Prentað þann 3. des. 2024
905/2021
Reglugerð um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
I. KAFLI Sameiginleg ákvæði.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um uppbætur og styrki vegna kaupa og reksturs bifreiða skv. 10. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.
Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að því að hreyfihamlaðir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu lífi með því að gera þeim kleift að komast nauðsynlegra ferða sinna í þeim tilgangi að sækja vinnu, skóla og reglubundna þjónustu innan heilbrigðiskerfisins.
2. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
Bifreið: Fólksbifreið eða sendibifreið sem ætluð er til daglegra nota. Húsbíll, pallbíll eða sambærileg bifreið sem skráð er sem vörubifreið fellur ekki undir hugtakið bifreið í skilningi reglugerðar þessarar.
Heimilismaður: Einstaklingur sem býr á sama heimili og hinn hreyfihamlaði. Einstaklingur sem dvelur á sama dvalar- eða hjúkrunarheimili og hinn hreyfihamlaði telst ekki heimilismaður í skilningi reglugerðar þessarar.
Líkamleg hreyfihömlun: Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.
Sjálfstæð búseta: Einhleypingur sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
3. gr. Framkvæmdaraðili.
Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðar þessarar.
II. KAFLI Uppbætur og styrkir vegna bifreiða.
4. gr. Mat á þörf.
Við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerð þessari skal fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skal hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.
Við matið skal einkum litið til eftirfarandi atriða:
- Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfestir hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.
- Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.
- Ökuréttinda, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.
- Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.
5. gr. Uppbót vegna reksturs bifreiðar.
Heimilt er að greiða hreyfihömluðum elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Sama gildir um endurhæfingarlífeyrisþega samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skilyrði er að greiðsluþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og skal sýnt fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.
Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar. Þó er heimilt að greiða uppbót ef greiðsluþegi hefur bifreiðina á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila.
Heimilt er að greiða blindum uppbót samkvæmt þessu ákvæði.
Mánaðarleg fjárhæð uppbótar skv. 1. mgr. er 23.293 kr. Fjárhæðin skal taka breytingum með sama hætti og aðrar bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
6. gr. Uppbót vegna kaupa á bifreið.
Heimilt er að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi er talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerð þessari. Þá er heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
Heimilt er að greiða blindum uppbót samkvæmt þessu ákvæði.
Fjárhæð uppbótar skv. 1. mgr. er 500.000 kr. Fjárhæð uppbótar til þeirra sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn og til þeirra sem ekki hafa átt bifreið síðustu tíu ár fyrir umsókn er þó 1.000.000 kr.
7. gr. Styrkur til kaupa á bifreið.
Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.
Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um framfærendur hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þá skal sýna fram á þörf fyrir bifreið til að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjónustu innan heilbrigðiskerfisins eða í skóla.
Fjárhæð styrks er 2.000.000 kr.
8. gr. Styrkur til kaupa á sérútbúinni bifreið.
Heimilt er að veita styrk til að kaupa bifreið, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði 7. gr. og ekur sjálfur eða annar heimilismaður.
Áður en styrkur er veittur skal þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og bifreið hafa verið metin heildstætt og sýnt fram á sérstaka þörf fyrir sérútbúna bifreið. Þá skal liggja fyrir mat sjúkratryggingastofnunar á þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og skal Tryggingastofnun hafa samþykkt val á bifreið með hliðsjón af þeim hjálpartækjum sem umsækjandi þarf á að halda.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er í undantekningartilfellum heimilt að líta til sérstakra aðstæðna umsækjanda sé honum ekki unnt að nýta þau hjálpartæki í bifreiðina sem að jafnaði eru forsenda fyrir veitingu styrksins.
Að jafnaði er ekki heimilt að veita styrk skv. 1. mgr. vegna fatlaðra barna yngri en tíu ára. Í sérstökum tilfellum er þó heimilt að veita styrk vegna mikið fatlaðra barna yngri en tíu ára ef barnið þarf sannarlega sambærilega bifreið og fullorðinn einstaklingur í sambærilegri aðstöðu. Við mat á því skal m.a. horft sérstaklega til eðlis fötlunar barnsins, hvort það sé mjög hávaxið eða þungt miðað við aldur og hvort barnið er verulega háð fyrirferðarmiklum hjálpartækjum á meðan það er í bifreiðinni.
Fjárhæð styrks skv. 1. mgr. getur numið að hámarki 60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar en að hámarki 66% þegar um er að ræða sérútbúna hreina rafbíla. Fjárhæð styrks skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en 7.400.000 kr.
Þegar um er að ræða sérútbúna hreina rafbíla getur fjárhæð styrks þó numið allt að 8.140.000 kr.
9. gr. Sjúkdómsástand hins hreyfihamlaða versnar.
Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 7. gr. er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geta þó samtals aldrei verið hærri en 2.000.000 kr. á fimm ára fresti.
Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. eða styrk skv. 7. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 8. gr. er á sama hátt heimilt að greiða mismun fjárhæðanna. Styrkur getur þó samtals aldrei verið hærri en 7.400.000 kr. á fimm ára fresti.
Þegar um er að ræða sérútbúna hreina rafbíla getur fjárhæð styrks þó numið allt að 8.140.000 kr.
III. KAFLI Ýmis ákvæði.
10. gr. Kaupverð og eignarhald bifreiða.
Áður en til greiðslu uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa kemur skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar. Þá skal liggja fyrir mat á þörf fyrir bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.
Heimilt er að óska eftir því að umsækjandi leggi fram gögn sem sýni fram á viðunandi ástand bifreiðar og einnig að bifreið sé vátryggð samkvæmt lögum um ökutækjatryggingar og í lögmæltu ástandi samkvæmt umferðarlögum.
Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerð þessari að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það á við.
Hinn hreyfihamlaði eða maki hans skal vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Bifreið sem er í kaupleigu getur fallið undir þau ákvæði reglugerðarinnar sem gera að skilyrði að bifreið skuli vera í eigu umsækjanda eða maka hans eða hún skráð á umsækjanda eða maka hans.
11. gr. Endurnýjun umsókna.
Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.
Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.
12. gr. Hreyfihamlaðir í sjálfstæðri búsetu.
Hreyfihamlaðir einstaklingar í sjálfstæðri búsetu, sbr. b-lið 2. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð við sveitarfélag viðkomandi samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, geta fallið undir þau ákvæði reglugerðarinnar sem kveða á um að hreyfihamlaður einstaklingur hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Hið sama gildir um hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu sem eru með persónulega aðstoðarmenn á grundvelli annars konar notendasamnings við sveitarfélag viðkomandi eða einstaklingsbundna þjónustuáætlun sem gerð er á grundvelli sömu laga og í samráði við hinn hreyfihamlaða. Í þeim tilvikum skal koma skýrt fram í samningi eða þjónustuáætlun hvaða þjónustu hinir persónulegu aðstoðarmenn veita hvað varðar ferðir og akstur hins hreyfihamlaða.
13. gr. Fjöldi uppbóta og styrkja.
Að jafnaði er einungis heimilt að veita eina uppbót eða einn styrk til kaupa á sömu bifreið samkvæmt reglugerð þessari. Í sérstökum tilfellum geta þó hjón eða sambýlisfólk, sem bæði uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar og búa á sama heimili, hvort um sig fengið uppbót og/eða styrk til kaupa á sameiginlegri bifreið.
Hið sama á við ef um er að ræða fleiri en eitt hreyfihamlað barn í sömu fjölskyldu og sem búa á sama heimili en framfærendur barnanna skulu í þeim tilfellum sýna fram á að fjölskyldan þurfi stærri bifreið vegna sérstaks búnaðar eða hjálpartækja sem börnin nota að staðaldri.
Ef fyrir liggur samningur um skipta búsetu barns, sbr. 3. mgr. 32. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og barnið er hreyfihamlað og nýtur umönnunargreiðslna er heimilt að skipta uppbót eða styrk til kaupa á bifreið jafnt milli foreldra, ef önnur skilyrði reglugerðar þessarar eru uppfyllt.
Sækja skal um uppbætur og/eða styrki samkvæmt þessu ákvæði á sama tíma og getur heildargreiðsla þeirra ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur kaupverði bifreiðarinnar.
14. gr. Umsóknir og afgreiðsla þeirra.
Sækja skal um styrki og uppbætur samkvæmt reglugerð þessari hjá Tryggingastofnun ríkisins og skulu umsóknir vera sendar með rafrænum hætti eða á eyðublöðum stofnunarinnar.
Umsækjanda er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að ákvarða uppbót eða styrk samkvæmt reglugerð þessari. Tryggingastofnun skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um veitingu uppbótar eða styrks er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir.
Ákvörðun um að veita umsækjanda uppbót eða styrk gildir í tólf mánuði hverju sinni. Nýti umsækjandi ekki rétt sinn áður en því tímabili er lokið fellur ákvörðunin úr gildi.
Um umsóknir og framkvæmd að öðru leyti fer skv. IV. kafla A, V. og VI. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð.
15. gr.
Fjárhæðir uppbóta og styrkja samkvæmt reglugerð þessari skulu taka breytingum í samræmi við breytingar á greiðslum almannatrygginga, sbr. 62. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
16. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr., laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, og 70. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. september 2021. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.