Fara beint í efnið

Prentað þann 28. apríl 2024

Stofnreglugerð

922/2023

Reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið, gildissvið o.fl.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að öruggri framkvæmd íbúakosninga á vegum sveitarfélaga.

Reglugerð þessi mælir fyrir um þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til framkvæmdar eftirfarandi íbúakosninga sem fram fara á vegum sveitarfélaga á grundvelli sveitarstjórnarlaga:

  1. Kosning í nefnd fyrir hluta sveitarfélags, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga.
  2. Atkvæðagreiðsla um einstök málefni sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 107. gr. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga.
  3. Atkvæðagreiðsla um sameiningar sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga.

Íbúakosning sem fram fer á vegum sveitarfélags skal fara fram á grundvelli sveitarstjórnarlaga og reglugerðar þessarar.

Reglugerð þessi gildir ekki um atkvæðagreiðslu sem fram fer með rafrænum hætti, sbr. 134. gr. sveitarstjórnarlaga.

Landskjörstjórn lætur sveitarfélögum í té atkvæðakassa og innsigli, skv. þeirra beiðni, en kemur að öðru leyti ekki að íbúakosningum sveitarfélaga.

Þjóðskrá Íslands ber kostnað við kjörskrárgerð en að öðru leyti skulu sveitarfélög standa straum af kostnaði við íbúakosningar sem fram fara á vegum þeirra. Kostnaði vegna sameiningarkosningar skal deila niður á viðkomandi sveitarfélög í samræmi við íbúafjölda þeirra.

2. gr. Kosningarréttur.

Rétt til þátttöku í íbúakosningu á:

  1. hver íslenskur, danskur, finnskur, sænskur eða norskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning hefst og á skráð lögheimili í því sveitarfélagi sem íbúakosning fer fram,
  2. erlendur ríkisborgari, annar en greinir í a-lið, ef hann hefur átt skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir lokadag atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum a-liðar.

Sveitarstjórn er heimilt að miða kosningaaldur í íbúakosningu við 16 ár, sbr. 3. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga.

Miða skal við að kjósandi hafi náð þeim aldri sem kosningarréttur miðar við á lokadegi atkvæðagreiðslu, standi atkvæðagreiðslan yfir tiltekið tímabil.

3. gr. Kjörskrá.

Eftirfarandi atriði skulu eiga við um kjörskrá fyrir íbúakosningu sveitarfélags:

  1. Sveitarfélag skal tilkynna Þjóðskrá Íslands um boðaða atkvæðagreiðslu og á hvaða tímabili hún fer fram eigi síðar en 30 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst.
  2. Þjóðskrá Íslands skal gera kjörskrá fyrir íbúakosningu sveitarfélaga. Notast skal við prentaða kjörskrá sem Þjóðskrá Íslands er heimilt að afhenda með rafrænum hætti. Í kjörskrá skal skrá nafn kjósenda, kennitölu, lögheimili, kyn og ríkisfang. Þjóðskrá er heimil vinnsla persónuupplýsinga við gerð kjörskrár og skal hún vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
  3. Enginn getur neytt kosningarréttar nema nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram.
  4. Á kjörskrá hvers sveitarfélags við íbúakosningar eru þau sem hafa kosningarrétt, sbr. 2. gr., og skráð voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár klukkan 12 að hádegi, 22 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst.
  5. Þjóðskrá Íslands tilkynnir sveitarfélagi að gerð hafi verið kjörskrá jafnskjótt og gerð hennar er lokið og eigi síðar en 20 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst. Kjörskrá skal vera aðgengileg almenningi til skoðunar á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað sem sveitarstjórn ákveður, eigi síðar en 14 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst. Sveitarfélag skal kynna íbúum að gerð hafi verið kjörskrá og hvar hún er aðgengileg á þann hátt á hverjum stað þar sem venja er að birta opinberar auglýsingar.
  6. Þegar Þjóðskrá Íslands hefur tilkynnt sveitarfélagi að gerð hafi verið kjörskrá er sveitarstjórn heimilt að óska eftir því að opnað verði fyrir uppflettingu í henni á vef Þjóðskrár Íslands og annast sveitarstjórn þá kostnað af því. Með innslætti kennitölu kjósanda í kjörskrá skulu birtast upplýsingar um nafn, lögheimili, sveitarfélag og kjörstað kjósanda. Að loknum kjördegi skal loka fyrir uppflettingu í kjörskrá.
  7. Óheimilt er að birta kjörskrána opinberlega, í heild eða að hluta, og að miðla henni.

4. gr. Leiðréttingar á kjörskrá og kærur.

Athugasemdum við kjörskrá skal beint til Þjóðskrár Íslands sem tekur þær þegar til meðferðar og gerir viðeigandi leiðréttingar ef við á. Slíkar leiðréttingar má gera þar til að atkvæðagreiðslu er lokið.

Heimilt er að leiðrétta kjörskrá ef:

  1. Þjóðskrá Íslands hefur láðst að skrá lögheimili kjósanda til samræmis við tilkynningu hans um flutning,
  2. Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um andlát kjósanda,
  3. Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um að erlendur ríkisborgari hafi öðlast íslenskt ríkisfang eða að kjósandi hafi misst íslenskt ríkisfang,
  4. íslenskur ríkisborgari, sem aldrei hefur átt lögheimili hér á landi, flyst til landsins og skráir lögheimili sitt hér á landi eftir viðmiðunardag kjörskrár,
  5. Þjóðskrá Íslands verður þess að öðru leyti áskynja að villa hafi verið gerð við skráningu kjósanda við kjörskrárgerðina.

Þjóðskrá Íslands sendir hlutaðeigandi kjörstjórn, og viðkomandi kjósanda, ef við á, tilkynningu um leiðréttingar sem hún gerir á kjörskrá, svo að þær megi færa á prentuð kjörskráreintök.

Óheimilt er að færa á prentuð kjörskráreintök aðrar leiðréttingar en þær sem Þjóðskrá Íslands heimilar. Leiðréttingar á prentuð kjörskráreintök skulu gerðar í samræmi við leiðbeiningar Þjóðskrá Íslands.

Heimilt er að skjóta ákvörðun Þjóðskrár Íslands um leiðréttingar á kjörskrá til ráðuneytis sveitarstjórnarmála innan sólarhrings frá dagsetningu hennar. Ráðuneytið veitir kæranda hæfilegan frest til að koma að frekari gögnum áður en það fellir úrskurð í málinu.

5. gr. Stjórnsýsla íbúakosninga.

Sveitarstjórn skal kjósa kjörstjórn sem ber ábyrgð á stjórnsýslu og framkvæmd íbúakosninga. Fjöldi fulltrúa skal vera oddatala en að öðru leyti ákveður sveitarstjórn fjölda þeirra. Sveitarstjórn er heimilt að taka ákvörðun um að fela yfirkjörstjórn sveitarfélagsins, sem kosin er á grundvelli kosningalaga, hlutverk kjörstjórnar vegna íbúakosninga og skal yfirkjörstjórn tilkynnt það sérstaklega. Kjörstjórn getur falið starfsfólki sveitarfélaga störf í tengslum við framkvæmd kosninga.

Vegna sameiningar sveitarfélaga skulu viðkomandi sveitarstjórnir kjósa fulltrúa í sameiginlega kjörstjórn, eftir nánara samkomulagi þeirra. Miða skal við að hvert sveitarfélag hafi a.m.k. einn fulltrúa í kjörstjórn og að fjöldi nefndarmanna sé oddatala. Viðkomandi sveitarstjórnum er heimilt að skipa undirkjörstjórn í hverju sveitarfélagi fyrir sig með þremur til fimm fulltrúum og fela henni þau verkefni sem mælt er fyrir um í a-, c- og d-lið 3. mgr.

Hlutverk kjörstjórnar er m.a. að:

  1. Halda kosningu og annast undirbúning og framkvæmd hennar, þ.m.t. sjá um talningu og lýsa úrslitum kosningar.
  2. Útbúa kjörgögn, þ.m.t. eyðublöð vegna aðstoðarmanns kjósanda sbr. 11 gr. og kjörgögn vegna póstkosningar, sbr. 10. gr.
  3. Veita almenningi, frambjóðendum, fjölmiðlum og öðrum sem annast framkvæmd kosninga upplýsingar, fræðslu og leiðbeiningar.
  4. Hafa samvinnu og samráð við viðeigandi aðila, félagasamtök og stofnanir við undirbúning og framkvæmd kosninga og birta niðurstöður kosninga opinberlega.

Að loknum kosningum skal kjörstjórn skila skýrslu til sveitarstjórnar um framkvæmd kosninga þar sem m.a. er fjallað um fjölda kjörstaða og opnunartíma þeirra, fjölda ónotaðra kjörseðla í vörslu kjörstjórnar og tilhögun vörslu, fjölda ágreiningsatkvæða, atkvæði sem hafa borist með pósti, sbr. 10. gr., atkvæði sem ónýtast, atkvæði sem berast eftir að kosningu er lokið, kjörsókn í sveitarfélagi, aðstoðarmenn kjósenda og ákvarðanir tengdar þeim, lok atkvæðagreiðslu og upphaf talningar, móttöku atkvæðakassa frá kjörstöðum, ákvarðanir um gildi atkvæða, niðurstöðu talningar, lok talningar og frágang og vörslu kjörgagna, eyðingu kjörgagna og aðrar ákvarðanir, afgreiðslur eða upplýsingar sem varða undirbúning og framkvæmd kosninga sem kjörstjórn telur rétt að upplýsa sveitarstjórn um.

Kjörstjórnarmaður skal víkja sæti ef til úrskurðar er:

  1. mál er varðar maka hans eða sambúðarmaka, enda sé sambúðin skráð í þjóðskrá, eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti við ættleiðingu,
  2. að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Ágreiningi um hæfi kjörstjórnarmanns má skjóta til ráðuneytis sveitarstjórnarmála, sbr. 19. gr.

II. KAFLI Framkvæmd íbúakosninga.

6. gr. Kjörgögn.

Eftirfarandi atriði skulu eiga við um kjörgögn í íbúakosningum sveitarfélaga:

  1. Kjörseðlar við íbúakosningar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum. Þegar notast er við atkvæðaseðil sem er sóttur rafrænt er ekki þörf á að gera sérstakar kröfur um tegund pappírs. Kjörseðlar mega ekki vera auðkenndir með þeim hætti að þeir séu rekjanlegir til kjósanda.
  2. Við íbúakosningar um einstök málefni sem fara fram að frumkvæði íbúa og/eða eru bindandi, sbr. 107. gr. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga og við sameiningarkosningar, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga, skal kjörseðill við atkvæðagreiðslu vera a.m.k. 160 g/m² að þyngd, og þá skal brjóta saman í prentsmiðju með þeim hætti að óprentaða hliðin snúi út. Við slíkar kosningar skal jafnframt miða fjölda prentaðra kjörseðla að lágmarki við áætlaðan fjölda kjósenda á kjörskrá að viðbættu 1%.
  3. Vegna atkvæðagreiðslu með pósti eru kjörgögn atkvæðaseðill, umslag fyrir atkvæðaseðil, fylgibréf og sendiumslag. Þegar atkvæðaseðill er sendur kjósanda skal nota sama atkvæðaseðil og notaður er við kosninguna. Ef kjörgögn eru sótt rafrænt, þarf kjósandi að leggja til tvö umslög, annað fyrir atkvæðaseðil og hitt fyrir sendiumslag.
  4. Notast skal við atkvæðakassa sem landskjörstjórn leggur til.
  5. Við íbúakosningar um einstök málefni sem fara fram að frumkvæði íbúa og/eða eru bindandi, sbr. 107. gr. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga og við sameiningarkosningar, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga sem eru bindandi, skulu kjörstjórn og fulltrúar hennar varðveita ónotaða kjörseðla í innsigluðu íláti eða fyrir luktum dyrum sem jafnframt skulu innsiglaðar. Við aðrar íbúakosningar sveitarfélaga skulu ónotaðir kjörseðlar varðveittir með tryggum hætti.
  6. Eftir talningu atkvæða skulu kjörseðlar varðveittir með tryggum hætti þangað til kærufrestur er liðinn. Eigi síðar en ári eftir að atkvæðagreiðslu er lokið skal kjörstjórn eyða notuðum og ónotuðum atkvæðaseðlum enda sé þá ágreiningsmálum um gildi og framkvæmd kosninga lokið.

7. gr. Tímabil atkvæðagreiðslu.

Sveitarstjórn ákveður, eða felur byggðarráði eða kjörstjórn að ákveða, á hvaða tímabili íbúakosningar um einstök málefni sveitarfélagsins sem fram fara að frumkvæði íbúa sveitarfélagsins og/eða er bindandi, sbr. 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga og sameiningarkosningar, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga, fara fram. Tímabilið skal minnst vara í tvær vikur og að hámarki fjórar vikur.

Sveitarstjórn er heimilt að ákveða, eða fela byggðarráði eða kjörstjórn að ákveða, að íbúakosningar sem fram fara að frumkvæði sveitarstjórnar og ekki eru bindandi og kosningar í nefnd sem fer með málefni fyrir hluta sveitarfélags, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, fari fram á styttra tímabili, en skal atkvæðagreiðsla þó að lágmarki vara í átta klukkustundir. Þó má hætta atkvæðagreiðslu ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Heimilt er að hefja atkvæðagreiðslu í fyrsta lagi 20 dögum eftir að til hennar er boðað. Atkvæðagreiðsla telst hafin þegar opnað er fyrir atkvæðagreiðslu á kjörstað.

8. gr. Kjörstaðir.

Eftirfarandi atriði skulu eiga við um kjörstaði í íbúakosningum sveitarfélaga:

  1. Sveitarstjórn ákveður staðsetningu og fjölda kjörstaða, skiptingu í kjördeildir og opnunartíma kjörstaða eða felur byggðarráði eða kjörstjórn að taka slíkar ákvarðanir. Reglulegur opnunartími skal vera a.m.k. á einum kjörstað innan sveitarfélagsins á því tímabili sem atkvæðagreiðsla á sér stað á virkum dögum, t.d. á opnunartíma skrifstofu sveitarfélagsins. Heimilt er að ákveða að kjörstaður sé hreyfanlegur. Leitast skal við að fjöldi kjörstaða og opnunartími þeirra sé í samræmi við fjölda íbúa og vegalengdir innan sveitarfélagsins og að kjörstaður sem er með reglulegan opnunartíma hafi gott aðgengi m.t.t. hjólastóla og annarra hjálpartækja.
  2. Hvert sveitarfélag er ein kjördeild, sbr. þó f-lið. Sveitarstjórn getur þó ákveðið, eða falið byggðarráði eða kjörstjórn að ákveða, að í sveitarfélaginu verði fleiri en ein kjördeild. Ef sveitarfélagi er skipt upp í kjördeildir er kjósanda einungis heimilt að greiða atkvæði í sinni kjördeild. Á sama kjörstað mega vera fleiri en ein kjördeild og kjördeildir skal að jafnaði tölusetja til aðgreiningar.
  3. Heimilt er að flytja kjördeild frá einum kjörstað til annars í ákveðinn tíma, en óheimilt er að hafa sömu kjördeild opna á tveimur stöðum samtímis.
  4. Í auglýsingu um íbúakosningar skal koma fram á hvaða tíma atkvæðagreiðsla fer fram, fjöldi kjörstaða og fjöldi kjördeilda eftir atvikum, og aðrar nauðsynlegar leiðbeiningar varðandi atkvæðagreiðsluna.
  5. Þau sem sinna atkvæðagreiðslunni skulu gæta þess að ekki fari fram kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd íbúakosninga á og við kjörstað. Á hverjum kjörstað skal vera aðstaða þar sem hægt er að greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi greiðir atkvæði.
  6. Leitast skal við að atkvæðagreiðsla fari einnig fram innan sveitarfélags þar sem kjósendur eiga erfitt um vik að mæta á kjörstað, svo sem þar sem kjósendur eru með lögheimili á heilbrigðisstofnunum og stofnunum fyrir fatlað fólk. Heimilt er að ákveða sérstaka kjördeild fyrir staði þar sem kjósendur eiga erfitt um vik að mæta á kjörstaði. Atkvæðagreiðsla fyrir viðkomandi kjördeild skal einnig fara fram á þeim kjörstað sem er með reglulegan opnunartíma, nema á því tímabili sem atkvæðagreiðsla fer fram á viðkomandi stofnun.

9. gr. Framkvæmd atkvæðagreiðslu.

Eftirfarandi atriði skulu eiga við um framkvæmd atkvæðagreiðslu í íbúakosningum sveitarfélaga:

  1. Kjósandi skal gera grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd eða á annan fullnægjandi hátt að mati þeirra sem sinna atkvæðagreiðslunni.
  2. Merkja skal við nafn kjósanda í kjörskrá áður en hann neytir kosningarréttar síns. Eigi kjósandi rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni skal fulltrúi kjörstjórnar afhenda kjósanda kjörseðil. Þegar kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer hann með hann þar sem hægt er að greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi greiðir atkvæði.
  3. Kjósandi markar með skriffæri eða stimpli sem kjörstjórn leggur til X í ferning framan við þann svarkost á kjörseðlinum sem hann greiðir atkvæði sitt, brýtur atkvæðið saman og leggur atkvæðið í kjörkassa í viðurvist þeirra sem sinna atkvæðagreiðslunni.
  4. Láti kjósandi sjá hvað er á seðli hans eða ef hann hefur gert mistök við merkingu hans er seðillinn ónýtur og má ekki leggja hann í atkvæðakassann. Á kjósandi þá rétt á að fá nýjan kjörseðil og skal hann þá afhenda þeim sem sinna atkvæðagreiðslunni hinn fyrri seðil.
  5. Framkvæmd atkvæðagreiðslu skv. f-lið 8. gr. fer þannig fram að kjörstjórn auglýsir atkvæðagreiðslu með a.m.k. 5 daga fyrirvara á vefsíðu sveitarfélagsins og á viðkomandi stofnunum. Hlutaðeigandi stofnun skal láta í té hentuga aðstöðu, svo og eftir atvikum aðstoðarfólk, þannig að atkvæðagreiðsla geti gengið sem greiðast fyrir sig og með fyrirskipuðum hætti. Kjósanda ber að koma á fund fulltrúa kjörstjórnar þar sem atkvæðagreiðslan fer fram og fer kosning fram með sama hætti og mælt er fyrir um í a-d-lið. Atkvæðagreiðsla má aðeins fara fram á sjúkrastofu eða í herbergjum heimilismanna dvalarheimila og fatlaðs fólks eða vistmanna, ef verulegir annmarkar eru á að flytja kjósanda á fund fulltrúa kjörstjórnar.
  6. Auglýsa skal hvar og hvenær atkvæðagreiðsla með hreyfanlegum kjörstað, sbr. a-lið 8. gr., fer fram með fimm daga fyrirvara. Heimilt er að hafa hreyfanlegan kjörstað í sveitarfélagi sem ekki heldur íbúakosningu, með samþykki viðkomandi sveitarfélags.

10. gr. Atkvæði greitt með pósti.

Í íbúakosningu um einstök málefni sveitarfélags sem fram fer að frumkvæði íbúa sveitarfélagsins og/eða er bindandi, sbr. 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga, og í atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga, skal veita kjósendum möguleika á að greiða atkvæði sitt með pósti. Í auglýsingu sveitarfélags um íbúakosningar skal koma fram hvernig póstatkvæðagreiðsla fer fram og hvenær umsókn skal í síðasta lagi berast kjörstjórn. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða að ekki fari fram póstatkvæðagreiðsla í öðrum tegundum af íbúakosningum.

Atkvæðagreiðsla með pósti fer fram með þeim hætti að kjósandi óskar eftir því við kjörstjórn að fá kjörgögn send til sín á það heimilisfang eða það netfang sem hann gefur upp. Halda skal skrá utan um þá kjósendur sem fá kjörgögn send til sín. Óski kjósandi eftir að fá atkvæði sent á heimilisfang er atkvæðaseðill ásamt sendiumslagi, kjörseðilsumslagi og fylgibréfi sent til kjósanda á umbeðið heimilisfang. Kjósandi merkir við atkvæðið og leggur það í kjörseðilsumslagið í viðurvist tveggja lögráða votta eða lögbókanda. Kjósandi fyllir út fylgibréf og leggur það og atkvæðisumslag í sendiumslagið. Óski kjósandi eftir að fá kjörgögn send rafrænt eru þau send á umbeðið netfang. Atkvæðaseðill og fylgibréf eru prentuð út og kjósandi merkir við atkvæðið og leggur það í umslag sem kjósandi útvegar sjálfur. Umslagið og fylgibréf eru lögð í annað umslag sem kjósandi útvegar einnig sjálfur. Kjósandi annast sjálfur sendingu atkvæðis til kjörstjórnar og ber kostnað af sendingu bréfsins.

Þegar atkvæðabréf berst kjörstjórn með pósti skal það varðveitt með öruggum og tryggjum hætti.

Ef kjósandi þarfnast aðstoðar, skal fylgja þeim reglum sem fram koma í b-d-lið 11. gr. reglugerðarinnar. Í kosningu fyrir nefnd um hluta sveitarfélags má aðstoðarmaður ekki vera frambjóðandi eða maki, barn, systkini eða foreldri slíks frambjóðanda.

Á fylgibréfi vegna póstkosningar skal eftirfarandi koma fram:

  1. Stuttar og skýrar leiðbeiningar um atkvæðagreiðsluna.
  2. Nafn, kennitala og heimilisfang kjósanda sem annaðhvort kjósandi eða kjörstjórn fylla út með skýrum hætti.
  3. Yfirlýsing kjósanda, sbr. þó 5. tl., um að hann hafi án aðstoðar og án þess að nokkur annar hafi séð, ritað atkvæði á kjörseðil, sett atkvæði í umslag og límt umslag aftur.
  4. Reitur fyrir undirritun kjósanda, stað og dagsetningu.
  5. Yfirlýsing aðstoðarmanns eftir atvikum, um að aðstoð hafi verið veitt og fylgt hafi verið þeim reglum sem fram koma í b-d-lið 11. gr. reglugerðarinnar.
  6. Yfirlýsing tveggja votta, eða lögbókanda, sem votta auðkenni kjósanda, og aðstoðarmanns eftir atvikum, að kosningin hafi verið leynileg og að kjósandi, eða aðstoðarmaður eftir atvikum, hafi að kosningaathöfn lokinni lagt kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið. Vottar skulu vera lögráða og geta kennitölu sinnar á yfirlýsingunni. Ef vottar hafa ekki íslenska kennitölu skulu þeir geta um fæðingardag sinn og heimilisfang. Í kosningu fyrir nefnd um hluta sveitarfélags má vottur ekki vera frambjóðandi eða maki, barn, systkini eða foreldri slíks frambjóðanda og skal vottur staðfesta hæfi sitt.

11. gr. Aðstoðarmenn kjósenda.

Eftirfarandi atriði eiga við um aðstoðarmenn kjósenda í íbúakosningum sveitarfélaga:

  1. Kjósandi á rétt á aðstoð við atkvæðagreiðslu og getur aðstoð verið veitt af aðstoðarmanni sem fylgir kjósanda á kjörstað eða fulltrúa kjörstjórnar.
  2. Aðstoð skal aðeins veitt ef kjósandi getur sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Aðstoðarmanni kjósanda eða fulltrúa kjörstjórnar sem aðstoðina veitir er skylt að fara að fyrirmælum kjósanda og eru þeir bundnir þagnarskyldu.
  3. Kjósandi skal aldrei þurfa að upplýsa eða greina frá því hvers vegna hann óskar aðstoðar og er kjörstjórn eða fulltrúa kjörstjórnar eða öðrum þeim sem starfa við framkvæmd kosninga óheimilt að biðja kjósanda að skýra frá því hvers vegna hann óskar slíkrar aðstoðar.
  4. Sá sem veitir aðstoð við atkvæðagreiðslu skal veita hana í samræmi við þarfir og aðstæður kjósandans. Kjósanda skal sýnd sú nærgætni, lipurð og virðing sem þarfir og aðstæður hans kalla á hverju sinni.
  5. Við framkvæmd aðstoðar skal kjörstjórn eða fulltrúi kjörstjórnar tryggja að kosningin sé leynileg svo sem með því að loka kjörfundarstofu meðan á atkvæðagreiðslu með aðstoð stendur.
  6. Sé aðstoð veitt skal það skráð í skýrslu kjörstjórnar, þ.m.t. hver veitti aðstoðina.
  7. Aðstoðarmaður kjósanda skal gera grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, eða á annan fullnægjandi hátt að mati þeirra sem sinna atkvæðagreiðslunni. Aðstoðarmaður kjósanda skal vera að minnsta kosti 18 ára gamall. Í kosningu fyrir nefnd um hluta sveitarfélags má aðstoðarmaður ekki vera frambjóðandi eða maki, barn, systkini eða foreldri slíks frambjóðanda.
  8. Aðstoðarmaður kjósanda skal undirrita staðfestingu á sérstöku eyðublaði sem sveitarfélag skal útbúa og geymir nafn og kennitölu kjósanda, aðstoðarmanns kjósanda og dagsetningu þegar aðstoð er veitt. Á eyðublaðinu skal aðstoðarmaður staðfesta hæfi sitt skv. g-lið ef við á og veita skal leiðbeiningar, sbr. b-d-lið. Fulltrúi kjörstjórnar skal jafnframt undirrita staðfestingu aðstoðarmanns.
  9. Ef aðstoðarmaður kjósanda uppfyllir ekki skilyrði skv. g-lið skal synja því að viðkomandi aðstoðarmaður veiti kjósanda aðstoð. Skal það skráð í skýrslu kjörstjórnar. Ákvörðun fulltrúa kjörstjórnar um synjun skal borin upp við kjörstjórn ef þess er óskað. Ákvörðun kjörstjórnar er endanleg.
  10. Kjörstjórn skal halda skrá um aðstoðarmenn kjósenda og óheimilt er að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningu.

12. gr. Talning atkvæða.

Eftirfarandi atriði eiga við um talningu atkvæða í íbúakosningum sveitarfélaga:

  1. Ekki er heimilt að hefja talningu atkvæða fyrr en öllum kjörstöðum hefur verið lokað á síðasta degi atkvæðagreiðslunnar.
  2. Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra áður en atkvæðagreiðslu er lokið. Flokkun atkvæða og undirbúningur talningar þeirra skal fara fram fyrir luktum dyrum og byrgðum gluggum á talningarstað. Skal rýmið lokað og vaktað af hálfu kjörstjórnar þar til atkvæðagreiðslu er lokið.
  3. Talning atkvæða skal fara fram fyrir opnum dyrum svo að almenningi gefist kostur á að vera viðstaddur eftir því sem húsrúm leyfir. Viðstöddum ber að hlíta fyrirmælum kjörstjórnar og starfsfólks hennar á talningarstað. Öllum þeim sem starfa við framkvæmd flokkunar og undirbúning talningar og umboðsmönnum lista er óheimilt að hafa með sér inn í talningarsal síma, tölvu eða annað fjarskiptatæki. Sama á við um hvers konar myndavélar og hljóðupptökutæki. Neiti einhver að afhenda slík tæki er viðkomandi óheimilt að vera viðstaddur flokkun og undirbúning talningar. Sama á við ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi aðili hafi slíkt tæki í fórum sínum. Heimilt er að vísa hverjum þeim af talningarstað sem veldur röskun eða truflun á flokkun eða talningu atkvæða.
  4. Kjörstjórn skal auglýsa a.m.k. sjö dögum fyrir lok atkvæðagreiðslu hvar og hvenær talning atkvæða fer fram. Heimilt er að auglýsa talningu eingöngu á vef sveitarfélags. Velja skal hentugt húsnæði fyrir talningu atkvæða þar sem aðgengi er gott.
  5. Kjörstjórn tilnefnir talningarstjóra sem skal hafa yfirumsjón með talningarferlinu. Atkvæði úr hverjum atkvæðakassa skulu talin og fjöldi þeirra stemmdur af við fjölda kjósenda sem greitt hafa atkvæði. Einnig skal fjöldi atkvæða úr hverjum atkvæðakassa stemmdur af við fjölda afhentra atkvæðaseðla, ónotaðra atkvæðaseðla sem skilað er og þeirra atkvæðaseðla sem hafa ónýst. Geta skal um afstemmingu atkvæðakassa í skýrslu kjörstjórnar. Ef a.m.k. tvær sjálfstæðar viðbótartalningar staðfesta fjölda atkvæða í atkvæðakassa er kjörstjórn heimilt að setja atkvæði í talningu. Leita skal skýringa á misræmi og skrá það í skýrslu kjörstjórnar ef talin er þörf á.
  6. Eftir afstemmingu atkvæðakassa skulu atkvæðaseðlar tæmdir í hæfilega stórt, tómt ílát og skal þess gætt að atkvæðaseðlar frá einstökum kjörstöðum og kjördeildum blandist vel saman. Flokka skal atkvæðaseðla eftir svarkostum eða eftir atvikum listum eða frambjóðendum. Halda skal auðum atkvæðum, öðrum ógildum atkvæðum og vafaatkvæðum aðgreindum. Atkvæði skulu að minnsta kosti flokkuð í tveimur umferðum. Tryggja skal að starfsfólk sem flokkar atkvæði í fyrri umferð komi ekki að flokkun sömu atkvæða í síðari umferð. Að lokinni flokkun atkvæða skal talningarstjóri og þau sem aðstoða hann flytja flokkuð atkvæði eftir merkingu svarkosta á fráleggsborð.
  7. Heimilt er að opna sendiumslög vegna atkvæða sem greidd eru með pósti af a.m.k. tveimur fulltrúum kjörstjórnar áður en atkvæðagreiðslu er lokið. Ef skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. eru ekki uppfyllt eða vafi leikur á því, skal taka fylgibréf og atkvæðisumslag til hliðar og skal kjörstjórn leggja mat á gildi atkvæðis, sbr. e-lið 1. mgr. 13. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðsla fer fram. Ef ekki skal taka atkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið. Ef ekki eru gerðar athugasemdir við fylgibréfið og kjósanda, skal atkvæðisumslag sent til talningar þegar hún hefst þar sem atkvæðið er tekið úr kjörseðilsumslagi og farið með samkvæmt e-, f- og h-lið.
  8. Þegar talning hefst hverju sinni skulu atkvæðaseðlar taldir í hæfilega bunka og settir í teygju með miða þar sem fjöldi atkvæða er tilgreindur. Atkvæðaseðlar sem ekki ná viðmiði heils bunka skulu settir í teygju og merktir með miða þar sem fjöldi atkvæða er tilgreindur. Atkvæðaseðlar skulu því næst endurtaldir af öðrum talningarmanni. Báðir talningarmenn skulu árita miða sem settir eru á bunkann með upphafsstöfum sínum þannig að ljóst sé að bunkinn hafi verið talinn tvívegis af sitthvorum talningarmanni. Miðar skulu merktir í áframhaldandi töluröð og skráðir undir því númeri í skrá kjörstjórnar þannig að hægt sé að rekja hvern bunka fyrir sig. Að lokinni talningu skal bunkum með atkvæðaseðlum komið fyrir á borði fyrir talin atkvæði þar sem þeir eru skráðir og fjöldi þeirra lagður saman. Fjöldi talinna atkvæða skal stemmdur við fjölda atkvæða sem komu til talningar hverju sinni. Skal þess gætt að samtölu atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.
  9. Kjörstjórn skal upplýsa um niðurstöðu talningar með opinberum hætti og a.m.k. á vefsíðu sveitarfélagsins.

13. gr. Gölluð atkvæði.

Eftirfarandi atriði skulu gilda um gölluð atkvæði í íbúakosningum sveitarfélaga:

  1. Atkvæði skal meta ógilt ef:

    1. kjörseðill er auður,
    2. ekki má með öruggum hætti sjá hvaða svarkosti kjósandi hefur viljað greiða atkvæði sitt,
    3. ætla má að merki eða áletrun á kjörseðli séu sett af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan,
    4. kjörseðill er ekki sá sem kjörstjórn hefur látið gera.
  2. Við mat á gildi atkvæðis þegar sveitarstjórn hefur ákveðið að spurningar á kjörseðli séu fleiri eða orðaðar með öðrum hætti, skal meta gildi hverrar spurningar sjálfstætt. Ekki skal meta atkvæði ógilt í heild þó kjósandi hafi ekki tjáð eða mistekist að tjá afstöðu sína til einstakra spurninga á kjörseðli, enda sé atkvæði að öðru leyti gilt.
  3. Þegar atkvæði er greitt með pósti telst það ógilt ef það er ekki í sérstöku atkvæðisumslagi, atkvæðisumslag er ekki lokað, fylgibréfið er ekki rétt útfyllt eða undirritað eða það eru fleiri en eitt atkvæði í atkvæðisumslagi. Ekki skal taka til greina atkvæði sem berst til kjörstjórnar eftir að atkvæðagreiðslu er lokið, ef atkvæði berst frá kjósanda sem ekki er á skrá um að hafa óskað eftir kjörgögnum eða ef kjósandi hefur þegar greitt atkvæði á kjörstað.
  4. Atkvæði skal ekki meta ógilt, þó að gallað sé, ef greinilegt er hvernig það á að falla nema það augljóslega brjóti í bága við einn eða fleiri stafliði 1. mgr. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt í ferning við svarmöguleika en t.d. utan hans, þó að X sé ólögulegt, þó að hak sé sett í ferning í stað X o.s.frv.
  5. Ef ágreiningur verður innan kjörstjórnar um hvort atkvæði telst gilt, skal kjörstjórn greiða um það atkvæði.

14. gr. Umboðsmenn.

Eftirfarandi atriði skulu eiga við um umboðsmenn í íbúakosningum:

  1. Þau sem eru í framboði í nefnd fyrir hluta sveitarfélags, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, og ábyrgðaraðili undirskriftarsöfnunar um almenna atkvæðagreiðslu skv. 107. og 2. mgr. 108. sveitarstjórnarlaga, eiga rétt á að skipa sér umboðsmann.
  2. Umboðsmenn hafa það hlutverk að gæta ólíkra sjónarmiða við kosninguna, talningu atkvæða og úrlausn ágreiningsmála. Telji umboðsmenn að kjörstjórn eða kjósendur hegði sér ekki samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum við kosningarathöfnina mega þeir finna að því við kjörstjórnina. Ef þeir fá það ekki leiðrétt hjá kjörstjórn eiga umboðsmenn rétt á að fá ágreiningsefnið skráð í skýrslu kjörstjórnar, sbr. 3. mgr. 5. gr.
  3. Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir undirbúning talningar, svo sem þegar tekið er á móti atkvæðakössum og þeir opnaðir, þegar tekið er á móti öðrum kjörgögnum eða við flokkun atkvæða. Þá eiga umboðsmenn rétt á að vera viðstaddir talningu atkvæða og fylgjast með framkvæmd hennar og uppgjöri. Umboðsmenn skulu við framkvæmd eftirlits við flokkun og talningu atkvæða fara að fyrirmælum kjörstjórnar og allar athugasemdir sem umboðsmenn gera við framkvæmd flokkunar og talningar skulu þeir gera við kjörstjórn.

15. gr. Atkvæðagreiðsla um einstök málefni.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á orðalagi og framsetningu þeirra spurninga sem lagðar eru fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu um einstök málefni sveitarfélags, sbr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga. Á kjörseðli skal koma skýrt fram spurning um hvort kjósandi samþykki þá tillögu sem borin er upp og gefnir tveir möguleikir á svari, "Já" eða "Nei". Sveitarstjórn getur ákveðið að spurningar og svarkostir á kjörseðli í atkvæðagreiðslu séu fleiri eða orðaðir með öðrum hætti.

Í íbúakosningu um einstök málefni sveitarfélags sem fram fer að frumkvæði sveitarstjórnar og ekki er bindandi, sbr. 3. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga, er sveitarstjórn heimilt að ákveða að kosningarréttur sé bundinn ákveðnum aldri, að kosningarréttur sé bundinn við lögheimili í tilteknum hluta sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga, og/eða að ekki sé gerð krafa um ríkisfang eða búsetutíma. Ákvörðun sveitarstjórnar er háð því skilyrði að hægt sé að gefa út kjörskrá fyrir þann hóp kjósenda sem um ræðir. Í auglýsingu sveitarfélagsins um atkvæðagreiðslu fyrir hluta sveitarfélags skal sá hluti sveitarfélags sem atkvæðagreiðslan nær til vera skýrt afmarkaður.

16. gr. Kosning í nefnd fyrir hluta sveitarfélags.

Sveitarfélög setja sér reglur um hvernig kosið skuli í nefnd fyrir hluta sveitarfélagsins, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, og skulu reglurnar birtar í Stjórnartíðindum eigi síðar en 30 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst.

Í reglum skv. 1. mgr. skal koma fram hvernig kosið skal í nefnd fyrir hluta sveitarfélags. Heimilt er að ákveða að fram fari hlutfallskosning, óbundin kosning, eða hver sú tegund af kosningu sem sveitarstjórn telur heppilegasta.

Kjörgengur í nefnd fyrir hluta sveitarfélags er hver sá sem hefur kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 133. gr. sveitarstjórnarlaga. Heimilt er mæla frekar fyrir um kjörgengi nefndarmanna í reglum sveitarfélags um íbúakosningar.

17. gr. Atkvæðagreiðsla vegna sameiningar sveitarfélaga.

Um atkvæðagreiðslu vegna sameiningar sveitarfélaga skal eftirfarandi eiga við:

  1. Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga eða viðkomandi sveitarstjórnir skulu kynna íbúum sveitarfélaganna þá tillögu sem greiða skal atkvæði um og helstu forsendur hennar með a.m.k. 20 daga fyrirvara, svo sem með kynningarfundum og/eða dreifibréfum. Tillagan skal innan sama frests auglýst opinberlega í Lögbirtingablaði og í fjölmiðlum.
  2. Sveitarstjórn lætur gera atkvæðaseðil til afnota við atkvæðagreiðslu vegna sameiningar sveitarfélaga. Form atkvæðaseðils skal staðfest af ráðuneyti sveitarstjórnarmála.
  3. Ákvörðun um að lækka kosningaaldur í 16 ár, sbr. 2. mgr. 2. gr., þarf samþykki allra viðkomandi sveitarstjórna.

18. gr. Eyðing kjörgagna.

Atkvæðaseðla og kjörskrár skal geyma þar til kærufrestur kosninga er liðinn eða fullnaðarúrskurður um gildi þeirra hefur verið uppkveðinn enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Eigi síðar en ári eftir kjördag skal kjörstjórn eyða atkvæðaseðlum og kjörskrám enda sé þá ágreiningsmálum um gildi og framkvæmd kosninganna lokið.

III. KAFLI Kosningu frestað, uppkosning og kærur.

19. gr. Kosningum frestað og uppkosning.

Uppkosning fer fram ef kosning ferst fyrir af óviðráðanlegum orsökum eða ef kosning hefur verið úrskurðuð ógild. Í íbúakosningum um einstök málefni sem fara fram að frumkvæði sveitarstjórnar og ekki eru bindandi ákveður sveitarstjórn hvort uppkosning fari fram.

Uppkosning er endurtekning á fyrri kosningu. Þegar um uppkosningu er að ræða lýtur undirbúningur og framkvæmd kosninganna sömu reglum og með sömu kjörskrá og fyrri kosning.

20. gr. Gallar.

Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

21. gr. Kærur vegna íbúakosninga.

Kærur um ólögmæti íbúakosninga skulu sendar ráðuneyti sveitarstjórnarmála til úrlausnar innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.

22. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 7. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga, nr. 323/2023.

Innviðaráðuneytinu, 6. september 2023.

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Aðalsteinn Þorsteinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.