Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júlí 2020
Sýnir breytingar gerðar 1. júlí 2020 af rg.nr. 652/2020

651/2009

Reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl.

I. KAFLI Tilkynningar til vandamanna handtekinna manna.

1. gr.

Maður sem hefur verið handtekinn af lögreglu í þágu rannsóknar máls, á rétt á að hafa samband við lögmann þegar eftir handtöku, sömuleiðis nánustu vandamenn sína.

Nú er handtekinn maður yngri en 18 ára og skal þá þegar hafa samband við foreldra hans og fulltrúa barnaverndarnefndar og hvetja þá til að koma án tafar á lögreglustöð.

Nú er handtekinn maður ólögráða af öðrum ástæðum og skal þá gera lögráðamanni viðvart um handtökuna og hvetja hann til að koma á lögreglustöð.

Óski hinn handtekni eftir heilbrigðisþjónustu skal kalla til lækni eða hjúkrunarfræðing eða færa hinn handtekna á heilbrigðisstofnun.

 Stjórnandi lögregluvaktar, lögreglufulltrúi, ákærandi eða annar hærra settur stjórnandi, sem berekki ábyrgðhefur áhaft aðkomu að rannsókn máls, má fresta að hinn handtekni hafi samband við vandamenn sína ef sérstök ástæða er til að ætla að það muni torvelda rannsókn málsins. Þó skal svo fljótt sem kostur er tilkynna nánustu vandamönnum sakbornings að hann hafi verið handtekinn og hvar hann er vistaður.

2. gr.

Ákvörðun um frestun til að hafa samband við nánustu vandamenn skal vera skrifleg og rökstudd og handteknum manni gerð grein fyrir ákvörðuninni og forsendum hennar.

Þegar meta skal hvort sérstök ástæða sé til að ætla að það muni torvelda rannsókn málsins ef sakborningur hefur samband við náinn vandamann, skal hafa í huga:

  1. að merki eftir afbrot verði afmáð eða sönnunargögnum spillt með öðrum hætti,
  2. að munum verði skotið undan og komið í veg fyrir að þeim verði skilað aftur til rétts eiganda,
  3. að ávinningi af broti verði skotið undan,
  4. að samsekir, sem enn hafa ekki verið handteknir, verði varaðir við.

II. KAFLI Skýrslutaka við rannsókn hjá lögreglu.

3. gr.

Þegar lögregla ræðir við sjónarvotta eða önnur vitni, getur hún skráð skýrslu um frásögn þeirra án þess að þau staðfesti hana sérstaklega. Þess skal gætt í slíku tilviki að sem nákvæmast sé skráð enda er gert ráð fyrir að slík skýrsla sé jafngild formlegri skýrslu af viðkomandi sem kynna má fyrir dómi.

Heimilt er að taka óformlega skýrslu af sakborningi, þótt hann verði síðar kvaddur til formlegrar skýrslutöku. Skal þá ætíð gæta ákvæða VIII. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Við óformlega skýrslutöku ber lögreglu að viðhafa sem líkust vinnubrögð og við formlega skýrslutöku, gæta þess að spurningar séu skýrar og ótvíræðar og upplýsa viðkomandi hvort hann sé spurður sem vitni eða sakborningur, sé mál farið að skýrast þannig að það sé unnt.

4. gr.

Lögreglumaður sem annast yfirheyrslu skal sýna kurteisi gagnvart sakborningi og vitnum og gæta þessa að vera ávallt rólegur og tillitssamur. Hann skal við upphaf yfirheyrslu gæta nákvæmlega að ákvæðum VIII. kafla laga um meðferð sakamála.

Lögregla skal ekki gefa sakborningi fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi ef hann ber á ákveðinn hátt. Hins vegar má lögregla vekja athygli sakbornings á ákvæði 9. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem felur í sér heimild til refsimildunar, upplýsi sakborningur um aðild annarra að brotinu. Jafnframt að ákæruvaldið muni gera grein fyrir því komi málið til dóms að slík aðstoð hafi verið veitt og að refsing muni vera reifuð í samræmi við það. Er ákærendum heimilt að leggja til allt að 1/3 mildun refsingar þegar svo háttar til. Bóka skal hvort og hvernig þessi kynning fór fram.

Að jafnaði skal ekki yfirheyra sakborning sem talinn er vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og alls ekki sé um alvarlegt brot að ræða eða þegar takmarkaðra sönnunargagna nýtur við. Sé það hins vegar gert skal þess getið í skýrslunni og ástandi hans lýst sem nákvæmast.

5. gr.

Lögregla skal kynna brotaþola rétt til að bera fram skaðabótakröfu, sem dæma má í væntanlegu refsimáli. Krefjist hann bóta vegna líkamstjóns, miska eða tjóns á munum, skal tilgreina fjárhæð og styðja gögnum eins og frekast er kostur, eftir atvikum innan ákveðinna tímamarka. Ber að leiðbeina brotaþola við gerð kröfunnar og afla gagna um hana eftir þörfum.

Nú hefur brotaþoli beðið tjón, sem ætla má að ríkissjóður muni bæta samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og ber þá að kynna honum rétt til bóta samkvæmt þeim lögum.

Spyrja skal lögráðamann ófjárráða brotaþola hvort hann óski þess að gera skaðabótakröfu fyrir hönd hins ófjárráða.

6. gr.

Nú er barn yfirheyrt sem vitni og skal lögregla þá gæta fyllstu tillitssemi. Ef aðstæður eru sérstakar, s.s. vegna þroska barns, ungs aldurs þess eða alvarleika máls skal lögregla hafa samráð við forráðamenn barns og eftir atvikum gefa þeim kost á að vera viðstaddir yfirheyrslu. Þetta á ekki við ef viðkomandi er sjálfur sakborningur í málinu eða aðrar ástæður mæla gegn því að mati lögreglu. Ef ekki næst til forráðamanna skal gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn vera viðstaddan yfirheyrslu.

7. gr.

Þegar rituð er æviferilsskýrsla, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga um meðferð sakamála, skal þess gætt að sýna tillitsemi ef spurt er um atriði er varða viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Æviferilsskýrsla skal auk atriða sem um getur í 2. mgr. 54. gr. laga um meðferð sakamála eftir því sem ástæða þykir til, hafa að geyma upplýsingar um nöfn foreldra, ríkisfang sakbornings, stöðu hans og vinnustað, hjúskaparstöðu og nafn maka eða sambýlismaka, framfærslubyrði, skólagöngu, faglega menntun og opinber leyfisbréf.

Nú er sakborningur yngri en 18 ára og skal æviferilsskýrsla þá geyma upplýsingar um heimili foreldra hans og, ef foreldrar búa ekki saman, hvernig framfærslu og forsjá er háttað. Eftir atvikum skal skýrsla geyma upplýsingar um persónulega hagi sakbornings, einkum á heimili og í skóla og um ákvarðanir sem hafa verið teknar varðandi hann samkvæmt heimild í barnaverndarlögum.

III. KAFLI Skýrslutaka og upptaka lögregluyfirheyrslna.

8. gr.

Lögreglu er heimilt að taka upp yfirheyrslur af sakborningum og vitnum. Með upptökum er átt við hljóðritun eða mynd- og hljóðritun.

9. gr.

Þar sem því verður við komið skal hljóðrita yfirheyrslur af sakborningi, kæranda (brotaþola) og mikilvægum vitnum.

Að jafnaði skal taka yfirheyrslu upp með hljóði og mynd í eftirgreindum tilvikum:

  1. Þegar rannsökuð eru brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, öðrum en 199., 209. og 210. gr.
  2. Þegar rannsökuð eru brot á ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga, öðrum en 217. gr.
  3. Þegar rannsökuð eru brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga.
  4. Þegar sá sem yfirheyra skal er barn undir 15 ára aldri eða sérstaklega er ástatt um hann, t.d. vegna andlegra annmarka.

Taka skal hverja yfirheyrslu upp í heild sinni, þar á meðal lestur og hvers kyns frásögn.

Kynna skal skýrslugjafa og öðrum sem eru viðstaddir að yfirheyrslan verði tekin upp.

Ef framburður er ekki hljóðritaður eða tekinn upp á annan hátt skal leitast við að skrá orðrétt eftir skýrslugjafa. Jafnframt skal gera grein fyrir ástæðu þess að skýrslan er ekki tekin upp.

10. gr.

Ekki er heimilt að nota annan upptökubúnað við yfirheyrslur hjá lögreglu en þann sem samþykktur hefur verið af ríkislögreglustjóra.

11. gr.

Þegar yfirheyrsla er tekin upp skal gera sérstaka skýrslu um framkvæmd upptökunnar.

Þar skal koma fram málsnúmer, staðsetning, dagsetning, hvenær yfirheyrsla hófst og hvenær henni lauk, nafn og kennitala þess sem yfirheyrður er og hverjir aðrir voru viðstaddir. Þegar skýrsla er skráð samhliða upptöku, þarf ekki að gera sérstaka skýrslu um upptökuna, heldur nægir að geta þess í upphafi að yfirheyrslan sé jafnframt tekin upp.

12. gr.

Fyrirkomulag við skráningu framburðar sem er tekinn upp skal vera með einum eftirfarandi hætti:

  1. Samantekt, sem byggð er á upptökunni, er rituð eftir á sem skýrsla.
  2. Orðrétt endurrit upptöku skráð eftir á.
  3. Skýrsla er skráð, því sem næst orðrétt, samhliða upptöku.

13. gr.

Við upphaf yfirheyrslu greinir sá sem stjórnar yfirheyrslunni frá nafni sínu og stöðu, dagsetningu og upphafstíma yfirheyrslu og hvar hún fari fram. Því næst gerir yfirheyrði grein fyrir nafni og kennitölu. Aðrir viðstaddir gera einnig grein fyrir sér. Þá er þeim sem yfirheyra skal kynnt viðeigandi réttarfarsákvæði.

14. gr.

Ef sá sem verið er að yfirheyra andmælir upptöku yfirheyrslu við upphaf hennar, meðan á henni stendur eða í hléi, ber þeim sem stjórnar yfirheyrslunni að kynna lagaákvæði um upptöku lögregluyfirheyrslna. Skýrt skal koma fram hvort viðkomandi neiti að tjá sig um sakarefnið eða hvort hann andmæli upptöku yfirheyrslu. Sá sem stjórnar yfirheyrslunni metur hvort rétt sé að hætta við upptöku og halda yfirheyrslu áfram á hefðbundinn hátt, en þess skal getið í upphafi skýrslu að sá sem yfirheyra skal hafi neitað að tjá sig væri yfirheyrslan tekin upp.

15. gr.

Þegar hlé er gert á upptöku ber að geta þess, svo og ástæðu þess og tímasetningu. Þegar upptaka hefst að nýju byrjar sá sem stjórnar yfirheyrslunni á að lesa inn tímasetningu og gerir þeim sem verið er að yfirheyra grein fyrir þeim réttarfarsákvæðum sem gilda um yfirheyrsluna að nýju.

Ekki má skilja þann sem verið er að yfirheyra einan eftir hjá upptökubúnaði eða í yfirheyrsluherbergi.

16. gr.

Við lok yfirheyrslu er yfirheyrða, verjanda og/eða réttargæslumanni gefinn kostur á að koma á framfæri frekari upplýsingum og/eða athugasemdum.

Við svo búið er tímasetning lesin inn, tilkynnt að yfirheyrslu sé lokið og slökkt á upptökunni.

17. gr.

Heimilt er að taka upp yfirheyrslur vitna og sakborninga í gegnum síma eða fjarfundabúnað nema að ætla megi að úrslit máls geti ráðist af framburði viðkomandi.

Auk hefðbundinnar kynningar og upplesturs við upphaf yfirheyrslu er sá sem yfirheyra skal látinn greina frá því hvar hann sé staddur og hvert sé það símanúmer sem hann talar úr. Við upphaf yfirheyrslu skal gæta sömu atriða og lýst er í 4. gr. auk þess sem þeim sem annast yfirheyrsluna er heimilt, telji hann það nauðsynlegt, að sannreyna að um réttan aðila sé að ræða.

18. gr.

Verjandi, sakborningur og réttargæslumaður eiga rétt á að hlýða eða horfa á upptöku lögregluyfirheyrslu. Um aðgang að gögnum máls fer skv. 37. og 47. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

19. gr.

Varðandi notkun á upptökubúnaði, varðveislu upptekinna yfirheyrslna, merkingar og afritun á upptökum fer samkvæmt verklagsreglum ríkislögreglustjóra.

IV. KAFLI Skráning ýmissa atriða varðandi handtöku á mönnum og vistun handtekinna í fangageymslu lögreglu.

20. gr.

Lögregla skal skrá í málaskrá lögreglu nákvæmar upplýsingar varðandi handtöku og vistun handtekins manns í fangageymslu.

Í frumskýrslu lögreglu skal skrá í stuttu máli upplýsingar um handtöku, tilefni hennar og framkvæmd, hvenær handtaka átti sér stað, hver framkvæmdi líkamsleit ef því er að skipta og upplýsingar um hvar handtekinn maður var vistaður, ef um slíkt var að ræða.

Allar skýrslur sem lögregla ritar um handtöku og vistun handtekins manns skulu bera númer þess máls sem var forsenda handtöku. Skýrslurnar skulu vera á stöðluðu formi samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra.

21. gr.

Lögregla skal rita sérstaka handtökuskýrslu varðandi handtöku sérhvers handtekins manns. Í skýrslunni skulu koma fram upplýsingar um:

  1. nafn, kennitölu og heimilisfang handtekins manns,
  2. ástæðu handtöku,
  3. hvar og hvenær handtaka fór fram,
  4. hver eða hverjir unnu að handtöku,
  5. hvort handtekinn maður virtist vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eða virtist vera í andlegu ójafnvægi,
  6. hvort handtekinn maður bar sýnilega áverka fyrir handtökuna eða fékk áverka við handtökuna,
  7. hvenær handteknum manni var kynnt réttarstaða hans og hver gerði það,
  8. hvaða óskir handtekinn maður setti fram varðandi verjanda og tilkynningu til vandamanns,
  9. hvenær og hvernig orðið var við óskum handtekins manns varðandi verjanda og tilkynningu til vandamanns,
  10. hvert handtekinn maður var færður eftir handtöku.

22. gr.

Lögregla skal rita sérstaka vistunarskýrslu varðandi vistun sérhvers manns í fangageymslu. Í skýrslunni skulu koma fram upplýsingar um:

  1. hver tók ákvörðun um vistun handtekins manns í fangaklefa,
  2. muni sem voru teknir úr fórum handtekins manns áður en hann var vistaður í fangaklefa,
  3. hvort handtekinn maður bar sýnilega áverka þegar hann var færður í fangaklefa,
  4. númer fangaklefa sem handtekinn maður var færður í og innsetningarnúmer ef því er að skipta,
  5. heimsóknir verjanda og annarra,
  6. hvenær handteknum manni var borinn matur,
  7. á hvaða tímabili handtekinn maður var yfirheyrður,
  8. hvenær handtekinn maður var leiddur fyrir dómara,
  9. hvenær handtekinn maður var á ný færður í fangageymslu lögreglu, ef því var að skipta eða látinn laus að skipun dómara,
  10. hvenær handtekinn maður var færður í gæsluvarðhaldsfangelsi eða afplánunarfangelsi, ef því var að skipta,
  11. annað er máli kann að skipta varðandi vistunina, s.s. ef handtekinn maður var færður til læknis, á sjúkrahús, á aðra lögreglustöð, til annars lögregluembættis o.s.frv.,
  12. hvenær handtekinn maður var látinn laus.

23. gr.

Lögregla skal rita sérstaka munaskýrslu varðandi töku og afhendingu þeirra muna sem teknir voru úr fórum handtekins manns við handtöku hans eða vistun í fangageymslu. Afla skal undirritunar handtekins manns á munaskýrsluna við afhendingu munanna og gera skal grein fyrir því í skýrslunni ef hinn handtekni neitar að undirrita og ástæður þess, ef þær fást upp gefnar.

24. gr.

Lögregla skráir upplýsingar í málaskrá lögreglu um handtöku og vistun handtekins manns jafnóðum eftir því sem tilefni er til. Ef ekki er unnt að skrá upplýsingarnar jafnóðum skal það tekið fram og ástæður þess tilgreindar.

Færslur í málaskrá lögreglu skulu tímasettar og merktar nafni eða upphafsstöfum þess sem skráir. Ber sá ábyrgð á að rétt sé fært.

25. gr.

Nú er handtekinn maður fluttur á milli lögregluembætta eða lögreglustöðva og skulu öll gögn varðandi handtöku og vistun hans þá fylgja máli hans. Í málaskrá lögreglu ber að skrá ástæður flutnings. Skráningu í málaskrá lögreglu skal haldið áfram hjá því lögregluembætti sem sá handtekni verður fluttur til.

V. KAFLI Gildistaka.

26. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. ml. 2. mgr. 28. gr., 67. gr. og 4. mgr. 93. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, öðlast þegar gildi.

Jafnframt falla úr gildi reglugerð nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu og reglur nr. 826/2005 um framkvæmd hljóðritana og upptöku lögregluyfirheyrslna.

 Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 8. júlí 2009. 

 Ragna Árnadóttir. 

 Gunnar Narfi Gunnarsson. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.