Prentað þann 23. nóv. 2024
307/2020
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 858/2014 um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla.
1. gr.
Við 5. gr. reglugerðarinnar bætist eftirfarandi töluliður:
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/459 frá 30. mars 2020 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, samanber ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 48/2020, frá 3. apríl 2020.
2. gr.
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/459, sem nefnd er í 1. gr., er birt sem fylgiskjal við reglugerð þessa.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 57. gr. c, sbr. 145. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 3. apríl 2020.
F. h. r.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Ólafur Kr. Hjörleifsson.
REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) 2020/459 frá 30. mars 2020 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á Bandalagsflugvöllum
EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 2. mgr. 100. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin, að höfðu samráði við efnahags- og félagsmálanefndina, að höfðu samráði við svæðanefndina, í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð (1), og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Í kjölfar útbreiðslu COVID-19 faraldursins hefur orðið verulegur samdráttur í flugumferð vegna þess að eftirspurn hefur minnkað til muna og sökum beinna ráðstafana sem aðildarríkin og þriðju lönd hafa gripið til í þeim tilgangi að halda faraldrinum í skefjum. Strax í janúar 2020 fóru flugrekendur að finna fyrir þessum alvarlegu áhrifum, með tilliti til Alþýðulýðveldisins Kína og Hong Kong, sérstjórnarsvæðis Alþýðulýðveldisins Kína, og hafa þessar aðstæður verið allsráðandi frá 1. mars 2020 og er líklegt að þær hafi áhrif á a.m.k. tvö áætlunartímabil, veturinn 2019/2020 og sumarið 2020.
2) Þessar aðstæður eru flugrekendum ofviða og flugþjónusta, sem þeir þurfa að aflýsa að eigin frumkvæði eða sem þeim er gert að aflýsa, er nauðsynlegt eða lögmætt svar við þessum aðstæðum. Flug sem flugrekendur þurfa að aflýsa að eigin frumkvæði verndar einkum fjárhagslegt heilbrigði þeirra og kemur í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif af völdum flugs þar sem um er að ræða loftför sem fljúga með fáa eða enga farþega sem eingöngu er flogið til að viðhalda afgreiðslutímum á flugvöllum.
3) Tölur sem hafa verið birtar hjá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, sem er netstjórnandi fyrir netstarfsemi flugumferðar innan samevrópska loftrýmisins, sýna u.þ.b. 10% samdrátt í flugumferð innan Evrópusvæðisins fyrir fyrri hluta marsmánaðar 2020, mælt á ársgrundvelli. Flugrekendur tilkynna sem stendur um mikinn samdrátt í bókun ferða fram í tímann og hafa þegar aflýst fjölda flugferða innan áætlunartímabilanna fyrir veturinn 2019/2020 og sumarið 2020 sem afleiðing af faraldrinum.
4) Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 95/93 (2), með hliðsjón af 2. mgr. 10. gr. hennar, gæti flugrekandi, sem nær ekki að nýta a.m.k. 80% af röð afgreiðslutíma sem honum hefur verið úthlutað á flugvelli með skammtaðan afgreiðslutíma, misst hefðbundinn rétt sinn á þeim afgreiðslutímum.
5) Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. reglugerðar (EBE) nr. 95/93 er samræmingarstjórum afgreiðslutíma heimilt, við útreikning hefðbundins réttar, að líta framhjá ónýttum afgreiðslutímum á flugvöllum á þeim tímum þegar flugrekandinn getur ekki starfrækt áætlað flug sökum t.d. lokun flugvalla. Hins vegar er í þessari grein ekki fjallað um aðstæður eins og útbreiðslu COVID-19 faraldursins. Því er rétt að breyta reglugerð (EBE) nr. 95/93 til samræmis við það.
6) Í ljósi fjölda þeirra bókana fram í tímann sem vitað er um og faraldsfræðilegra spáa má á þessu stigi fastlega gera ráð fyrir að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til 24. október 2020 hið minnsta verði fjölda ferða aflýst sem rekja má til útbreiðslu COVID19 faraldursins. Þó svo að flugrekendur nýti ekki þá afgreiðslutíma sem þeim hefur verið úthlutað á þessu tímabili ætti það ekki að hafa í för með sér að þeir missi hefðbundinn rétt sinn sem þeir myndu annars njóta. Því er nauðsynlegt að skilgreina við hvaða skilyrði ætti að líta á ónýtta afgreiðslutíma sem nýtta afgreiðslutíma í þessum tilgangi, með tilliti til samsvarandi síðari tímabil.
7) Afgreiðslutímar á flugvöllum með skammtaðan afgreiðslutíma eru verðmætar efnahagslegar auðlindir. Þrátt fyrir almennan samdrátt í flugumferð ætti aflýsing flugþjónustu þó ekki að koma í veg fyrir að aðrir flugrekendur nýti afgreiðslutíma á flugvelli og gætu þeir óskað eftir því að nýta þá tímabundið án þess að slíkt veiti þeim hefðbundinn rétt á slíkum afgreiðslutímum. Ef flugrekandinn, sem fékk afgreiðslutímana úthlutaða, nýtir þá ekki ætti þar af leiðandi að skila þeim án tafar til samræmingaraðilans.
8) Erfitt er að spá fyrir um frekari þróun COVID-19 faraldursins og áhrif hans á flugrekendur. Framkvæmdastjórnin ætti að greina að staðaldri áhrifin af völdum COVID-19 faraldursins á fluggeirann og Sambandið ætti að vera í aðstöðu til að framlengja, án ástæðulausrar tafar, gildistíma ráðstafananna, sem fyrirhugaðar eru samkvæmt þessari reglugerð, ef þessar erfiðu aðstæður verða viðvarandi.
9) Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að líta svo á að afgreiðslutímar, sem ekki eru nýttir vegna útbreiðslu COVID-19 faraldursins, sem nýtta afgreiðslutíma, og þeim verður betur náð á vettvangi Sambandsins vegna umfangs og áhrifa fyrirhugaðrar aðgerðar er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessu markmiði.
10) Í því skyni að framlengja, ef nauðsyn krefur og það telst réttlætanlegt, þær ráðstafanir sem settar eru fram í þessari reglugerð ætti að fela framkvæmdastjórninni vald til að samþykkja gerðir, í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, í því skyni að framlengja gildistíma ráðstafananna sem fyrirhugaðar eru samkvæmt þessari reglugerð. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga, og að þetta samráð fari fram í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningi milli stofnana um betri lagasetningu frá 13. apríl 2016 (3). Til að tryggja jafna þátttöku við undirbúning framseldra gerða fá Evrópuþingið og ráðið í hendur öll skjöl á sama tíma og sérfræðingar aðildarríkjanna og hafa sérfræðingar þeirra kerfisbundinn aðgang að fundum sérfræðingahópa framkvæmdastjórnarinnar sem hafa umsjón með undirbúningi framseldra gerða.
11) Í ljósi hinna brýnu, sérstöku aðstæðna, sem hafa skapast af völdum útbreiðslu COVID-19 faraldursins, var talið viðeigandi að veita undanþágu frá átta vikna frestinum, sem um getur í 4. gr. bókunar 1 um hlutverk þjóðþinga í Evrópusambandinu sem fylgir sáttmálanum um Evrópusambandið, sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu.
12) Þessi reglugerð ætti að öðlast gildi sem fyrst eða daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Reglugerð (EBE) nr. 95/93 er breytt sem hér segir:
1) Í stað 10. gr. a kemur eftirfarandi:
„10. gr. a
1. Að því er varðar 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. skulu samræmingaraðilar líta svo á að afgreiðslutímar, sem úthlutað er fyrir tímabilið frá 1. mars 2020 til 24. október 2020, hafi verið notaðir af flugrekandanum sem fékk þá upprunalega úthlutaða.
2. Að því er varðar 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. skulu samræmingaraðilar líta svo á að afgreiðslutímar, sem úthlutað er fyrir tímabilið frá 23. janúar 2020 til 29. febrúar 2020, hafi verið notaðir af flugrekandanum sem fékk þá upprunalega úthlutaða, að því er varðar flugþjónustu á milli flugvalla í Sambandinu og flugvalla annaðhvort í Alþýðulýðveldinu Kína eða í Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðulýðveldisins Kína.
3. Að því er varðar afgreiðslutíma, sem eru dagsettir síðar en 8. apríl 2020, skal 1. mgr. einungis gilda ef viðeigandi ónýttir afgreiðslutímar hafa verið gerðir aðgengilegir samræmingaraðilanum svo hægt sé að endurúthluta þeim til annarra flugrekenda.
4. Ef framkvæmdastjórnin telur, á grundvelli talna frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, sem er netstjórnandi fyrir netstarfsemi flugumferðar innan samevrópska loftrýmisins, að samdrátturinn í flugumferð sé viðvarandi í samanburði við samsvarandi tímabil á næstliðnu ári og að líklegt sé að svo verði áfram og ef hún telur einnig, á grundvelli bestu, fyrirliggjandi vísindagagna, að þetta ástand sé vegna áhrifa af völdum útbreiðslu COVID-19 faraldursins skal hún samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 12. gr. a, til að breyta tímabilinu, sem tilgreint er í 1. mgr., til samræmis við það.
5. Framkvæmdastjórnin skal vakta að staðaldri ástandið með því að nota viðmiðanirnar sem settar eru fram í 4. mgr. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem framkvæmdastjórnin hefur aðgang að skal hún, eigi síðar en 15. september 2020, leggja yfirlitsskýrslu um málið fyrir Evrópuþingið og ráðið. Ef nauðsyn krefur skal framkvæmdastjórnin, eins fljótt og auðið er, samþykkja framseldu gerðina sem kveðið er á um í 4. mgr.
6. Ef brýna nauðsyn ber til, að því er varðar langtímaáhrif af völdum útbreiðslu COVID-19 faraldursins á fluggeirann í Sambandinu, skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 12. gr. b, gilda um framseldar gerðir sem eru samþykktar samkvæmt þessari grein.“
2) Eftirfarandi greinar bætast við:
„12. gr. a
Beiting framsals
1. Framkvæmdastjórninni er falið vald til að samþykkja framseldar gerðir að uppfylltum þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í þessari grein.
2. Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldu gerðirnar, sem um getur í 10. gr. a, til 2. apríl 2021.
3. Evrópuþinginu eða ráðinu er hvenær sem er heimilt að afturkalla valdaframsalið sem um getur í 10. gr. a. Með ákvörðun um afturköllun skal binda enda á valdaframsalið sem um getur í þeirri ákvörðun. Ákvörðunin öðlast gildi daginn eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða síðar, eftir því sem tilgreint er í henni. Hún skal ekki hafa áhrif á gildi neinna framseldra gerða sem þegar eru í gildi.
4. Áður en framseld gerð er samþykkt skal framkvæmdastjórnin hafa samráð við sérfræðinga sem hvert aðildarríki hefur tilnefnt í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningi milli stofnana um betri lagasetningu frá 13. apríl 2016.
5. Um leið og framkvæmdastjórnin samþykkir framselda gerð skal hún samtímis tilkynna það Evrópuþinginu og ráðinu.
6. Framseld gerð, sem er samþykkt skv. 10. gr. a, skal því aðeins öðlast gildi að Evrópuþingið eða ráðið hafi ekki haft uppi nein andmæli innan tveggja mánaða frá tilkynningu um gerðina til Evrópuþingsins og ráðsins eða ef bæði Evrópuþingið og ráðið hafa upplýst framkvæmdastjórnina, áður en fresturinn er liðinn, um þá fyrirætlan sína að hreyfa ekki andmælum. Þessi frestur skal framlengdur um tvo mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.
12. gr. b
Flýtimeðferð
1. Framseldar gerðir, sem samþykktar eru samkvæmt þessari grein, skulu öðlast gildi án tafar og gilda svo lengi sem engin andmæli eru lögð fram í samræmi við 2. mgr. Í tilkynningu til Evrópuþingsins og ráðsins um framselda gerð skal taka fram ástæður þess að flýtimeðferðinni er beitt.
2. Evrópuþingið eða ráðið getur andmælt framseldri gerð í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 6. mgr. 12. gr. a. Í slíku tilviki skal framkvæmdastjórnin fella gerðina tafarlaust úr gildi í kjölfar tilkynningar um ákvörðun Evrópuþingsins eða ráðsins um andmæli.“
2. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 30. mars 2020.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, / Fyrir hönd ráðsins,
D. M. SASSOLI, / G. GRLIĆ RADMAN
forseti. / forseti.
_____________________________________________________
(1) Afstaða Evrópuþingsins frá 26. mars 2020 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 30. mars 2020.
(2) Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á Bandalagsflugvöllum (Stjtíð. EB L 14,
22.1.1993, bls. 1).
(3) Stjtíð. ESB L 123, 12.5.2016, bls. 1.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.