Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 10. júlí 2021

235/2020

Reglugerð um breytingu á reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, nr. 150/2019, með síðari breytingum.

1. gr.

Við reglugerðina bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 4. mgr. 7. gr. er við ákvörðun á fjárhæð tryggingar á árinu 2020 heimilt að leggja til grundvallar áætlun tryggingaskylds aðila um tryggingaskylda veltu fyrir yfirstandandi rekstrarár.

Skilyrði þess að ákvæði 1. mgr. eigi við er að áætlun tryggingaskylds aðila um tryggingaskylda veltu fyrir yfirstandandi rekstrarár sé lægri en tryggingaskyld velta síðasta rekstrarárs, að tryggingaskyldur aðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld eða að öðru leyti sé ekki ástæða til að ætla að trygging muni ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar.

Við mat á fjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. skal taka tillit til greiðslna sem ferðamenn hafa greitt vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar á grundvelli óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna og eftir á að endurgreiða.

Auk upplýsinga skv. 6. gr. skal tryggingaskyldur aðili fyrir 1. apríl 2020 skila til Ferðamálastofu upplýsingum fyrir yfirstandandi rekstrarár um fjölda pakkaferða sem hefur verið aflýst, fjölda pakkaferða sem hefur verið frestað og áætlun um hvenær þær ferðir verða framkvæmdar, og hlutfall endurgreiðslna á greiðslum sem ferðamenn hafa innt af hendi vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar á grundvelli óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Heimilt er að ákveða fjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. til skemmri tíma en 12 mánaða.

Ef fyrirsjáanlegt er að tryggingaskyld velta verði umtalsvert meiri á gildistíma ákvörðunar skv. 1. mgr. en lagt var til grundvallar, er skylt að tilkynna aukna tryggingaskylda veltu til Ferðamálastofu, sbr. 9. gr.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. mgr. 26. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, og 10. gr. laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018, öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 19. mars 2020.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Sigrún Brynja Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.