Prentað þann 22. des. 2024
775/2017
Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017.
1. gr.
Við 23. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein svohljóðandi:
Þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd kemur frá ríki á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og í þeim tilvikum þegar umsókn um alþjóðlega vernd er bersýnilega tilhæfulaus er Útlendingastofnun heimilt að fella niður þjónustu þegar framkvæmdarhæf ákvörðun um synjun liggur fyrir.
2. gr.
Við 29. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein svohljóðandi:
Útlendingur á ekki rétt á framfærslufé eftir að hann dregur umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka eða þegar framkvæmdarhæf ákvörðun um synjun liggur fyrir.
3. gr.
Við 43. gr. reglugerðarinnar bætast þrjár nýjar málsgreinar svohljóðandi:
Hafi umsókn um alþjóðlega vernd verið synjað á öðrum grundvelli en vísað er til í X. kafla reglugerðarinnar, skal veita útlendingi skamman frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Samhliða skal tekin afstaða til þess í ákvörðun hvort skilyrði til brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt fari útlendingur ekki af landi brott eða óski aðstoðar til sjálfviljugrar heimfarar innan veitts frests. Séu skilyrði fyrir brottvísun uppfyllt tekur ákvörðunin um brottvísun gildi, fari útlendingur ekki af landi brott eða óski aðstoðar til sjálfviljugrar heimfarar innan veitts frests. Sama gildir dragi útlendingur umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka áður en ákvörðun um hvort veita eigi honum alþjóðlega vernd er tekin.
Dragi útlendingur, sem kemur frá ríki á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka skal honum veittur 7 daga frestur til sjálfviljugrar heimfarar en honum skal almennt ekki veitt aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar. Útlendingum frá öðrum ríkjum en þeim sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki skal veittur frestur í samræmi við ákvæði 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og skal standa til boða aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar.
Leggi útlendingur sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd fram beiðni um endurupptöku máls frestar slík beiðni ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
4. gr.
Eftir 44. gr. reglugerðarinnar kemur nýr kafli, X. kafli, með fimm nýjum greinum, 45.-49., svohljóðandi:
X. KAFLI
Sérstök málsmeðferð.
45. gr.
Bersýnilega tilhæfulausar umsóknir.
Umsókn telst bersýnilega tilhæfulaus óháð því hvort útlendingur komi frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki þegar umsókn byggist á:
- öðrum málsástæðum en þeim sem átt geta undir 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, t.d. atvinnuleysi, húsnæðisskorti, örbirgð eða öðrum efnahagslegum ástæðum eða
- málsástæðum sem byggjast á fjarstæðukenndri frásögn.
Komi útlendingur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki telst umsókn jafnframt bersýnilega tilhæfulaus þegar hún byggir á:
- því að fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki sé ekki til staðar,
- einstaklingsbundnum líkamsárásum, hótunum, ógnunum eða deilum sem ekki geta talist kerfisbundnar,
- því að fullnægjandi aðstoð og aðgengi að heilbrigðisaðstoð í heimaríki sé ekki til staðar, enda hafi þegar verið tekið mið af heilbrigðisaðstæðum við mat á því hvort upprunaríki teljist öruggt eða
- öðrum málsástæðum sem telja má ótrúverðugar með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heimaríki.
46. gr.
Efnismeðferð þegar annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins ber ábyrgð.
Þegar útlendingur kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, umsókn hans um vernd hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus og flutningur viðkomandi úr landi til heimaríkis er ekki erfiðleikum bundinn er Útlendingastofnun heimilt að taka umsóknina til efnismeðferðar þrátt fyrir að ljóst sé að annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins beri ábyrgð á henni, skv. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þrátt fyrir að umsókn hafi verið tekin til efnismeðferðar skal máli framhaldið á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins komi í ljós við frekari vinnslu málsins að umsóknin uppfylli ekki lengur framangreind skilyrði 1. mgr.
47. gr.
Viðtal og andmælaréttur.
Útlendingastofnun ber að kynna umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæður þess að umsókn hans sæti forgangsmeðferð og leiðbeina um þau réttaráhrif sem bersýnilega tilhæfulaus umsókn hefur sbr. XII. kafla laga um útlendinga og 49. gr. reglugerðar þessarar.
Í viðtali Útlendingastofnunar við umsækjanda um alþjóðlega vernd skal talsmaður vera viðstaddur. Markmið viðtalsins skal vera að fá fram sjónarmið umsækjanda og ástæður umsóknar, sbr. 28. gr. laga um útlendinga, auk þess að varpa ljósi á hvort aðstæður umsækjanda séu þess eðlis að tilefni sé til að víkja frá ákvæðum þessa kafla.
Svo tryggja megi hraða málsmeðferð og að markmiðum forgangsmeðferðar verði náð skulu andmæli umsækjanda og talsmanns hans almennt bókuð í lok viðtals. Telji talsmaður þörf á skal honum gefið tækifæri til að ráðfæra sig einslega við skjólstæðing sinn í lok viðtals áður en andmæli eru bókuð.
Þegar sérstaklega stendur á er Útlendingastofnun heimilt að veita hæfilegan frest til framlagningar gagna og athugasemda vegna þeirra.
48. gr.
Ákvörðun Útlendingastofnunar.
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum er sæta forgangsmeðferð má taka án samhliða rökstuðnings.
Við birtingu ákvörðunar án samhliða rökstuðnings skal Útlendingastofnun leiðbeina útlendingi um heimild til að fá ákvörðun rökstudda, kæruheimild, kærufresti og hvert skuli beina kæru, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skal bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún berst, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga.
49. gr.
Um réttaráhrif synjunar bersýnilega tilhæfulausrar umsóknar.
Hafi umsókn verið synjað á þeim grundvelli að hún sé bersýnilega tilhæfulaus skal útlendingi almennt brottvísað og ákvarðað endurkomubann án þess að veittur sé frestur til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. og b-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Útlendingastofnun heimilt í undantekningartilvikum að veita útlendingum sem falla undir þetta ákvæði frest til sjálfviljugrar heimfarar og aðstoð, t.d. þegar um er að ræða fylgdarlaus ungmenni.
5. gr.
Við 45. gr. reglugerðar þessarar sem verður 50. gr. bætist eftirfarandi málsliður: Jafnframt fellur brott reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga.
6. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 23., 29., 36., og 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Dómsmálaráðuneytinu, 30. ágúst 2017.
Sigríður Á. Andersen.
Haukur Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.