Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 30. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 10. júlí 2021

150/2019

Reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til tryggingaskyldra aðila skv. VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, sbr. 8. gr. laga um Ferðamálastofu.

Aðilar með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem beina markaðssókn sinni að ferðamönnum hér á landi, skulu tilkynna þá starfsemi til Ferðamálastofu og vera með tryggingu samkvæmt reglugerð þessari fyrir þeim pakkaferðum og uppfylla önnur ákvæði reglugerðar þessarar.

Reglugerð þessi gildir um:

  1. bókhald og reikningsskil tryggingaskyldra aðila,
  2. mat á fjárhæð trygginga,
  3. upplýsingaskyldu tryggingaskyldra aðila vegna mats á fjárhæð trygginga.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Pakkaferð: pakkaferð skv. 2. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Samtengd ferðatilhögun: samtengd ferðatilhögun skv. 5. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Skipuleggjandi: skipuleggjandi skv. 8. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Smásali: smásali skv. 9. tölul. 4. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Tryggingaskyldir aðilar: skipuleggjandi og smásali skv. 3. og 4. tölul., sbr. 8. gr. laga um Ferðamálastofu, og seljendur sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun.

3. gr. Tryggingaskylda.

Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er tryggingaskyld í samræmi við ákvæði VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og reglugerðar þessarar.

Trygging sem tryggingaskyldir aðilar leggja fram skal standa undir endurgreiðslu þeirra greiðslna sem greiddar hafa verið fyrir pakkaferð og samtengda ferðatilhögun sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning og til heimflutnings ferðamanns, sé farþegaflutningur hluti samnings, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala.

Skipuleggjandi er tryggingaskyldur fyrir þeim ferðum sem hann selur til ferðamanna. Skipuleggjandi er einnig tryggingaskyldur fyrir þeim ferðum sem hann setur saman en eru seldar til ferðamanna af smásala, nema skipuleggjandinn sýni fram á að smásalinn uppfylli tryggingaskyldu fyrir þeim ferðum sem hann selur.

4. gr. Bókhaldskerfi.

Bókhaldskerfi tryggingaskyldra aðila skal vera með skipulegum hætti og í samræmi við lög um bókhald á hverjum tíma. Ef tryggingaskyldir aðilar hafa með höndum fjölþætta starfsemi skal sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar vera aðgreinanleg frá öðrum rekstri í bókhaldi aðila.

5. gr. Tekjur og gjöld.

Tekjur og gjöld vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar skal færa þegar til þeirra hefur verið unnið og þjónustan í meginatriðum verið innt af hendi. Gæta skal þess sérstaklega að bókfæra tekjur réttilega á mánuði innan ársins. Skiptingu tekna og gjalda á mánuði skal vera hægt að lesa úr bókhaldskerfinu á aðgreinanlegan hátt. Skipuleggjanda er heimilt að undanskilja frá tryggingaskyldri veltu tekjur vegna pakkaferða sem seldar eru af smásala sem uppfyllir tryggingaskyldu vegna þeirra.

6. gr. Upplýsingagjöf vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.

Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skulu tryggingaskyldir aðilar skila Ferðamálastofu eftirfarandi gögnum og upplýsingum:

  1. Ársreikningi í samræmi við lög um ársreikninga, sem skal eftir því sem við á vera áritaður af endurskoðanda eða skoðunarmanni. Örfélögum er heimilt að skila rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggðum á skattframtali félagsins.
  2. Yfirliti yfir mánaðarlega veltu síðasta rekstrarárs þar sem velta vegna sölu pakkaferða annars vegar og samtengdrar ferðatilhögunar hins vegar er sérgreind frá annarri veltu. Hafi tryggingaskyldur aðili tilkynnt Ferðamálastofu um tímabundna aukna veltu skv. 9. gr. skal sú velta sérgreind frá annarri veltu. Yfirlitið skal staðfest af löggiltum endurskoðanda eða skoðunarmanni. Í tilviki örfélaga er framkvæmdastjóra heimilt að staðfesta yfirlitið.
  3. Yfirliti yfir áætlaða mánaðarlega veltu yfirstandandi rekstrarárs þar sem áætluð velta vegna sölu pakkaferða annars vegar og samtengdrar ferðatilhögunar hins vegar er sérgreind.
  4. Staðfestingu löggilts endurskoðanda, skoðunarmanns eða, eftir atvikum, framkvæmdastjóra, um að bókhald tryggingaskylds aðila sé fært í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
  5. Yfirliti síðasta og yfirstandandi rekstrarárs yfir hlutfall staðfestingargreiðslna af heildarverði pakkaferða og fjölda daga fyrir upphaf pakkaferða sem þær eru fullgreiddar.
  6. Yfirliti síðasta og yfirstandandi rekstrarárs yfir fjölda pakkaferða skipt niður á mánuði þar sem fram komi lengd þeirra, fjöldi ferðamanna og hvort smásali selji pakkaferðir fyrir hönd skipuleggjanda og, ef svo er, upplýsingar um smásalann, yfirlit yfir þær pakkaferðir sem hann selur og hvor aðila uppfyllir tryggingaskyldu vegna þeirra pakkaferða sem smásalinn selur.
  7. Upplýsingum um hvort tryggingaskyldur aðili framkvæmir einhverja þá ferðatengdu þjónustu sem er hluti pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar sem hann selur.

Hafi tryggingaskyldur aðili ekki skilað gögnum skv. 1. mgr. til Ferðamálastofu fyrir 1. apríl ár hvert er Ferðamálastofu heimilt að áætla fjárhæð tryggingar. Getur áætluð tryggingafjárhæð þá verið allt að 50% hærri en tryggingafjárhæð fyrra árs.

Þegar tryggingaskyldur aðili hefur rekstur skal hann, samhliða umsókn um leyfi skv. 8. gr. laga um Ferðamálastofu, leggja fram áætlun um reksturinn, m.a. um greiðslustreymi, fyrir yfirstandandi og næsta ár auk upplýsinga skv. 1. mgr. eftir því sem við á. Haga skal framsetningu í samræmi við 4.-6. gr.

7. gr. Mat á fjárhæð tryggingar.

Ferðamálastofa tekur ákvörðun um fjárhæð tryggingar samkvæmt 2.-6. mgr. Ferðamálastofu er heimilt að leita umsagnar endurskoðanda við mat á fjárhæð tryggingar. Kostnaður vegna þess greiðist af tryggingaskyldum aðila.

Við mat á fjárhæð tryggingar skal fundin grunntala (G) sem er meðaltal heildarveltu tveggja tekjuhæstu mánaða síðasta og yfirstandandi rekstrarárs. Að auki skal fundinn meðalfjöldi daga frá fullnaðargreiðslu þar til ferð hefst (N), meðalhlutfall staðfestingargreiðslu af heildargreiðslu (h) og meðallengd ferða í dögum (d). Gildi skv. 2. málsl. skulu fundin fyrir síðasta og yfirstandandi rekstrarár.

Reikna skal tryggingafjárhæð T með eftirfarandi reiknireglu: T = G*(N/30)+G*h+G*d/30.

Niðurstaða síðasta og yfirstandandi rekstrarárs skulu bornar saman og sú niðurstaða gilda sem tryggingafjárhæð sem hærri er. Í sérstökum tilvikum, ef veruleg breyting verður á gildum skv. 2. mgr., er Ferðamálastofu heimilt að ákveða að tryggingafjárhæð sé sú niðurstaða sem lægri er.

Fjárhæð tryggingar skal aldrei vera hærri en 80% af tryggingaskyldri veltu þess rekstrarárs sem fjárhæð miðast við. Þó skal fjárhæð tryggingar aldrei vera lægri en 1.000.000 kr.

Við mat á fjárhæð tryggingar er heimilt að undanskilja tímabundna aukna veltu síðasta rekstrarárs sem tilkynnt var Ferðamálastofu skv. 9. gr.

8. gr. Tímabundin lækkun tryggingafjárhæðar.

Ferðamálastofu er heimilt að lækka tímabundið tryggingafjárhæð skv. 7. gr. vegna samdráttar í rekstri. Skilyrði fyrir tímabundinni lækkun tryggingafjárhæðar er að tryggingaskyldur aðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld og að öðru leyti sé ekki ástæða til að ætla að trygging muni ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar.

Sækja þarf um tímabundna lækkun tryggingafjárhæðar til Ferðamálastofu. Umsókn skal fylgja greinargóð skýring á ástæðu hennar og þau gögn sem Ferðamálastofa telur nauðsynleg svo hægt sé að taka ákvörðun um umfang lækkunar á tryggingafjárhæð, m.a. upplýsingar skv. 6. gr. Upplýsingar um rekstur tryggingaskylds aðila skulu staðfestar af endurskoðanda.

Ekki er heimilt að lækka tryggingafjárhæð þannig að hún verði lægri en 1.000.000 kr.

Þegar miklar árstíðabundnar sveiflur eru í rekstri tryggingaskylds aðila er Ferðamálastofu heimilt að lækka tryggingafjárhæð að uppfylltum skilyrðum þessarar greinar. Að jafnaði skal ekki lækka tryggingafjárhæð á grundvelli þessarar málsgreinar nema sýnt þyki að tryggingafjárhæð verði a.m.k. helmingi lægri en tryggingafjárhæð skv. 7. gr.

9. gr. Tímabundin aukning tryggingaskyldrar starfsemi.

Skylt er að tilkynna Ferðamálastofu ef fyrirsjáanlegt er að tryggingaskyld velta verði umtalsvert meiri á yfirstandandi ári en þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun tryggingafjárhæðar gáfu til kynna. Ferðamálastofu er þá heimilt að hækka tryggingafjárhæð tímabundið.

Tryggingaskyldur aðili skal veita Ferðamálastofu viðeigandi upplýsingar, m.a. upplýsingar skv. 6. gr., svo hægt sé að leggja mat á hækkun tryggingafjárhæðar.

10. gr. Gjaldtaka.

Ferðamálastofu er heimilt að innheimta gjöld af þeim aðilum sem reglugerð þessi gildir um til að standa straum af kostnaði vegna mats á tryggingafjárhæð og umsýslu vegna tryggingaskyldu. Gjaldið getur numið allt að 50.000 kr. árlega á hvern aðila.

Kostnaður vegna uppgjörs trygginga skv. 27. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun greiðist af tryggingu tryggingaskylds aðila.

11. gr. Eftirlit.

Ferðamálastofa fer með framkvæmd og hefur eftirlit með reglugerð þessari. Um eftirlit og ákvarðanir Ferðamálastofu fer samkvæmt ákvæðum IX. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

12. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. mgr. 26. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, og 10. gr. laga um Ferðamálastofu, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa, nr. 1100/2005, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir 4. mgr. 7. gr. er við ákvörðun á fjárhæð tryggingar á árinu 2020 heimilt að leggja til grundvallar áætlun tryggingaskylds aðila um tryggingaskylda veltu fyrir yfirstandandi rekstrarár.

Skilyrði þess að ákvæði 1. mgr. eigi við er að áætlun tryggingaskylds aðila um tryggingaskylda veltu fyrir yfirstandandi rekstrarár sé lægri en tryggingaskyld velta síðasta rekstrarárs, að tryggingaskyldur aðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld eða að öðru leyti sé ekki ástæða til að ætla að trygging muni ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar.

Við mat á fjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. skal taka tillit til greiðslna sem ferðamenn hafa greitt vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar á grundvelli óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna og eftir á að endurgreiða.

Auk upplýsinga skv. 6. gr. skal tryggingaskyldur aðili fyrir 1. apríl 2020 skila til Ferðamálastofu upplýsingum fyrir yfirstandandi rekstrarár um fjölda pakkaferða sem hefur verið aflýst, fjölda pakkaferða sem hefur verið frestað og áætlun um hvenær þær ferðir verða framkvæmdar, og hlutfall endurgreiðslna á greiðslum sem ferðamenn hafa innt af hendi vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar á grundvelli óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Heimilt er að ákveða fjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. til skemmri tíma en 12 mánaða.

Ef fyrirsjáanlegt er að tryggingaskyld velta verði umtalsvert meiri á gildistíma ákvörðunar skv. 1. mgr. en lagt var til grundvallar, er skylt að tilkynna aukna tryggingaskylda veltu til Ferðamálastofu, sbr. 9. gr.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.