Prentað þann 30. des. 2024
812/2021
Reglugerð um Ferðatryggingasjóð.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Gildissvið.
- 2. gr. Orðskýringar.
- 3. gr. Aðild að Ferðatryggingasjóði.
- 4. gr. Bókhaldskerfi.
- 5. gr. Tekjur og gjöld.
- 6. gr. Upplýsingagjöf vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.
- 7. gr. Mat á fjárhæð tryggingar.
- 8. gr. Mat á fjárhæð iðgjalds.
- 9. gr. Stofngjald.
- 10. gr. Tilkynningarskylda vegna aukinnar veltu og hækkun tryggingafjárhæðar.
- 11. gr. Gjaldtaka.
- 12. gr. Eftirlit.
- 13. gr. Gildistaka.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um skráningu og aðild að Ferðatryggingasjóði, um tryggingaskyldu seljenda og útreikning á fjárhæð iðgjalda og trygginga vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar. Reglugerðin gildir einnig um bókhald og reikningsskil seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar og árlega upplýsingaskyldu þeirra.
Aðilar með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem beina markaðssókn sinni að ferðamönnum hér á landi, skulu vera aðilar að Ferðatryggingasjóði, greiða stofngjald og vera með tryggingu samkvæmt reglugerð þessari fyrir þeim pakkaferðum og samtengdri ferðatilhögun og uppfylla önnur ákvæði reglugerðar þessarar.
Skipuleggjandi er tryggingaskyldur fyrir þeim ferðum sem hann selur til ferðamanna. Skipuleggjandi er einnig tryggingaskyldur fyrir þeim ferðum sem hann setur saman en eru seldar til ferðamanna af smásala, nema skipuleggjandinn sýni fram á að smásalinn uppfylli tryggingaskyldu fyrir þeim ferðum sem hann selur.
2. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Pakkaferð: pakkaferð skv. 2. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Samtengd ferðatilhögun: samtengd ferðatilhögun skv. 5. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Skipuleggjandi: skipuleggjandi skv. 8. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Smásali: smásali skv. 9. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Seljandi: Einstaklingur eða lögaðili, jafnt í eigu hins opinbera sem í einkaeigu, sem vegna hlutaðeigandi viðskipta kemur fram í atvinnuskyni og gerir samninga við ferðamenn, svo og hver sá sem í atvinnuskyni kemur fram í umboði eða fyrir hönd seljanda, hvort sem seljandi kemur fram sem skipuleggjandi, smásali eða seljandi sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun.
3. gr. Aðild að Ferðatryggingasjóði.
Seljendur pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar skulu vera aðilar að Ferðatryggingasjóði.
Sækja skal um aðild að Ferðatryggingasjóði áður en sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er hafin. Aðilar að Ferðatryggingasjóði skulu hafa leyfi samkvæmt lögum um Ferðamálastofu.
Sækja skal um aðild að Ferðatryggingasjóði á því formi sem stjórn Ferðatryggingasjóðs ákveður. Við umsókn skal seljandi veita upplýsingar skv. 6. gr. eftir því sem við á. Ferðamálastofa tekur afstöðu til umsókna um aðild að sjóðnum.
Áður en umsókn um aðild að sjóðnum er samþykkt skal seljandi leggja fram tryggingu í samræmi við 7. gr. og greiða iðgjald í samræmi við 8. gr. Skylda til greiðslu iðgjalds er óháð því hvenær árs umsókn er samþykkt.
4. gr. Bókhaldskerfi.
Bókhaldskerfi aðila að Ferðatryggingasjóði skal vera með skipulegum hætti og í samræmi við lög um bókhald á hverjum tíma. Ef aðilar að Ferðatryggingasjóði hafa með höndum fjölþætta starfsemi skal sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar vera aðgreinanleg frá öðrum rekstri í bókhaldi aðila.
5. gr. Tekjur og gjöld.
Tekjur og gjöld vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar skal færa þegar til þeirra hefur verið unnið og þjónustan í meginatriðum verið innt af hendi. Almennt skal miða við að þjónusta hafi í meginatriðum verið innt af hendi þegar ferð hefur verið framkvæmd í samræmi við samning. Gæta skal þess sérstaklega að bókfæra tekjur réttilega á mánuði innan ársins. Skiptingu tekna og gjalda á mánuði skal vera hægt að lesa úr bókhaldskerfinu á aðgreinanlegan hátt. Skipuleggjanda er heimilt að undanskilja frá tryggingaskyldri veltu tekjur vegna pakkaferða sem seldar eru af smásala sem uppfyllir tryggingaskyldu vegna þeirra.
6. gr. Upplýsingagjöf vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.
Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skulu aðilar að Ferðatryggingasjóði skila eftirfarandi gögnum og upplýsingum:
- Ársreikningi í samræmi við lög um ársreikninga, sem skal, eftir því sem við á, vera áritaður af endurskoðanda eða skoðunarmanni. Örfélögum er heimilt að skila rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggðum á skattframtali félagsins.
- Yfirliti yfir mánaðarlega veltu síðasta rekstrarárs þar sem velta vegna sölu pakkaferða annars vegar og samtengdrar ferðatilhögunar hins vegar er sérgreind frá annarri veltu. Yfirlitið skal staðfest af löggiltum endurskoðanda eða skoðunarmanni. Í tilviki örfélaga er framkvæmdastjóra heimilt að staðfesta yfirlitið.
- Yfirliti yfir áætlaða mánaðarlega veltu yfirstandandi rekstrarárs þar sem áætluð velta vegna sölu pakkaferða annars vegar og samtengdrar ferðatilhögunar hins vegar er sérgreind.
- Staðfestingu löggilts endurskoðanda, skoðunarmanns eða, eftir atvikum, framkvæmdastjóra, um að bókhald tryggingaskylds aðila sé fært í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
- Yfirliti síðasta og yfirstandandi rekstrarárs yfir hlutfall staðfestingargreiðslna af heildarverði pakkaferða og fjölda daga fyrir upphaf pakkaferða sem þær eru fullgreiddar.
- Yfirliti síðasta og yfirstandandi rekstrarárs yfir fjölda pakkaferða skipt niður á mánuði þar sem fram komi lengd þeirra, fjöldi ferðamanna og hvort smásali selji pakkaferðir fyrir hönd skipuleggjanda og, ef svo er, upplýsingar um smásalann, yfirlit yfir þær pakkaferðir sem hann selur og hvor aðila uppfyllir tryggingaskyldu vegna þeirra pakkaferða sem smásalinn selur.
- Upplýsingum um hvort tryggingaskyldur aðili framkvæmir einhverja þá ferðatengdu þjónustu sem er hluti pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar sem hann selur.
Við umsókn um aðild að Ferðatryggingasjóði skal seljandi, samhliða umsókn um leyfi skv. 8. gr. laga um Ferðamálastofu, leggja fram upplýsingar og áætlun um reksturinn, m.a. um eigið fé, greiðslustreymi fyrir yfirstandandi og næsta ár auk upplýsinga skv. 1. mgr. eftir því sem við á. Haga skal framsetningu í samræmi við 4.-6. gr.
7. gr. Mat á fjárhæð tryggingar.
Ferðamálastofa ákveður fjárhæð tryggingar sem seljendur skulu leggja fram.
Við mat á fjárhæð tryggingar skal fundin grunntala (G) sem er meðaltal tryggingaskyldrar veltu tveggja tekjuhæstu mánaða síðasta og yfirstandandi rekstrarárs. Að auki skal fundinn meðalfjöldi daga frá fullnaðargreiðslu þar til ferð hefst (N), meðalhlutfall staðfestingargreiðslu af heildargreiðslu (h) og meðallengd ferða í dögum (d). Gildi skv. 2. málsl. skulu fundin fyrir síðasta og yfirstandandi rekstrarár.
Reikna skal grunntryggingafjárhæð GT með eftirfarandi reiknireglu: GT = G * (N / 30) + G * h + G * d / 30.
Einnig er fundin tryggingaskyld velta (V) síðasta rekstrarár og hlutfallið a(V). Hlutfallið a(V) skal vera:
12% ef ársvelta er minni en 300 m. kr.,
12% - 6% * (V - 300 m.kr.) / 700 m. kr. ef V er milli 300 m. kr. og 1 ma. kr.,
6% - 2% * (V - 1 ma.kr.) / 1 ma. kr. ef V er milli 1 og 2 ma. kr.
4% - 2% * (V - 2 ma.kr.) / 3 ma. kr. ef V er stærra en 2 ma. kr.
Tryggingafjárhæð verður T = a (V) * GT.
Niðurstaða síðasta og yfirstandandi rekstrarárs skulu bornar saman og sú niðurstaða gilda sem tryggingafjárhæð sem hærri er.
Fjárhæð tryggingar skal aldrei vera lægri en 500.000 kr.
8. gr. Mat á fjárhæð iðgjalds.
Aðilar að Ferðatryggingasjóði skulu greiða árlegt iðgjald samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Greidd iðgjöld leggjast við eigið fé sjóðsins og eru óendurkræf. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða að fjárhæð iðgjalda nemi frá 2,5% til 10% af reiknaðri tryggingafjárhæð. Við sérstakar aðstæður er Ferðamálastofu heimilt að undanskilja hluta tryggingafjárhæðar frá útreikningi á fjárhæð iðgjalda, þá einkum ef hluta tryggingafjárhæðar er ætlað að mæta áhættu að öllu leyti, svo sem vegna inneigna.
Verði eignir Ferðatryggingasjóðs hærri fjárhæð en sem nemur 50% af samanlögðum tryggingafjárhæðum allra aðila er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða að iðgjald skuli ekki innheimt tímabundið.
9. gr. Stofngjald.
Seljendur sem gerast aðilar að Ferðatryggingasjóði á árinu 2021 eða síðar skulu í lok fyrsta rekstrarárs leggja sjóðnum til 1,5% af grunntryggingafjárhæð (GT) þess árs. Næstu fjögur starfsár skulu þeir aðilar greiða 1,5% af mismuni grunntryggingafjárhæðar (GT) hvers árs og hæstu grunntryggingarfjárhæðar (GT) fyrri starfsára. Lækki grunntryggingafjárhæð (GT) frá fyrra ári skal ekkert stofngjald innheimt.
10. gr. Tilkynningarskylda vegna aukinnar veltu og hækkun tryggingafjárhæðar.
Skylt er að tilkynna Ferðamálastofu ef fyrirsjáanlegt er að tryggingaskyld velta verður umtalsvert meiri en þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun tryggingafjárhæðar gáfu til kynna.
Heimilt er að krefjast hærri trygginga en leiðir af 7. gr. í þeim tilfellum sem talið er að sérstök áhætta sé af rekstri seljanda, svo sem ef mikil aukning verður í sölu pakkaferða sem endurspeglast ekki í tryggingafjárhæð seljanda, eða ef af öðrum ástæðum kunna að vera líkur á að Ferðatryggingasjóður verði fyrir tjóni. Við matið skal þess gætt að hagsmunir sjóðsins séu tryggðir en jafnframt skal gæta meðalhófs.
11. gr. Gjaldtaka.
Ferðamálastofu er heimilt að innheimta gjöld af þeim aðilum sem reglugerð þessi gildir um til að standa straum af kostnaði við meðferð umsókna um aðild að sjóðnum, vegna mats á fjárhæð iðgjalda og trygginga og umsýslu vegna Ferðatryggingasjóðs. Gjaldið getur numið allt að 75.000 kr. árlega á hvern aðila.
Komi til gjaldþrots seljanda er Ferðatryggingasjóði heimilt að gera kröfu í þrotabú seljanda um greiðslu kostnaðar sem sjóðurinn hefur orðið fyrir vegna gjaldþrotsins. Kostnaður sem til fellur við uppgjör í kjölfar gjaldþrots eða ógjaldfærni seljanda greiðist af tryggingu hans.
12. gr. Eftirlit.
Ferðamálastofa fer með framkvæmd þessarar reglugerðar. Um eftirlit og ákvarðanir Ferðamálastofu gilda ákvæði IX. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
13. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 25. gr. a laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, og 10. gr. laga um Ferðamálastofu, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, nr. 150/2019, með síðari breytingum.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.