Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Stofnreglugerð

350/2024

Reglugerð um fjárfestingastuðning í kornrækt.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að styðja við fjárfestingu til uppbyggingar innviða í kornrækt og auka þar með hagkvæmni í söfnun og vinnslu korns. Stuðningur er veittur til fjárfestinga í kornþurrkun, korngeymslum og tilheyrandi tækjabúnaði. Þar sem vísað er til svæðaskiptingar í reglugerðinni er átt við starfssvæði búnaðarsambanda.

2. gr. Auglýsing og umsókn.

Ár hvert skal auglýst eftir umsóknum um fjárfestingastuðning. Umsækjendur geta verið einstaklingar eða félög sem stunda kornrækt eða söfnun, þurrkun og geymslu korns. Umsóknum skal skila rafrænt í umsóknarkerfi og skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram til að umsókn geti talist gild. Heimilt er að kalla eftir frekari upplýsingum ef þörf er talin á því við mat á umsókn:

  1. Upplýsingar um nafn, kennitölu og lögheimili umsækjanda.
  2. Viðskiptaáætlun sem felur í sér lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi, staðsetningu hennar og umfangi. Fram komi m.a. upplýsingar um orkugjafa við starfsemina og afkastagetu hennar ásamt upplýsingum um umfang kornræktar á starfssvæðinu. Einnig skal gera grein fyrir rekstrarfyrirkomulagi starfseminnar, s.s. hvort umsækjandi er eingöngu þjónustuaðili við kornþurrkun eða afurðastöð sem stundar sölustarfsemi eða viðskipti með korn.
  3. Sundurliðuð kostnaðar- og framkvæmdaáætlun með tímasettri verkáætlun unnin af fagaðila, svo sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, verkfræðistofu eða öðrum sambærilegum aðila.
  4. Samþykktar teikningar og byggingarleyfi ef um nýframkvæmdir er að ræða.

Umsækjendur skulu skila fullnægjandi umsókn innan tilskilins tímafrests. Heimilt er að hafna umsóknum sem skilað er með ófullnægjandi gögnum.

3. gr. Skilyrði stuðnings.

Stuðningur er veittur til fjárfestinga í kornþurrkunarstöðvum bæði til nýframkvæmda eða stækkunar og endurbóta á stöðvum sem þegar eru í rekstri, sérhæfðum korngeymslum og sérhæfðum flutningatækjum fyrir korn,

4. gr. Forgangsröðun umsókna.

Ef sótt er um hærri fjárhæð en er til úthlutunar hverju sinni skal umsóknum forgangsraðað með vísan til eftirfarandi þátta:

  1. Umsóknir þar sem fjárfesting miðar að meiri afkastagetu að framkvæmdum loknum hafa forgang. Samhliða hafa svæði þar sem umfang kornræktar er meira miðað við meðaltal flatarmáls kornræktunar síðustu þrjú ár forgang.
  2. Umsóknir frá svæðum þar sem uppbygging á kornþurrkun hefur ekki farið fram og/eða hafa ekki notið stuðnings hefur forgang umfram svæði þar sem innviðir til kornþurrkunar eru þegar fyrir hendi.
  3. Félög framleiðenda hafa forgang umfram einstaklinga og skal m.a. horft til eignarhalds einkahlutafélaga við mat á þessu.
  4. Starfsemi sem nýtir endurnýjanlega orkugjafa hefur forgang umfram aðra.
  5. Fjárfesting í þurrkunarstöðvum og korngeymslum hefur forgang fram yfir fjárfestingu í flutningatækjum.

Jafnframt er heimilt að taka tillit til framkvæmda- og fjármögnunaráætlunar í heild, sbr. ákvæði 6. mgr. 6. gr.

Matvælaráðuneytinu er heimilt að setja nánari reglur um forgangsröðun umsókna og skulu þær þá birtar samhliða auglýsingu eftir umsóknum.

5. gr. Mat á umsóknum.

Ráðuneytið leggur faglegt mat á umsóknir og getur leitað upplýsinga frá opinberum aðilum.

Ráðuneytinu er jafnframt heimilt að skipa fagráð allt að fimm einstaklinga til ráðgjafar við mat á umsóknum.

Ákvarðanir um veitingu styrkja eru teknar af matvælaráðuneytinu. Um málsmeðferð við ákvarðanir um veitingu styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

6. gr. Afgreiðsla og útreikningur.

Stuðningur við hvern framleiðanda getur að hámarki numið 40% af heildarfjárfestingu. Heimilt er að veita stuðning við sömu framkvæmdir í þrjú ár sé hámarki ekki náð á fyrsta ári og skal umsækjandi þá leggja inn nýja umsókn á öðru og þriðja ári.

Við upphaf framkvæmdar sem telst styrkhæf greiðast 50% af samþykktri styrkupphæð og 50% við skil á lokaskýrslu.

Heimilt er, við útgreiðslu fyrri hluta styrks, að óska eftir staðfestingu frá byggingarfulltrúa um að framkvæmdir séu hafnar og afriti af reikningum eða hreyfingarlista úr bókhaldskerfi.

Séu framkvæmdir hafnar við umsókn er heimilt að telja til stofnkostnaðar útlagðan framkvæmdakostnað síðastliðinna tveggja almanaksára. Sama á við þegar fyrir hendi er þurrkstöð með minni afkastagetu sem verið er að uppfæra.

Lokaskýrsla felur í sér eftirfarandi gögn:

  1. Lokaúttekt byggingarfulltrúa, ef við á.
  2. Hreyfingarlista úr bókhaldskerfi eða afrit af reikningum vegna fjárfestingakostnaðar sem styrkur nær yfir.
  3. Undirritaða yfirlýsingu styrkþega um framkvæmd sem naut stuðnings.
  4. Dagbók um eigin vinnu, ef við á.

Framlög skerðast hlutfallslega vegna allra samþykktra umsókna að teknu tilliti til forgangsröðunar, sbr. 4. gr., ef fjármunir nægja ekki til hámarksstuðnings, sbr. 1. mgr. Við úthlutun skal stefnt að því að þær framkvæmdir sem hljóta stuðning nái hámarksstuðningi á þremur árum.

Hafi umsækjandi hlotið annan stuðning, bætur eða styrk til sömu framkvæmdar skal tilgreina það í umsókn. Heimilt er að draga þá fjárhæð frá stofnkostnaði.

7. gr. Eftirlit og úttektir.

Heimilt er að taka út framkvæmd umsækjanda, á kostnað hans. Ef talið er að framkvæmdakostnaður eða einstaka kostnaðarliðir hafi farið fram úr því sem eðlilegt getur talist skal taka tillit til þess við útreikning á endanlegri styrkupphæð. Upplýsa skal umsækjanda um allar slíkar breytingar og gefa honum hæfilegan frest til andmæla.

Framleiðandi skal endurgreiða greiddan fjárfestingastuðning komi í ljós að stuðningur sem greiddur hefur verið hafi ekki verið nýttur til framkvæmda á því framkvæmdaári sem sótt var um stuðning fyrir. Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði greiðslu vegna seinni hluta stuðnings með skilum á lokaskýrslu, sbr. 5. gr., skal hann endurgreiða fyrri hluta stuðningsins sem hann hafði áður fengið greiddan.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 19. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og 81. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Reglugerðin miðast við það fjármagn sem er til ráðstöfunar til fjárfestingastyrkja í kornrækt á árinu 2024 og skal endurskoðuð fyrir lok þess árs. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. um heimild til að styðja sömu framkvæmd í þrjú ár eru með fyrirvara um nauðsynlegar fjárheimildir Alþingis á árunum 2025 og 2026.

Matvælaráðuneytinu, 18. mars 2024.

Katrín Jakobsdóttir.

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.