Prentað þann 4. jan. 2025
866/2017
Reglugerð um för yfir landamæri.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Almennt.
Reglugerð þessi hefur að geyma ákvæði um eftirlit með för fólks yfir ytri og í sérstökum tilvikum innri landamæri Schengen-svæðisins.
Lögregla ber ábyrgð á og annast framkvæmd landamæraeftirlits.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um hvern þann einstakling sem fer yfir innri eða ytri landamæri Schengen-svæðisins við komu til landsins og brottför frá landinu. Reglugerð þessi hefur ekki áhrif á rétt erlendra ríkisborgara sem njóta réttar um frjálsa för samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða rétt flóttamanna eða einstaklinga sem óska alþjóðlegrar verndar.
3. gr. Orðskýringar.
Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
- Ferðaskilríki: Vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki í stað vegabréfs við komu til landsins, sbr. viðauka 3.
-
Innri landamæri:
- Sameiginleg landamæri Schengen-ríkjanna á landi, þar á meðal landamæri mörkuð af ám og vötnum.
- Flughafnir Schengen-ríkjanna fyrir innansvæðisflug.
- Hafnir Schengen-ríkjanna sem notaðar eru við reglubundnar ferjusiglingar.
- Ytri landamæri: Landamæri Schengen-ríkjanna á landi, sjó, ám, vötnum og höfnum, þ. á m. flughöfnum sem ekki eru innri landamæri.
- Innansvæðisflug: Flug þar sem eingöngu er flogið milli staða á yfirráðasvæði Schengen-ríkjanna án millilendingar á landsvæði utan þeirra.
- Reglubundnar ferjusiglingar: Hvers konar ferjusiglingar milli tveggja, sömu eða fleiri hafna á yfirráðasvæði Schengen-ríkjanna, án viðkomu í höfn utan þess svæðis, þar sem farþegar og ökutæki eru flutt samkvæmt fyrirfram útgefinni tímatöflu.
- EES-borgari: Útlendingur sem er ríkisborgari ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
- EFTA-borgari: Útlendingur sem er ríkisborgari ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu.
- Útlendingur: Einstaklingur sem hefur ekki íslenskan ríkisborgararétt.
- Útlendingur sem synja skal um komu: Útlendingur sem skráður hefur verið í Schengen-upplýsingakerfið (SIS) í samræmi við 96. gr. Schengen-samningsins.
- Landamærastöð: Staður sem hefur verið viðurkenndur af stjórnvöldum til farar yfir ytri landamæri.
- Landamæravarsla: Starfsemi á landamærum í samræmi við reglugerð þessa sem eingöngu fer fram vegna farar eða fyrirhugaðrar farar yfir landamæri og felur í sér landamæraeftirlit og landamæragæslu.
- Landamæraeftirlit: Eftirlit á landamærastöð sem felst í að skoða hvort einstaklingur, þ. á m. samgöngutæki og hlutir í vörslu hans, uppfylli skilyrði fyrir komu eða för yfir landamæri.
- Landamæragæsla: Gæsla á landamærum á milli landamærastöðva og á landamærastöð utan ákveðins opnunartíma til varnar því að einstaklingar sniðgangi landamæraeftirlit.
- Frekari athugun: Frekari skoðun landamæravarðar sem kann að vera framkvæmd á öðrum stað en þeim þar sem almenn skoðun og eftirlit fer fram.
- Landamæravörður: Lögreglumaður eða annar opinber starfsmaður sem á eða við landamærastöð eða landamæri framfylgir reglum um landamæraeftirlit eða landamæragæslu í samræmi við reglugerð þessa og lög um útlendinga.
- Flutningsaðili: Hver sá einstaklingur eða lögaðili sem stundar fólksflutninga í atvinnuskyni.
-
Dvalarleyfi:
- Öll dvalarleyfi sem gefin eru út af Schengen-ríkjunum á samræmdu formi.
- Öll önnur skjöl sem gefin eru út af Schengen-ríki til útlendinga, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, og heimila dvöl á eða endurkomu á yfirráðasvæði þess að undanskildum bráðabirgðaleyfum sem gefin eru út á meðan fyrsta umsókn um dvalarleyfi samkvæmt a-lið eða umsókn um hæli er til meðferðar.
- Skemmtiferðaskip: Skip sem fylgir ferðaáætlun í samræmi við fyrirfram ákveðna dagskrá og býður upp á ferðamannaviðburði í landi og farþegum er að jafnaði ekki heimilt að fara endanlega frá borði eða koma um borð á meðan ferðalaginu stendur.
- Frístundabátasigling: Notkun frístundabáta í íþróttum eða tómstundum eða í þágu ferðamanna.
- Strandveiðar: Fiskveiðar skipa sem snúa daglega eða innan 36 klukkustunda til hafnar á Schengen-svæðinu án viðkomu í höfn í ríki utan Schengen-svæðisins.
- Ógn við almannaheilsu: Hver sá sjúkdómur sem getur valdið farsótt eins og skilgreint er í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem og aðrir smitsjúkdómar og smitandi sjúkdómar af völdum sníkjudýra í samræmi við ákvæði laga um sóttvarnir.
II. KAFLI För yfir ytri landamæri og skilyrði fyrir komu.
4. gr. För yfir ytri landamæri.
Þegar farið er um ytri landamæri Schengen-svæðisins skal koma til landsins og brottför vera frá viðurkenndum landamærastöðvum og á afgreiðslutíma sem um getur í viðauka I við reglugerð þessa.
Heimila má undanþágu frá 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
- Vegna frístundabátasiglinga og strandveiða.
- Vegna sjómanna sem fara frá borði til dvalar í þeirri höfn þar sem skip þeirra koma til hafnar eða í nágrannasveitarfélagi.
- Vegna einstaklinga eða hópa manna þar sem sérstök ástæða krefst þess að því tilskildu að þeir séu handhafar tilskilinna leyfa samkvæmt íslenskum lögum og undanþágan stríði ekki gegn þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.
- Vegna einstaklinga eða hópa manna í tengslum við ófyrirsjáanleg neyðartilvik.
5. gr. Skilyrði fyrir komu útlendinga, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, til landsins.
Útlendingur, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgara, sem hyggst dvelja á Schengen-svæðinu, þ.m.t. Íslandi, í allt að 90 daga á 180 daga tímabili verður, auk þeirra skilyrða sem koma fram í 106. gr. útlendingalaga, að uppfylla eftirfarandi skilyrði fyrir komu:
- Framvísa gildum, lögmætum og ófölsuðum ferðaskilríkjum eða öðru kennivottorði sem heimilar honum för yfir landamæri, sbr. viðauka 3. Ferðaskilríki skal vera gefið út á sl. 10 árum til þess að það teljist gilt og skal gildistími ferðaskilríkis vera í a.m.k. þrjá mánuði umfram brottfarardag.
- Hafa gilda vegabréfsáritun sé hann ekki undanþeginn áritunarskyldu, nema hann hafi gilt dvalarleyfi eða gilda vegabréfsáritun til langs tíma, sbr. viðeigandi viðauka í reglugerð um vegabréfsáritanir.
- Má ekki vera skráður í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina honum komu til landsins.
- Má ekki vera talinn ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis.
Við mat á því hvort útlendingur skv. 1. mgr. teljist hafa nægileg fjárráð til dvalar hér á landi skal meðal annars tekið mið af lengd og tilgangi dvalar. Mat á fjárráðum má byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem hann er handhafi að.
Til sönnunar á að framangreindum skilyrðum fyrir komu sé fullnægt er landamæraverði m.a. heimilt að krefja útlending skv. 1. mgr. um eftirfarandi gögn:
-
Vegna viðskiptaferða:
- Boðsbréf frá fyrirtæki eða stjórnvaldi til að taka þátt í fundi, ráðstefnu eða viðburðum tengdum viðskiptum, iðnaði eða atvinnu.
- Aðgöngumiða að kaupstefnum eða ráðstefnum.
- Önnur skjöl sem staðfesta tilvist viðskipta- eða atvinnutengsla.
-
Vegna námsdvalar:
- Staðfesting á skólavist við námsstofnun ef tilgangur dvalar er að taka þátt í bóklegum eða verklegum námskeiðum vegna grunn- eða framhaldsþjálfunar.
- Nemendaskírteini eða vottorð um skráningu í nám.
-
Vegna ferðalaga af persónulegum ástæðum:
- Gögn sem sýna fram á tryggt húsnæði, t.d. boðsbréf frá gestgjafa eða önnur gögn sem sýna fram á hvar viðkomandi hyggst búa.
- Gögn sem staðfesta ferðaáætlun, staðfesting bókunar á skipulagðri ferð eða önnur gögn sem varpa ljósi á fyrirhugaða ferðaáætlun.
- Gögn varðandi heimferð, s.s. farmiði.
-
Vegna ferða af stjórnmálalegum, vísindalegum, menningarlegum, trúarlegum ástæðum eða í tengslum við íþróttatengda viðburði:
- Gögn sem sýna fram á viðburð, t.d. boðsbréf, aðgöngumiðar, staðfesting á skráningu eða dagskrá sem gefur til kynna nafn gestgjafa og lengd dvalar eða
- önnur viðeigandi gögn sem staðfesta tilgang dvalar.
Heimila má undanþágu frá 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
- Útlendingi, skv. 1. mgr., sem ekki uppfyllir skilyrði fyrir komu skv. 1. mgr. en er handhafi dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar fyrir ferð til baka sem Schengen-ríki hefur gefið út vegna gegnumferðar svo hann komist til yfirráðasvæðis þess ríkis sem gaf út dvalarleyfið eða vegabréfsáritunina, nema honum hafi áður verið vísað brott frá Íslandi og endurkomubann er enn í gildi.
- Útlendingi, skv. 1. mgr., sem uppfyllir öll skilyrði 1. mgr. nema b-liðar ef vegabréfsáritun er gefin út á landamærum.
- Útlendingi, skv. 1. mgr., sem ekki uppfyllir skilyrði fyrir komu til landsins má heimila landgöngu á grundvelli mannúðarástæðna, vegna almannahagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga. Ef sá sem í hlut á er skráður í Schengen-upplýsingakerfið ber að tilkynna hinum Schengen-ríkjunum um undanþáguna.
6. gr. Landamæraeftirlit.
För manna yfir ytri landamæri sætir eftirliti landamæravarða. Eftirlitið nær einnig til samgöngutækja og hluta sem eru í vörslu þeirra sem fara yfir landamæri.
7. gr. Lágmarkseftirlit.
Allir skulu sæta lágmarkseftirliti sem felur í sér kerfisbundna skoðun á ferðaskilríkjum sem gerir kleift að staðfesta hver viðkomandi er, hverrar þjóðar hann er, gildi ferðaskilríkja en gildi ferðaskilríkja skal m.a. kannað með samanburði í tilteknum gagnagrunnum með upplýsingum um stolin, týnd eða ógild ferðaskilríki, innlendum sem erlendum. Ennfremur ber að leita eftir ummerkjum um fölsun skilríkja. Þá ber að fletta öllum upp í Schengen-upplýsingakerfinu.
Nú eru ferðaskilríki búin gagnaörflögu og skal efnisinnihald hennar kannað til að staðreyna áreiðanleika ferðaskilríkis og að sá sem framvísar ferðaskilríkinu sé lögmætur handhafi þess.
Ef vafi leikur á áreiðanleika ferðaskilríkja eða hvort handhafi ferðaskilríkis sé lögmætur handhafi þess þá nægir að staðreyna eitt líffræðilegt kennimark sem fellt er inn í ferðaskilríkið til að staðfesta hvort viðkomandi sé lögmætur handhafi ferðaskilríkis eða skilríki sé áreiðanlegt.
8. gr. Ítarlegt eftirlit.
Við komu til og brottför frá landinu skal útlendingur, sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sæta ítarlegu eftirliti. Þar sem aðstaða er fyrir hendi og ef þess er óskað af honum skal ítarlegt eftirlit fara fram á öðrum stað en þar sem almennt eftirlit fer fram.
Ítarlegt eftirlit við komu skal fela í sér athugun á því hvort skilyrðum fyrir komu, skv. 5. gr., sé fullnægt og, þar sem það á við, hvort þau gögn sem framvísað er sýni fram á heimilaða dvöl og/eða atvinnu. Í þeim tilgangi skal ganga úr skugga um eftirfarandi:
- Að hann hafi gild, lögmæt og ófölsuð ferðaskilríki eða kennivottorð sem heimilar för yfir landamæri og að því fylgi tilskilin vegabréfsáritun eða dvalarleyfi þar sem það á við.
- Að ferðaskilríki eða kennivottorð beri ekki með sér ummerki fölsunar.
- Að honum sé flett upp í Schengen-upplýsingakerfinu (SIS), gagnagrunni Interpol um stolin og týnd ferðaskilríki og innlendum gagnagrunnum um stolin, týnd eða ógild ferðaskilríki.
- Ef ferðaskilríki inniheldur gagnaörflögu skal efnisinnihald hennar kannað.
- Að hann hafi ekki dvalið lengur á landinu eða á Schengen-svæðinu en honum er heimilt með því að skoða komu- og brottfararstimpla í ferðaskilríkjum hans.
- Hver sé brottfarartími og ákvörðunarstaður hans, tilgangur dvalar hans og ef nauðsyn ber til að leggja fyrir hann að sýna gögn því til staðfestingar.
- Að hann eigi nægilegt fé miðað við fyrirhugaðan tilgang og lengd dvalar, fyrir heimferð eða að viðkomandi sé í þannig aðstöðu að hann geti aflað sér þess með lögmætum hætti.
- Að hann, ferðamáti hans og þeir hlutir sem hann hefur með sér séu ekki líklegir til að stofna í hættu allsherjarreglu, þjóðaröryggi, almannaheilsu eða alþjóðlegum samskiptum Schengen‑ríkjanna. Slík skoðun skal fela í sér samanburð á upplýsingum og skráningum um einstaklinga og, þar sem nauðsyn ber til, hluti í Schengen-upplýsingakerfinu eða öðrum gagnagrunnum.
Ítarlegt eftirlit við brottför skal fela í sér eftirfarandi:
- Athugun á því hvort hann hafi gild ferðaskilríki eða kennivottorð sem heimila för yfir landamæri.
- Að ferðaskilríki eða kennivottorð beri ekki ummerki fölsunar.
- Þar sem mögulegt er, athugun á því að hann teljist ekki ógn við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðleg samskipti Schengen-ríkjanna.
Við brottför skal fara fram athugun á því hvort viðkomandi hafi gilda vegabréfsáritun ef hennar er krafist, athugun á hvort hann hafi dvalist lengur í landinu eða á Schengen-svæðinu en heimilt er og hvort viðkomandi sé skráður í Schengen-upplýsingakerfið eða aðra gagnagrunna. Ef ferðaskilríki inniheldur gagnaörflögu skal efni hennar kannað.
Við brottför skal einnig fara fram athugun á því hvort sá sem á í hlut sé ekki álitin ógn við allsherjarreglu, þjóðaröryggi, almannaheilsu eða alþjóðleg samskipti Schengen-ríkjanna m.a. með skoðun í Schengen-upplýsingakerfinu og öðrum gagnabönkum.
Þeir sem sæta frekari athugun skulu upplýstir um tilgang og aðferð við slíka athugun. Veita skal upplýsingar um nafn eða númer þess landamæravarðar sem framkvæmir athugunina sé þess óskað.
Heimilt er að fletta upp farþegum í gagngrunnum sem kveðið er á um í grein þessari fyrirfram á grundvelli farþegalista.
9. gr. Skráning upplýsinga við eftirlit.
Á hverri landamærastöð skulu allar þjónustuupplýsingar auk annarra mikilvægra upplýsinga skráðar. Eftirfarandi upplýsingar skulu meðal annars skráðar:
- Nöfn landamæravarða sem bera ábyrgð á landamæraeftirliti og annarra starfsmanna í hverju teymi.
- Tilvik þar sem slakað er á eftirliti í samræmi við 10. gr.
- Útgáfa á landamærum á ferðaskilríkjum sem koma í stað vegabréfs og vegabréfsáritunar.
- Einstaklingar sem eru handteknir.
- Kærur vegna refsi- og stjórnsýslubrota.
- Einstaklingar sem synjað er um komu í samræmi við ákvæði laga.
- Öryggiskóðar komu- og brottfararstimpla, auðkenni landamæravarða sem með stimplana fara auk upplýsinga um týnda og stolna stimpla.
- Kærur frá einstaklingum sem sæta eftirliti.
- Aðrar sérstakar mikilvægar lögreglu- og dómsaðgerðir.
- Önnur sérstök atvik.
10. gr. Tilslökun landamæraeftirlits.
Heimilt er að slaka tímabundið á eftirliti á ytri landamærum vegna óvenjulegra og ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Slíkar aðstæður teljast vera fyrir hendi þegar ófyrirsjáanleg atvik leiða til þess að umferð á landamærastöð verður svo mikil að biðtími verður óhóflega langur og allra úrræða hefur verið neytt hvað varðar starfsfólk, aðstæður og skipulag til að bæta úr.
Ákvörðun um tilslökun eftirlits skal tekin af yfirmanni á viðkomandi landamærastöð.
Við tilslökun eftirlits skv. 1. mgr. skal eftirlit við komu að jafnaði hafa forgang fram yfir eftirlit með brottför.
Þrátt fyrir tilslökun eftirlits skal landamæravörður stimpla ferðaskilríki útlendinga, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, við komu og brottför í samræmi við 12. gr.
11. gr. Hlið og upplýsingar á skiltum.
Á landamærastöðvum skal þess gætt að hafa aðskilin hlið til að unnt sé að framfylgja landamæraeftirliti í samræmi við 7. og 8. gr. Skulu slík hlið aðgreind með skiltum þar sem nauðsynlegar upplýsingar koma fram.
Verði tímabundið ójafnvægi á umferð á landamærastöð er heimilt að víkja frá notkun aðskilinna hliða svo lengi sem nauðsyn krefur.
12. gr. Stimplun ferðaskilríkja.
Ferðaskilríki útlendinga, annarra en EES- eða EFTA-borgara, skal stimpla við komu og brottför. Komu- og brottfararstimpill skal sérstaklega settur í:
- Ferðaskilríki sem bera gilda vegabréfsáritun sem heimila útlendingi skv. 1. mgr. för yfir ytri landamæri.
- Ferðaskilríki sem heimila útlendingi skv. 1. mgr. för yfir landamæri þegar vegabréfsáritun er gefin út á landamærum.
- Ferðaskilríki sem heimila útlendingi skv. 1. mgr. sem ekki er áritunarskyldur för yfir landamæri.
Ferðaskilríki útlendings skv. 1. mgr., sem er aðstandandi EES-borgara, skal stimpla við komu og brottför geti hann ekki framvísað dvalarleyfi. Sama gildir um ferðaskilríki útlendings skv. 1. mgr. sem er aðstandandi slíks útlendings.
Í eftirfarandi tilvikum skal ekki stimpla ferðaskilríki við komu og brottför:
- Ferðaskilríki þjóðhöfðingja þegar koma þeirra hefur verið tilkynnt opinberlega með fyrirvara eftir viðeigandi diplómatískum leiðum.
- Skírteini flugmanna eða annarra í áhöfn.
- Ferðaskilríki sjómanna sem eru aðeins á yfirráðasvæði Íslands á meðan skip þeirra kemur í höfn og dvelja innan hafnarsvæðisins.
- Skilríki sem heimila ríkisborgurum Andorra, Mónakó og San Marino för yfir landamæri.
Í undantekningartilvikum er heimilt að beiðni útlendings, skv. 1. mgr., að láta hjá líða að stimpla ferðaskilríki hans ef stimplunin myndi valda verulegum vandræðum fyrir viðkomandi. Í slíku tilviki skal skrá komu eða brottför á sérstakt blað með nafni og vegabréfsnúmeri viðkomandi sem honum er síðan afhent.
13. gr. Viðmiðun um lengd dvalar.
Við mat á því, hve útlendingur, sem hvorki er EES- eða EFTA-borgari, hefur dvalið lengi á Schengen‑svæðinu, skal miðað við þá dagsetningu er fram kemur á komustimpli í ferðaskilríkjum hans. Nú hafa ferðaskilríkin ekki að geyma komustimpil og skal þá miðað við að handhafi þeirra hafi ekki gætt skilyrða um lengd dvalar. Er þá heimilt að vísa honum brott í samræmi við ákvæði útlendingalaga og reglugerðar um útlendinga.
Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki ef útlendingur, sem hvorki er EES- eða EFTA-borgari, leggur fram gögn sem með trúverðugum hætti sýna fram á að hann hafi virt skilyrði um lengd dvalar. Skal þá skrá dagsetningu og stað í ferðaskilríki útlendings, þar sem farið var yfir ytri landamæri.
14. gr. Synjun um landgöngu.
Útlendingi, sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sem ekki uppfyllir skilyrði 5. gr. fyrir komu til landsins er heimilt að synja um landgöngu með frávísun í samræmi við ákvæði útlendingalaga.
Við ákvörðun um frávísun á grundvelli 1. mgr. skal nota þar til gert eyðublað.
Nú er útlendingi, skv. 1. mgr., synjað um landgöngu og skal þá flutningsaðilinn sem flutti hann að ytri landamærum ábyrgjast flutning hans aftur til þess ríkis utan Schengen-svæðisins sem hann kom frá, til þess ríkis utan Schengen-svæðisins sem gaf út ferðaskilríkin sem hann notaði á ferðalaginu eða til einhvers annars ríkis utan Schengen-svæðisins sem tryggir honum aðgang.
15. gr. Sérreglur fyrir ákveðna hópa fólks.
Um landamæraeftirlit með eftirfarandi einstaklingum fer samkvæmt viðauka II:
- Þjóðhöfðingjum og fylgdarliði þeirra.
- Flugliðum og öðrum í áhöfn loftfars.
- Handhöfum diplómatavegabréfa, opinberra vegabréfa og þjónustuvegabréfa og starfsmönnum alþjóðastofnana.
- Ólögráða einstaklingum.
16. gr. Heimild til afritunar ferðaskilríkja.
Landamæravörðum er heimilt að afrita ferðaskilríki og ferðagögn útlendinga, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, ef það telst nauðsynlegt til að tryggja varðveislu upplýsinga sem þau hafa að geyma um hverjir þeir eru og um ferðatilhögun þeirra og heimild til landgöngu.
III. KAFLI Sérreglur um komu og brottför skipa og loftfara.
17. gr. Almennt.
Með för skipa yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins er átt við alla umferð skipa til og frá landinu. Þetta gildir þó ekki um íslensk fiskiskip sem koma daglega eða innan 36 klst. til hafnar þar sem þau eru skráð og hafa hvorki haft viðkomu í erlendri höfn né lagst að skipi á hafi úti og áhöfn eða farþegar ekki komið eða farið þar frá borði.
Með för loftfara yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins er átt við alla flugumferð til og frá landinu inn á eða af yfirráðasvæði ríkis sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
18. gr. Sérreglur um komu og brottför skipa.
Stjórnandi skips á leið til landsins yfir ytri landamæri skal tilkynna Landhelgisgæslunni um komu a.m.k. 24 klst. áður en siglt er inn í íslenska landhelgi. Samtímis skal tilkynna áætlaða brottför. Staðfestingu á brottför úr höfn skal tilkynna Landhelgisgæslunni a.m.k. 6 klst. fyrir brottför.
Í tilkynningu skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um skip í þessari röð:
- nafn,
- einkennisstafir,
- radíókallmerki,
- þjóðerni,
- tegund,
- dagsetning,
- tími,
- staðsetning,
- síðasti viðkomustaður (staður og ríki),
- fyrsti áætlunarstaður á Íslandi,
- áætlaður komutími,
- aðrar viðkomuhafnir á Íslandi,
- brottfararhöfn á Íslandi,
- áætlaður brottfarartími,
- næsti ákvörðunarstaður (staður og ríki),
- umboðsmaður.
Með tilkynningu skal fylgja skrá yfir áhöfn og farþega skips. Í skránni skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um áhöfn og farþega í þessari röð:
- þjóðerni,
- kenninafn,
- eiginnafn,
- fæðingardagur,
- kyn,
- númer og tegund vegabréfs eða sjóferðabókar,
- númer vegabréfsáritunar,
- staða áhafnarmeðlims.
Senda má Landhelgisgæslunni skrá yfir áhöfn og farþega skips fyrir milligöngu skipafélags eða miðlara en skipstjóri ber ábyrgð á að skránni sé skilað. Allar fyrirhugaðar breytingar á skipan áhafnar og farþegalista ber tafarlaust að tilkynna Landhelgisgæslunni.
Landhelgisgæslan tekur við tilkynningum og skrám yfir áhafnir og farþega skv. 3. mgr. Landhelgisgæslan skal framsenda upplýsingarnar til ríkislögreglustjóra sem staðfestir móttöku þeirra.
Að lokinni athugun í Schengen-upplýsingakerfinu skal ríkislögreglustjóri senda niðurstöður hennar til hlutaðeigandi lögreglustjóra.
Þegar skemmtiferðaskip kemur til hafnar frá ríki sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu má landamæraeftirlit fara fram með skoðun á farþega- og áhafnarlista, skv. 3. mgr. Farþegar sem fara frá borði sæta hefðbundnu eftirliti skv. II. kafla nema greining á hættu gegn þjóðaröryggi og ólöglegri dvöl sýni að ekki er nauðsyn á slíku eftirliti. Tilhögun eftirlits skv. 1. ml. á einnig við þegar skemmtiferðaskip fer beint frá íslenskri höfn til ríkis sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu nema áhættugreining varðandi þjóðaröryggi og ólöglega dvöl sýni að nauðsyn sé á hefðbundnu eftirliti skv. II. kafla.
Ráðherra getur sett nánari verklagsreglur um samstarf Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra um landamæraeftirlit í höfnum.
19. gr. Frístundabátasiglingar.
Frístundabáti sem kemur frá ríki sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu er í undantekningartilvikum heimilt að koma að landi í höfn sem ekki telst viðurkennd landamærastöð, sbr. viðauka 2. Í slíku tilviki skal tilkynnt um komu bátsins til viðkomandi hafnaryfirvalda til að fá leyfi til að koma til hafnarinnar. Hafnaryfirvöld skulu tilkynna um komu bátsins til næstu hafnar sem telst viðurkennd landamærastöð. Tilkynna skal um farþega bátsins til hafnaryfirvalda sem afhendir lögreglu afrit tilkynningarinnar.
Stjórnandi frístundabáts skal afhenda upplýsingar um bátinn og farþega hans. Afrit listans skal afhent í komu- og brottfararhöfnum.
20. gr. Eftirlit með landgöngu og afskráningu útlendinga, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, úr áhöfn skips í íslenskri höfn.
Ef útlendingur, sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sem skráður er í áhöfn íslensks eða erlends skips vill fara úr skipsrúmi meðan skipið liggur í íslenskri höfn skal skipstjóri skipsins tilkynna það viðkomandi lögreglustjóra sem ákveður hvort veitt skuli heimild til afskráningar og honum heimiluð landganga.
Umboðsskrifstofa skips skal umsvifalaust tilkynna lögreglustjóra ef óskað er heimildar til afskráningar útlendings skv. 1. mgr. úr áhöfn í íslenskri höfn.
Skilyrði fyrir því að heimild til að afskrá útlending skv. 1. mgr. úr áhöfn verði veitt eru:
- Að hann hafi gilt vegabréf, sjóferðabók eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki.
- Sé hann áritunarskyldur þá hafi hann gilda vegabréfsáritun eða sérstakt samþykki Útlendingastofnunar.
- Ekki liggi fyrir ástæða til frávísunar skv. d-, i- eða j-lið 1. mgr. 106. gr. útlendingalaga.
Útlendingur skv. 1. mgr. sem ætlar til áfangastaðar utan Íslands þarf að auki að hafa vegabréfsáritun eða sérstakt leyfi til að ferðast um þau ríki sem hann hyggst fara um til að komast á áfangastað og eftir atvikum leyfi til að ferðast til þess ríkis sem er áfangastaður hans.
Þótt skilyrði 2. mgr. séu ekki uppfyllt getur lögreglustjóri veitt útlendingi skv. 1. mgr. heimild til landgöngu, framvísi hann sjóferðabók eða vegabréfi, í eftirtöldum tilvikum:
- ef fyrir liggur að hann verði skráður í áhöfn skips sem þegar liggur í höfn eða er að koma til hafnar á Schengen-svæðinu,
- þegar leyfis til landgöngu er þörf af óviðráðanlegum ytri ástæðum.
Miða skal við að dvölin verði ekki lengri en sem nemur þeim tíma sem eðlilegur má teljast ef bíða þarf eftir hentugri ferð frá landinu. Ef útlendingurinn skv. 1. mgr. hyggst dveljast lengur hér á landi skal leita heimildar Útlendingastofnunar.
Þegar útlendingur skv. 1. mgr. hefur fengið heimild til afskráningar úr áhöfn skal frá því greint í vegabréfi hans eða sjóferðabók eða tilgreint í sérstöku skjali að landganga sé heimil að því tilskildu að hann fari af landi brott innan tiltekins tíma eða með tilteknu skipi eða loftfari.
Stjórnanda skips er skylt að taka aftur um borð útlendinga skv. 1. mgr. úr áhöfn sem neitað hefur verið um heimild til afskráningar úr áhöfn eða heimild til landgöngu eða á annan hátt að koma viðkomandi úr landi samkvæmt nánari ákvörðun lögreglu.
Þegar þess er talin þörf skal lögreglan krefjast tryggingar af hálfu eigenda skipsins, leigjanda, skipstjórnanda eða umboðsmanni þess vegna þeirra útgjalda sem viðkomandi ber ábyrgð á skv. 4. mgr., sbr. 3. mgr. 107. gr. útlendingalaga, þegar útlendur sjómaður skv. 1. mgr. yfirgefur skipsrúm án heimildar lögreglu. Einnig er hægt að setja sem skilyrði fyrir því að slík heimild verði veitt að trygging verði lögð fram.
Ekki skal krefjast tryggingar vegna norræns ríkisborgara nema til þess liggi sérstakar ástæður.
Ráðuneytið getur ákveðið að fallið skuli frá kröfu um tryggingu og látið hjá líða að kalla menn til ábyrgðar ef það telst sanngjarnt.
21. gr. Laumufarþegar.
Tafarlaust ber að tilkynna lögreglu um laumufarþega í skipi og áður en komið er til hafnar ef unnt er.
Ákvæði 20. gr. gilda eftir því sem við á um útlenda laumufarþega á íslensku eða erlendu skipi sem óskar eftir að fara í land eða fer í land í íslenskri höfn.
22. gr. Eftirlit með erlendum skipverjum.
Útlendingur, sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, í áhöfn skips, íslensks eða erlends, sem kemur til íslenskrar hafnar, má án sérstaks leyfis dvelja á komustaðnum meðan skip er þar, þó eigi lengur en þrjá mánuði.
Ef útlendingur skv. 1. mgr. úr áhöfn skips hyggst ferðast til annars staðar á landinu eða til annars Schengen-ríkis meðan skipið liggur í íslenskri höfn verður hann að uppfylla skilyrði fyrir komu skv. 5. gr. Sama gildir ef samanlagður tími sem skipið liggur í íslenskri höfn og annarri höfn á Schengen-svæðinu fer yfir þrjá mánuði. Við þær aðstæður er krafist dvalarleyfis skv. lögum um útlendinga og reglugerð um útlendinga til að dveljast áfram hér á landi.
Lögreglustjóri getur bannað áhöfn eða einstökum meðlimum áhafnar að yfirgefa skip ef það er nauðsynlegt vegna almannareglu eða öryggissjónarmiða eða af öðrum sérstökum ástæðum.
Lögreglan getur eftir þörfum tekið upp eftirlit með kennivottorðum allra útlendra manna í áhöfn skips eða gert úrtakskönnun.
Í sérstökum tilvikum má landamæraeftirlit fara fram áður en skip kemur til hafnar.
23. gr. Sérreglur um komu og brottför loftfara.
Stjórnandi loftfars sem kemur frá útlöndum eða fer til útlanda skal samkvæmt beiðni lögreglu láta henni í té skrá yfir farþega og áhöfn. Lögreglan getur í samráði við önnur yfirvöld ákveðið að stjórnandi loftfars afhendi þeim yfirvöldum skrána.
Lögreglan getur ennfremur í sérstökum tilvikum krafist þess að skráin verði send fyrir komu loftfarsins samkvæmt nánari ákvörðun ríkislögreglustjóra.
Ríkislögreglustjóri setur nánari reglur um innihald skráar skv. 1. mgr.
24. gr. Landamæraeftirlit með einkaflugi.
Í flugi til og frá ríki sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu skal stjórnandi einkaloftfars senda, fyrir flugtak, til lögreglu á áætlunarstað, og eftir atvikum því ríki á Schengen-svæðinu sem hann hefur fyrst viðkomu í, tilkynningu með upplýsingum um m.a. flugáætlun og nöfn farþega.
Þegar einkaloftfar í flugi frá ríki sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu millilendir hér á landi á leið sinni til annars ríkis innan Schengen-svæðisins skal landamæraeftirlit fara fram hér á landi og jafnframt skal landamæravörður stimpla tilkynningu skv. 1. mgr. með komustimpli.
25. gr. Eftirlit með útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, í áhöfn loftfars sem hingað kemur.
Ákvæði þessa kafla gilda einnig um stjórnendur og áhafnir loftfara eftir því sem við á.
26. gr. Eftirlit flutningsaðila með ferðaskilríkjum.
Stjórnendur skipa og loftfara skulu ganga úr skugga um að farþegar þeirra hafi gild ferðaskilríki. Áður en farþegi stígur um borð skal kanna hvort hann hafi vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki og hvort þeir farþegar sem eru áritunarskyldir hafi gilda vegabréfsáritun til landsins.
Skylda skv. 1. mgr. á ekki við um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins en gengið skal þó úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera.
Skipstjórar og flugstjórar skulu við komu til íslenskrar hafnar eða flugvallar frá ríki sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu sjá um að farþegar yfirgefi ekki skip eða loftfar fyrr en landamæraeftirlit getur farið fram.
IV. KAFLI För yfir innri landamæri.
27. gr. För yfir innri landamæri.
Heimilt er að fara yfir innri landamæri Schengen-svæðisins án þess að landamæraeftirlit fari fram, án tillits til ríkisfangs einstaklings.
28. gr. Eftirlit innan Schengen-svæðisins.
Afnám landamæraeftirlits á innri landamærum Schengen-svæðisins hefur ekki áhrif á eftirfarandi:
- Framkvæmd lögregluvalds, annars en landamæraeftirlits.
- Öryggiseftirlit og flugverndareftirlit.
- Skyldu til að bera skilríki.
- Tilkynningarskyldu útlendings, sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, skv. lögum um útlendinga og reglugerðum með stoð í þeim.
29. gr. Tímabundið eftirlit á innri landamærum.
Ráðherra er heimilt að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum, sem síðasta úrræði, vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu eða þjóðaröryggi í samræmi við ákvæði 30. og 31. gr. Umfang og tímalengd eftirlits á innri landamærum skal ekki vera meira en nauðsynlegt er til að bregðast við ógninni.
Ákvörðun um tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum skal tekin á grundvelli áhættumats frá ríkislögreglustjóra. Meðal þess sem meta þarf er:
- að hvaða marki tímabundin upptaka eftirlits á innri landamærum kemur til með að treysta allsherjarreglu og þjóðaröryggi,
- mat á ógn og áhrifum á allsherjarreglu og þjóðaröryggi,
- mat á áhrifum aðgerða á frjálsa för fólks á Schengen-svæðinu.
Ákvörðun skal tekin í samráði við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Samráðið skal eiga sér stað eigi síðar en 10 dögum fyrir fyrirhugaða upptöku eftirlits á innri landamærum.
Tímabundið eftirlit á innri landamærum vegna fyrirsjáanlegra atburða í samræmi við 30. gr. má vara í allt að 30 daga. Heimilt er að framlengja eftirlit á innri landamærum um allt að 30 daga í senn ef upphaflegar ástæður eftirlits eru enn til staðar. Þó má hið tímabundna eftirlit aldrei vara lengur en 6 mánuði. Heimilt er að taka tillit til nýrra atriða við mat á því hvort ástæða sé til framlengingar.
Tímabundið eftirlit á innri landamærum vegna ófyrirsjáanlegra atburða í samræmi við 31. gr. má vara í allt að 10 daga. Heimilt er að framlengja eftirlit á innri landamærum um allt að 20 daga á grundvelli uppfærðs áhættumats. Þó má hið tímabundna eftirlit aldrei vara lengur en 2 mánuði. Heimilt er að taka tillit til nýrra atriða við mat á því hvort ástæða sé til framlengingar.
Tímabundin landamæravarsla á innri landamærum skal fara fram í samræmi við ákvæði II. kafla reglugerðar þessarar.
Senda skal framkvæmdastjórn og ráðherraráði Evrópusambandsins skýrslu um aðgerðina að henni lokinni. Í skýrslunni skal m.a. heimila ráðherraráðinu að upplýsa Evrópuþingið um aðgerðina.
30. gr. Málsmeðferð vegna fyrirsjáanlegra atburða.
Þegar fyrirhugað er að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins skal tilkynna það öðrum Schengen-ríkjum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eigi síðar en fjórum vikum fyrir upphaf fyrirhugaðra aðgerða. Ef atburður er ekki fyrirsjáanlegur fjórar vikur fram í tímann skal senda tilkynninguna við fyrsta tækifæri. Í tilkynningunni skulu koma fram upplýsingar um ástæður tímabundins eftirlits, þ. á m. upplýsingar um þá ógn sem stafar af fyrirsjáanlega atburðinum fyrir allsherjarreglu eða þjóðaröryggi, umfang og fyrirhugaða tímalengd eftirlitsins, nöfn landamærastöðva og aðgerðir sem nauðsynlegt er að önnur Schengen-ríki grípi til. Sama á við um framlengingu á eftirliti skv. 4. mgr. 29. gr.
Upplýsa ber almenning um upptöku tímabundins eftirlits á landamærum nema öryggisástæður mæli gegn því.
31. gr. Málsmeðferð í aðkallandi tilvikum.
Í undantekningartilvikum er heimilt að taka tafarlaust upp tímabundið eftirlit á innri landamærum þegar viðsjár vegna allsherjarreglu eða þjóðaröryggis krefjast skjótra aðgerða. Tilkynna skal öðrum Schengen-ríkjum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins án tafar um eftirlitið ásamt þeim upplýsingum sem fram koma í tilkynningu skv. 1. mgr. 30. gr.
32. gr. Skýrsla um aðgerð.
Innan fjögurra vikna frá lokum aðgerða um tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum í samræmi við 30. og 31. gr. skal senda Evrópuþinginu, ráði Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skýrslu um aðgerðina. Í skýrslunni skal m.a. gerð grein fyrir upphaflegu áhættumati, faglegu samstarfi við nágrannaríki, endanlegum áhrifum aðgerða á frjálsa för fólks og mati á áhrifum aðgerða með tilliti til meðalhófs.
33. gr. Heimild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ráði Evrópusambandsins er heimilt, við sérstakar aðstæður sem ógna Schengen-svæðinu öllu og sem síðasta úrræði, að fenginni tillögu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að gefa út tilmæli um að tímabundið verði tekið upp eftirlit á innri landamærum Schengen-ríkis í allt að 6 mánuði. Heimilt er að framlengja eftirlit á innri landamærum um allt að 6 mánuði í senn ef upphaflegar ástæður eftirlits eru enn til staðar. Þó má hið tímabundna eftirlit aldrei vara lengur en 12 mánuði. Framkvæmdastjórninni er heimilt að gera tillögu um tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum umrædds Schengen-ríkis í kjölfar úttekta sem leitt hafa í ljós alvarlega veikleika á landamæravörslu ríkisins, sem ríkið hefur ekki bætt úr þrátt fyrir ábendingar þar um og eru þannig viðvarandi, alvarlegar og ógna almannareglu og öryggi svæðisins í heild.
V. KAFLI Refsiákvæði, gildistaka o.fl.
34. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt 116. gr. útlendingalaga, nr. 80/2016.
35. gr. Innleiðing.
Með reglugerð þessari eru innleidd ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen Borders Code), sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/458 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/399.
36. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í ákvæðum laga nr. 80/2016 um útlendinga, með síðari breytingum, og öðlast hún þegar gildi.
Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um för yfir landamæri nr. 1212/2007, með síðari breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Útlendingum, sem eru hvorki EES/EFTA-borgarar né ríkisborgarar Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins, er óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir fullnægi skilyrðum sem fram koma í 5. gr. reglugerðarinnar og 106. gr. laga um útlendinga.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu og aðstandendur þeirra, líkt og þeir eru skilgreindir í lögum um útlendinga.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um aðstandendur íslenskra ríkisborgara, EES/EFTA-borgara eða ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins, líkt og þeir eru skilgreindir í lögum um útlendinga.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem eru í nánu parsambandi, sem staðið hefur um lengri tíma, með einstaklingi sem er löglega búsettur hér á landi.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem hafa sannanlega búsetu í einu af þeim ríkjum sem upp eru talin í viðauka 4 við reglugerð þessa og eru að koma til landsins frá viðkomandi ríki.
Ákvæði 1. mgr. á ekki heldur við um útlendinga sem koma til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ. á m. eftirtalda aðila:
- Farþega í tengiflugi.
- Starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu.
- Starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu.
- Einstaklinga sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd.
- Einstaklinga sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni.
-
DiplómataEinstaklinga og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðra fulltrúa erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklinga í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, meðlimi herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila. - Námsmenn.
- Einstaklinga sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem
teljast efnahagslega mikilvæg og störf þeirraeru þess eðlis að þaugetaer ekkiveriðhægtframkvæmdað framkvæma síðar eða erlendis.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.