir umsögn vegna mats á umsókn um starfsleyfi á grundvelli náms á háskólastigi skal vera 73.600 krónur.

Gjald fyrir umsögn vegna mats á umsókn um sérfræðileyfi skal vera 73.600 krónur.

3. gr. Önnur gjöld.

Um gjaldtöku vegna útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn fer skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

Heimilt er að innheimta gjald vegna hæfniprófs, enda sé hæfnipróf undirbúið og framkvæmt að beiðni embættis landlæknis vegna umsóknar um starfsleyfi eða sérfræðileyfi. Gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við undirbúning og framkvæmd hæfniprófs. Um gjaldtöku vegna prófa í faglegri þekkingu og færni fer samkvæmt 24. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, eða samkvæmt 45. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.

4. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi, nr. 26/2010, öðlast þegar gildi. Á sama tíma fellur brott gjaldskrá fyrir mat umsóknar um heimild heilbrigðisstarfsmanns til að gegna starfi hér á landi, nr. 257/2014, og reglugerð um gjaldtöku vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstarfsmanna, nr. 951/2012.

Ákvæði til bráðabirgða.

Um umsóknir sem berast embætti landlæknis ásamt öllum nauðsynlegum fylgigögnum innan þriggja mánaða frá gildistöku reglugerðar þessarar fer samkvæmt eldri gjaldskrá og reglugerð sem vísað er til í ákvæði 4. gr.

Heilbrigðisráðuneytinu, 28. mars 2025.

Alma D. Möller.

Ásthildur Knútsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.