Prentað þann 6. jan. 2025
995/2020
Reglugerð um breytingu á reglugerð um för yfir landamæri, nr. 866/2017.
1. gr.
Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Útlendingum, sem eru hvorki EES/EFTA-borgarar né ríkisborgarar Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins, er óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir fullnægi skilyrðum sem fram koma í 5. gr. reglugerðarinnar og 106. gr. laga um útlendinga.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu og aðstandendur þeirra.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um aðstandendur íslenskra ríkisborgara, EES/EFTA-borgara eða ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem eru í nánu parsambandi, sem staðið hefur um lengri tíma, með einstaklingi sem er löglega búsettur hér á landi.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem hafa sannanlega búsetu í einu af þeim ríkjum sem upp eru talin í viðauka 4 við reglugerð þessa og eru að koma til landsins frá viðkomandi ríki.
Ákvæði 1. mgr. á ekki heldur við um útlendinga sem koma til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ. á m. eftirtalda aðila:
- Farþega í tengiflugi.
- Starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu.
- Starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu.
- Einstaklinga sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd.
- Einstaklinga sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni.
- Einstaklinga og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðra fulltrúa erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklinga í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, meðlimi herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila.
- Námsmenn.
- Einstaklinga sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis.
2. gr.
Í stað viðauka 4 kemur nýr viðauki 4 sem birtur er með reglugerð þessari.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 781/2020.
Dómsmálaráðuneytinu, 12. október 2020.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Haukur Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.