Fara beint í efnið

Prentað þann 18. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 12. apríl 2024

733/2000

Reglugerð um tilkynningar á tæknilegum reglum um vörur og fjarþjónustu.

1. gr.

Löggildingarstofa, í umboði utanríkisráðuneytisins, annast samskipti þau á milli íslenskra stjórnvalda og alþjóðastofnana um tæknilegar reglur sem lög nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu taka til, sbr. 4. gr. laganna.

2. gr.

Stjórnvöld skulu senda Löggildingarstofu tilkynningu um drög að tæknilegum reglum um vöru og fjarþjónustu sem fyrirhugað er að setja. Tilkynningar skulu vera á tölvutæku formi og skal texti þeirra vera á ensku.

Tilkynningar á grundvelli samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði skulu innihalda þær upplýsingar sem greinir í viðauka I við reglugerð þessa.

Þegar tilkynnt er um tæknilega reglu á grundvelli samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir skal fyllt út það form sem greinir í viðauka II við reglugerð þessa.

3. gr.

Tilkynningunni skulu fylgja í heild, á tölvutæku formi, drög að tæknilegu reglunni ásamt öðrum þeim gögnum, þ.m.t. lögum og reglugerðum, sem nauðsynleg eru til að meta inntak tilkynningarinnar. Fylgigögn skulu vera á ensku.

4. gr.

Hafi drög að tæknilegri reglu að geyma ákvæði sem ætlað er að takmarka markaðssetningu eða notkun vöru, þ.m.t. kemísks efnis eða efnablöndu, vegna heilsu almennings eða í þeim tilgangi að vernda neytendur eða umhverfi, ber að láta fylgja tilkynningunni yfirlit um eða tilvitnun til allra tiltækra gagna sem geyma upplýsingar sem máli skipta um viðkomandi vöru, þ.m.t. efni eða efnablöndu, og þekktar og fáanlegar hliðstæðar vörur. Jafnframt skal komið á framfæri upplýsingum um fyrirsjáanleg áhrif þessara ráðstafana á heilsu almennings, verndun neytenda eða umhverfis ásamt áhættumati sem fram fari, eftir því sem við á, í samræmi við meginreglur sem gilda um áhættumat kemískra efna.

5. gr.

Drög að tæknilegum reglum skulu innihalda eftirfarandi vísun til tilskipunar 98/34/EB:

Lög/reglugerð þessi hafa/hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna. (This law/regulation has been notified in accordance with the provisions of Directive 98/34/EC laying down a procedure for the provision of information in the field of technical standards and regulations).

6. gr.

Stjórnvöld sem unnið hafa að undirbúningi setningar tæknilegra reglna skulu veita Löggildingarstofu allar nauðsynlegar upplýsingar til að svara athugasemdum er borist hafa við áður tilkynnta reglu.

7. gr.

Þegar tæknileg regla hefur verið sett skal stjórnvald sem undirbjó setningu hennar senda Löggildingarstofu endanlegan texta hennar á tölvutæku formi.

8. gr.

Athugasemdir vegna tilkynningar á tæknilegri reglu frá öðru ríki skulu berast Löggildingarstofu á ensku og á tölvutæku formi.

Löggildingarstofa hefur með höndum samræmingu þeirra athugasemda sem berast.

Endanleg ákvörðun um efni athugasemda skal tekin að höfðu samráði við þá er gert hafa athugasemdir og utanríkisráðuneytið.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. gr. laga nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, og öðlast þegar gildi.

Utanríkisráðuneytinu, 4. október 2000.

Halldór Ásgrímsson.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.