Fara beint í efnið

Prentað þann 18. des. 2024

Stofnreglugerð

440/2024

Reglugerð um tilkynningar á tæknilegum reglum um vörur og fjarþjónustu.

1. gr. Tæknilegar reglur.

Í reglugerð þessari merkja "tæknilegar reglur" lög, reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem fela í sér eða vísa beint eða óbeint til tæknilýsinga, tæknilegra krafna eða annarra krafna og eru íþyngjandi við markaðssetningu eða notkun vöru eða banna framleiðslu, innflutning, markaðssetningu eða notkun vöru.

Til tæknilegra reglna teljast einnig frjálsir samningar sem stjórnvöld eru aðilar að og kveða á um að tæknilegum kröfum sé hlítt.

Einnig falla undir skilgreininguna tæknilegar kröfur eða aðrar kröfur sem tengjast ráðstöfunum í skatta- eða peningamálum og hafa áhrif á neyslu vara með því að hvatt er til að tilteknum tæknilegum kröfum sé hlítt.

Til tæknilegra reglna í skilningi reglugerðarinnar teljast hins vegar ekki tæknilegar kröfur eða aðrar kröfur sem settar eru við opinber útboð eða við önnur innkaup hins opinbera eða tæknilegar reglur sem tengjast almannatryggingakerfinu.

2. gr. Samningsskuldbindingar Íslands um skipti á upplýsingum.

Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu sem geta haft í för með sér óheimilar tæknilegar viðskiptahindranir eru samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir og stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu.

3. gr. Neytendastofa.

Neytendastofa, í umboði utanríkisráðuneytisins, annast samskipti þau á milli íslenskra stjórnvalda og alþjóðastofnana um tæknilegar reglur sem lög nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu taka til.

Stjórnvöld skulu tafarlaust senda Neytendastofu tilkynningu um drög að tæknilegum reglum um vöru og fjarþjónustu sem fyrirhugað er að setja.

Ekki er þörf á tilkynningu til Neytendastofu um fyrirhugaða setningu tæknilegrar reglu sem:

  1. eingöngu framkvæmir gerðir sem vísað er til í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar,
  2. uppfyllir skuldbindingar vegna alþjóðlegra samninga þar sem stefnt er að því að samþykkja almennar tæknilegar reglugerðir á vettvangi EES-samningsins,
  3. færir sér í nyt öryggisákvæði í bindandi gerðum EES-samningsins,
  4. byggist á Rapex-tilkynningarkerfinu um hættulega vöru á markaði í samræmi við ákvæði laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu,
  5. sett er í þeim tilgangi einum að fullnægja dómum sem EFTA-dómstóllinn fellir og dómum sem nefndir eru í 6. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og 3. gr. samningsins um Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn,
  6. sett er í þeim tilgangi einum að breyta tæknilegri reglu í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA með það í huga að ryðja viðskiptahindrunum úr vegi.

4. gr. Tilkynningar á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Tilkynningar á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skulu vera á ensku og skulu vera í því formi og innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru í leiðbeiningum um tilkynningar á tæknilegum reglum sem gefnar eru út af utanríkisráðuneytinu og eru birtar á vefsíðu Neytendastofu.

Tilkynningunni skulu fylgja í heild, á íslensku og ensku og á tölvutæku formi, drög að tæknilegu reglunni. Einnig skulu fylgja á ensku önnur þau gögn, þ.m.t. lög og reglugerðir, sem nauðsynleg eru til að meta inntak tilkynningarinnar.

Drög að tæknilegum reglum skulu innihalda vísun til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1535 frá 9. september 2015 um tilhögun miðlunar upplýsinga um tæknireglugerðir og reglur um þjónustu í upplýsingasamfélaginu, sbr. leiðbeiningar utanríkisráðuneytisins um tilkynningar á tæknilegum reglum.

5. gr. Tilkynningar á grundvelli annarra samningsskuldbindinga.

Þegar tilkynnt er um tæknilega reglu á grundvelli annarra samningsskuldbindinga um tæknilegar viðskiptahindranir skal það gert í samráði við utanríkisráðuneytið.

6. gr. Tæknilegar reglur vegna lýðheilsu, verndar neytenda eða umhverfis.

Hafi drög að tæknilegri reglu að geyma ákvæði sem ætlað er að takmarka markaðssetningu eða notkun hreins efnis, efnablöndu eða vöru, vegna lýðheilsu eða í þeim tilgangi að vernda neytendur eða umhverfi, ber að láta fylgja tilkynningunni yfirlit um eða tilvitnun til allra tiltækra gagna sem geyma upplýsingar sem máli skipta um viðkomandi efni, efnablöndu eða vöru og þekkt og fáanleg staðgönguefni.

Jafnframt skal komið á framfæri upplýsingum um fyrirsjáanleg áhrif þessara ráðstafana á lýðheilsu, verndun neytenda eða umhverfis ásamt áhættumati sem fram fari, eftir því sem við á, í samræmi við meginreglur sem gilda um áhættumat kemískra efna.

7. gr. Frestun.

Fresta skal formlegri setningu tæknilegra reglna um vörur um þrjá mánuði frá þeim degi sem tilkynnt var um fyrirhugaða setningu reglnanna til alþjóðastofnana samkvæmt 2. mgr. 3. gr., en um fjóra mánuði þegar um er að ræða tæknilegar reglur um fjarþjónustu.

Berist ítarleg álitsgerð frá Eftirlitsstofnun EFTA eða EFTA-ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þess efnis að fyrirhuguð ráðstöfun kunni að hindra frjálsa vöruflutninga innan innri markaðarins, innan þriggja mánaða frá því að Eftirlitsstofnun EFTA tók á móti tilkynningu samkvæmt 2. mgr. 3. gr., lengist fresturinn samkvæmt 1. mgr. um:

  1. einn mánuð þegar um er að ræða drög að tæknilegri reglu í formi frjáls samnings sem opinber stjórnvöld eru aðilar að, og kveða á um í þágu almennra hagsmuna, að farið sé eftir tækniforskriftum eða öðrum kröfum eða reglum um þjónustu,
  2. þrjá mánuði þegar um er að ræða önnur drög að tæknilegri reglu, að undanskildum drögum sem varða fjarþjónustu.

A-liður 2. mgr. gildir ekki um útboðslýsingar í tengslum við opinber innkaup.

8. gr. Viðbrögð við athugasemdum og ítarlegum álitum.

Berist athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, við tilkynningu sem gerð hefur verið samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skulu stjórnvöld taka athugasemdirnar til greina, að því marki sem unnt er, við síðari vinnu við tæknilegu regluna.

Berist ítarlegt álit frá Eftirlitsstofnun EFTA eða EFTA-ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins vegna tilkynningar sem gerð hefur verið samkvæmt 1. mgr. 2. gr., skulu stjórnvöld upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um til hvaða aðgerða þau hyggjast grípa til að bregðast við álitinu.

Að því er varðar reglur um fjarþjónustu skulu stjórnvöld tilgreina, þegar við á, ástæður þess að ekki sé unnt að taka tillit til ítarlegs álits sem borist hefur frá Eftirlitsstofnun EFTA eða EFTA-ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Stjórnvöld sem unnið hafa að undirbúningi setningar tæknilegra reglna skulu veita Neytendastofu allar nauðsynlegar upplýsingar til að svara ítarlegum álitum er borist hafa við áður tilkynnta reglu.

9. gr. Tilkynningarskylda að loknum breytingum.

Drög að tæknilegri reglu um vörur eða fjarþjónustu skulu tilkynnt að nýju til Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt 2. mgr. 3. gr. ef breytingar eru gerðar á þeim sem hafa í för með sér umtalsverðar breytingar á gildissviði þeirra, stytta upphaflegan tíma sem áætlaður var fyrir gildistöku, bæta við nýjum forskriftum eða kröfum eða herða þær sem fyrir eru.

10. gr. Endanlegur texti.

Þegar tæknileg regla hefur öðlast gildi skal það stjórnvald sem undirbjó setningu hennar senda Neytendastofu endanlegan texta hennar á tölvutæku formi.

Neytendastofa sendir Eftirlitsstofnun EFTA endanlegan texta þegar um er að ræða tilkynningar á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

11. gr. Athugasemdir og ítarleg álit.

Stjórnvöldum er heimilt að gera athugasemdir vegna tilkynningar á tæknilegri reglu frá öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við leiðbeiningar utanríkisráðuneytisins um tilkynningar á tæknilegum reglum.

Stjórnvöldum er heimilt að senda ítarlegt álit vegna tilkynningar á tæknilegri reglu frá öðru EFTA-ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við leiðbeiningar utanríkisráðuneytisins um tilkynningar á tæknilegum reglum.

Athugasemdir og ítarleg álit vegna tilkynningar á tæknilegri reglu frá öðru ríki skulu berast Neytendastofu á ensku og á tölvutæku formi.

Neytendastofa hefur með höndum samræmingu þeirra athugasemda og ítarlegra álita sem berast.

Endanleg ákvörðun um efni athugasemda og ítarlegra álita skal tekin að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið og þá er gert hafa athugasemdir.

12. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 7. gr. laga nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um tilkynningar á tæknilegum reglum um vörur og fjarþjónustu nr. 733/2000.

Utanríkisráðuneytinu, 22. mars 2024.

Bjarni Benediktsson.

Martin Eyjólfsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.