Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 26. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 2023
Sýnir breytingar gerðar 26. feb. 2016 – 1. jan. 2023 af rg.nr. 172/2016 og 188/2022

840/2015

Reglugerð um leigu skráningarskyldra ökutækja.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um leigu, að jafnaði til skemmri tíma, á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns. Reglugerðin tekur þó ekki til starfsemi lánafyrirtækja skv. 3. tölul. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem stunda eignaleigu að meginstarfsemi eða til leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila. Reglugerðin gildir einnig um einkaleigur skv. 9. gr. laga nr. 65/2015 um leigu skráningarskyldra ökutækja.

2. gr. Umsókn um starfsleyfi.

Sækja skal um starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu til Samgöngustofu á sérstökum eyðublöðum eða með rafrænum hætti. Umsókn skal skilað að minnsta kosti mánuði áður en fyrirhuguð starfsemi á að hefjast.

Umsækjendur geta verið hvort sem er einstaklingar eða lögaðilar. Í umsókn skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn, kennitala og heimilisfang umsækjanda.
  2. Nafn og kennitala forsvarsmanns ef umsækjandi er lögaðili.
  3. Öll hjáheiti ökutækjaleigu.
  4. Aðsetur fastrar starfsstöðvar.
  5. Upplýsingar um fjölda og staðsetningu útibúa.

Jafnframt skulu eftirfarandi gögn fylgja umsókn eða þeirra aflað rafrænt eftir því sem við verður komið:

  1. Sakavottorð umsækjanda eða forsvarsmanns ef umsækjandi er lögaðili ásamt sakavottorðum stjórnarmanna ef um félag er að ræða.
  2. Staðfesting á starfsábyrgðartryggingu skv. 8. tölul. 4. gr. laga nr. 65/2015.
  3. Búsetuvottorð umsækjanda eða forsvarsmanns ef umsækjandi er lögaðili.
  4. Staðfesting á búsforræði umsækjanda eða forsvarsmanns ef umsækjandi er lögaðili.
  5. Staðfesting skattstjóra á virðisaukaskattsnúmeri.
  6. Vottorð frá lífeyrissjóði um skuldastöðu fyrirtækis eða forsvarsmanns.
  7. Vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu fyrirtækis eða forsvarsmanns.
  8. Listi yfir bifreiðar eða önnur skráningarskyld ökutæki til útleigu þegar umsókn er gerð (tegund - árgerð - skráningarnúmer).

3. gr. Starfsleyfi bílaleiga.

Sá einn getur fengið starfsleyfi Samgöngustofu til reksturs ökutækjaleigu sem uppfyllir skilyrði 4. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja nr. 65/2015. Starfsleyfið er ótímabundið og skal greiða gjald fyrir útgáfu þess samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu.

Um starfsleyfi fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.

4. gr. Starfsábyrgðartrygging.

Áður en starfsleyfi er veitt skal umsækjandi leggja fram staðfestingu þess efnis að tekin hafi verið starfsábyrgðartrygging hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi. Skal vátryggingin bæta leigutökum almennt fjártjón er stjórnendur og starfsmenn ökutækjaleigunnar af gáleysi kunna að baka þeim vegna vanefndar á leigusamningi, t.d. vegna afhendingartafa og endurgreiðslu fyrirframgreidds fjár sökum rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ökutækjaleigu. Einungis beint fjárhagslegt tjón leigutaka skal greitt af tryggingunni en ekki tjón sem rekja má t.d. til óþæginda eða miska.

Vátryggingin skal gilda vegna reksturs ökutækjaleigunnar hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í stað vátryggingar hjá vátryggingafélagi er heimilt að leggja fram bankaábyrgð sem Samgöngustofa metur fullnægjandi eða aðra þá tryggingu sem Samgöngustofa metur fullnægjandi.

Starfsábyrgðartrygging ökutækjaleigu skal vera 500 þúsund krónur hið lægsta vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarfjárhæð vátryggingabóta innan vátryggingarárs skal að lágmarki vera eftirfarandi miðað við fjölda bifreiða eða annarra ökutækja, til útleigu:

1 - 10 bifreiðar 2 millj. króna
11 - 25 bifreiðar 2,5 millj. króna
26 - 50 bifreiðar 3,5 millj. króna
51 - 75 bifreiðar 4,5 millj. króna
> 75 bifreiðar 6 millj. króna
Önnur skráningarskyld ökutæki 2 millj. króna

Vátryggingarfjárhæðir eru miðaðar við vísitölu neysluverðs í maí 2015 (428,2 stig) og skulu breytast 1. maí ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni til þess tíma.

Heimilt er að semja um eigin áhættu vátryggingartaka, en slíkt má í engu skerða rétt leigutaka til bóta úr hendi vátryggingafélags.

Vátryggingafélagi er heimilt að endurkrefja hvern þann sem valdið hefur tjóni af stórkostlegu gáleysi.

Skilmálar vátryggingar skulu kynntir Samgöngustofu áður en vátrygging er boðin ökutækjaleigum.

Falli starfsábyrgðartrygging úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag eða banki tilkynna það viðkomandi ökutækjaleigu (vátryggingartaka) og Samgöngustofu þegar í stað. Vátryggingartímabili telst ekki lokið fyrr en átta vikur eru frá því að tilkynnt var um tryggingaslit, nema önnur fullnægjandi trygging hafi verið tekin.

Uppfylli ökutækjaleiga ekki skilyrði reglugerðar þessarar um starfsábyrgðartryggingu er henni skylt að leggja inn starfsleyfi sitt til Samgöngustofu.

5. gr. Umsögn sveitarstjórnar.

Samgöngustofa skal senda umsókn ásamt fullnægjandi gögnum til umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar þar sem ökutækjaleiga mun hafa fasta starfsstöð og þar sem ökutækjaleiga mun starfrækja útibú.

Umsögn sveitarstjórnar er bindandi og skal veitt eigi síðar en 30 dögum frá móttöku erindis leyfisveitanda þar að lútandi. Heimilt er að framlengja frestinn ef til þess liggja málefnalegar ástæður. Heimilt er sveitarstjórn að veita jákvæða umsögn bundna skilyrðum sem fram koma í umsögninni.

Telji umsagnaraðili einhverja annmarka vera á umsókn en þó ekki slíka að ástæða sé til að hafna leyfisveitingu skal þess getið í umsögn og umsækjanda veittur frestur til að gera úrbætur. Slíkur frestur hefur ekki áhrif á útgáfu starfsleyfis og ber umsagnaraðila að ganga eftir því við umsækjanda að nauðsynlegar úrbætur séu gerðar innan frestsins en að öðrum kosti tilkynna leyfisveitanda um það sem er ábótavant.

6. gr. Efni umsagnar.

Í umsögn sveitarstjórnar skal koma fram mat á fyrirhugaðri staðsetningu fastrar starfsstöðvar og, eftir því sem við á, staðsetningu útibúa ökutækjaleigu og hvort staðsetningar séu innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélags kveða á um. Einnig skal sveitarfélag í umsögn sinni taka afstöðu til þess hvort fjöldi bílastæða teljist nægur fyrir starfsemina sem og hvort aðkoma henti fyrir væntanlega starfsemi.

7. gr. Umfang leyfis og breytingar er varða leyfið.

Starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari skal gefið út á kennitölu umsækjanda og heimilar það eingöngu rekstur í því húsnæði og á þeim stöðum sem tilgreindir eru í leyfi.

Leyfishafi skal tilkynna Samgöngustofu þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi.

Komi til stofnunar nýs útibús eða til flutnings starfsstöðvar ber að afla nýrrar umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar og gefa út uppfært leyfi.

Verði breyting á kennitölu leyfishafa skal sækja um nýtt leyfi. Verði einungis nafnabreyting skal gefa út nýtt leyfi án endurgjalds.

Taki nýr aðili við rekstri sem leyfi er fyrir samkvæmt lögum nr. 65/2015 eða hyggist leyfishafi hætta hinni leyfisskyldu starfsemi skal það tilkynnt Samgöngustofu án tafar. Leyfishafi ber ábyrgð á rekstrinum þar til slík tilkynning hefur borist Samgöngustofu.

8. gr. Skyldur ökutækjaleigu.

Ökutækjaleiga skal í öllu fara eftir ákvæðum 6. gr. laga nr. 65/2015 um leigu skráningarskyldra ökutækja og skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða, svo sem tryggja að leigutaki njóti aðstoðar komi til bilana eða atvika sem hefta eða stöðva för leigutaka og varða ökutækið sjálft.

Ökutækjaleiga skal tryggja að ökutæki séu í góðu ásigkomulagi, hljóti gott viðhald og eftirlit og fullnægi kröfum sem eru um þau í lögum og reglugerðum. Einnig skal ökutækjaleiga tryggja að ökutæki sé í ásigkomulagi sem tekur mið af árstíma og færð svo sem að hjólbarðar séu í samræmi við færð.

Ökutækjaleiga skal gæta þess að leigutakar hennar njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að leigutaka séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum.

Ökutækjaleiga ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við leigu ökutækja.

Skylt er að leyfisbréf ökutækjaleigunnar liggi frammi á fastri starfsstöð hennar og afrit þess í útibúum.

9. gr. Leigusamningur.

Ökutækjaleiga skal sjá um að gerður sé leigusamningur um leigu á ökutæki sem undirritaður skal af leigutaka og leigusala. Við gerð leigusamnings skal leigutaki framvísa ökuskírteini.

Ökutækjaleiga skal kynna leigutaka efni leigusamningsins og sérstaklega þær skyldur sem hann tekur á sig með undirritun leigusamningsins.

Leigusamningurinn skal gerður í að minnsta kosti tveimur eintökum og ökutækjaleiga og leigutaki heldur hvor um sig einu eintaki leigusamningsins.

Í leigusamningi skulu eftirfarandi atriði að minnsta kosti koma fram:

  1. Fullt nafn ökutækjaleigu, kennitala, heimilisfang og símanúmer.
  2. Fullt nafn leigutaka, kennitala, heimilisfang og símanúmer.
  3. Nafn þess eða nöfn þeirra sem heimild hafa til að aka ökutækinu.
  4. Númer ökuskírteinis.
  5. Skráningarnúmer ökutækis.
  6. Upphaf og lok leigutíma miðað við dag og klukkustund.
  7. Staðsetning þar sem skila á ökutæki við lok leigutíma.
  8. Neyðarnúmer þar sem hægt er að óska eftir aðstoð vegna slysa eða bilunar.

Leiguskilmálar skulu prentaðir á bakhlið leigusamnings í það minnsta á íslensku og ensku.

10. gr. Leigutaki.

Sá einn sem hefur tilskilin ökuréttindi, getur leigt ökutæki. Ökutækjaleigu er þó heimilt að gera leigusamning við einstakling sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann í leigusamningi og má sá aka ökutækinu. Skal ökumaður ávallt uppfylla framangreind skilyrði. Sama gildir ef leigutaki er félag eða annar lögaðili.

11. gr. Einkaleigur.

Einkaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem einstaklingar geta boðið til leigu, að jafnaði til skemmri tíma, skráningarskylt ökutæki í persónulegri eigu með milligöngu leigumiðlunar.

Einkaleigu eða forsvarsmanni hennar ber að uppfylla skilyrði til skráningar skv. 2. gr. reglugerðar þessarar og skv. 3. og 4. gr. laga nr. 65/2015 um leigu skráningarskyldra ökutækja.

Einkaleigu ber að afla sér starfsábyrgðartryggingar í samræmi við 4. gr. laganna og 4. gr. reglugerðar þessarar.

Einkaleiga skal ekki taka á skrá hjá sér ökutæki nema það sé í persónulegri eigu viðkomandi einstaklings. Ekki er nægilegt að einstaklingur sé umráðamaður ökutækis svo sem þegar um bílasamning er að ræða.

 Einkaleiga skal tryggja, meðal annars með því að aðstoða eigendur ökutækja, að viðkomandi ökutæki verði skráð sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleiga hjá Samgöngustofu ásamt því að tryggja að með því taki ábyrgðartryggingar á ökutækinu breytingum í samræmi við reglur þar um.

Einkaleigum ber að uppfylla ákvæði í 7.-10. gr. reglugerðar þessarar. Um eftirlit með starfsemi einkaleiga fer skv. 10.-14. gr. laga nr. 65/2015 og samkvæmt 12. gr. reglugerðar þessarar.

12. gr. Eftirlit Samgöngustofu.

Eftirlit með framfylgd laganna og reglugerðar þessarar er í höndum Samgöngustofu.

Samgöngustofa getur, skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 65/2015, kallað eftir upplýsingum frá leyfishöfum, svo sem lista yfir ökutæki á skrá hjá leyfishafa og upplýsingum um fjölda leigusamninga ásamt öðrum upplýsingum.

Samgöngustofa getur framkvæmt vettvangskannanir hjá leyfishöfum og er þar átt við skoðanir á starfsstöðvum og útibúum leyfishafa. Markmið vettvangskannana er að kanna hvort starfsemin uppfylli skilyrði laga um leigu skráningarskyldra ökutækja og þá sérstaklega hvort búnaður ökutækja sé eins og kveðið er á um í lögunum. Samgöngustofu er ekki nauðsynlegt að tilkynna leyfishafa fyrirfram um könnun á starfsstöð.

Samgöngustofa getur ennfremur fellt niður leyfi til reksturs ökutækjaleigu og einkaleiga í samræmi við ákvæði 11. gr. laga nr. 65/2015.

13. gr. Stjórnvaldssektir og refsiákvæði.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum 11.-13. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja nr. 65/2015.

14. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. mgr. 3. gr., 9. tölul. 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 9. mgr. 9. gr. og 5. mgr. 10. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 790/2006.

 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 9. september 2015. 

 F. h. iðnaðar- og viðskiptaráðherra,

 Valgerður Rún Benediktsdóttir. 

 Brynhildur Pálmarsdóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.