Prentað þann 22. des. 2024
808/2023
Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017.
1. gr.
Á eftir 43. gr. reglugerðarinnar koma tvær nýjar greinar, 43. gr. a og 43. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
43. gr. a.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Við mat á því hvort veita skuli dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skal taka mið af eftirtöldu:
Heilbrigðisástæður.
Með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum er m.a. átt við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð sé aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi, svo sem ef viðkomandi á ekki rétt á meðferðinni eða er með einhverjum hætti útilokaður frá henni, svo sem vegna alvarlegrar mismununar. Meðferð telst ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana.
Jafnframt geta átt hér undir mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni verði einstaklingi gert að snúa aftur til heimaríkis.
Ef um langvinnan sjúkdóm er að ræða eru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt er í slíkum tilvikum heimilt að líta til þess hvort meðferð er hafin hér á landi og ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa þá meðferð.
Þegar stjórnvöld taka ákvörðun um veitingu og útgáfu dvalarleyfis á þessum forsendum skal taka mið af fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal læknisvottorðum og öðrum læknisfræðilegum gögnum. Umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á að afla slíkra gagna og leggja fram við meðferð málsins hjá stjórnvöldum.
Erfiðar félagslegar aðstæður.
Með erfiðum félagslegum aðstæðum er vísað til þess að útlendingur þarfnist verndar vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Má þar sem dæmi nefna aðstæður kvenna sem sætt hafa kynferðisofbeldi og sýnt er fram á að það geti leitt til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Mat á verndarþörf einstaklinga sem tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi fer að öðru leyti eftir aðstæðum í hverju og einu máli.
Erfiðar almennar aðstæður.
Með erfiðum almennum aðstæðum er vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki sem ekki eru staðbundin, svo sem vegna langvarandi stríðsátaka.
Erfiðar almennar aðstæður taka að jafnaði ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða náttúruhamfara, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Á það m.a. við þegar í heimaríki viðkomandi ríkir óðaverðbólga, atvinnuleysi í ríkinu er mikið eða lágmarkslaun duga ekki fyrir framfærslu. Einstaklingsbundnir þættir eins og tungumálaörðugleikar og erfiðleikar við að bera sig eftir þeirri þjónustu sem er til staðar í heimaríki teljast ekki til erfiðra almennara aðstæðna.
43. gr. b.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Við mat á því hvort veita skuli dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skal taka mið af eftirtöldu:
Ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er.
Við mat á því hvort auðkenni viðkomandi teljist sannað skal líta til þess hvort hann hafi lagt fram trúverðug gögn sem sanna auðkenni hans, svo sem frumrit vegabréfs, auðkenniskort með lífkennum, fæðingarvottorð með lífkennum eða önnur gögn sem sannanlega er unnt að tengja við viðkomandi.
Útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins.
Við mat á því hvort viðkomandi hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins skal m.a. líta til þess hvort frásögn hans hafi verið metin trúverðug, svo sem með framvísun sannreynanlegra gagna til stuðnings frásögn.
Útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
Við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls skal m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi framvísað fölsuðum skjölum við málsmeðferð umsóknar eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti vanrækt eða ekki uppfyllt lögbundnar skyldur sínar við málsmeðferðina.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 7. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, öðlast þegar gildi.
Dómsmálaráðuneytinu, 24. júlí 2023.
Guðrún Hafsteinsdóttir.
Bryndís Helgadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.