Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

666/2020

Reglugerð um opinbera skrá yfir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki.

1. gr.

Endurskoðendaráð heldur opinbera skrá, endurskoðendaskrá, yfir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem fengið hafa réttindi til endurskoðunarstarfa enda séu ákvæði 3. og 4. gr. og 5. mgr. 5. gr. laga nr. 94/2019 um endurskoðendur og endurskoðun uppfyllt.

Endurskoðendaráð gefur endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sérstakt númer sem þau eru auðkennd með í endurskoðendaskránni.

Skráin skal einnig vera aðgengileg á ensku.

2. gr.

Endurskoðendaskráin skal innihalda eftirfarandi upplýsingar fyrir endurskoðendur:

 1. Nafn.
 2. Kennitölu.
 3. Lögheimili.
 4. Löggildingarár.
 5. Endurskoðendanúmer útgefið af endurskoðendaráði.
 6. Netfang endurskoðanda.
 7. Upplýsingar um heiti félags, lögheimili, vefsetur og endurskoðendanúmer endurskoðunarfyrirtækis þar sem endurskoðandi starfar, eða sem hann tengist sem meðeigandi eða á annan hátt, ef við á.
 8. Upplýsingar um skráningu endurskoðanda hjá lögbærum yfirvöldum annarra ríkja.

3. gr.

Endurskoðendaskráin skal innihalda eftirfarandi fyrir endurskoðunarfyrirtæki:

 1. Heiti félags og rekstrarform.
 2. Kennitölu.
 3. Lögheimili.
 4. Skráð heimilisfang hjá öllum starfsstöðvum endurskoðunarfyrirtækis.
 5. Endurskoðendanúmer útgefið af endurskoðendaráði.
 6. Vefsetur endurskoðunarfyrirtækis.
 7. Upplýsingar um framkvæmdastjóra/forsvarsmann.
 8. Upplýsingar um hjá hvaða vátryggingafélagi endurskoðunarfyrirtækið hefur starfsábyrgðartryggingu.
 9. Nöfn og kennitölur eigenda og hluthafa endurskoðunarfyrirtækisins, ásamt upplýsingum um starfsstöð viðkomandi.
 10. Nöfn og kennitölur stjórnarmanna, varastjórnar og framkvæmdastjórnar endurskoðendafyrirtækis, ásamt upplýsingum um starfsstöð viðkomandi.
 11. Nöfn og endurskoðendanúmer allra endurskoðenda sem starfa hjá endurskoðunarfyrirtækinu eða eru tengdir því sem meðeigendur eða á annan hátt.
 12. Upplýsingar um aðild endurskoðunarfyrirtækis að neti endurskoðunarfyrirtækja og skrá yfir nöfn og heimilisföng aðildar- og eignatengdra fyrirtækja.
 13. Upplýsingar um skráningu endurskoðunarfyrirtækis sem endurskoðunaraðili hjá lögbærum yfirvöldum annarra ríkja, þ.m.t. nafn eða nöfn skráningaryfirvalds/-a og skráningarnúmer endurskoðunarfyrirtækis, ef við á.

4. gr.

Endurskoðendaskráin skal innihalda upplýsingar um yfirvöld sem bera ábyrgð á veitingu réttinda samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 94/2019 og yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti með endurskoðendum samkvæmt sömu lögum.

5. gr.

Hafi endurskoðandi lagt inn réttindi sín eða þau verið felld niður skal nafn hans fellt út af endurskoðendaskránni.

Endurskoðunarfyrirtæki sem uppfyllir ekki lengur skilyrði 4. gr. og/eða 5. mgr. 5. gr. laga nr. 94/2019 um endurskoðendur og endurskoðun skal fellt út af endurskoðendaskránni.

6. gr.

Endurskoðendur og stjórnendur endurskoðunarfyrirtækja bera ábyrgð á að upplýsingar sem fram koma í endurskoðendaskránni séu réttar og skulu þeir staðfesta upplýsingarnar með undirritun sinni.

Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skulu, án ástæðulausra tafa, tilkynna endurskoðendaráði ef breytingar verða á þeim upplýsingum sem fram koma í endurskoðendaskránni.

7. gr.

Endurskoðendaráð skal birta endurskoðendaskrá á heimasíðu ráðsins. Ekki skal þó birta upplýsingar um kennitölur og búsetu endurskoðenda.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 94/2019 um endurskoðendur og endurskoðun, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 460/2011 um opinbera skrá yfir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. júní 2020.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Harpa Theodórsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.