Fara beint í efnið

Prentað þann 29. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 4. apríl 2020 – 9. apríl 2021 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 4. apríl 2020 af rg.nr. 307/2020

858/2014

Reglugerð um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Með þessari reglugerð er stefnt að því að skipuleggja afkastagetu flugvalla, þar sem innviðir mæta ekki eftirspurn á grundvelli sameiginlegra reglna sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Með þessum hætti er jafnframt stuðlað að aukinni umhverfisvernd og samkeppni á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Reglugerðin gildir um úthlutun afgreiðslutíma á flugvelli sem skilgreindur hefur verið sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma eða með afgreiðslutíma eftir samráði.

2. gr. Tilnefning og eftirlit.

Samgöngustofa telst lögbært stjórnvald samkvæmt reglugerð þessari og fer með hlutverk aðildarríkis í framkvæmd og eftirliti skv. þeim reglugerðum sem innleiddar eru skv. 5. gr. reglugerðar þessarar.

3. gr. Kostnaður.

Samgöngustofu er heimilt að innheimta gjald af rekstraraðila flugvallar sem er tilnefndur sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma á grundvelli reglugerðar þessarar. Skal gjaldið miðast við raunkostnað sem hlýst af framkvæmd reglugerðar þessarar.

4. gr. Samræmingarstjóri.

Samræmingarstjóri skal rækja störf sín á sjálfstæðan, hlutlausan og skýran hátt og án mismununar. Samræmingarstjóri ber einn ábyrgð á úthlutun afgreiðslutíma og skal ekki taka við fyrirmælum varðandi úthlutun þeirra í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og innleiddra EES-gerða.

Samræmingarstjóri verður ekki gerður bótaskyldur vegna þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og tengjast störfum hans samkvæmt þessari reglugerð og innleiddum EES-gerðum nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða stórfellt gáleysi eða misferli af hans hálfu.

5. gr. Innleiðing gerða.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerðir ráðsins og Evrópuþingsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/94; eins og hún birtist í sérútgáfu við EES-samninginn nr. 2, hluta 10A, bls. 361 og í EES-viðbæti nr. 17, 1994, bls. 1.
  2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 793/2004 frá 21. apríl 2004 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2004, eins og hún birtist í EES-viðbæti nr. 31, 2007, bls. 119 og nr. 20, 2005, bls. 21.
  3.  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/459 frá 30. mars 2020 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, samanber ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 48/2020, frá 3. apríl 2020.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 57. gr. c, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1050/2008, með áorðnum breytingum, um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla.

Ákvæði til bráðabirgða.

Tilnefning samræmingarstjóra í samræmi við reglugerð nr. 1050/2008 skal teljast gild tilnefning samkvæmt reglugerð þessari.

Samgöngustofu er heimilt að yfirtaka réttindi og skyldur samkvæmt núgildandi samningi við samræmingarstjóra.

 Innanríkisráðuneytinu, 30. september 2014. 

 Hanna Birna Kristjánsdóttir 

 Ragnhildur Hjaltadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.