Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Prentað þann 7. des. 2025

Breytingareglugerð

915/2025

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 350/2024 um fjárfestingastuðning í kornrækt.

1. gr.

Heiti reglugerðarinnar verður svohljóðandi: Reglugerð um stuðning við kornrækt.

2. gr.

Á undan 1. gr. reglugerðarinnar kemur ný kaflafyrirsögn sem orðast svo: I. kafli, Almenn ákvæði.

3. gr.

1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Markmið reglugerðar þessarar er að styðja við framleiðslu korns og fjárfestingu til uppbyggingar innviða í kornrækt og auka þar með hagkvæmni í söfnun og vinnslu korns. Stuðningur er veittur fyrir framleiðslu á korni sem stenst ákveðnar gæðakröfur og til fjárfestinga í kornþurrkun, korngeymslum og tilheyrandi tækjabúnaði. Þar sem vísað er til svæðaskiptingar í reglugerðinni er átt við starfssvæði búnaðarsambanda.

4. gr.

Á eftir 1. gr. reglugerðarinnar kemur ný kaflafyrirsögn sem orðast svo: II. kafli, Fjárfestingastuðningur í kornrækt.

5. gr.

Á eftir 7. gr. reglugerðarinnar kemur nýr III. kafli með fyrirsögninni Framleiðslutengdur stuðningur í kornrækt og uppfærast greinanúmer reglugerðarinnar í samræmi við það. Nýr III. kafli verður svohljóðandi:

III. KAFLI Framleiðslutengdur stuðningur í kornrækt.

8. gr. Auglýsing og umsókn.

Ár hvert skal auglýst eftir umsóknum um framleiðslutengdan stuðning í kornrækt. Umsækjendur geta verið einstaklingar eða félög sem stunda kornrækt eða söfnun og vinnslu korns. Umsóknum skal skila rafrænt í umsóknarkerfi. Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja til að umsókn geti talist gild:

  1. Upplýsingar um nafn, kennitölu og lögheimili umsækjanda.
  2. Upplýsingar um framleitt magn ársins sem stenst gæðakröfur skv. 9. gr.
  3. Vottorð útgefið af fagaðila þar sem staðfest er að framleitt magn standist gæðakröfur skv. 9. gr.

9. gr. Gæðakröfur.

Umsækjendur þurfa að uppfylla ákveðnar gæðakröfur til að fá stuðning og eru þær eftirfarandi:

  1. Bygg með rúmþyngd 600 g pr. lítra eða meira fær hámarksstuðning. Krafa er um að þurrefnisinnihald sé að lágmarki 85%.
  2. Bygg með rúmþyngd á bilinu 550-599 g pr. lítra fær 1/2 af hámarksstuðningi. Krafa er um að þurrefnisinnihald sé að lágmarki 85%.
  3. Hveiti með rúmþyngd 700 g pr. lítra eða meira fær hámarksstuðning. Krafa er um að þurrefnisinnihald sé að lágmarki 85%.
  4. Hafrar með rúmþyngd 500 g pr. lítra eða meira fá hámarksstuðning. Krafa er um að þurrefnisinnihald sé að lágmarki 85%.

Til að fá stuðning þarf að skila vottorði frá fagaðila um það korn sem tekið er til þurrkunar og stenst ofangreindar gæðakröfur að þurrkun lokinni. Þó er heimilt fyrir það korn sem er selt til fóðurfyrirtækja eða annarra sem kaupa þurrkað korn að óska eftir því að þeir kaupendur staðfesti gæði kornsins í samræmi við ofangreint.

10. gr. Mat á umsóknum.

Ráðuneytið leggur faglegt mat á umsóknir og getur leitað upplýsinga frá opinberum aðilum.

Ákvarðanir um veitingu stuðnings eru teknar af atvinnuvegaráðuneytinu. Um málsmeðferð um veitingu styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

11. gr. Eftirlit og endurgreiðsla.

Heimilt er að kalla eftir frekari upplýsingum ef þörf er talin á því við mat á umsókn.

Heimilt er að krefjast endurgreiðslu framleiðslutengds stuðnings ef í ljós kemur að umsækjandi hafi veitt rangar eða villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum sem áhrif höfðu á veitingu stuðnings.

6. gr.

Ákvæði til bráðabirgða orðast svo:

Reglugerðin miðast við það fjármagn sem er til ráðstöfunar til fjárfestingastyrkja í kornrækt á árinu 2025. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. um heimild til að styðja sömu framkvæmd í þrjú ár eru með fyrirvara um nauðsynlegar fjárheimildir Alþingis á árunum 2026 og 2027.

Miðað er við að hámarksstuðningur við framleiðslu á korni árið 2025, sbr. III. kafla, verði allt að 15 kr. á hvert framleitt kíló sem stenst gæðakröfur skv. a-, c- og d-lið 9. gr. Hámarksstuðningur við framleiðslu samkvæmt gæðaflokki b-liðar 9. gr. er allt að 7,5 kr. á hvert framleitt kíló. Það miðast við það fjármagn sem er til ráðstöfunar og áætlaða framleiðslu. Verði framleiðsla umfram áætlun getur fjárhæð stuðnings á hvert kíló lækkað. Komi til lækkunar á einingaverði vegna þess að fjármunir duga ekki til hámarksstuðnings á alla framleiðslu samkvæmt umsóknum njóta gæðaflokkar skv. a-, c- og d-lið 9. gr. forgangs. Fyrst skerðist stuðningur við gæðaflokk skv. b-lið 9. gr. að fullu, og þá stuðningur við framleiðslu samkvæmt gæðaflokkum a-, c- og d-liðar 9. gr. að jöfnu.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 19. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og 81. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvegaráðuneytinu, 16. júlí 2025.

Hanna Katrín Friðriksson.

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

B deild - Útgáfudagur: 26. ágúst 2025

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.