Prentað þann 23. des. 2024
786/2008
Reglugerð um opinberar fjársafnanir.
1. gr.
Reglugerð þessi gildir um opinberar fjársafnanir, á grundvelli laga um opinberar fjársafnanir, nr. 5 24. mars 1977.
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli veitir leyfi fyrir opinberum fjársöfnunum á götum eða í húsum og fer að öðru leyti með verkefni sem sýslumanni eru falin í lögunum.
2. gr.
Með opinberri fjársöfnun er átt við starfsemi þar sem almenningur er hvattur til að láta fé af hendi í þágu ákveðins málefnis án þess að endurgjald komi í staðinn.
Þó svo að sá sem lætur fé af hendi til fjársöfnunar fái endurgjald í formi táknræns hlutar, telst hann ekki hafa fengið endurgjald, hafi hluturinn ekki sjálfstætt verðgildi.
3. gr.
Ákvæði þessarar reglugerðar gilda ekki um:
- uppboð til góðgerðarmála, stuðningstónleika eða stuðningssamkomur,
- safnanir á notuðum verðlitlum hlutum,
- fjársafnanir á samkomum,
- fjársafnanir á vegum fjölmiðla í opinberu góðgerðarskyni, ef viðkomandi fjölmiðill birtir skrá yfir framlag allra gefenda. Ennfremur skal fjölmiðillinn birta viðurkenningu þeirra, er veita fénu viðtöku að söfnun lokinni.
4. gr.
Fjársöfnun með keðjubréfum er óheimil.
5. gr.
Í umsókn til dóms- og kirkjumálaráðuneytissýslumanns vegna opinberrar fjársöfnunar á götum eða í húsum svo og í tilkynningu til viðkomandi lögreglustjóra um opinbera fjársöfnun, skulu a.m.k. eftirtalin atriði koma fram:
- hver standi fyrir fjársöfnuninni, nöfn þeirra og kennitölur,
- hvar fjársöfnun skuli fara fram,
- hvenær fjársöfnun skuli fara fram,
- hvernig fjársöfnun skuli fara fram,
- í hvaða tilgangi fjársöfnun fer fram og hver sé móttakandi söfnunarfjár,
- hver beri ábyrgð á fjárvörslu (fjávörsluaðili), ef það er annar aðili en stjórn félags eða stofnunar.
6. gr.
Með umsókn um leyfi til opinberrar fjársöfnunar eða tilkynningu um slíka söfnun skulu a.m.k. fylgja eftirtalin gögn:
- Vottorð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra þar sem fram kemur heiti félags, stofnunar eða samtaka, kennitala, heimilisfang og hverjir sitji þar í stjórn. Standi samtök manna fyrir fjársöfnun skulu þeir sem ábyrgð bera á söfnuninni sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um opinberar fjársafnanir leggja fram persónuskilríki.
- Staðfesting fjárvörsluaðila, sbr. f-lið 5. gr. á að hann hafi tekið að sér vörslu söfnunarfjár.
7. gr.
Opinber fjársöfnun skal vera til tiltekins tíma, þó ekki til lengri tíma en tveggja ára.
8. gr.
Innan 6 mánaða frá lokum fjársöfnunar skal sá sem fyrir henni stendur afhenda lögreglustjóra eftirtalin gögn:
- Endurskoðaðan reikning söfnunarinnar.
- Staðfestingu þess er móttekið hefur söfnunarfé.
- Upplýsingar um hvar og hvenær birting á reikningi söfnunarinnar fari fram sbr. 7. gr. laga um opinberar fjársafnanir.
Ef söfnunarfé nær ekki 500.000 kr. má tilkynna opinberlega að reikningshald fjársöfnunar sé til sýnis á nánar tilteknum stað í a.m.k. 14 daga.
9. gr.
Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 9. gr. laga um opinberar fjársafnanir, nr. 5 24. mars 1977, öðlast gildi 1. september 2008.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 25. júlí 2008.
Björn Bjarnason.
Hjalti Zóphóníasson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.